Helgin búin.

Jæja þá er helgin að vera búin, sunnudagskvöld og komið að svefntíma. Við höfum haft góða en annasama helgi. Félagslífið blómstrað. Í gær borðuðum við með vinum okkar óvenju seint, hádegismatur kl. rúmlega 16.00. Venjulega borðum við hann milli 14,00 og 15,00. Síðan vorum við boðin við opnun veitngastaðar í Albir, íslensk vinkona okkar að opna Mexikanskan stað. Í dag voru það heimilisverkin,skrifstofuvinna og svo skelltum við okkur í bíó, sáum mjög góða mynd sem á íslensku myndi heita Sjónhverfingarmaðurinn, eða El Ilusionista, mynd sem er fræg og gerist í Austurríki fyrir löngu. Síðan fengum við okkur pasta á góðum ítölskum veitingastað.                       

Ég hef auðvitað fylgst með því sem er að gerast á Íslandi og hjá bloggurum eru heitar umræður um “klámráðstefnu” sem  haldin verður í byrjun mars. Ég ætti auðvitað að aflýsa ferð minni í mótmælakini, en hef þó tekið ákvörðun um að láta þessa samkomu ekki trufla heimsókn mína. Ég hef reyndar mjög sterkar skoðanir á þessum málum, en er löngu búin að læra að það eru mörg sjónarhorn sem ber að virða og því hættulegt að alhæfa. Gleymum ekki að þó það sé óhuggulega mikið af mannsali og mafíustarfsemi í þessum iðnaði, þá er líka fólk sem vinnur við þetta eingöngu fyrir ánægjuna og peninga. Ótrúlegt en satt.

Langar einhvern í gælumús??? Daníel og frú vöknuðu nótt eina um daginn við mikinn atgang í húsinu. Var þá ekki komin inn húsamús lítil og sæt. Heimiliskötturinn sem fæddur er og uppalinn í borginni vissi ekki hvað hann átti að gera við þetta litla kríli og áleit músina leikfang. Daníel bjó um ósærða músina í pappakassa þar sem hún fær mat og ástúð, nú vita þau ekki hvað ber að gera, ekki lifir hún úti í kuldanum í Stykkishólmi og myndi því leita aftur inn í þeirra hús eða annarra. Svo spurnigin stendur, langar einhvern í gælumús? Áhugasamir gefi sig fram við mig.                                            

Nú stefni ég á rúmmið því það er annasöm vika framundan og svo er ég komin til Íslands eftir 10 daga. ÚPS… 

Fært undir Blogg. 2 ummæli »

Lítill frændi

Helstu fréttir dagsins í dag eru þær að Ingvi Björn bróðursonur minn og unnusta hans hún Karen eignuðust lítin dreng í morgun. Hann er þriðja barnabarn Þórðar og Kristínr á hálfu ári. Samhentir bræður á þeim bæ. Og mamma búin að fá fjögur langömmu börn á innan við ári. Mikið verður gaman að koma og hitta allt þetta litla fólk.  Annars er ég eitthvað andlaus í dag, hef haft mjög mikið að gera við þýðingar í tvo daga. Það er ný vefsíða að fara í loftið svo álagið er töluvert.

Hei. Strákarnir voru að kalla á mig í pásu niður á bar, svo ég er bara farin.  

Komin af barnum og búið að skála fyrir nýjum frænda og foreldrum hans.  Ég ætla að halda áfram að vinna þar til Gabriel kemur úr skólanum eftir ca.klukkutíma. 

Hafið gott kvöld.

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Valentínusardagur

Gleðilegan Valentínusardag.

Ég ætla ekki að þreyta ykkur með sögu dýrlingsins, kanske geri ég það á morgun. En við hjónin erum í vinnunni, hann að læra fyrir morgundaginn og ég að blogga.

Þegar Gabriel er búin með línuritið sem hann vinnur að ætlum við í rómantískan kvöldverð, vonandi að það verði fljótlega því ég hef bara fengið einn banana í dag.

Njótið kvöldsins og hvers annars.

   

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Tíska og fatanúmer.

