Dagur 2.

Að hefðbundnum morgunverkefnum loknum tók við lestur á bókinni frábæru um hana Karitas, Órói á striga. ég hafði tekið hana með mér að heiman þó stór sé, því mér var ómögulegt að skilja hana eftir hálf lesna. Toný var á bókasafninu. Gummi sótti mig svo og fór með mig í bílferð um nágrenið. Fórum víða og margt skoðað. Barnið sótt í skólann og farið í stórmarkaðinn aftur þar sem feðgarnir spiluðu fótboltaspil í einni af mörgum tölvum sem þar eru. Svo sóttum við mömmu á bókasafnið og héldum heim á leið. 

Fært undir . Engin ummæli »

Álaborg. Dagur 1.

Fyrsta morguninn vakti ömmustrákurinn mig til að fá koss áður en hann færi í skólann. Amma var fljót að sofna aftur. Loks þegar ég var komin á fætur og búin að setja á mig andlitið ofl. var farið að huga að því hvernig deginum skyldi eytt. Antonía tendgadóttir mín er í masternámi og að ljúka lokaverkefninu þannig að hún hefur mikið að gera. Hún vann  hér heima þennan dag og við sóttum Óskar Marinó snemma í skólann. Fórum í bæinn þar sem drengurinn leiddi ömmu sína um þröng stræti gamla bæarins og hafði frá mörgu að segja. Við lékum okkur í dásamlegum litlum listigarði, hoppuðum á milli steina ofl. Fórum á mjög skemmtilegt kaffihús og fengum okkur nammi gott að snarla. Síðan var pabbinn sóttur í vinnuna og farið í rosalega stóran súðermarkað. Þetta var allt mjög gaman.

Heim komum við svo þreytt og glöð borðuðum afganginn af yndislegu súpunni sem Toný hafði gert fyrir komu mína.

Fært undir . Engin ummæli »

Tveggja vikna ferð til Danmerkur.

23.nóvember 2009. Ég vakna eftir 2ja tíma svefn. Er að fara til Álaborgar í Danmörku í dag. Þar ætlla ég að vera hjá Gumma, Toný og Óskari Marinó ömmustráknum mínum í tvær vikur.

Þó svo ég hafi vakað nær alla nóttina er ég ekki farin að pakka né gera ýmislegt sem ég ætlaði mér að gera áður en ég færi, s.s. að skreyta jólatréð svo það tæki á móti mér/okkur þegar við kæmum heim. Gabriel kemur þann 2. des. og saman förum við svo heim að kvöldi 7. des.

Mér líður hálfpartinn eins og timbraðri eftir svona stuttan svefn, en þegar við leggjum á sta á flugvöllinn um hádegi er ég orðin sjálfri mér lík, og þó…. Ég er alltaf búin að pakka að minnsta kosti degi fyrir brottför svo þetta hentaði mér mjög illa. Þó var merkilegt að ég gleymdi ekki nema 2 hlutum sem Gabriel kemur með. En slíkt er ég stressuð yfir öllu þessu að ég gleymi að læsa tölvulásnum á ferðatöskunni minni, það hefur aldrei gerst þau ca. 20 ár sem ég hef átt hana. Ég þarf reyndar að fara að fá mér nýja, þessi er dásamleg, hárauð Samsonite en hún vegur 6 kg. og nú á dögum þegar flugfélögin eru svona ströng á viktinni er eins gott að taskan sé létt. Nú má ég hafa 15 kg og 10 kg í handfarangur. Aðeins 1 stykki í handfarangur, ekki halda á yfirhöfninni…nei takk, ég þarf að standa þarna í pelsinum í 28C. En, mikið ljómandi gengur nú innritunin vel, maður er jú búin að prenta út “boarding” passann sinnn áður en maður mætir á flugvöllinn.              Komin í gegn, búin að fara í fríhöfnina og sest með rauvínsglas. Í fríhafnarpokanum er kassi með andlitskremum, og 1 lítið nammi handa Óskari M. Þá er loks kallað í vélina og ég komin í röðina þar sem síðasta blessun er lögð yfir mann áður en gengið er um borð. Þá er röðin komin að mér, vei…kallar á mig ungur maður og segir “Frú, þér megið bara hafa eitt stykki í handfarangri”, ha segi ég. Hann endurtekur setninguna og nú verð ég að gjöra svo vel og tæma fríhafnarpokann og troða innihaldinu í tölvutöskuna. Úff, hvað ég svitna í þessu pels.

