Gefst upp!

Í annað skipti var ég búin að skrifa um skógareldana og það sem fylgdi þeim, en…færslan fór ekki inn. Svo, ekki meir um það. Allt fór ótrúlega vel og næsta blogg verður einhver innblástur, en ég hef verið ótrúlega andlaus þessa viku.

Ætla í rúmmið með bókina mína, Bátur, segl og allt. Frábær bók.

Þar til næst, hafið það sem allra best og njótið hvers andartks, því þau koma ekki aftur.

Fært undir . 1 ummæli »

Grasekkja og saga um vináttu :-)

Ég er það sem heitir grasekkja þessa dagana. Gabriel fór á þriðjudagsmorgun til Madrid á ferðakaupstefnu og kemur heim annað kvöld. Mikið ósköp hefur þetta nú verið notalegt, ekki að það sé  óþægilegt að hafa hann nálægt, bara þetta að vera ein endrum og eins. Ég ætlaði mér að gera sitt líti af hverju í húsinu á meðan, en hvað hef ég gert? Eitthvað lítið. Í gærmorgun þurfti ég að fara á fætur fyrir allar aldir til að keyra Guðjónana tvo og Binna á flugvöllinn í Alicante, þeir brugðu sér á sýningu í tölvumálum til London. Binni búin að vera slæmur af flensu og ekki skánaði hann við ferðina. Er rúmliggjandi á hótelinu í dag með bullandi hita. En, einhver meðul hefur hann, svo vonandi verður þetta fljótt að ganga yfir. Þannig að ég er eins ein heima og hægt er, sá eini úr fjölskyldunni sem ég sé er Xeno hans Binna (kötturinn fallegi) því honum gef ég að borða. Bragi köttur Gauason hefur húsmóðurina heima, en kíkir stundum í heimsókn til ömmu gömlu, sem oft þykist ekki heyra í honum fyrir utan hurðina þegar hún er ein heima.  En ég er búin að hafa það rosalega gott með bókunum mínum, skriðið í rúmmið eins og barn, mjög snemma og lesið. Meir að segja tekið mig á í mataræði, búið til nýtt prógram og er farin að sja árangur…á 2 sóllarhringum;-) Það mætti halda að Gabriel yrði í burtu heilan mánuð, slík eru fyrirheitin og sjálfsdekrið.

En, ég bloggaði um daginn um Facebook og áhrif hennar á mig. Peta vinkona mín frá 9 ára aldri er líka á facebook og þar erum við vinkonur. Hún kommentar á færsluna og út frá því mætti halda aðvið hefðum verið týndar hvor annari í 30 ár…hei Petrea, við erum ekki orðnar 59 enn, gamla mín!!! Við höfum sem sagt ekki verið týndar, en oft liðið langur tími á milli þess sem við höfum sést eða haft annað en jólakorta samband. Nú tölumst við daglega við, ekkert minna en það:-) Annars er vinátta okkar mjög sérstök. Við fórum að skrifast á í gegnum Barnablaðið Æskuna þegar við vorum 9 ára, hún þá búsett á Hvammstanga ég í Reykjavík. Við sáumst fyrst árið sem við vorum fermdar. Síðan höfum við gengið í gegnum æfina saman með hléum en mjög nánum vinskap. Gaui var nokkur sumur hjá þeim hjónum (Petu og Agli) í sveit í Eyjafirðinum og Binni sótti mikið þangað. Daníel og Gummi komu auðvitað í Eyjafjörðin líka, en helst voru þeir gestir hjónanna þegar þau bjuggu á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu. Synir þeirra hafa átt athvarf hjá mér þegar þurft hefur. Margt er hægt að rifja upp, því Peta hefur skilið minjar um sig hjá okkur, í ýmsu formi. Postulíns jóladiskar sem hún málaði handa strákunum, útskurðarbretti fyrir laufabrauð og hlemmur, sem eru fagurlega hönnuð og munstur brend í, að ég tali nú ekki um smjör og osta hnífana sem ég nota daglega. Blómaskreytingar allar við brúðkaup Gumma og Toný sem fram fór á Akureyri, voru unnar af Petu minni. Svo fluttu þau hjónin á Austurland og þá misstum við samband þar til nú á facebook.

