Aðfangadagur jóla.

Þá er Aðfangadagur runninn upp. Ég hef verið í matargerð í morgun og mun vera í slíku mest allan daginn. Að öðru leyti erum við bara næstum tilbúin. Tölvan þarf að fara af matarborðinu svo hægt sé að leggja á borðið og skreyta það. Þetta verður óvenju fámennt Aðfangadagskvöld hér í húsinu, því Gaui og hans kærasta ætla að borða heima hjá sér, svo við verðum bara 5+Zeno kötturinn hans Binna. Flest höfum við verið 12 við matrborðið okkar á þessu kvöldi. En, mikið hlakka allir til. Ég var hjá Gaua og frú í gærkvöldi, fyrsta sinn sem Gaui minn er með heimili sitt svona fallega skreytt eins og nú, þetta eru líka fyrstu jólin þeirra saman, því hún hefur alltaf farið til fjölskyldu sinnar um jólin. Hann ætlar að elda hamborgarhrygg, eins og við, og dekra við hanna í mat og drykk. Mamma reyndar bjó jólaísinn fyrir hann;-) Síðan sjáum við þau seinna í kvöld.

Desember mánuður hefur verið mjög ljúfur við undirbúning jólanna og toppurinn hefur verið að geta haft Jólastjörnuna til að hlusta á. Ég hef átt mjög skemmtilegt samstarf með Sigga Gunn. á Jólastjörnunni og vonandi hafa hlustendur stöðvarinnar haft gaman af pistlum mínum. Við Siggi alla vega skemmtum okkur vel og á milli okkar þróaðist vinátta sem mun halda áfram.

En, nú þarf Ég að halda áfram. Er reyndar mjög glöð að hafa haft tíma til að blogga örlítið.

Gabriel engill, strákarnir og hún ég, sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um Gleðilega jólahátið. Borðið vel og njótið samveru hvers annars.

Guð veri með ykkur öllum þessi jól, og um framtíð alla.

Fært undir . 1 ummæli »

Bráðum koma blessuð jólin.

Það er heldur betur farið að styttast í jólin, bara 5 dagar. Við höldum jólin heima eins og alltaf fyrir utan 2 ár sem við vorum á Íslandi. Það hefði verið gaman að geta verið þar um þessi jól, hitt fjölskyldu og vini og sérstaklega barnabörnin. Vonandi verður af því í vor, ég stefni í að koma þá. Það verður auðvitað heilmikið um fjölkyldu og vina mót hér líka. Á Aðfangadagskvöld verða strákarnir hjá okkur, svo og systir Gabariels með son sinn. En fyrsta boðið verður á sunnudaginn, þá ætla ég að hafa glöggboð. Húsið er skreytt og ýmislegt hef ég dundað, bæði við matarundirbúning ofl.

Hér halda jólin enskir vinir okkar sem eiga íbúð í Albir, og íslensk hjón með 7 ára son sinn, en þau hafa verið í nokkra mánuði í íbúð sinni hér. Með þessu skemmtilega fólki verðum við líka yfir hátíðarnar. Sérstaklega hlakka ég til að vera með Alex, en það er ungi drengurinn, á gamlárskvöld.

Vinnustaða boð hafa verið undanfarna daga, og eru þau haldin á viðkomandi skrifstofum. Mikill og góður matur og vín, eins of Spánverjar gera best. Og ekki sleppa þeir möndlukökunum og sælgætinu sem kampavín er drukkið með. Í svona boðum er meira borðað, minna drukkið, öfugt við glöggveislurnar sem haldnar voru á Íslandi hér áður fyrr;-) Enda eru þessi boð yfirleitt haldin í hádeginu.

Veðrið er dásamlegt, komið desember veður aftur. Við fengum kuldakafla sem er mjög óvenjulegt, fengum hefðbundið janúarveður, kallt, blautt og vindur. En nú er hitinn orðin eðlilegur og sólin skýn alla daga.

Ég nýt þess að geta verið heima þessa dagana og undirbúið jólin, skroppið í hádeginu með Gabriel í jólaboð og bara verið til.

Nú var Gaui að senda mér msn og er að koma í morgunkaffi. Það er ómissandi partur af því þegar ég er heima, þá koma þeir feðgar og nafnar, í morgunkaffi.

Svo, ég kveð að sinni.