Komin um borð og vélin á leið í loftið. Góð flugfrerð, lendum hálftíma fyrir áætlun.

Ég komin út. Þarna stendur Gummi minn og bíður eftir mér. Tæpum tveim tímum seinna geng ég inn í húsið þeirra. Hvílíkur fögnuður. Kertaljós um allt, utandyra sem innan, dásamleg mexikósk súpa ofl. borið á borð og við njótum samverunnar.

En fallegt heimili. Amma fær fínt herbergi og er nú lögst í rúmmið. Ég er þreytt en óskaplega glöð. Góða nótt.  

Fært undir . Engin ummæli »

Halló :-) Langt síðan síðast.

Blessuð og sæl vinir og fjölskylda.

Það er heldur betur langt síðan ég hef bloggað. Síðast var það á afmælisdaginn minn í júní. En margt hefur gerst og mikið verið að gera.

Við fluttum skrifstofuna okkar heim 1. júlí, vorum þá búin að segja upp starsfólki á skrifstofu. Svo, nú erum við tvö, auk þrifnaðarfólksins. Það kom fljótt í ljós að þetta var hin besta ákvörðun, en um leið að við yrðum mjög upptekin allt sumarið og erum reyndar enn. Það eina neikvæða er að heimilið lítur dálítið út eins og vöruhús, en núna þegar veturinn læðist yfir verður minna að gera í daglegu ati, þar sem flestar okkar íbúðir eru uppteknar af gestum sem eru hér nokkra mánuði yfir veturinn. Svo ég er aðeins byrjuð að fara í gegnum pappíra og koma okkur almennilega fyrir. Bæði aukaherbergin á efri hæðinni eru skrifstofur og stigapallurinn skjalageymsla. En þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími.

Nú ætla ég að bregða mér niður og sækja einn jóla CD og sjá hvernig það legst í mig.

Þá hefur Sigga Beinteins. vikið fyrir Íslesku dívunum. Ég er ein af þeim sem hef yfirleitt byrjað að undirbúa jólin á haustin, en hvernig á maður að komast í jólaskap þegar enn er um 30C og sól alla daga? En ég lít þó svo á að ég sé byrjuð, með því að koma efri hæðinni í gott lag. Svo er engin vafi á því að ég kemst í alvöru jólaskap 23. nóvember þegar ég fer til Álaborgar í Danmörku að heimsækja Guðmund Óskar og fjölskyldu sem þangað fluttu 1. júní sl. Hjá þeim verð ég í tvær vikur og Gabriel mun sameinast okkur síðustu 5 dagana. Svo eigum við von á mjög góðri og skemmtilegri vinkonu í 10 daga heimsókn yfir jólin.

En, þar sem ég hef nú loks hafið blogg á ný, mun ég vonandi gefa mér tíma til að segja frá sumrinu og fleiru á næstunni.

Farið vel með ykkur og engar áhyggjur af A-flensu, hún er bara flensa eins og aðrar….

Besos úr miklum hausthita.

Fært undir . 1 ummæli »

Afmælisdagur.

Það er komið kvöld. 14. júní, afmælisdagurinn minn. Ég vissi fyrirfram að hann yrði vinnusamur dagur þó það sé sunnudagur. Gabriel fór að kafa snemma í morgun, ég keyrði hann að höfninni. Hann tekur þátt í að hreinsa strandlengjuna undan baðströndunum árlega. Og hefur mikið gaman af. Fyrir mig var það ekki mál að sjá um vinnuna í morgun, hann yrði hvort sem komin úr kafi um kl. 14.00.