Peta kommentaði líka á annað blogg og lét sér detta í hug að of fáir vissu af blogginu mínu. Það er nú það…ég valdi að fara ekki á mbl.blog því mig langaði ekki að poppa upp á forsíðu Moggans af og til, jafnvel þó það hefði getað endað með því að mér hefi verið boðin útgáfusamningur, eins og einni sem ég þekki:-)  

Mér gengur ekki nógu vel að skrifa þessa blessaða uppskriftabók sem nú er orðin að tveim. Hugmyndirnar eru góðar og ég er farin af stað, en það vantar eitthvað spark.

En, akkurat núna ætla ég að ganga út í sólina og hitann, þetta er dagur 3 með vel yfir 20C. Svo hlakk ég til að fara heim að lesa:-)

Fært undir . 3 ummæli »

Taka tvö.

Ég var búin að skrifa pistil um skógarelda og það ástand sem við búum við í dag,en m.a. vegna þesa, rafmagnslínur hafa brunnið og Benidorm verið rafagnlaust á tímum, því fór seinni færsan mín í kvöld ekki inn. Svo vonandi fer þessi í gegn. Ég skrifa svo á morgun um hörmungarnar sem við höfu verið að ganga í gegnum vegna skógarelda og hvirfilbils.

Fært undir . 2 ummæli »

Taka tvö.

Ég var búin að skrifa pistil um skógarelda og það ástand sem við búum við í dag,en m.a. vegna þesa, rafmagnslínur hafa brunnið og Benidorm verið rafagnlaust á tímum, því fór seinni færsan mín í kvöld ekki inn. Svo vonandi fer þessi í gegn. Ég skrifa svo á morgun um hörmungarnar sem við höfu verið að ganga í gegnum vegna skógarelda og hvirfilbils.

Fært undir . Engin ummæli »

Hvað hefur Facebook gefið mér?

Titilinn segir það sem segja þarf.

Ég fór á facebook í haust sl.og verð að segja að það gaf mér “sort of” nýtt líf. Þarna komst ég, og er enn að komast í samband við fólk sem ég hef ekki haft samband við í áratug eða tvo, eða þrjá, OMG. Gleðin, eftirsjáin, “hvað ef” og allt hitt hefur hitt mig í bringspalirnar. Ég er búin að fara nánast í gegnum allt mitt líf á facebook, og geri aðrir betur. Kanske er þetta einmitt það sem hendir fólk sem gerast meðlimir. Og þarna er ég ekki að tala um börnin okkar, unga áhyggjulausa og ekki svo reynslumikla fólkið okkar. Ég upplifi mig stundum eins og sögupersónu í gamalli kvikmynd. Allir þessir gömlu vinir, samstarfsmenn og kunningjar sem núna eru orðnir “vinir” mínir á facebook. Mér finnst þetta stórkostlegt. Ég viðurkenni, eins og allar stjörnur ;-) að margt hefur reynst mér erfitt, margar minningar sem ég hef þurft að kljást við. Endurnýjuð sambönd sem ég hefði aldrei látið mig dreyma um að gætu orðið að veruleika. Ástin sem var hvað erfiðust, starfsfélagar sem ég hélt að líkuðu ekki við mig og ég var ekki viss um að mér líkaði við. Frændi sem hefur fikrað erfiða braut, en er frábær rithöfundur eins og hann á kyn til. Vinalistinn stækkar og ég verð undrandi, glöð, hjartað hoppar og svo elskurnar sem eru i sambandi við mig í nútíðinni.

Facebook hefur gefið mér skemmtilega endurfæðingu, ekki auðvelda, langt í frá, en mjög skemmtilega. Ég þarf að endurskoða sjálfa mig daglega…þannig held ég mér ungri, vona ég.  

Fært undir . 1 ummæli »

Kökuveisla og krisis.

Ég ætla að byrja á seinnihluta titlsins. Krisis, mundi ekki íslenska orðið svo Gabriel kom mér til hjálpar. Kreppa..hér eins og annars staðar, þó við teljum okkur fara léttar í gegnum hana en margar aðrað þjóðir. Fréttir í dag sögðu okkur að 3.000.000, 3 miljónir manna á Spáni séu atvinnulausir. Spánn telur, meginlandið, Baltik eyjarnar sem eru Mallorka og aðrar þar um kring, Kanarí eyjar svo og þau tvö landsvæði í Marokko sem tilheyra Spáni. Spáð er að 600.000 til viðbótar missi vinn á árinu. En það er svo merkilegt hvað allir sem talað er við eru jákvæðir og fullir bjartsýni að þetta gangi yfir á næstu 2 árum. Vonandi.