Fært undir . 3 ummæli »

Fallin frændi, gamall vinur.

Rúnar Júlíusson tónlistarmaður kvaddi þenna heim í byrjun mánaðarins. Allt of snemma. Hann var eins og  Mick Jagger, ódrepandi rokkari.

Ég var aðeins 16 ára þegar ég kynntist Rúnari og strákunum í Hljómum. Við vorum fljót að rekja ættir okkar saman, Rúnar og ég, enda Bergmannsættin sú hin sama á Suðrnesjum og sú fyrir vestan. Smá klofningur, eins og við sögðum alltf.  Þetta var á mínum Keflavíkur árum eins og ég kalla þau. Ár sem mörkuðu mikil spor í líf mitt þó ekki væru þau mörg. Margar eru þær myndirnar sem ég á af okkur við hin ýmsu tækifæri. Merkilegt nokk, flestar þó teknar við keppnina Ungfrú unga kynslóðin, sem haldin var í Austurbæjarbíói ár hvert, um nokkura ára skeið. Þá var líka haldin keppni um bestu hljómsveitina, og á þessum tímun voru þær bara þrjár, Hljómar, Óðmenn og Tónar. Síðan hélt ég aðra leið. Það var önnur Keflavíkur hljómsveit sem ég fylgdi og fór á böll með. En margar voru þær veislurnar, partýin, eins og það hét og heitir enn, sem við sátum saman. Með þessum strákum lærði ég að eiturlyf væru ekki fyrir mig. Ekki að þeir væru á kafi í slíku, heldur var umræðan mikil. Þeir voru flestir nokkrum árum eldri, synir hippatímans. Þarna ákvað ég að drekka ekki, og stóð við það fram á eldri ár, þegar ég tók bjór og léttvín í sátt.

Ég gleymi aldrei sunnudagskvöldinu þegar Maja hans Rúnars var kosin ungfrú Ísland. María Baldursdóttir, þau höfðu verið saman svo lengi sem elstu vinir mundu. Ég var á dansleik í Silfurtunglinu við Snorrabraut þegar úrslitin voru kynnt.

Ég horfði á útsendingu frá jarðarför hans og það sem kom mér hvað mest á óvart var, að Maja og Rúni giftust ekki fyrr en í fyrra. Þá voru þau allavega búin að vera saman 45 ár, kanske giftust þau í tilefni af því. Ég, auðvitað hef ekki hugmynd um það. 

Mikið vildi ég geta skrifað meira um þessi ár, en það verður að bíða endurminninga minna;-)

Far í friði kæri frændi og gamli vinur.

Fært undir . Engin ummæli »

Jólin, og hvað?

Mér finnst ég skulda blogginu mínu, hef ekki skrifað í meir en viku. Og, það er ekki Facebook að kenna heldur mikilli vinnu. Við erum að berjast við að halda haus, þeir fasta vetrargestir sem ekki voru komnir eru að koma þessa dagana. Allt er þetta yndislegt fólk sem hefur verið lengi með okkur. OG, við gerum það sem við getum best til að taka vel á móti þeim. 

Í dag vorum við í afmæli hjá systurdóttir Gabriels, hún er hálf íslensk og varð 19 ára í gær, 13. des. alveg eins og Þórður bróðir minn, nema hvað hann varð ekki 19;-)

Flott matarveisla, ein og alltaf á Spáni. Fullt af skelfisk, ólívum, salat, svínakjöt, ofnbakaðar kartöflur í sneiðum ofl. Ég lagði til veislunnar grænmetisböku, svona heilsu böku. Ég hef verið að gera tilraunir með mínar annars frægu bökur hér í þessu samfélagi kjötæta. Í dag gerði ég bökuskel úr rúgmjöli og eftir að hafa bakað hana 15 mín. setti ég fyllinguna í, sem var sirka 1/2 smátt skorin kúrbítur, 1/4 hluta úr rauðri papriku, 4 sveppi skorna í sneiðar og nokkra brokkoli anga. Í gegnum árin hef ég alltaf notað 3 egg og 3 dl. rjóma, þeytt saman með kryddi og jafnvel rifnum osti. Nú er ég orðin svo yfir meðvituð um kolestrol og kaloriur að ég setti 1 dl rjóma, 125 ml, grískt jógurt og 1/2 dl léttmjólk. Stráði svo grillosti yfir. Heppnaðist mjög vel. Sérstaklega er Óskar/Oscar hálfbróðir Gabriels í föðurlegg hrifin af eldamennsku minni. Hann bjó jú hjá okkur í 4 sumur og varð að taka þessum grænmetismat, þó auðvitað bróðir hans eldaði oft kjöt. Hann fagnað sérstalega í dag…að fá grænmetisböku frá mér og fór að rifja upp ýmsa rétti sem hann fékk þegar hann bjó hjá okkur. Móðir hans hefur alltaf haft gaman af að koma í mat til okkar, en það voru ekki margir aðrir við borðið sem smökkuðu bökuna mína;-)

