Seinna á skírdagsmorgun.

Nú er kl.11.30 og ég komin aftur á skrifstofuna. Fórí bankann og búðir eftir morgunkaffið og ég fór gangandi. Undirbúin fyrir rigningu í úlpu. Kom til baka í svitabaði því sólin hellir geislum sínum yfir okkur. Þó það sé skírdagur er allt opið, opinberar skrifstofur sem annað. Þó er mun rólegra yfir öllu heldur en á venjulegum degi, nema auðvitað matvöruverslunum, þar er fjör. Ég gekk í gegnum farðinn fallega sem liggur upp frá ráðhúsinu í úlpunni með skjalatöskuna og tvo þunga poka í hvorri hendi. Fullt af fólki með eða án barna í garðinum, enda er hann unaðsreitur. Bílar með hljóðnema keyra um göturnar til og reyna að æsa okkur öll upp í að mæta á nautaatið á morgun. Þeir hafa hærra en venjulega því það er ekki á hverju sumri að nautabani úr frægustu nautabana fjölskyldu Spánar sést hér, að ég tali nú ekki um þann sem hér verður á morgun. Hann er sem sagt frægastur af þrem bræðrum sem koma úr frægum nautabana fjölskyldum í báðar ættir. Svo var hann giftur greifynju frá Malaga og á með henni dóttur en þau skildu. Nú er hann með náfrænku fyrri konunar en sú hefur ekki jafn háan titil, en best að halda sig innan sömu fjölskyldu. Öll slúðurblöð á Spáni hafa sérstakt dálæti á drengnum og því sem hann tekur sér fyrir hendur, og trúlega er þessi mikli áhugi til komin því hann segir aldrei mikið og hvílir því leynd yfir ástarmálum hans, samskiptum við fyrri konuna ofl. En hann er örugglega fallegasti maður sem gengur á jörðinni. Ég er búin að fá plagatið sem auglýsir morgundaginn, þar er auðvitað mynd af honum, en ég ætla ekki að hengja það upp í svefnherberginu heldur fer það til Íslands til vinar míns sem er að skrifa bók þar sem nautaöt koma m.a. við sögu. Hafið þið nokkurn tíma hugsað út í það hvað allir nautabanar virðast vera fallegir menn? Það er bara ótrúlegt. 

Þetta er í eina skiptið sem ég vona að nautið tapi, annars óska ég þeim alltaf sigurs.

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Skírdagur

Skírdagsmorgunn, sólin skýn en það er búið að spá rigningu. Fólk hefur verið að flykkjast í páskafrí. Sl.sólarhring hafa 48 manns dáið í bílslysum og er það heldur færra en á sama degi í fyrra en þá dóu 56. Um síðustu helgi, Pálmasunnudags helgina dóu 69.Þetta eru svo skelfilegar tölur að maður skilur ekki hvernig þetta er hægt. Hraðakstur og meiri hraðakstur, svo hjálpar aldrei til ef rignir.

Ég er að ath. með hótelgistingar í Madrid, við erum að fara þangað í langa helgi hjónin með enskum vinum okkar, í maí. Þá ætlumvið m.a. að borða á Íslenskum veitingastað sem er komin í hóp þeirra bestu í höfuðborginni. Staðurinn er í eigu Íslendings en kokkurinn er spænskur. En áður en af þessari ferð verður förum við í brúðkaup í Zumarraga sem er í Baskalandi. Það er nú bara um næstu helgi, förum þann 13.april (8 tíma keyrsla) brúðkaupið þann 14. svo erum við að hugsa um að taka 3 daga þar á eftir og fara til Sansebastian. Það er svo fallegt í Baskalandi og þó við séum búin að sjá góðan hluta af því þá er mikið eftir. Og maturinn þar fyrir norðan!!!!! 

Annars er það bara vinna og vinna, þatta er alltaf stór helgi hjá okkur Páskarnir. Benidorm full af Spánverjum í fríi. Það er mjög góð verkaskipting í fyrirtækinu þannig að allir fá eitthvað frí. Í dag Skírdag erum við með skrifstofuna opna og það eru líka bankar og verslanir, en þetta er samt öðruvísi dagur.

