Dapur dagur

Jæja ég komin með flensu. Þó fór ég í flensu sprautu í haust. Annars er þetta nú bara smá kvef, næganlegt til að sötra heittt kakó með rommi, það á að bæta allt,(og er svo ljómandi bragðgott).

Annars er það helst að frétta að sólin hefur skinið í dag eftir að hafa verið frá störfum í heila viku. Ég var/er með áhyggjur af tómata plöntunum mínum, þær þurfa sól svo grænu tómatarnir verið rauðir. Alveg eins og við mannfólkið sem verðum rauð í sólinni aður en brúnkan kemur. Vonandi fæ ég tómata í salatið um helgina,það er svo mikið af þeim á plöntunum. Þetta eru sherry tómatar og þeir bestu í heimi.

Það hefur bara rignt heilan helling, svo að svefnherbergis loftið okkar gaf sig. Reyndar hrundi það ekki yfir okkur, en dágóður bútur gaf sig og  vatn flæddi inn. Þetta kemur frá íbúðinni fyrir ofan okkur. Vegna byggingarlags hússins (tröppubygging) þá eru svalir íbúðarinnar fyrir ofan, þakið á svefnherberginu okkar og svölunum utan við það. Þarna uppi er nánast aldrei neinn maður, þau búa í Madrid og koma nokkrum sinnum á ári yfir helgi. Þó er ekki nema 3 1/2 tími í bíl á milli. Allavega, okkur grunar að niðurfall hafi stýflast af gróðri og auðvitað leitar vatnið sér farvegar en hefði ekki þurft að opna herbergisloftið mitt. Hetjan í húsinu, Gabriel er búin að vera á kaupstefnu í Madrid alla vikuna, kemur í kvöld. Hann talaði við þetta ágæta fólk og það lofar að koma nú um helgina og ath. sín mál. Svo er þetta auðvitað bara tryggingarmál. En það hefur hreint ekki verið gaman að sofa við þetta drip,drip,drip allar nætur,og ekki verið vær svefn. Kanske er kvefið bara komið af þessu. Sem betur fer hefur bóndinn sloppið við þetta, hann var jú á hóteli í höfuðborginni. 

Annars er ég hálf andlaus núna. Engin af öllum áskrifendum mínum hefur haft athugasemd við bloggið um pólitíkina sem ég tek sem 100% samþykki. Ef ekki, þá farið að láta heyra frá ykkur.

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Rauðsokkublogg

Ja hérna.

Ég las á bloggi Þóreyjar vinkonu næst yngsta afkvæmis míns að mamma væri komin með “rauðsokku blogg”. Bíddu bara strákur, ég er rétt að byrja.

Annars finnst mér merkileg frétt í mbl.is í dag að matarkarfa á Spáni er 170% ódýrari en á Íslandi. Áður en ég las þetta vorum við stelpurnar á skrifstofu Espis að tala um hvað föt hafa lækkað í verði hér á Spáni. Ég fór í morgun að kaupa mér hnéhá leðurstígvél fyrir heimsókn mína til fósturjarðarinnar í mars, keypti rosa flott stígvél með pinnahælum og mjórri tá. 34€ borgaði ég fyrir, og það er alveg hægt að taka feil á mér og Victoriu Beckham þegar ég er komin í þau og stutt pils. Bíðið bara… Svo er annað mál hversu prattísk þau eru á fósturjörðinni í mars. Alla vega er vafamál að ég geti notað þau til gönguferða með Uglum þegar við förum í sumarbústaðinn í Ölvusborgum. Mamma á örugglega hentugan skófatnað til að lána mér, fer bara í ullarsokka og þá er ég klár. 

Loforðið um pólitísk skrif er enn í frestun, það er gert til að halda spennunni og byggja upp aðdáendahóp! 

Sjöfn ugla, ábendingar um málfræðivillur svo og  klaufalega setningu, því ég er kanske búin að gleyma einhverju í setningafræði eru vel þegnar.

Lovísa ugla, hvað finnst þér umframboð Höllu til formanns KSÍ?

Nóg í bili.

Fært undir Blogg. 2 ummæli »

Óvæntar fréttir

Við hjónin vorum að koma heim frá því að hafa komið við á veitingastað í Albir til að fá okkur matarbita og fara yfir dagskrá Gabriels næstu daga því hann fer á morgun til Madrid á ferðakaupstefnu sem hann/við höfum sótt sl.ár. Hann fer einn í þetta sinn af ýmsum ástæðum og er ég sátt við það, þó Madrid sé mín uppáhaldsborg og kaupstefna þessi mjög skemmtileg. Gabriel fer þangað fyrir hönd okkar fyrirtækis, en þó aðallega sem varaforseti Aptur sem eru samtök fyrirtækja í ibúðarleigu fyrir ferðamenn á Benidorm. Þegar við komum heim og ég setti mig í stellingar til að blogga um pólitík á Íslandi biðu okkar óvæntar fréttir.

Aðalbjörg og Haukur vinir okkar sem ráku hér Kaffi Reykjavík eignuðust dreng um daginn og hann hefur nú verið skírður Gabriel í höfuðið á mínum Gabriel!!! Það er mikil gleði í húsinu og tár runnu niður vanga. Það er mikill heiður að barn fái nafn sérstakrar persónu, ekki hægt að lýsa tilfinningunni sem heltekur mann við fréttirnar. Gabriel verður án efa nafna sínum góð fyrirmynd og mun gefa honum ást og gleði eins og hann er frægur fyrir meðal barna.