En afmælið var skemmtilegt, mikill matur, mikið og hátt talað og yfir allt gnæfði sjónvarpið, svo dæmigert spænskt, Stjónvarpið er alltaf á fullu. Það er það eina sem ég bara get ekki sætt mig við, ég þoli ekki sjónvarpið og sérstaklega ekki þegar gestir eru eða þegar fólk kemur saman. En ég breyti ekki þjóðinni, en ég hef slökkt á sjónvarpinu í mínu húsi þegar koma gestir:-)

Annars er ég að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn og bara hlaka til. Ég hef ekki haft pistla í Jólastjarnan.net þessa helgi þar sem þeir voru með tæknivandamál í gær og í dag hafði ég ekki tíma. En ég verð aftur með pistil eftir helgi hjá Sigga Gunn. Ég vinn bara með honum, það var mitt val. Mjög góður útvarpsmaður með mikla reynslu.

Svo, góðir vinir, heyrumst fljótt aftur.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

Ein komin í útvarpið:-)

Laugardagskvöld og ég búin að afreka heilmikið í gær og  dag. Jólatréð stendur fullkreytt með blikkandi ljósum og jólaskreyting í húsinu á lokastigi. Snemma??? Nei, ekki finnst okkur það. Ég vandist því þegar ég bjó í Svíðjóð að skreytt væri snemma, svo einhvernvegin hefur þetta orðið að vana.

Viðn fórum til Alicante í dag, áttum erindi á flugvöllinn og notuðum tækifærið og kíktum í stóra verslunarmiðstöð sem þar er. Ekki varð neitt úr verslun, fórum inn í eina og settumst síðan niður til að fá okkur léttan hádeisverð. Talandi um mat. Ég gerði mjög góðan grasker-eggjabúðing, eða flan eins og það heitir hér, í gær. Með því bar ég fram púrrulauk léttsteiktan í olíu, saltaði og pipraði og og hellti síder yfir, lét sjóða aðeins niður og bætti svo einu epli saman við, flysjuðu og skornu.  Lét það vera á hellunni smá stund. Þetta var aldeilis frábært…svo var ég líka með léttsoðin, ferskan asparagus og salat, bætti soðnu graskeri í salatið. Létt máltíð og mjög góð.

Uppskriftin? Já, hún er nú einföld. 500 gr soðið grasker, 500 ml rjómi, 4 egg, salt og pipar. Graskerið maukað í matvinnsluvél eftir suðu, rjóminn og eggin ásamt kryddinu þeytt saman og graskersmaukinu bætt í. Sett í olíuborið form, eða mörg lítil og bakað í vatnsbaði við 200 C í ca, 45-50 mínútur. Munið að setja álpappír yfir mótin. Þið getið notað þennan grunn, þ.e. 500 ml rjóma og 4 egg í hverskonar flan sem þið viljið. Sett svo í hvort sem er grænmeti, fisk, skeldýr…bara það sem ykkur dettur í hug.

Ég veit að það er þó nokkuð af kolesteroli í þessu, en það er nú ekki eins og maður borði svona daglega.

Annars verð ég að segja ykkur frá veitingastað í Valencia. Ítalskur staður sem þykir mjög góður. Þeir tóku upp á því fyrir skömmu að gera tilraun. Gestirnir eru látnir ákveða sjálfir hvað þeir borga fyrir matinn:-) Þetta er almennilegt á krepputímum. Allir drykkir eru á venjulegu verði. Fólk er mjög ánægt með þetta og hefur staðurinn verið fullsetinn frá því þeir byrjuðu á þessu. Eigandinn sagði í sjónvarpsviðtali í gær, að fyrir sama rétt væri fólk að borga allt frá 2 evrum í 6-7, sem er nær því að vera venjulegt verð. Gestir, sem talað var við, voru mjög ánægðir með framtakið. Ein stúlka sagðist borða oft þarna og stundum bara ætti hún ekki nema 2-3 evrur til að eyða í mat, en þegar hún ætti meira léti hún staðin njóta þess. 