Nú ætlum við í kaffi.

Gleðilega páska.

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Sól og sumar.

Jæja, þá erum við búin að hafa sumarveður í tvo heita sólríka daga. Á sunnudaginn var borðuðum við Gabriel á ströndinni í góðu veðri en ekki í líkingu við það sem nú er. Svo páskarnir eru planaðir í sólbað og smá vinnu.

Ég átti mjög góðan tíma á Íslandi. Var hjá Gumma og fjölskyldu nokkra daga, í Stykkishólmi hjá Daníel og fjölsk. einnig í nokkra daga, að öðru leiti gisti ég hjá mömmu. Eina helgi fór ég ásamt uglum (hressum vinkonum,ekki fuglum) í Ölvusborgir. Þar áttum við stórkostlega helgi, gengum í fjallinu ofan við bústaðina og til Hveragerðis, borðuðum og drukkum vel. Að svo ógleymdri árshátíð okkar sem við héldum á laugardagskvöldinu. Það var sko alvöru árshátíð, uglur klæddar í jólafötin og eftir að hafa borðað margréttaða máltíð var dansað fram eftir nóttu. Héldum svo þreyttar til höfuðborgarinnar eftir hádegi á sunnudeginum.

Ég hitti líka mikið af vinum sem marga hverja ég hef ekki hitt lengi. Veisluhöldin voru mikil, fyrst skírnarveisla hjá Valtýr frænda mínum svo fermingarveisla hjá Siggu systir. Hjörleifur yngsta systkynabarn mitt var fermdur og haldin ver vegleg veisla.

Mér þótti stórkostlegt að vera í Stykkishólmi þó ég hafi verið veik meðan ég var þar, komst þó út að ganga með Siggu Rúnu og Töru Kristínu einn stórkostlega fallegan dag, nýfallinn snjór og blanka logn. Það er svo fallegt í Hólminum og útsýnið úr stofunni hjá krökkunum er slíkt að maður getur setið við gluggan allan daginn og látið sig dreyma.

Það eina sem ég get kvartað yfir er veðrið, en hver er hissa á því. Ég bara skil ekki hvernig þið getið búið við þetta. Og þó! Alltaf kemur maður með aukna orku eftir að hafa farið út á land og komis í beina snertingu við náttúruna.

Nú er ég að aðstoða 7 manna hóp Spánverja sem eru að fara til Íslands í júní og hlakka mikið til. Mjög skemmtilegt verkefni.

Farin í kaffi. 

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Sólin komin.

Jæja, rigningarmet var slegið, ekki gerst í áratugi að rignt hefur á Benidorm samfleitt í rúman sólarhring. Venjulega erum við afgreidd á hámark einum-tveim tímum. Gabriel lísti þessu eins og sumar rigningu á Íslandi því það var hlýtt. En mikið er gott að sjá sólina aftur. Annars er stórkostlegur atburður frammundan, 6. apríl verður hér nautaat sem er ekkert nýtt, en einn af nautabönunum sem mun kvelja naut er sá frægasti, mest sexý og umtalaðasti á Spáni. Hann er svo fallegur að það liggur við að ég mæti til að komast í návígi við drenginn!!!og er þá mikið sagt. Ég og nautaöt eigum ekki vel saman.             