Ég veit að ég bloggaði í dag, en nú er ég ein heima (bóndinn á fundi) og mundi að ég ætlaði að vera búin að segja ykkur hvað ég er stolt af Spánverjum þessa dagana. Í oktober s.l. þegar tískusýningarnar voru í Madrid og Barcelona, var ákveðið að setja reglur um þyngd sýningarstúlkna. Kom þetta í kjölfar mikilla umfjöllunar um heilsufar þeirra svo og dauðsfalla af völdum átröskunar. Þessu var vel tekið og fleiri þjóðir gerðu eins. En nú hafa Spánverjar tekið stærra skref. Eftir áramótin var samþykkt reglugerð sem krefst þess að sýningarfólk nái ákveðnum líkams stuðli til að fá að ganga plankana. Sama reglugerð bannaði stúlkum undir 14 ára aldri að vinna sem sýningarstúlkur á sýningum tískuhúsanna og undir 16 ára mega ekki vinna eftir miðnætti. Það sem meira er, í landi vínmenningar er bannað að hafa vín þar sem stúlkurnar/drengirnir halda til og skipta um föt. Nú má eingöngu hafa ávaxtadrykki og hollt snakk. Allir vita jú að kampavín hefur verið orkudrykkur þessa fólks í gegnum árin. Heimildir um það má m.a. finna í bók Maríu Guðmundsdóttur fyrrum fegurðardrottningar. En Spánverjar létu þetta ekki duga, ef grunur leikur um að sýningarstúlka sé haldin átröskun skal henni strax vera komið til hjálpar, þetta er á ábyrgð umboðs skrifstofanna. OG áfram hélt það. Nú er öllum fataframleiðendum skilt að fara eftir stöðluðum stærðum(eins og í gamla daga) 38 er 38 en ekki eins og verið hefur að hægt var að skjóta sér á bak við ítalskar, franskar…stærðir, eftir allt er lítill sem enginn munur á konum þessara landa. Allar gínur tískuvöruverslananna skulu vera í stærð 38. Nú er stór tískusýning í Madrid og hefur sjónvarpið verið að tala við tískuhönnuði ofl. um þessar reglur. Það gleðilega er að allir hafa líst yfir ánægju með að kominn sé “stuðull”. Sama gerðist þegar reglugerðin var samþykkt, fataframleiðendur glöddust og sendu frá sér tilkynningu þar sem þessu var fagnað. Svo vonandi verður farið að taka betur á þessum málum.                             Að ég svo tali nú ekki um líta-aðgerðirnar. En sleppum því, hver veit nema ég eigi eftir að fara í lyftingu og allt í lagi með það því ég er ekki lengur undir 30. Læt ykkur vita ef af verður.

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Hamingja.

Þriðjudagur og ég vaknaði við fuglasöng. Glugginn við rúmmið mitt stóð opinn og hlýr andblær barst inn. Ég hafði vaknað um miðja nótt til að opna gluggann, allt of heitt inni. Þetta hefur verið ótrúlegur vetur, tvær vikur með rigningu og svala. Þetta á við hér á Benidorm, annars staðar á landinu hefur fólk fundið meir fyrir vetri. Ég læt klukkuna hringja kl.07,00 og hef því leyfi til að liggja og hlusta á fuglana og gjálfur hafsins í hálf tíma áður en ég fer á fætur. Í morgun varð mér hugsað til setningar sem ég las fyrir stuttu,

Engin af skyldum okkar er jafn vanrækt og skylda okkar til að vera hamingjusöm”.

Robert Louis Stevenson (fæddur 13. nóvember 1850, dáinn 3. desember 1894) skoskur rithöfundur.

Mikið er þetta rétt. Við gleymum allt of oft hvað gerir okkur hamingjusöm, og að vinna að hamingjunni. Að vakna við fuglasöng og sjávarnið, að ganga um febrúar-dag eins og í dag, sólin skýn og hitinn er 23C. Fólk á ströndinni og ferðamenn ganga um berir að ofan. Heilsan í lagi og fjölskylda og vinir á Íslandi bíða eftir mér!!! Hvílík hamingja. 

En hamingjan er hverful, af og til víkur hún fyrir systur sinni, óhamingju. Við erum þess svo meðvituð hér á Spáni þessa dagana. Ég sagði frá því í bloggi  hér um daginn að yngsta systir erfðaprinsessunnar okkar hefði dáið rétt rúmlega þrítug. Hún lét eftir sig 6 ára dóttur. Dánarorsök var sú að hún tók inn stóran skammtaf af geð og deyfilyfjum. Slíkt hlýtur að vera hverri fjölskyldu mikill harmur, en kanske enn stærri þegar um er að ræða fjölskyldu eins og konungsfjölskylduna. Við búum jú í kaþólsku landi þar sem bannað er að gefa kirkjulega athöfn yfir þeim sem taka líf sitt og það er líka bannað að jarða viðkomandi í vígðri mold. Unga konan var kvödd í líkhúsinu þar sem eru kapellur og fékk síðan legu á landareign ömmu sinnar og afa í Asturias. Öll þjóðin hefur vitanlega fylgst með þessa viku og mikið hefur verið lagt á fjölskylduna. Beinar útsendingar og blaðaskrif. Í allri þessari óhamingju hefur fjölskyldan þó ljós að horfa til. Ungu ríkiserfingjarnir eiga von á dóttur númer tvö í maí.