Morguninn byrjaði rólega, eftir að hafa keyrt hann fór ég heim og fékk mér te, skoðaði tölvuna, vinnupartinn og facebook. Svo um 10.00 hófst vinnan, og auðvitað komu óvænt atvik upp á, svo maður þurfti að hafa hraðar hendur og enn hraðari hugsun ;-)

Um kl. 12.00 var ég laus í bili…og fór að hitta Gaua minn í tapas í Albir. Við sátum þar á yndislegum spænskum stað þegar Gabriel hringdi og var komin á þurrt. Svo við fórum að snekkjuhöfninni í Altea þaðan sem hann kafar út frá, hittum hann og félaga hans. Það var okkur boðið upp á smárétti (tapas) og drykki. Síðan tók við meiri vinna.

Okkur tókst þó að ljúka fyrir 17.30 svo við kæmumst í bíó, nokkuð sem við reynum að gera alla sunnudaga. Við förum og horfum á myndir á frummáli, oftast ensku. Í dag sáum við Viktoriu drottningu, mynd um þessa ástsælu ensku drottningu, en mér til undrunar og gleði, fjallaði myndin aðeins um hennar ungu ár,þ.e. fram yfir 20 ára. Mjög góð mynd.

Við tók meiri vinna, mjög óvænt. En að lokum komumst við heim. Og röðuðum á borðið afgöngum frá gærkvöldinu. Hjá okkur voru Birgitte og Helgi vinir okkar i mat í gærkvöldi. Og það voru miklir afgangar.

Við áttum dásamlegt kvöld saman.

Á matseðlinum voru pönnukökur fylltar með rjómaostmauki og reyktum íslenkum laxi, graskersúpa borin fram í litlum staupum, linsubaunapaté, salat og hnetur ýmiskonar. Síðan kom stórt laxaflak bakað í ofni, en ég hafði smurt flakið þversum í ca 5 cm rendur, annar vegar grænt pestó og hins vegat tómat pestó. Bakaði síðan flakið við hægan hita í ca 30 mín. Með laxinum bar ég fram allt sem var á borðinu fyrir auk ofnbakaðs grænmetis. Við enduðum svo máltíðina með kampavíni sem þau hjón færðu okkur, ferskum jarðaberjum og ostum.

Afgangarnir hafa síðan verið á borðum í kvöld og okkur kemur á óvart að laxinn er enn betri kaldur en heitur.

Ég á enn eftir að blogga heilmikið um Íslandsferðina, og vonandi fer ég í gang fljótlega. Maður getur jú ekki endalaust verið að vinna ;-)

Fært undir . Engin ummæli »

Andlausir dagar.

Frekar hef ég nú verið andlaus þessa síðustu viku. Það var engin vínsmökkun á föstudaginn var, en hins vegar fórum við hjónin á grískan stað að borða og í framhaldi duttum við inn á lokakvöld læknaráðstefnu sem hefur staðið hér yfir. Ætluðum nú bara að nota VIP kortin okkar á Benidorm Palace sem er flottur kabarett staður hér. En sem sagt lokakvöld læknanna stóð sem hæst þegar við komum og við þurftum ekki einu sinni að framvísa kortunum okkar. Áttum hins vegar í basli með að fá þjónana til að skilja að við værum ekki svöng og vildum þar af leiðandi ekki borða fjórréttaða máltíð kvöldsins. Hins vegar vildum við gjarnan flösku af kampavíni, og ætluðum auðvitað að borga það eins og lög gera ráð fyrir, en nei, við vorum augljóslega svona læknaleg í útliti að flaskan var frí svo og aðrir drykkir kvöldsins. Úr varð mjög skemmtilegt kvöld, þar sem við sáum nýjasta dans-show staðarins. Komum skelfilega seint heim ;-)

Annars erum við búin að vera að vinna helgina eins og allar helgar. Gabriel fór reyndar að kafa í morgun, endalaust að leita hafmeyja. Ég átti góðan fyrripart dags með GB syni mínum. Ég er búin að vera einka- þerna/þjónustupía/hreingerningardama hans í viku. Hann flutti úr íbúðinni sinni og við ætlum að leigja hana ferðamönnum í sumar, svo allt þurfti að þvo, gera hreint… :-) Rosalega gaman. Hann hlýtur að bjóða mér út að borða fyrir verkið.