Fyrir 2 dögum, 15. jánúar var ár liðið frá því Guðjón eldri var skorin og skipt um hjartaæðar og fannst öllum tilvalið að halda upp á það. Hann kallaði það eins árs afmæli sitt. Þar sem ég var heima þann dag var ég fengin ti að baka, sem ég gerði með glöðum hug. Við áttum hér skemmtilega samveru, ég og allir karlarnir sem hér eru.

Ég er farin að hlakka mikið til að koma til Íslands og er jafnvel byrjuð að undirbúa það. Mikið verður gaman að sjá barnabörnin sem ég hef ekki séð svo lengi. Og auðvitað ykkur öll hin.

Þar sem ég hef verið mjög dugleg í eldhúsinu við tilraunir ýmisskonar, skulda ég ykkur orðið uppskriftir. Þær skal ég reyna að standa mig í að setja inn á næstu dögum.

En núna bíður mín sjónvarpsmynd sem ég ætla að horfa á.

Góða nótt.  

Fært undir . 1 ummæli »

Frost og snjór allt niður í 400 metra.

Það er kalt á Spáni núna, frost allt að -8C og snjór víða um land. Reyndar þykir okkur þetta hálf spaugilegt hér í húsinu. Ekki það, að við finnum líka fyrir kulda við ströndina, en fréttamyndir af snjónum frá hinum ýmsu stöðum mundu heita snjóföl á Íslandi. Þó er ekki óalgengt að snjói allt að hálfum metri í þeim bæjum og borgum sem hæst standa.

Nú eru jólin yfirstaðin. Þrettándinn, eða Reyes (vitru kóngarnir) leið með hátíðarhöldum. Við vorum með fjölskyldu Gabriels í mat og það var mikill matur, vorum í 2 tíma að borða. Skipst var á jólagjöfum og allir mjög glaðir. Kvöldið áður riðu Kóngarnir 3 í bæinn á úlföldum. Það var geisi mikil skrúðganga og ráku þeir lestina á sínum virðulegu reiðskjótum. Segja má að mannkynsagan hafi verið rakin í skrúðgöngunni. Allar götur voru fullar af fólki, margir með börn, aðrir ekki. Sælgæti rigndi yfir áhorfendur frá þáttakendum skrúðgöngunnar. Ég var í bænum með ungan vin minn sem skemmti sér mjög vel. Það gerðu foreldrar hans líka. Íslendingar sem aldrei höfðu upplifað neitt þessu líkt og nutu hverrar mínútu. Þau héldu síðan heim til fósturjarðarinnar í gær eftir 3ja mánaða ævintýra búsetu hér.

Og, þá er ég loks búin að taka ákvörðun um komudag til Íslands. 13. mars skal það verða. Ég er búin að bóka farið en ekki búin að ákveða hvenær ég fer heim aftur. Geri það þó á næstu dögum. Svo nú er bara að leyfa sér að byrja að hlakka til.

Sjáumst bráðum!!! 

Fært undir . 4 ummæli »

Gleðilegt ár 2009.

Við hér á Benidorm óskum öllum gleðilegs árs og vonum að árið fari mjúkum höndum um ykkur öll.

Ármótin voru skemmtileg hjá okkur. Við hátíðarborðið hér sátum við hjónin, Gaui og kærasta og vinir okkar frá Akureyri þau Magnús og Lilja ásamt Alex 7 ára syni sínum. Þau hafa verið hér í íbúð sinni í 3 mánuði og hverfa aftur til Íslands 7. janúar. Binni kom og heilsaði upp á okkur, uppábúin á leið í mat með vinum sínum, en þeir vinirnir og kærustur sem komnar eru í hópinn, hafa haft þann sið í nokkur ár að borða saman heima hjá einhverjum þeirra. Og allir leggja sitt til eldamennskunnar. Nú var borðað hér í byggingunni, þeir eru orðnir 3 vinirnir sem búa hér. 