Kosningaslagurinn fyrir bæjarstjórnar kostingarnar í maí hófst opinberlega í gær með byrtingu framboðslista flokkanna. Ég hef verið viðriðin málefni útlendinga búsettra hér og hef nú ákveðið að taka mun meiri þátt í bæjar pólitíkinni en áður. Er þó ekki á framboðslista.

Annars er lífið bara dásamlegt hjá okkur, megrun okkar hjónanna gengur vonum framar og við klæðumst björtum litum.

Takk fyrir góðar hvatningar því mér finnst gaman að vera í návígi við heimaslóðirnar á þennan hátt.

Eina sorg mín í dag er að Hrafn Jökulsson er hættur að blogga. Ástin tók völdin í lífi hans. En ég mun jafna mig og samgleðst honum auðvitað. 

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Laugardagskvöld.

Sæl öll sömul.

Ég sé á heimsóknum á bloggið mitt í dag það sem ég óttaðist. Engin nennir að eyða frítíma í heimókn,geymið það þar til þið mætið í vinnuna á mánudaginn. Sussum svei… Eins gott að atvinnuveitandinn viti ekki af því hvað þið gerið í vinnutímanum.

Héðan er það helst að frétta að veturinn kom og fór. Í dag var 24C og spáð hækkandi hitastigi. Annars fengum við ofsa rok í nær tvo sólarhringa, Gabriel þurfti að fara upp úr rúmminu um miðja nótt og bjarga hlutum sem voru á ferð og flugi á veröndinni okkar. Það var þó ekki eins mikið og hefði geta orðið því ég hafði fyrr um dginn tekið postulíns og leir diska ofl. niður af veggjum þar sem farið var að hvessa verulega,meir að segja voru tómatarnir farnir að detta/fjúka af plöntunum. Svo kom hitinn í kjölfarið. Eina vandamálið við svona vetur er að maður veit aldrei hvernig ber að klæða sig. Fyrst á morgnanna getur verið svalt svo maður fer í sokkabuxur undir síðbuxurnar, stuttermabol undir þykka peysu,jakka eða jafnvel úlpu. Um hádegi er maður síðan að gefa upp öndina af öllum þessum klæðnaði. Sumrin eru betri að því leiti að maður fer eins lítið klæddur út á morgnanna og mögulegt er því við vitum jú hvað verður heitt.  En úlpuna mína nýju kem ég með til Íslands, hárauð með pallíettum og semiliu-steinum.

Alltaf jafn gaman að fyllgjast með pólitík á Íslandi að ég tali nú ekki um hrillinginn sem maður les á mbl.is. Meðferðar og betrunar stofnanir sem eftir lýsingum að dæma gætu allt eins verið fangabúðir í stríðshráðum löndum. Og  það sem tók nú steininn úr í fréttum vikunnar. Ungur maður dæmdur fyrir morðtiraun, hafði nálgast einstaklinga á netinu af því hann langað svo að drepa mann!!!!!! Ekki veit ég hvernig foreldrar og aðrir umjónarmenn barna og ungmenna eru vöruð við netinu á Íslandi, en það get ég sagt ykkur að hér eru geysi sterkar sjónvarps auglýsingar sem ætlaðar eru til að vekja fólk til umhugsunar um það sem fram fer á netinu.

Við hjónakorninn keyptum okkur 32″ plasma sjónvarp í dag. Ekkert smá flott. “Gamla”sjónvarpið var hætt að vilja sýna okkur DVD myndir. Við keyptum líka sérstakt apparat, lítið box, sem búið er að finna út að íbúar Villa Marina þurfa svo þeir geti horft á sjónvarp svo vel sé. Það er svo mikið af fjarstýringum sem fylgja að Gabriel tekur varla siesta næstu viku,hann verður upptekinn í að læra á tæknina. Við sáum 4 stöðvar í gær,í dag sjáum við 17+leikja prógram. Ég er að hugsa um að stofna saumaklúbb, þannig hef ég þó einhvern til að tala við. Þetta er ekki brandari. Saumaklúbbar eru besta uppfinning sem ég þekki. Örugglega miklu betri en kvennfélög. Ég er stolt af því að tilheyra enn tveim saumaklúbbum á Íslandi þrátt fyrir 14 ára fjarveru+svo auðvitð uglunum sem er mjög sérstakur klúbbur. En klúbbarnir mínir eru orðnir gamlir, sá eldri (kjarninn) 39 ára og hinn 35 ára. Uglurnar sem stofnaðar voru í kjölfar námskeiðs 15 Íslendinga til norður Svíþjóðar og finnska lapplands 1987 að mig minnir. Sem gerir okkur 20 ára. Við erum 5 mjög klárar konur sem skemmtum okkur vel saman þegar við hittumst. Þetta vantar mig hér, klúbb kvenna sem hægt er að fara með í leikhús, verslanir og  þannig. Hér eigum við fullt af kunningjum sem við borðum með úti og þar er mjög gaman. En mig vantar þennan “kontakt” við konur sem eru tilbúnar að eyða saman kvöldstund við prjóna eða spjall, nú eða faraí leikhús. Hér er lífið bara svo mikið öðruvísi en mjög kermmtilegt engu að síður.