Svo hér er lífið allega vinna, vinna…reyna að lifa af kreppuna. Hei!!! svona tal er bannað á minni bloggsíðu. Hér býr bara jákvæðni.

Á laugardaginn kemur verðum við með matarboð. Mikið hlakka ég til. Birgitta og Helgi vinir okkar koma í mat, sá fyrverandi, GÓ líka :-) Ég er búin að vera að setja saman matseðil í huganum. Margt spennandi í boði, en er þó að fæðast. Set hann inn hér þegar gripurinn verður fullburða.

Binni minn litli var í Fraklandi um helgina svo ég hef haft umsjón með kettinum og fleiri smáverkum hjá honum.

Svo eins og þið sjáið, engin stórtíðindi héðan. Hef ekki einu sinni haft almennilegan tíma til að fylgjast með fréttum.

Nema hvað 60 ár voru liðin frá brúðkaupi foreldra minna þann 4. júní sl.

Hasta la vista amigos :-)

Fært undir . Engin ummæli »

Jarðhræringar á Suðurnesjum.

Hingað berast fréttir frá vinum í Grindavík (og mbl.is) um jarðhræringar þær sem hafa gengið yfir Reykjanesið og höfuðborgarsvæðið. Þetta tók mig til baka til þess dags er ég kvaddi fósturjörðina síðast, þann 13. maí. Ég var komin snemma á flugvöllinn í Keflavík. Antonía, tengdadóttir mín keyrði mig og við höfðum svo góðan tíma að þegar ég var búin að tjekka inn settumst við á kaffihúsið í salnum. Ég meir að segja fékk hvítvín :-) Svo kvöddumst við með tárum og ég hélt leiðar minnar eftir pílum og skiltum.

Sjáið til !!! ég var að koma þarna í fyrsta skipti eftir stækkun flugstöðvarbyggingarinnar. Og, mikið varð ég hrifin. Marga stóra og mis skemmtilega flugvelli hef ég farið um, en ég er heilluð að KEF. Allur sá tími sem ég hafði nægði mér ekki til að skoða og dást að því hversu vel hefði tekist til. Rétt náði að setjast á kaffihús sem var að opna sama dag og borða mína heimasmurðu, unaðslegu samloku…keypti rauðvín af kaffihúsinu svo ég gæti notið samlokunnar betur og með góða samvisku.

Ég hreinlega tapaði mér í búðunum, og ég sem aldrei kaupi neitt á flugvöllum, nema vera beðin sérstaklega um það. Þarna voru tilboð á laxi og hérumbil öllu sem sér íslenskt er. Ég keypti heilmikin lax, reyktan og grafinn, Egils appelsín og sælgæti, snyrtivörur (halló!!!ég kaupi þær ekki á flugvöllum, þær eru venjulega svo dýrar þar). Það voru glaðir strákar sem tóku á móti mér þegar ég kom…

Og, þar sem ég hafði geymt fram á síðustu stundu að kaupa gjöf handa manninum mínum (stólaði á flugvöllinn eða vélina) fór ég inn í Hugo Boss búð…datt aldrei í hug að slík búð væri í KEF, og þar fékk ég þennan líka flotta polo bol fyrir sumarið.

Svo um borð í vélina fór ég svo klyfjuð að þegar til Alicante kom þurfti ég aðstoð konu sem sat með mér til að bera handfarangurinn :-) Þetta var bara hérumbil eins og í gamla daga.