Við vorum með gulrótar/kartöflusúpu í forrétt og bar ég fram brauð sem ég hafði skorið út, jólatré og bjöllur, og smurt hvora hlið með smjöri og velt upp úr sesamfræjum og bakað við lágan hita í ofninum í 45-50 mín. Síðan var það Roast beef með tilheyrandi og heimagerðir ísar og heilsukaka sem ég bjó til. Eftir matinn fórum við svo í bæinn til að telja inn nýja árið, borða vínberin okkar 12, 1 við hvert klukknaslag og sötra smávegis kampavín. Við gömlu hjónin vorum komin heim fyrir 01.00 eða fyrir miðnætti á Íslandi. 

Árið sem kvaddi var okkur að flestu leiti gott ár. Við höfðum mikið að gera sem var vel, en af sömu ástæðu gátum við ekki tekið okkur frí eins og við hefðum viljað. Ég, eins og áður vann við farastjórn ásamt því að vera á skrifstofu ESPIS. Í sumar vann ég þó nokkuð meira en árið á undan og þótti það skemmtilegt að vanda, en ekki vil ég þó gera þetta aftur að aðalstarfi mínu. Okkur tókst þó að skreppa í ógleymanlega ferð til Ítalíu á haustmánuðum, þar slöppuðum við af og borðuðum góðan mat.

Margir góðir gestir sóttu okkur heim á árinu, en heimsókn mömmu og Þórðar bróður míns sem kom með henni, ber hæst í minningunni. Þetta var í fyrsta sinn sem mamma kemur hingað til okkar á þeim 10 árum sem við höfum búið hér, svo að vonum var mikil gleði að vera með henni þessa viku sem þau stoppuðu.

Heilsufar okkar hér var almennt gott, ég og Binni vorum hraust, Gabriel greindist með þvagsýrugikt og hefur átt í erfiðleikum af þeim völdum. Hann er nú á lyfjum sem vonandi gera gott, en mataræði skiptir líka sköpum í meðferð sjúkdómsins. Guðjón eldri fékk aftur hjartaáfall í jánúar s.l. og það öllu alvarlegra en fyrr því nú þurfti hann að fara í “by pass” aðgerð þar sem skipt var um 4 æðar. Aðgerðin þótti mjög tvísýn, en ráðist var í hana og tókst hún vel, hann hefur notað árið til að byggja sig upp, bæði hér og á Íslandi. Guðjón yngri var búin að kljást lengi við einhverja pest, en þráaðist við að fara til læknis þar til svo var komið að hann stóð varla undir sjálfum sér og átti erfitt með allar hreifingar. Hann var umsvifalaust fluttur á spítala þar sem í ljós kom að hann var með slæma lungnabólgu og annað lungað fallið saman. Góð ummönnun, lyf og súrefni komu honum á fætur á ný og var vel fylgst með honum fyrstu vikurnar eftir að hann útskrifaðist, m.a. með því að hann var vikulega látin koma í skan ofl. Kisurnar á bæjum þeirra bræðra eru hressar (hressir) og hafa bara verið til gleði þetta árið.

Hvað svo nýja árið ber í skauti sér veit víst engin, en ég hef sett stefnuna á Íslandsferð í vor og mun þá stoppa í nokkrar vikur. Það er hallærisleg amma sem ekki heimsækir barnabörnin árlega finnst mér og hyggst ég bæta úr því í framtíðinni:-) Vonandi getur Gabriel komið líka, þó ekki verði nema í viku.

Við ætlum okkur að halda áfram að byggja upp fyrirtæki okkar og berjast gegn kreppu eins og restin af heimsbyggðinni, en við erum bjartsýn og höldum ótrauð áfram. 

Vonir okkar um batnandi ástand sendum við yfir höfin til allra sem við þekkjum, í hvaða heimsálfu sem þeir eru.

Fært undir . 1 ummæli »

Hnoðskálin og ég.

Í kvöld hnoðaði ég deig í mexiksnskar tortillur. Ekki að það sé í frásögu færandi, ég er alltaf að hnoða. Ef ekki brauðdeig, þá bökudeig eða reyna eitthvað frá framandi löndum. En þar sem ég stóð þarna og hnoðaði af leikni með annari hendi fór ég að hugsa um hnoðskálina mína. Þessi sænska, stílhreina skál,  hvít með blárri rönd á brúninni og einhverjar málningarslettur sem minna á gróður á smá bletti. Ég keypti þessa skál í IKEA í Reykjavík rétt eftir 1980, keypti hana af því hún var svo flott, svona ekta sænsk og modern. Lítið gat mér dottið í hug hvað þessi skál ætti eftir að fylgja mér, né öll hlutverkin sem hún átti eftir að leika.

