Cara a Cara!

Í gærkvöldi var þáttur í sjónvarpinu sem þjóðin hafði beðið eftir með öndina í hálsinum. Forsetisráðherrann og keppinautur hans í kostningunun sem fram fara 9. mars hittust í kappræðum í sjónvarpinu. Þetta hefur ekki gerst í 15 ár og þótti því mikill viðburður. Búið var að auglýsa þáttinn alla vikuna á undan og aðdragandinn í gær tók klukkutíma. Spennan var í hámarki þegar þeir loks gengu í salinn með stjórnandanum. Þátturinn var mjög vel skipulagður og fengu keppendurnir 3 mínútur til að kynna sig og málefni sín og síðan 2-3 mín til að svara hvor öðrum. Þetta voru alvöru kappræður og öfugt við aðra Spánverja þá gripu þeir ekki fram í fyrir hvor öðrum. Ég horfði á þáttinn með augu og eyru glennt og hafði mikið gaman af. Gabriel tókst að sofna yfir þessu;-) Síðan munu þessir sömu herrar hittast aftur á mánudaginn kemur svo það er til mikils að hlakka.

Blöðin í morgun birtu skoðanakannir þar sem fram kom hvernig þeir hefðu staðið sig og hvor var betri. Minn maður var með töluverðan meirihluta. Kom mér ekki á óvart, en mér þótti keppinauturinn standa sig vel einnig.

Svo þetta eru samræður manna/kvenna á kaffihúsunum í dag.

Er ég rasisti?

Guðjón Björn, eða GB eins og vinkona hans ein kallar hann borðaði með mér og föður sínum í hádeginu í dag. Á japanska staðnum fyrir ofan skrifstofuna eins og svo oft áður. Talið barst að hinum ýmsu sem byggja þessa jörð og GB sagði mér að ég væri rasisti!!! Hann hafði verið að lesa blogg frá mér frá 25. oktober og þar talaði ég um araba og austur Evrópubúa versus okkur góðu Evrópubúum, þ.e. ég og hinir sem tilheyrt höfum svokölluðu frjálsu Evrópu. Mér var brugðið en gat ekki þrætt, byrjaði hins vegar á að skoða bloggið mitt þegar ég kom á skrifstofuna og mér létti þegar ég sá að ég hafði sett gæsalappir utan um “góðu”, það þýðir að ég er að gera góðlátlegt grín að hlutunum. En eftir stendur spurningin, er ég rasisti??? Ég sem er svo mikil jafnaðarmanneskja, vil að allir sitji við sama borð.

Ég hef bara eitt svar; er einhver sem getur af 100% heiðarleik sagt að ekki blundi einhver tegund af rasisma djúpt í fylgsnum viðkomandi? Þetta er spurning vikunnar!

Hvað ber að kjósa?

Jæja þá er komið að því.

En hvar skal byrja? Ég sótti um endurnýjunar kostningarrétts til Hagstofu Íslands nú í vetur. En ég átti rétt á því þar sem ég hef búið meir en 8 ár frá landinu góða. Auðvitað gerði ég þetta einungis fyrir vini mína í Samfylkingunni, vinna átti þjóðna. (Taldi ég) Ég er jú búin að vera félagi í Samfylkingunni frá stofnun, án þess endilega að vita hvað þau vildu.  En þetta eru jú vinir mínir úr Reykjavíkurlistanum ofl. Ég tók mjög virkan þátt í stofnun hans og er stolt af. Þetta var eitthvað skemmtilegasta tímabil æfi minnar og mun taka mikið pláss í æfisögunni verði hún rituð.

En hvað nú? Eftir að ég varð háð blogg síðum mbl.is hef ég kynnst ýmsu góðu fólki sem ekki allt er í framboði fyrir eða kýs Samfylkinguna. Eftir að hafa kynnt mér fleiri öfl varð ég ákveðin í að nú skildi kjósa Vinstri Græna, þau eru með alvöru mál í gangi.

Geysist ekki þá framm á völlinn sveipaður silfri Egils, lærifaðir minn í stjórnmálum,sjálfur Jón Baldvin Hannibalsson. Hann hefur engu gleymt, svo mikið er víst.

Ég man þá tíð er ég ung kona sat opinmynnt og hlustaði á meistarann. Svo nú eru góð ráð dýr. En kostningar eru jú ekki á morgun,þó ég þurfi að kjósa mun fyrr en þið sem sitjið á Íslandi. Því veldur auðvitað fjarlægðin. Utankjörstaðar atkvæðin.

Sú var nótt fegurst þegar ég gekk út úr Ráðhúsinu við tjörnina, húsi Davíðs, eftir að hafa verið innilokuð frá því snemma kvölds við talningu atkvæða. Reykjavíkurlistinn sigraði borgina. Þá var Reykjavík böðuð morgunsól og fáir á ferli. Hvílik tilfinning að ganga heim á Óðinsgötuna þar sem allir voru í fasta svefni.

Ég er sem sagt ekki búin að gera upp hug minn,enda von á fleiri framboðsflokkum.

Það eina sem mig langar að segja við fjölskyldu og vini sem hafa ekki enn séð í gegnum X-D, vilduð þið hafa 63 Árna Jonsen á þingi?

Baráttukveðjur til ykkar allra hvar sem þið standið.