Talandi um nafnagift.

Þegar ég var barn/unglingur og las Pilt og stúlku, Mann og konu og Önnu í Stóruhlíð ásamt  öðrum góðum bókmenntum, þótti mér ákaflega lítið til nafnsins Kristín koma, sama gilti um Sigríður. Bæði þessi nöfn báru mjaltarkonur og aðrar slíkar vinnukonur. Ein og ein “maddama” bar gæfu til að bera þessi nöfn. Á tímabili leiddist mér nafn mitt svo að ég bjó mér til gælunöfn sem ekki lifðu, og ég nefni ekki hér. Síðar tók ég nafn mitt í fullkomna sátt, sérstaklega eftir að ég uppgötvaði að langamma mín sem ég var skírð í höfuðið á, átti sama afmælisdag og ég.  Svo upplifði ég hið ótrúlega, Dóra vinkona mín í gegnum nuddnám og sambýli á Englandi eignaðist sitt fyrsta barn,stúlku. Þetta var árið 2000, hún sendi mér e-mail og sagði mér að prinsessan ætti að heita Edda Kristín, eftir móðursystur sinni og mér. Tilfinningin var ótrúleg,mig langaði að hlaupa út og hrópa tíðindin út yfir heiminn.

Síðan eignast ég fyrstu sonar dótturina 3.júlí s.l. og hún fékk nafnið Tara Kristín Bergmann. Það er bara ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu. Og það sem meira er,móðir Siggu Rúnu  hans Daníels, heitir Kristín að seinna nafni svo þetta tengir okkur enn nær sem vinkonur.

Fleiri barnsfæðingar.

Þórður bróðir minn og Kristín mágkona hafa eignast tvö barnabörn á hálfu ári og það þriðja væntanlegt í lok febrúar. Fyrst kom drengur Andri Þór, síðan daman Dúa Kristín sem ber nafn beggja ömmu sinna.

Svo niðurstaðan er sú að nafnið Kristín er sígilt, falleg og hverri snót heiður að bera.

Skrif um stjórnmál verða að bíða. Og vonandi fá ég viðbrögð við þeim,

Takk öllum sem heimsótt hafa bloggið þó þið hafið ekki öll kvitað fyrir.

Góða nótt 

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Vetur á Benidorm

Hér sit ég við Miðjarðarhafið, sunnudagur og allir í afslöppun. Veturinn heimsótti okkur í vikunni með rigningu og hrapandi hitasitgi. Sl. sunnudag var 26C og sól, í dag grár himinn og 11C. Svona er nú veturinn hér en vonandi stoppar hann stutt. Hitinn fór til Íslands held ég bara. Annars er ég búin að fara út og tína tómata í salatið og dást að blómunum mínum og trjánum sem allt er í blóma. Þetta er sá tími þegar plönturnar eru hvað fallegastar og litadýrðin á terrasinu okkar stórkostleg.

Eitt af þeim málum sem tekið hafa mest pláss í fréttum þessa viku er hriðjuverkamaður ETA sem setið hefur í fangelsi 18 ár fyrir morð á 25 manns ásamt fleiri glæpum sem hann hefur á samviskunni. Hann var á sínum tíma dæmdur í 3000 ára fangelsi,já 3000 ár, en nú finnst þessum náunga að hann sé búin að sitja nógu lengi innilokaður og vill út. Hann fór í hungurverkfall sem staðið hefur í tvo mánuði og leitt til þess að hann er nú á sjúkurahúsi. En…yfirvöld kölluðu saman 17 dómara til að skoða mál hans og ákveða hvort hann mætti vera heima hjá fjölskyldu sinni þar til hann nær heilsu á ný. Allir stóðu á öndinni og biðu dómsúrskurðar sem var á þá leið að hann skildi ekki út. Hefði dómur fallið á annan veg hvað værum við þá að kalla yfir okkur? Allir fangelsaðir ETA menn og konur sem færu í hungurverkfall til að komast undan refsingu.

Annars eru allir þokkalega kátir,75% af landsmönnum eru misilla innilokaðir vegna snjóa,börnin komast ekki í skóla og á mörgum stöðum eru gömlu góðu keðjurnar komnar í lög. Þeir sem hætta sér út á bílnum án keðja eiga sekt yfir höfði sér. Annars er þetta ekkert grín, margir,allt of margir hafa látist í umferðarslysum þessa viku.

Gabriel er að sofa “siestu” og það fer að koma að því að ég veki hann reyni að fá hann til að hjálpa mér með breytingar í einu af herbergjunum. Við erum að koma okkur upp skrifstofu aðstöðu, það hefur tekið ótrúlega langan tíma en nú sér fyrir endann á verkinu, þ.e. ef síestunni líkur fljótlega. Það er ófært að vera alltaf með tölvuna á borðstofuborðinu.

Fært undir Blogg. 5 ummæli »

Hvað er efst á baugi í dag?

Ég fór að lesa blogg á mbl.is og eins og alltaf kenndi þar ýmissa grasa. HVAÐ? eru menn enn að nota hálfnakta kvenmannslíkama til að auglýsa vörur? heimur versnandi fer.

Flugleiðir halda uppteknum hætti og byggja auglýsingar sínar erlendis upp á skemmtanalífi landsmanna og augljóslega fylgja konur pakkanum.

Og þetta á 100 ára afmælisdegi Kvennréttindafélagsins.

Ég þarf að hugsa þetta betur. Ætla út að versla og verð kanske skýrari í kollinum á eftir.

Fært undir Blogg. Engin ummæli »