Næst þegar ég kem, ætla ég að fara með tóma handfarangurstösku á flugvöllinn svo ég lendi ekki í því sama aftur.

Flott flugstöð!!!

Fært undir . Engin ummæli »

Föstudagur og önnur vínsmökkun.

Ég veit að ég hef staðið mig illa í bloggi undanfarna 2-3 mánuði. Það eru ýmsar mis-skemmtilegar ástæður fyrir því. T.d. eftir að ég kom heim frá Íslandi ákvað ég að vinna upp hrúgu af verkefnum og þar sem ég blogga á kvöldin eftir að ég er komin heim úr vinnu hefur rúmmið verið meira freistandi, eða ég skilið tölvuna eftir á skrifstofunni.

Alla vega, hér er ég nú. Eldhress nýkomin úr rauðvíns-smökkun með bóndanum. Þetta var hin skemmtilegasta smökkun, þó ekki hafi hún nálgast kampavíns-smökkunina í sl. viku. En þarna var verið að kynna fyrir okkur Miðjarðarhafsvín og það var bara heilmikil saga sem vínræktandinn hafði að segja, þó hann hafi ekki byrjað ræktun fyrr en 1991. En það sekmmtilegasta var að hann talaði um afa Gabriels, því hann kynnti sér m.s. skrif hans um nýungar í vínræktun þegar hann var að byrja. (Ég geri ráð fyrir að allir viti að afi Gabriels var vínbóndi).

En það sem ég sökkti mér niður í á meðan á þessu stóð (fyrir utan að sötra á 4 mismunandi vínum) var að Íslendingar almennt vita ekki svo mikið um spænsk vín. Allir þekkja jú Rioja, sem eru almennt mjög gó vín, en Rioja héraðið er norður í landi og mjög ólíkt t.d Murcia þaðan sem vínin í kvöld komu frá. Í Rioja rignir heilmikið, en hér við ströndina ekki. Berin hér eru mjög ólík berjunum fyrir norðan og þar af leiðandi vínin líka. Okkar uppáhalds hérað hefur alltaf verið Rivero del Duero, sem er rétt við Rioja, og það er líka allra besta vínhéraðið á Spáni. Hvílík vín sem þaðan koma.  

En vinur okkar hér í næsta nágreni ræktar líka vín. Vínhúsið hans er mjög þekkt, aðallega fyrir það að þar skipta gæðin öllu máli en ekki magnið. Svo, hann framleiðir lítið magn ár hvert, en leggur alla áherslu á gæðin. Við Gabriel höfum farið með íslenska víninnflytjendur í heimsókn til hans, en það virðist ekki borga sig að flytja vínin hans til fósturjarðarinnar. Kanske ekki skrýtið, því hann hefur ekki undan eftirspurn innanlands. En, við njótum þeirra forréttinda að geta sest niður á Bodegunni (vínbúgarðinum) hans sem er aðeins í 10 mínútna akstursfjarlægð og átt góðar stundir með skemmtilegu fólki.

Eftir heimkomuna í kvöld vorum við svolítið þung af rauðvíninu, svo við opnuðum Lambrusco og það er alveg að gera sig flott:-)  

Svo er bara komin svefntími, eða þannig…vinna framundan alla helgina.

Fært undir . Engin ummæli »

Kampavín með mat.

