Grænmetislasagna með tveim sósum.

Lovísa, Ingimar og Guðjón Ó. voru í mat hjá okkur í gærkvöldi. Guðjón kom frá Ungverjalandi kvöldið áður. Ég hafði ákveðið að hafa grænmetismat á borðum og hafa ekki svo mikið fyrir. Reyndin varð aðeins önnur því mig langaði að gera grænmetislasagna með koníaks/tómatsósu og gráðostasósu. Ég gerði samskonar lasagna mjög oft í gamla daga og nú var komið að því að dusta rykið af uppskriftinni. Greiðlega gekk að finna uppskriftina en hún breyttist mjög í meðförum. Gestirnir voru svo yfir sig glaðir með matinn að allir vildu fá uppskriftina, Guðjón Ó. sagði að hann hefði aldrei á æfinni fengið jafn gott lasagna.

Í forrétt vorum við með dásamlegan ost, lungamjúkan, kringlóttan frá Galicia sem viðskiptavinir okkar gáfu okkur í vikunni og ýmsar tegundir af skinku, þ.e. ekki bara svínaskinku heldur fuglaskinku líka. Salatið sem ég hafði gert með matnum fór á borðið í upphafi og þótti passa mjög vel með forréttinum ekki síður en aðalréttinum. Auðvitað voru eðal sultur og marmelaði einnig með, keypt í Noregi og Svíþjóð. Salatið var gert úr Roculo og annari teguna af “grasi”, síðan hellti ég heilli krukku af feta osti með olíunni+hvítlaukum yfir, þá cherry tómata og agúrkur skornar í lengjur. Brauð líka, það þarf ekki að spyrja að því á Spáni…alltaf brauð með matnum.

Hér kemur uppskriftin af grænmetislasagna með koníaks/tómatsósu og gráðostasósu.

Tómatsósan,

1/2 stór laukur eða 1 lítill saxaður

1 rifin gulrót

2 hvítlauksrif

1 1/2 dl koníak

stór dós niðursoðnir tímatar+safinn (ég saxa alltaf tómatana)

lítil dós tómatpúrra

1 1/2 tsk púðursykur

1 1/2 tsk oregano

2-3 msk steinselja

1 tsk basil

1 tsk timian

salt og pipar efitir smekk

þetta er innihald uppskriftarinnar en ég notaði 1/2 dós af tómötum og 250 gr af tomate frito, en þar sem það fæst ekki á Íslandi skuluð þið halda ykkur við uppgefið hráefni.

Laukurinn og gulrótin látið krauma í olíu ca. 2 mínútur pressið þá hvítlaukinn út í pottinn. Hrærið í og hellið koníakinu yfir, hrærið stöðugt þar til koníakið hefur gufað upp. Bætið þá tómötunum, tómatpurre, púðursykri og öllu kryddinu saman við, hrærið vel saman og látið malla við mjög vægan hita í klukkustund.

Gráðostasósa.

75 gr smjör/smjörlíki

2 msk hveiti

1 smátt saxaður laukur

4 dl mjólk

1 lítill biti gráðostur

salt og ferskmalaður pipar

múkat á hnífsoddi

Hér kemur mín aðferð, ég mæli aldrei smjörlíki og hveiti, vil heldur hafa afgang af sósunni en of litla, ég set ekki salt í sósur með gráðosti því þær eru nógu saltar, múskatinu helli ég í lófann á mér og mæli þannig, geri það reyndar með allt krydd sem getur þýtt meir en stendur í uppskriftinni. Eftir allt er eldamennska tilfinning en ekki vigt og mælieiningar.

Steikið laukinn í smjöri/smjörlíki og bakið svo upp sósu. Allir kunna það svo ég sleppi aðferðarlýsingum.

Sósurnar getur maður hæglega gert daginn áður til að létta undir með sjálfum sér.

Grænmetið í gær var

500 gr frosið spínat

2 meðalstór zucchini skorin í sneiðar eftir lengdinni, saltaðar og látnar liggja á eldhúspappír í ca 1/2 tíma, þá skolað vel í köldu vatni og þerrað á eldhúspappír.

2 væn hvítlauksrif

fullt af smátt skornum sveppum. Ég veit ekki hvað þeir viktuðu en giska á að það hafi verið yfir 1/2 kg.

Ég sauð spínatið eftir leiðbeiningum pakkans sem var 10 mín. Helti því svo í sigti og pressaði allt vatn úr.

Steikti zucchinið og lagði til hliðar.

Steikti sveppina og pressaðan hvítlaukinn, blandaði svo spínatinu saman og hrærði mjög vel.