Annars er ég að ná mér eftir heimferðina. Aldrei skal ég ferðast nema í beinu flugi til Íslands aftur. Hvílíkt! Byrjaði í Keflavík í inntjekki hjá Iceland Express. Ég var með 3 kíló yfirvikt, elskuleg stúlka sem tékkaði inn sagði mér að þeir rukkuðu fyrir hvert kíló, það væri nú annað að tékka inn fyrir Flugleiði, þar hefði ég flogið inn með 8 kg. Alla vega, hún spurði hvort ég gæti ekki létt á töskunni með því að setja eitthvað í handfarangur. Nei, það gat ég ekki af því ég var að fara í tengiflug. Svo á endanum tók ég eina af handtöskunum sem ég kom með og setti tvenn pör af skóm þar í ásamt litlum pakka sem mér hafði verið gefið, þetta reyndust tvö kg. þannig að hún sleppti mér með eina kílóið í yfirvigt. Daníel keyrði mig til Kef. og var svo elskulegur að koma með mér inn þannig að hann tók töskuna með sér til baka. Síðan er þá að reyna að koma henni með einhverjum sem á leið hingað í sumar. Flugið til Stansted gekk vel nema hvað ég svaf ekki eins og ég hafði ætlað. Þegar þangað kom tók við 8 tíma bið þar til ég komst í loftið á ný. Vitandi að ég gæti aðeins haft eina ferðatösku í flugi með Easy Jet (reyndar má maður hafa aðra en verður þá að borga fyrir hana) var ég bara með eina og minnstu gerð af flugfreyjutösku sem handfarangur svo og dömutöskuna sem hafði að geyma snyrtibudduna, peninga og annað smáræði sem þó er nauðsynlegt hverri dömu. Loks kom að því að ég gæti tékkað inn og gekk það allt vel fyrir sig, ég var jú bara með 1kg. í yfirvigt. Glöð hélt ég að stað í vopnaleitina en áður en mér tókst að komast svo langt var ég stoppuð af tveim ungum mönnum sem höfðu þann starfa að fylgjast með ferðalöngum á leið inn í flughöfnina. Madam, þú ert með TVÆR töskur, sagði annar, Ég veit það fullvel svaraði ég, enda var ég búin að vera með þessar töskur í 12 tíma. Já, en þú mátt bara hafa eina sagði drengurinn. Ég mótmælti því, þóttist vita betur, ég hef jú unnið við að tjekka inn Íslendinga í fleiri ár og þeir eru með handfarangur skal ég segja ykkur. Allt sem ég sagði endurtók hann við félaga sinn. Svei mér ef þessi hefur náð leikskólaprófi. Nú var farið að síga í mig, ég sem sagt varð að tjekka inn aðra hvora töskuna, handtaskan varð að fyllgja mér, hin hafði að geyma páskaegg og annað brothætt sem mér stóð sko ekki á sama um. Að lokum gafst ég upp, reglurnar höfðu verið settar fyrir 4 mánuðum sagði snillingurinn, þær virtust þó ekki vera í gildi þegar ég fór frá Stansted tæpum mánuði fyrr. Skokkaði til baka til að innrita páksaeggjatöskuna og borga fyrir það 10 pund sem mér var svo sem sama um, en ekki að hugsa til töskunnar kastað fram og til baka. Svaf svo alla leiðina heim. Er enn hundfúl út í geðþótta reglur sem farið er eftir af og til. Eitt páskaegg brotnaði svo ég er glöð með það því engu var pakkað í þessa “mini” tösku með það í huga að hún lenti í “belly” á flugvél. Sem sagt, aldrei í tengiflug ef ég kemst hjá því.

Verð skemmtilegri á morgun, lofa því.

Góða helgi öll.

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Endalaus rigning.

Þá er ég búin að vera heima í 2 daga,sá þriðji að hefjast. Það hefur rignt nær stanslaust síðan ég kom, reyndar verið hlýtt. Í dag er spáð 20C en rigningin er hundleiðinleg. Fékk sem sagt nóg af henni á Íslandi. Svo töpuðu Íslendingar fyrir Spánverjum í fótboltanum á rennblautum velli, nánar eins og tjörn, í gærkveldi. Hundfúlt. Ég var bjartsýn og sagði að völlurinn kæmi Ísl. til góða því þeir væru svo vanir að leika í rigningu sem veslings Spánverjarnir eru ekki. En,nei það gekk ekki upp. Maður leiksins var tvímælalaust markmaður Ísl. Fréttamenn spænska sjónvarpsins gátu ekki hætt að hrósa snilld drengsins, sem hann átti 100% skilið. Svo ég byrja daginn frekar neikvæð sem auðvitað gengur ekki, síst fyrir tvíbura.