Ekki var ég búin að vera lengi heima þegar ég mætti með Gabriel í vínsmökkun. Nú var verið að kynna og smakka kampavín. Vínhúsið, eða fyrirtækið (hvort sem þið viljið) sem kynnt var, er franska húsið Veuve Clicquot. Víngerðarmaðurinn sem kynnti, (og nú verður maður að vita að víngerðarmaður er titill rétt eins og efnafræðingur ofl.) er spænskur og hefur unnið við frönsk hús lengi. Kynningin var óvenjulöng og við lærðum ótrúlega mikið. Ég, leikmanneskjan var heilluð af frásögn hans og Gabriel sem komin er með diploma fyrir nokkrum árum sem útlærður vínsmakkari, bætti heilmiklu í sinn viskubrunn. Smökkuð voru 2 hvít og 1 rósa kampavín. Geysi góð vín, en annað hvíta mun betra en hitt, enda eitt af “drottningum” hússinis. Það rósa var einnig mjög gott, en ekki fengum við þó að smakka “greifynjuna” í hópi rósa kampavíns hússins enda kostar hver flaska tæpar 400 evrur. Svo við hjónin geymum það til betri tíma, en ég er viss um að við eigum eftir að kaupa eina slíka til að njóta með morgunmatnum einhverntíma.

Aðal þema þessa bráðskemmtilega víngerðarmanns var að fá þáttakendur til að skilja að kampavín er eitthvað það al besta vín sem hægt er að hafa með mat, og það næstum öllum mat. Hann sagði þó, að klassa rauðvín yrði aldrei toppað ef verið væri að borða osta. En þar fyrir utan væri ekki til sá matur sem kampavín gengi ekki með. Gott og vel! Ég get næstum samþykkt þetta. Í mínu húsi er Cava, sem er spænska heitið yfir kampavín framleitt í landinu, mikið notað. Fyrir mat, með mat, með eftirréttum og sem hressingardrykkur. Þó vorum við að ræða það í morgun að einhvernveginn gætum við ekki hugsað okkur kampavín með síld, hangikjöti né öðru sem kemur úr svipuðum fæðuflokkum (meðhöndlun).

Ef ég bregð mér af bæ, þ.e. til útlanda, kemur Gabriel ætíð með Cava og 2 kampavínsglös á flugvöllinn þegar hann tekur á móti mér. Við skálum síðan í bílnum áður en við höldum af stað heim. Athugið!!! hann drekkur bara 1 glas, svo venjulega geymi ég flöskuna þar til við komum heim að við getum noti hennar saman.

Mjög algengt er að Gabriel geri sérstaka spænska eggjahræru í morgunmat á sunnudögum og við drekkum Cava með. Þetta vita allir sem hafa verið gestir okkar, hvort heldur í London eða hér á Spáni, og notið vel :-)  

En, tilgangur þessarar bloggfærslu er tvíþættur. Annarsvegar, að hvetja ykkur öll til að prófa ykkur áfram í freyði- og kampavínum með mat, og hinns vegar að vekja athyggli á að ég er auðvitað búin að taka upp spænska siði og farin að sötra vín alla daga :-)

Fært undir . 1 ummæli »

Spánn á morgun.

Þá er komið að heimför. Ég fer á morgun um hádegið eftir 68 daga dvöl á fósturjörðinni. Óskar Marinó, ömmustrákurinn minn er með allt slíkt á hreinu. Hann er mikill starðfræðingur þó hann sé aðeins 5 ára. Sama gildir um afmælisdaga og aldur fólks, hann klikkar aldrei á slíku. En eftir mjög skemmtilegt Eurovision kvöld, er komin tími til að setja síðustu tuskurnar í töskuna og fara á vit draumalandsins. Óskar Marinó og móðir hans borðuðu með okkur ömmunum og skemmtu sér síðan með okkur yfir forkeppninni þar sem Ísland komst áfram…Húrra :-) Gummi pabbi er í vinnunni í Danmörku þessa viku en kemur heim næsta föstudagskvöld og síðan fer litla fjölskyldan til síns nýja heimalands þann 1. júní.

Ég þakka öllum, fjölskyldu og vinum fyrir frábæra samveru. Það er mikið efni sem ég fer með heim til að blogga úr. Svo verið viðbúin, það gæti jafnvel farið í gang daglegt blogg.

Verið góð hvert við annað og ég vona svo innileg að verðuguðirnir fari að vera góðir við ykkur :-) Ég er farin í sólina og hitann!!!

Fært undir . 1 ummæli »