Þessi helgi er það sem kallað er hér “brú”, en það er löng helgi. Í dag er stjórnarskrárdagurinn og á mánudaginn er Getnaðardagurinn;-) Helgin gengur undir nafninu Getnaðar-brúin. Verið er að minnast getnaðar Jesú Krists. Já, hann á að hafa verið getinn um þetta leiti. Hvernig það samræmist síðan afmælisdegi hans 24. eða 25. des. er annað mál.

Ég hef notið þess að hlusta á íslensk jólalög undanfarnar 2-3 vikur. Það er jólastjarnan.net sem heldur mér við efnið 24 tíma ef ég kýs. Stöðin er hreint frábær, netstöð. Ég er þarna með stutta pistla af og til, ekki daglega.Ég kem ekki fram í  persónu, heldur er annar stjórnandi stöðvarinnar og ég í msn sambandi meðan hann er í útsendingu. Ég er með undirbúið efni sem hann fær og segir frá og síðan leiðir spjall okkar stundum til meira, en oftast er það bara spjall milli tveggja einstaklinga. Það er hann Siggi Gunn. sem fékk mig í þetta og þegar hann er í útsendingu þá getið þið átt von á að heyra pistla frá “Kristínu vinkonu okkar á Benidorm” eins og hann kallar mig. Eins og von er til, þá fjalla þeir um jól og jólahald. Ég fer hægt og segi bara frá einu efni í einu, þannig að t.d. áramótin og siðurinn með vínberin kemur ekki fyrr en nær dregur jólum. Þetta er mjög skemmtilegt og gefur jólabarninu mér, tækifæri til að gefa fólki innsýn í annars konar jólameiningu og jólahald.

Þetta er nú orðið ansi langt blogg hjá mér og komin tími til að fara í sængina, eða horfa á DVD . Ég ætla að gera eitthvað skemmtilegt á morgun. Hvað það verður veit ei neinn…en örugglega skemmtilegt.

Hafið það sem allra best.

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Dugleg í dag.

Nú sit ég hér talandi við ykkur lesendur mínir á sunnudagskvöldi, alsæl með daginn. Gabriel og Guðjón Ó. fóru suður til Murcia í morgun sem þýddi að ég hef haft allan daginn fyrir mig. OG, það er ekki slæmt svona um helgi. Ekki að mér leiðist í nærveru eiginmannsins, heldur get ég unnið svo mikið þegar ég er ein heima. Munurinn á okkur hjónum er sá að hann vill liggja í sófanum og horfa á sjónvarp, eða fara út að borða í hádegi á sunnudegi og svo heim í siestu og eftir það í bíó. Það er ekkert að þessu, nema síður sé ef ekkert þarf að gera í húsinu. En, ef mig langar að gera eitthvað heima verð ég að velja tíma þegar hann er í burtu og, ef ég þarf aðstoð karlmanns, t.d. við borun þarf ég að leita til Binna. Og þetta er bara hið besta fyrirkomulag, því ég hef frjálsar hendur um “dekoration” heimilisins.  Svo, venjulega þakkar bóndinn mér vel unnið starf;-)

Í dag hef ég gert ýmislegt. Þetta venjulega, þvo og strauja, pressa og ganga frá þotti. En, ég framkvæmdi líka nokkuð sem mig hefur langað að gera lengi. Ég sneri stofunni við, borðstofan fór þar sem sófinn og sófaborð höfðu verið og öfugt. Útkoman hreint frábær. Svo setti ég geisi fallegan norskan jólalöber á borðstofuborðið (sem er hvítt) löber sem er gjöf frá Obbu og Tóta, sem þau afhentu okkur um daginn þagar þau voru hér. Áður en karlarnir komu heim í kvöld var ég búin að lýsa upp stofuna og stigann upp á oft með kertaljósum.