Hér sit ég á sloppnum og sötra tebolla númer tvö. Komin tími til að taka næsta skref, koma sér í föt og vinna hér heima fram undir hádegi lalla síðan á skrifstofuna. Eins og ég hef lofað mun ég blogga um Íslandsferðina, ég bara hef ekki haft tíma. Bý hann til á næsta sólarhring. Ég hef verið að læra markmiðssetningu og hvernig maður á að ná markmiðum sínum svo nú er Íslands blogg markmið næstu 24 tíma. Hvernig ég nálgast það verður svo minn skóli. Eigið góðan dag!!! 

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Komin heim!!!

Þetta er prufa til að sjá hvort búið er að loka á mig því ég hef ekki bloggað í mánuð.

Saga Íslandsferðarinnar kemur í kjölfarið.  

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

2 dagar.

Ekki hef ég nú staðið mig sem skildi í blogginu, en ástæða þess er að ég er í önnum við að leggja síðust hönd á allt hér áður en ég fer. Hef bara morgundaginn til að klára. Dauðkvíði fluginu því heilsan hefur ekki verið eins og best er á kosið, en áður en ég veit af verð ég þó komin á leiðarenda.

Á morgun er það hárgreiðslustofan, síðan snyrtistofan, þá skrifstofan…

Hlakka til að sjá ykkur öll.

Kem úr 22C í frostið. OPS…

Sjáumst. 

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Baðviktin skrökvar.

Baðviktin mín segir ósatt, já lýgur!!! Hún leifði sér að segja mér í morgun að megrunin sé ekki að bera árangur. Og ég sem stend mig svo vel, borðaði bara tvisvar úti í gær. Langloku í hádeginu (ekkert mayones) og síðan fór ég með enskri vinkonu minni út í gærkveldi. Hana langaði svo í Paellu og ég auðvitað lét það eftir henni þar sem hún er nú bara í stuttri heimsókn. Annars er paella eitthvað sem maður borðar í hádeginu, hún er “sunnudagssteikin”, svo fer fólk í siestu eftir máltíðina. Alla vega…ég ætla að henda viktinni. Ef eitthvert ykkar hefur hugsað sér að bjóða mér í mat þegar ég kem þá má bara bjóða upp á salat og ávexti, ekki gleyma því. Horfið á björtu hliðina á þessu, engar yfirlegur yfir matreiðslubókum í leit að girnilegum grænmetisréttum.

Ég ætti að liggja í sólbaði núna í stað þess að sitja við tölvuna. Það er mjög hlýtt og glampandi sól. Ég er búin að tína tómata og hlúa að blómunum og trjánum, líka búin að koma túlipönum fyrir í tveim blómavösum, vinkonan gaf mér tvö búnt af sitt hvorum lit í gærkvöldi og nú er búið að koma þeim fallega fyrir, í holinu og stofunni. Nei, þeir voru ekki vatnslausir í nótt, Gabriel tók þá heim í gær og setti í könnu fulla af vatni.

Hann gerði meira en það, fór til grænmetis og ávaxtasalans og keypti ýmislegt, m.a. kassa af stórum jarðaberjum, svo nú ilmar húsið af þessum dásamlegu jarðaberjum. 

Eftir að ég fór að vinna fulla vinnu hjá Espis hef ég haft lítin sem engan tíma til að lesa mbl.is þaðan af síður bloggið svo ýmislegt hefur farið fram hjá mér. Í morgun bætti ég um betur og lagðist yfir síðuna svo og óteljandi blogg. Mikið er áhugavert að fylgjast með umræðunni um klámráðstefnuna sem nú hefur verið rekin úr landi. Ekki er nú öll málafærsla jafn málefnaleg og sumt hreint bull, en fólki er víst frjálst að tjá sig. Ekki ætla ég að setja mig í dómarasæti í þessu máli, en hef þó á tilfinningunni að Íslendingar ættu að taka dálítið betur til í næsta nágreni áður en þeir vísa fólki á frá. Hvað með súlustaðina? Það fer auðvitað ekkert klám né önnur lögbrot fram á þeim. Eða sorpritin sem voru meir að segja til í búðum þegar ég var ung, þar finnst örugglega ekert klám eða niðurlæging á konum. Annars hefði verið fróðlegt að sjá hvað yfirvöld hefðu gert í þessu máli hefðu bændasamtökin ekki tekið af skarið og úthýst hópnum af Sögu.       Hreina, fagra Ísland.