Ég hringdi í íþróttaálfinn Óskar Marinó í vköld en hann var ekki heima. Ég ætlaði að segja honum að nú er komin Sureman mjólk,og Mikka mús mjólkí búðir hér, það er líka komið ýmislegt annað til að hvetja börn til hollra matarvenja. Skildi íslenski íþróttaálfurinn hafa haft þessi áhrif???

Þar sem sonarsonurinn ÓM var ekki til staðar hringdi ég í sonardótturina og saung fyrir hana litla lagið sem við eigum saman. Það er sama lag og við Óskar Marinó áttum og eigum, lagið sem segir börnunum hver er í símanum. Lagið sem þau vonandi mynnast þegar þau stækka.

Ég gæti skrifað mikið meir, en Gaui sonur minn sagði um daginn að ég mætti ekki skrifa of langt mál því þá nennti engin að lesa það. Hefur einhver skoðun á því????

Á morgun förum við á uppáhalds veitngastaðinn okkar í Alicante að borða hádegismat með enskum vinum okkar sem eiga hér hús. Við munum borða hrísgrjóna súpu með fullt af fiski og sjávardýrum. Himneskt.

Hlakka til að heyra frá ykkur öllum.

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Ráðhúsið

Fimmtudagur og ég sit fyrir framan Ráðhúsið eins og alltf þegar ég er við tölvuna á skrifstofunni. Þórey svaraði skrifum mínum í gær og spurði hvort það, Ráðhúsið væri ekki ljót bygging. Gaui hefði sagt sér það þegar verið var að byggja húsið. Nei,þetta er hin skemmtilegasta bygging, reyndar finnst mér það fallegt. Það hefur bara einn galla sem er að sólin endurkastast frá gluggum þess í augun á mér fyrst á morgnanna. Við  hér á Benidorm vorum mjög ósátt við þessa byggingu í upphafi, aðallega þar sem hún er staðsett í stærsta skrúðgarðinum hér og fólki fannst skömm af því að taka svo stóran hluta garðsins undir þetta minninsmerki borgarstjóra. Nú eru allir sáttir og glaðir með glerhöllina. Garðurinn er góður fyrir minnismerki, hljómleikasvæðið í garðinum heitir eftir Julio Iglesias og þarna má finna minnisvarða af ýmsum toga.

Annars er ég hálf döpur.  Æskuvinur minn lést um daginn, sem mér finnst óréttlátt, við erum enn svo ung. Síðan var spænska þjóðin slegin í gær þegar fréttir bárust af því að yngsta systir erfðaprinsessunnar okkar hefði fundist látin á heimili sínu aðeins 32 ára. Nú bíðum við öll eftir formlegri tilkynningu frá hirðinni um dánarorsök. Svo var í fréttum í morgun að kona var myrt í gær af fyrrum sambýlismanni sínum, var það 8 konan á  árinu sem er rétt að byrja.

En lítil vinkona okkar á eins árs afmæli í dag. Til hamingju Katla mín.

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Hugleiðing á sólardegi.

Miðvikudagur og sólin skýn. Hitamælar sýndu 18C þegar við fórum til vinnu í morgun.

Ráðhúsið okkar fallega (minnisvarði hægrimanna) er baðað sól og fánarnir sem þar eru fyrir utan blakta mjúklega. Þeir verða enn á sínum stað þegar vinstri menn sigra borgina í maí. Nú þykir nokkuð ljóst að PSOE, sosiallista flokkurinn muni vinna. Þá verður kátt í höllinni. En hófleg bjartsýni borgar sig, svo ég er ekki farin að kæla kampavínið.

Fanginn sem ég sagði ykkur frá um daginn, liggur nú bundin í rúmmið og nærður með slöngum. Þó auðvitað yrði ódýrara að láta hann deyja þá er það ekki fallega gert. Hann fær þó mannúðlega meðferð, eftir að hafa tekið líf  25 manns.