Þar sem ég hafði bakað eplaköku handa þeim og þeir vissu af henni, komu báðir beint hingað, Gaui kom líka. Jólastemming í nýrri stofu og allir hrósuðu hönnuðinum, frúnni í húsinu.

En það er nú ekki eins og þetta sé það eina sem ég hef gert í dag. Bakaði skonsur handa Gaua í morgunmat, msn er svo frábært, það er hægt að senda mömmu eitt msn og biðja um kaffi og nýbakaðar skonsur eða öfugt, mamma sendir msn og býður;-) Ég fægði silfur ofl.

Svo nú er þessi sjálfumglaða kona að fara í heitt olíubað. Finnst ég eiga það skilið. En ég ætla líka að vera heima á morgun og gera meira skemmtilegt. Hvílíkt lúxus líf sem ég lifi:-)

Fært undir . 2 ummæli »

Blogg versus facebook.

Föstudagur og ég heima samkvæmt breyttum vinnusamning;-) Ég skemmti mér svo vel þegar ég er heima, en það gera fleiri því þá elda ég mikið og baka með. Svo húsið er fullt af körlum þá daga sem ég er heima. Ekki að þeir setjist að, heldur detta inn í morgunkaffi og koma í mat.

Tóti og Obba fóru sl. miðvikudag aftur heim. Við áttum mjög skemmtilegan tíma saman, hittumst daglega og borðuðum oft saman. Obba bauð til mikillar veislu sl. laugardag í tilefni 70 ára afmælis síns sem var í ágúst s.l. Frábært kvöld. Binni var fjarri góðu gamni eins og komið hefur fram, en hann skemmti sér mjög vel í veislunni sem hann fór í til Madrid. Síðasta kvöldið þeirra hér fórum við öll saman út að borða og eins og fyrr, mjög gott kvöld.

Hér hefur verið óvenju kalt fyrir nóvembermánuð. Snjór og frost víða um land og hjá okkur vindur og allt niður í 10C, sem er mjög kalt. Þó erum við ekki farin að kynda húsið, sólin skýn allan daginn aftur (eftir 2ja daga rigningu) og svo fer maður bara í peysu á kvöldin.  

Jólastemming komin í frúna fyrir löngu, en er að ná hámarki. Í morgun fékk ég sendan linkinn á Jólastjörnuna.net og nú er bara bein útsending frá Íslandi búin að hljóma frá í morgun. Eftirmiðdaginn og kvöldið ætla ég að nota til að byrja að skreyta, það er jú fyrsti í aðventu á sunnudaginn. Og, þar sem Gabriel ætlar út með vinum sínum i kvöld get ég dundað mér að vild við undirleik Jólastjörnunnar:-)

Annars hefur bloggið þjáðst svolítið eftir að ég fór á facebook, en ég skal bæta úr því. Mér finnst nú lágmark að blogga tvisvar í viku, það er að segja ef maður hefur eitthvað að segja;-) og oftar ef tilefni er til.

Ég er reyndar með nokkrar upskriftir sem ég hef verið að prufa eða búa til, kem einhverju inn um helgina.

Hafið það sem best öll sömul.

Fært undir . 1 ummæli »

Það er svo gaman að vera til…

Laugardagsmorgun og veðrið dásamlegt. Glampandi sól og vel heitt.

Hér eru góðir gestir frá íslandi. Tóti bróðir Guðjóns og Obba kona hans. Við höfum átt skemmtilegan tíma saman, í gær fórum við ex-svilkonurnar í búðarráp og í kvöld förum við öll út að borða, og það voða fínt. Allir nema Binni því hann er fjarri góðu gamni. Fór í partí helgi til Madrid með nokkrum vinum sínum. Svo, fljótlega ætla ég að byrja að pakka inn jólagjöfum sem svo fara til Íslands með þeim hjónum í næstu viku. Krappan sem alir hafa heyrt talað um, hefur áhrif á jólagjafakaup á mínu heimili eins og annarsstaðar, en það er jú ekki verðmiðinn sem gildir á jólum, ó nei, það er ástin og hugurinn sem býr í pakkanum. Tíminn og tilfinningarnar sem fóru í að velja fyrir hvernn og einn, því það er líka gert með væntumþykju, og svo pökkunin…mikið vandað til því maður vill jú láta pakkann bera ástinni vitni.