Gabriel var að hringja og segja mér að við séum boðin í mat á veitingastað, eigandinn býður. Svo nú er að fara úr stuttbuxunum í eitthvað huggulegra og labba af stað. Hvernig á maður að geta verið í megrun???

Kem eftir 5 daga. 

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Fegurð

Ég má til að segja ykkur frá nokkru sem  gerðist hér fyrir helgina. Nýkjörin fegurðardrottning í Cantebria sem er fyrir norðan, var svift titlinum þegar í ljós kom að hún á 3ja ára son. Fegurðardrottningar meiga ekki eiga börn. Hvað gerist svo. Sjálf ríkisstjórn Spánar hefur kært framkvæmdaraðila keppninnar til dómsyfirvalda og krefst þess að stúlkan fái titilinn aftur. Annað sé brot á mannréttindum. Hún hafi ekkert brotið af sér sem saknæmt sé. Ég er mjög ánægð með mína menn. Sjálf hef ég aldrei haft á móti fegurðarsamkeppnum, þrátt fyrir að vera stundum kölluð Rauðsokka, og gleðst barafyrir hönd ungra kvenna sem halda fögrum línum hvort heldur er fyrir eða eftir barnsburð.

Erum á heimleið enda klukkan orðin rúmlega 21.00. Ekkert pasta í kvöld, ekkert annað heldur því ég fer í magaspeglun á morgun og þarf því að fasta frá miðnætti.

Fótboltinn er byrjaður í sjónvarpinu og ég vil helst ekki missa af miklu.

8 dagar þar til ég kem!!! 

Fært undir Blogg. 3 ummæli »

Það er hlýtt í dag, ég er búin að fara í hádegismat og borðaði lítið!!! Jóna Helga vinkona mín skammaði mig fyrir að hafa borðað pasta stuttu fyrir svefninn sl.sunnudag. Ég veit að það er ekki holt og afleitt fyrir megrunina. Í kvöld lofa ég að borða helst ekkert nema þá Special K, en það þekkja örugglega allir á Íslandi.

Í gær boðuðum við meiriháttar breytingar á skrifstofu Espis. Tilfæringar, nýjar áherslur og vinnuaðferðir. Ég var gerð að skrifstofustjóra (húrra) og ný starfskona ráðin sem við bindum miklar vonir við, enda þekki ég hana sem frábæran vinnukraft. Hún vann með mér í fyrrasumar. Sem sagt, ég er hér með opinberlega hætt að starfa sem farastjóri  og fer að lifa eðlilegra lífi. Það er heill bunki sem ég sakna úr farastjórn, farþeganna mest af öllu, en það kemur örugglega annað í staðinn. Til dæmis get ég skroppið að heiman þegar mig langar til, sofið heila nótt, því enginn er neyðarsíminn á náttborðinu. En mikið hef ég átt góð og skemmtileg ár. Heilsan er samt eitthvað sem ég þurfti að taka tillit til.

Kem eftir 9 daga og er komin með mjög bókaða dagbók. Merkilegt…

Daníel og Sigga létu frá sér músina. Daníel fór með krílið út í móa og sleppti henni þar. En, enn er nóg af músum í Stykkishólmi hafi einhver áhuga.

Þetta er nú bara eins og kakkalakkarnir okkar hér, reyndar safna ég þeim ekki í kassa og fóðra þá, en þeir trufla mig ekkert. 

Skemmtið ykkur vel í dag/kvöld. 

Fært undir Blogg. 2 ummæli »