Upphaflega kom hún auðvitað frá Svíþjóð til að gleðja augu fólks og verða eign einhvers á Íslandi. Þessi einhver er ég. Á Íslandi var hún mest upp á punt, en þó tekin fram af og til. Nokkrum árum seinna flutti skálin með mér til Svíþjóðar, það var þegar ég fór að vinna hjá Flugleiðum í Stokhólmi. Af hverju tók ég skálina með? Ég get ekki svarað því, en í sínu upphaflega heimalandi var hún mikið notuð og ég fór að taka ástfóstri við skálina mína. Við fluttum svo saman aftur til Íslands skálin og ég. Þar meðhöndlaði ég hana mikið, því nú var hún komin með sitt upprunalega hlutverk, hún var hnoðskál. Þykk og falleg. Raunar öllum skálum fegurri, og ég er viss um að hún gerði sér grein fyrir því. Tíminn leið og við fluttum á milli húsa í Reykjavík skálin og ég (ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum). Svo kom að því að ég tók ákvörun um að fara til Englands og mennta mig ofurlítið og skálin fór með mér. Þar hélt hún afram að vinna öll verk sem henni voru falin, hvort heldur var sem hnoðskál eða salatskál.  6 árum og 4 heimilum seinna var henni pakkað í kassa ásamt fleiru og nú skyldi hún til Spánar, þar sem skálarnar eru svo fallegar og girnilegar að sú sænska var komin í samkeppni, harða samkeppni. Enn hefur hún yfirhöndina og situr stolt á hillu í eldhúsinu mínu. Hér á Spáni hefur hún einnig fengið mörg hlutverk og alltaf ber hún af, skálin sem ferðast hefur yfir höf og lönd með mörgum stoppum. Ekki fengið svo mikið sem eina rispu á þessu langa ferðalagi.

Svo áfram munum við töfra fram það sem okkur dettur í hug, skálinni og mér.

Fært undir . 1 ummæli »

Jólamaturinn ofl.

Aðfangadagskvöld rann sitt skeið eins og önnur kvöld. Maturinn var mjög góður, eins og von var;)  Í forrétt vorum við með graskers-súpu kryddaða með karry og kanel…ég veit þetta hljómar sérkennilega, en þetta er uppskrift sem við hjónin þróðum saman í haust.  Hamborgarhryggur með tilheyrandi fyrir kjötæturnar og ég gerði mér pottrétt úr soja-kjöt bitum, kryddaði með villikryddum ýmis konar. Þetta eru fyrstu jólin í langan tíma sem ég geri ekki “kjöthleif” úr soja hakki, en átti opin poka af soja bitunum í ísskápnum og ákvað því að nota það. Í eftirrétt, vaniluísinn sem ég geri altaf, en uppskriftin er frá Guðmundi langafa strákanna í föðurætt, en hann var bakarameistari og mjög góur sem slíkur. Með bar ég fram sultað engifer og skógarber. Síðan var meiningin að hafa kampavín og möndlukökur ýmisskonar sem amma Gabriels bakaði og færði okkur, en engin kom meiru niður.

Gaui kom niður til okkar eftir að hafa borðað og tekið upp pakka í sínu húsi, við vorum enn að borða þegar hann kom, svo hann boraði ís með okkur og aðstoðaði við pakka opnunina. Fljótlega eftir það fóru svo bræðurnir hvor til síns heima og eftir sátum við hjónakornin, Rosalba og Roberto.

Eins og mörg ykkar hafið séð á msn mínu, þá langaði mig í hárauðan jólakjól. Ég fékk hann…og gott betur, því ég fékk flotta rauða peysu og þá flottustu rauðu kápu sem ég hef séð lengi. Kápa er nokkuð sem ég hef ekki átt í mjög mörg ár. Svo, Gabriel sá til þess að mín jól væru rauð:-). Annars fengum við mjög mikið að vanda. Ástarþakkir til ykkar allra sem senduð okkur pakka og jólakort.