Við fengum hangikjöt með þeim hjónum. Það var jólagjöf frá Sigrúnu vinkonu okkar í Vestmannaeyjum. Vel valin gjöf það, sem mun gleðja munna og maga í mínu húsi um jólin.

En nú er jólatónlistin farin að hljóma og ég að fara í pökkunar stellingar. 

Góða helgi:-)

Fært undir . Engin ummæli »

Andlitsbókin og Jesus Crist…

Síðan ég fór á facebook.com hefur verið svooo gaman. Stundum líður mér eins og ég sé í saumaklúbb. Maður er í spjalli við margt fólk, oft bara konur um mat og lífið og tilveruna. Ekkert smá gaman. En, mikið þarf maður að passa sig því þetta getur verið tímaþjófur. Þetta hefur samt einhvern veginn hleypt mér úr einhvers konar einangrun. Gaman, gaman.

Á laugardagskvöldið fórum við að sjá Jesus Christ Superstar. Sýning sem ég hef oft séð. Fyrst í London 1970, svo aftur í London síðar. Í Austurbæjarbíó í Reykjavík fyrir löngu með Pálma í hlutverki Jesus, svo í uppfærslu Versló þegar Gummi minn var þar við nám. Allar hreint frábærar sýningar. En, því miður verður ekki sagt það sama um þessa. Uppfærslan var ekki að mínu skapi og virtist ekki ná til salarins. Klappið var óskup máttlaust í lokin. Gabriel, sem aldrei hefur séð Jesus Christ, enda rétt að fæðast þegar sýningin kom fyrst á fjalirnar, svaf allan tímann eftir hlé. OG, ég bara skil það vel.

Eftir sýninguna höfðum við planað að hafa rómantíska máltíð heima. Maturinn var hálfmatreiddur, en við ákváðum að fara og fá okkur gott salat á ströndinni og hafa rómantíkina í gær, sem og við gerðum. Opnuðum reyndar ekki eðal rauðvín eins og við höfðum ætlað, en gott rauðvín engu að síður. Svo fórum við í bíó eins og flesta sunnudaga, myndirnar byrja kl. 18.30 sem er fínn tími. Sáum Women, hreint frábæra mynd með góðum leikkonum.

Í dag er ég heima, húrra!!! Eldaði Mexikanskt í hádeginu og fékk alla karlana í húsinu, þ.e. þeir sem tilheyra fjölskyldunni, í mat. Nafnarnir G. eldri og GB. komu bæði í morgunkaffi og hádegismat. Það er nefnilega ekki bara ég sem er himinglöð þegar ég er heima, karlpeningurinn er ekki síður glaður.

Búin að hengja upp Friðarkúlurnar sem gefnar eru út á Íslandi fyrir hver jól, og ég svo heppin að eiga allar frá upphafi.

En, nú er komin tími á fleiri húsverk. Og, úti skýn sólin og ég með allt opið upp á gátt. Það bara er svo heitt að deginum:-) 

Fært undir . 2 ummæli »

Mig langar að verða heimavinnandi húsóðir:-)

Ó, þetta er bara búin að vera dásamlegur tími, Fiestas Benidorm. Ég hef dundað heima, eldað góðan mat og meir að segja bakað. Nokkuð sem ég hef gert lítið af sl. árin, nema brauð auðvitað. Svo erum við búin að blanda mátulega miklu af “út að borða” með vinum inn í. Allir að verða háðir því að hafa mig heima, morgunkaffi og alles. Og nú langar mig að verða heimavinnandi aftur…mig langar líka að opna litla nuddstofu, og er alvarlega að hugsa um að láta vaða með það. Blanda þá saman vinnu á skrifstofunni og nuddi, það yrði bara unaður. Svo nóg að spá og spekulera þessa dagana. Það er heilasellunum kanske ekki of gott að standa svona mikið yfir pottum, allt of mikill tími til að hugsa og alls kyns hugmyndir fæðast.

Svo langar mig líka að leggja meiri vinnu í þessar 2 matreiðslubækur sem ég hef haft í smíðum, aðra í nokkur ár og hina allt þetta ár. Hei!!! Stop nú kona, þú ert komin allt of langt í löngunum.

Er að malla baunarétt frá Rwanda, svo aftur í eldhúsið.

Fært undir . 3 ummæli »