Smurði eldfast fat og hellti allri tómatsósunni á botninn, lasagnablöð ofan á, þá zucchini og rifinn ost, þá aftur lasagna blöð, sveppa-spínatið kom næst, lasagnablöð og gráðostasósan yfir að lokum. Stráði svo miklu magniu af rfnum osti yfir og bakaði í 200 gr heitum ofni í 45 mín. Lækkaði reyndar aðeins hitann undir lokin þar sem osturinn var orðin gullinbrúnn.

Með forréttinum drukkum við hvítt Protos verdejo frá árinu 2006. Vínið kemur frá D.O Rueda sem er á Valladolid svæðinu, sjá nánar hér http://www.espavino.com/spain_wine_region/wines_rueda.php mjög gott ávaxtamikið vín.

Með lasagnanu drukkum við svo Santa Rosa, Reserva frá 2003. Ég hef bloggað um þetta vín áður en það er kunningi okkar og hans fjölskylda sem framleiða þetta vín og eru staðsett í Alfaz del Pi, 10 mín frá Benidorm. Drotningin í þeirra framleiðslu er Santa Rosa.

Eftirrétturinn var svo enskur jólabúðingur, sem kom frá Englandi, Ég hellti vænum slurk af koníaki á pönnu, hitaði og kveikti svo í, fór síðan með logandi pönnuna í stofuna og hellti yfir búðinginn.

Mjög vel heppnuð máltíð með dásamlegu fólki.

Í dag fórum við svo með Lovísu og Ingimar á flóamarkað við Benidorm og fengum okkur smáræði að borða.

Nú er meiningin að skríða upp í sófa og horfa á bíómynd. Gamlársdagur á morgun!!!!!

Fært undir Matur. 2 ummæli »

Matur.

Hæ aftur.

Ég gleymdi að segja ykkur frá því að ég, sem aldrei hef viljað Japanskan mat er orðin húkt á shusi. Hér í gamla daga þegar við GÓ vorum að ferðast hafði hann gaman af því að fara á japanska staði og borða ýmist shusi eða eitthvað sem eldað var með miklum tilþrifum fyrir framan mann. Ég passaði mig á að minn matur væri örugglega vel eldaður, en þetta var áður en ég varð grænmetisæta. Síðan þá er þetta ekki minn stíll. Hrár fiskur ofl. EN, nú var veri að opna shusi bar við skrifstofuna okkar og það úrval sem þeir hafa af grænmetis shusi og öðru er hreint dásamlegt. Að ég tali nú ekki um washabi, sem er grænt mjög, mjög sterkt mauk sem maður blandar sjálfur með soja sósu. Nammi, namm. Hér um kring eru japanskir veitingastðir sem ég hef farið á með Gabriel því hann er mikið fyrir hráan fisk og annað japanskt, en aldrei dottið “í það” fyrr en nú. Svo það er ekki lengur erfitt að ákveða hvar á að borða í hádeginu. Svo eru skammtarnir svo mátulega litlir og ekki dýrt, öfugt við það sem maður á að venjast af japönskum stöðum. Besta megrunarfæði.

En nú þegar komið er að kvöldi sunnudags og við búin að borða í dag er tími til komin að segja ykkur hvað ég gerði. Ég keypti mér BBC Vegetarian Magazine í London eins og alltaf, var reyndar lengi áskrifandi og elska þetta blað. Eftir að hafa legið yfir því þessa daga og ætlað að prufa þetta og hitt, endaði ég á að bulla. En hugmyndirnar eflaust fengnar úr blaðinu ásamt síðasta Gestgjafa. Ég sem sagt bjó til afrikanskan pottrétt, fylltar bakaðar paprikur með kúskús, tómötum og rifnum osti og bökur.

Pottrétturinn kom mjög vel út, hér kemur uppskriftin.

2 sætar kartöflur, ca, 1/2 kg. grasker, stór rauðlaukur, 3 vænar gulrætur, og engifer rót, ca. 3 cm, og rúsínur. Laukinn skar ég í tvennt og síðan í sneiðar, kartöflurnar, graskerið og gulræturnar flysja og skorið í væna teninga, engifer rótin í sneiðar og söxuð. Hitaði ólivuoliu í potti og léttsteikti laukinn og engiferið, bætti svo öllu hinu í og hrærði vel og nokkuð lengi. Helti síðan vatni yfir, ekki það miklu að flyti yfir, einn grænmetistening og ca. matskeið af afrikanskar nætur frá Pottagöldrum. Þetta lét ég svo sjóða og lækkaði síðan hitann og styllti klukkuna á 45. mín. Eftir 20 mín. ákvað ég að þetta þyrfti ekki mikið lengri suðu, smakkað og bætti meiru afrikönsku kryddi í, Herbamare salti og eins og lófa fylli af litlum þurrkuðum rúsínum, lét soðið sjóða niður þar til þetta var orðið nokkurs konar mauk. Þ.e. kartöflurnar og graskerið vilja verða af mauki, gulræturnar hins vegar héldu lagi sínu. Þessi réttur þótti okkur mjög góður.