Ég keypti mér kjól í gær fyrir fermingu Hjörleifs frænda míns. Hann verður fermdur 25.mars og ætla ég að heiðra hann með nærveru minni. Kem til landsins 1.mars og fer til baka 26.mars. Mikið verður gaman að sjá alla, unga og gamla. Það hefur fjölgað  svo í fjölskyldunni sl. ár.

Nú ætla ég að skreppa í kaffi. Setjast út í sólina og horfa á mannfólkið.    

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Sunnudagur og enn rignir.

Þá er komin sunnudagur og ný vika að hefjast. Hér rignir enn, reyndar bara það sem á íslensku heitir úði, en blautt engu að síðu. Sama spá á morgun. Ég er enn ekki farin að fá Binna til að hjálpa mér að setja inn mynir af barnabörnunum en það verður á næstu dögum. Ég er með svo dásamlegar myndir af þeim.

Gummi minn svaraði skrifum mínum um stjórnmál og biður mig lengst allra orða að skipta mér ekki af stjórnmálum á Íslandi þar sem ég sé svo löngu burtflogin. Ég get að mörgu leiti skilið rök hans og gæti hugsanlega tekið þau til greina. Annars er mér bara ekki sama við hvaða kjör barnabörnin mín alast upp við. Og mér finnst tími til komin að Íslendingar fari að vernda þetta stórkostlega fallega land sitt. Nógu illa fara önnur lönd með síðar auðlindir. Nóg um það.

Við hjónin áttum dásamlegan dag í gær. Gabriel kom frá Madrid í fyrrakvöld og í gærmorgun stakk hann upp á að við eyddum deginum í Alicante??? Ég greip tækifærið, við höfðum jú ætlað á útsöluna hjá El Cort Inglés, sem er stórt magasin, eins og Selfridges ofl. Við byrjuðum á því að borða hádegismat og síðan hófst gangan um verslarninar, þær eru þrjár við sömu götu. Héldum svo heim undir kvöld með fulla poka af fatnaði ofl. Fórum m.a. í “Gourmate” deildina þar sem við keyptum lúxusvörur eins og kaffibaunir fyrir kaffivélina sem við fengum í jólagjöf. Það er engin smá vél. Hún malar baunirnar fyrir hvern bolla og svo er bara hægt að biðja um það sem hugurinn girnist. Allt sem þarf að gera er að setja bollan á sinn stað og ýta svo á takka, vilji menn hins vegar cappochino þarf að hita og freyða mjólkina með sérstöku apparati, en það er nú engin vinna. Í sömu deild keyptum við líka ólívu olíu, sér valda eftir kúnstarinnar reglum og hún er pökkuð í fallega járn “dós” eins og fínt áfengi. Það fylgir í boxinu sérstakur tappi sem setja á í flöskuna eftir að hún hefur verið opnuð. Bara eins og flottasta koníak. Mér var hugsað til þessarar olíu í morgun þegar ég helti extra virgin olíu yfir brauðið mitt. Þið vitið kanske ekki að hér er ekki notað smjör, við hellum ólífuolíu yfir brauðið, enn ein ástæða þess hvað hjarta og kransæða sjúkdómar eru í lágu hlutfalli hér. En olían fína sem við keyptum í gær fer með mér til Íslands þar sem ég ætla að gefa hana.

Gabriel eldaði í hádeginu í dag einn af mínum uppáhaldsréttum, upprunnum í Alcoy, hans heimabæ. Drukkum gott rauðvín með. En áður en við settumst við mtarborðið kláruðum við loks herbergið sem ég hef áður minnst á og beðið hefur síðan ég kom frá Kanari. Svo var bara að horfa á sjónvarpið eftir matinn. Spánverjar eru svo skemmtilegir, þ.e. sjónvarps stöðvarnar, þeir eru alltaf með tvær bíómyndir á sunnudags eftirmiðdögum.  Svo “heima er best” hefur verið okkar í dag.

Datt í hug að deila með ykur einu af mínum heilræðum, auðvitað fengið lánað frá útlenskri konu, en sígilt.

Fortíðinni færðu ekki breytt, en daginn í dag geturðu eyðilagt með áhyggjum af framtíðinni.

Gleðilega vinnuviku.

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Tæknin og ég.

Er búin að eyða löngum tíma í að reyna að setja myndir inn á síðuna, árangurslaust. Bíð eftir Binna til að hjálpa mér seinna í dag.

Fært undir Blogg. Engin ummæli »