Á jóladagsmorgun vorum við komin snemma á fætur og Gaui kom í morgunkaffi eins og aðra morgna. Það er ómissandi að fá hann á morgnanna. Binni hins vegar, kúrði fram eftir en kom í eftirmiðdaginn til að borða.

Jóhanna vinkona okkar bíður spennt eftir matarbloggi mínu þessa daga;-) Hvað haldið þið að ég hafi elda á Jóladag? Grænmetisætan fékk skyndilega mikla löngun í fisk!!! Og allir þessir afgangar frá kvöldinu áður. Alla vega, ég átti frosin ýsuflök (spænsk) og tók þau úr frysti. Setti þau svo hálffrosin í eldfast fat. Steikti saman selleri, gula og græna papriku. Bjó til sósu úr pela af rjóma, 1 tsk af grænu chillimauki og 3 tsk rautt chillimauk (í báðum tilfellum er maukið grófmaukað) ca. 1 tsk sterkt karry og Herbal salt. Helti síðan sósunni yfir grænmetið á pönnunni og lét sjóða smá stund. Helti svo öllu yfir fiskinn, stráði rifnum osti yfir og bakaði í ofni við 180C í 20-25 mín. Sauð hrísgrjón með og gerði mjög gott salat. Þetta var dáldið sterkt, eins og við viljum hafa það, en ég ráðlegg þeim sem ekki eru fyrir mikið sterkt að minnka rauða chilli-ið í 1-2 tsk.

Í gær, annan dg jóla, fórum við að vinna smávegis. M.a. þurfti að hleypa gestum inn sem voru að koma. Við ákváðum að fara á La Cava Argonesa, einn albesta tapas staðinn á Benidorm og borða þar í hádeginu. Borðuðum tapas og drukkum kampavín með. Restin af deginum fór síðan í afslöppun og síestu fyrir framan sjónvarpið. Engin eldamenska í gærkvöldi.

Í kvöld erum við hins vegar að fá ensk vinahjón okkar í mat. Þau eiga íbúð í Albir (hef svo oft minnst á þau) og eru hér um jólin. Við ætlum að hafa reyktan, íslenskan lax, restina af hamborgarhryggnum skorin í þunnar sneiðar og með honum steiktan lauk, heimagerða sinnepsósu og fleira, sveppapaté sem ég er að baka, salat sem ég hef hugsað mér að hafa kalt/heitt eins og oft áður, með ristuðum furuhnetum og mosarella osti sem skrauti. Í eftirrétt er ég búin að gera heilsuköku…ó já, kaka frá Sigrúnu vinkonu minni í Café Sigrún, en kakan tók miklum breytingum sem ég á eftir að ræða við Sigrúnu. Þannig að uppskriftin kemur síðar, þ.e. þegar við verðum búin að smakka hana.

Ég hef nú tekið ákvörðun um að allavega önnur bókin sem ég er að setja saman muni koma út fyrir næstu jól, í síðasta lagi. Ég fékk uppljómun um daginn og gjörbreytti áherlsum annarar í stíl við titil sem mér datt í hug. Svo er bara að vita hvort Daníel sonur minn vill gefa hana út:-)

Hér kemur svo sveppa patéið sem ég er að baka. Nota bene, ég get eignað mér uppskriftina 100%.

Sveppapate. 

200 gr sveppir,fínt skornir

50 gr smátt saxaður laukur.

75 gr rifinn ostur1egg

30 gr brauðrasp

120 gr box grískt jógurt, má nota sýrðan rjóma.

1-2 marin hvítlauksrif.

Salt og pipar eftir smekk

Krydd kífsins frá Pottagöldrum, ca 1 tsk

Lófafylli af þurrkuðu timian.

Öllu hráefninu í pateið er blandað saman og sett í ofnfast fat og bakað við 200C í 40 mín. 

Borið fram með góðu salati og salatsósu að smekk. 

Hér myndi ég prufa mig áfram með krydd í pateið. T.d. finnst mér rósmarin eða timian ómissandi með sveppum.

Þetta er orðið svo langt að ég set inn súpu-uppskriftina næst.

Sæl að sinni og verið góð hvert við annað.

Fært undir Matur. 2 ummæli »