Einnig fyllti ég eina græna papriku sem ég hafði skorið í tvennt eftir lengdinni og hreinsað að innan. Fyllingin sem var kúskús kom tílbúin úr poka, ég var svo heppin a eiga einn poka af austurlenskri blöndu of notaði hana, skar svo litla perutómata (álíka og kirsuberjatómatar, bara safaríkari og perulaga) í tvennt og raðaði yfir, að lokum setti ég vel af rifnum osti og bakaði þetta í ofninum í 20-25 mín. Eldfasta formið hafði ég penslað vel með ólífuolíu.

En fyrst hafði ég gert tvær litlar bökur, lauk og ost böku fyrir mig og kjötböku fyrir Gabriel. Arabíski rétturinn kom mjög vel út með þeim. Gerði þær í gær en voru ekki borðaðar þá. Heldur settum við jalapeno fylltan með osti og ostastangir í ofninn og borðuðum það þar sem við komum mjög seint heim.

Maturinn í dag var mjög góður og við skoluðum honum niður með frönsku rauðvíni sem við opnuðum í gærkvöldi en tókst ekki að klára. Erlend rauðvín eru mjög sjaldséð í okkar húsi, okkur finnst þau spænsku alltaf best, en í gær þegar við vorum í súpermarkaðnum keyptum við nokkrar flöskur af frönskum og ítölskum til að prófa. Tilrauna eldamennska mun halda áfram eftir bestu getu þessa viku.

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Komið kvöld.

Frídagurinn næstum á enda. Ég eldaði þennan fína saltfiskrétt en aulinn ég fattaði ekki að það þarf að útvatna fiskinn (af því hann er vakumpakkaður) svo snemma í morgun þvoði ég hann vel og lét hann svo liggja í rennandi vatni allan morguninn. Rétturinn er frábær, nema fiskurinn var of saltur. Geri betur næst. Kartöflumúsin sem Ragnar Freyr hafði með var heldur sterk af hvítauk, þó notaði ég bara 6 rif en hann 10. Á morgun ætla ég hins vegar að gera góða sósu (nota allt úr fiskréttinum nema fiskinn), hita kartöflumúsina og bæta í hana rjómaosti og mjólk og spæla egg yfir. Held það gæti orðin nokkuð gott.

Með matnum drukkum við rauðvín!!!já okkur líkar það yfirleitt betur en hvítt með mat. Hvítt drekkum við meira sem fordrykk.  Vínið var frá Enrique Mendoza, sonur hans er góður kunningi okkar og við heimsækjum “bodeguna” þeirra reglulega. Það heitir Santa Rosa og er frá árinu 2003. Þetta er drotningin í þeirra vínhúsi. Berin í vínið eru sérstaklega valin úr mismunandi brejategundum og síðan látin liggja í 19 mánuði á nýrri franskri eik. Eitthvað það besta vín sem við fáum, venjulega kaupum við það sérstaklega fyrir jólin, en í hvert sinn sem við komum þangað í heimsókn kaupum við Santa Rosa ef hún er til, þeir framleiða svo lítið af þessu frábæra víni, enda ekki stór vínbúgarður. Ég opnaði flöskuna klukkutíma fyrir matinn svo vínið fengi að anda næginlega og það borgaði sig svo sannanlega.

Hvíta vínið frá þeim er eitthvað það allra besta sem við fáum. Svo í minni síðust heimsókn sem var fyrir tveim vikum keypti ég kasa af hvítu víni og annann af Santa Rosa. Fyrir utan þetta eru þeir með ýmis önnur vín sem eru mjög góð, það eina sem ég get ekki drukkið eru vín úr Sirach berjum, ég hef ofnæmi fyrir þeim. Rosalega þurr og sterk með miklu tanin. Þó er í lagi ef lítið magn af þeim er í t.d, Crianza víni.

Svo við áttum afslappaðan dag, borðuðum, horðfðum á sjónvarp og tókum síesta.

Á morgun fer á ég á skrifstofuna því skrifstofudaman okkar verður í fríi, annars myndi ég ekki mæta fyrr en á mánuag. 

Blogga eftil vill yfir helgina. Er ekki búin að ákveða matseðilinn eða hvort við borðum úti. Svona er lífið á Spáni, fjölskyldur eða vinir borða venjulega saman úti á sunnudögum, aðrar máltíðir eru því léttar. 

Fært undir Matur. 2 ummæli »

Súpa.

Síðan ég bloggaði í morgun er ég búin að vera úti að dunda við plönturnar mínar og hengja úr þvottavél. Það er svo rosalega heitt að svitinn bogar af manni. Ég ætla á bikini fljótlaga og í sólbað. Ég er líka búin að studara þetta fyrirbær blogg og læra að setja inn mynd af sjálfri mér, skelfileg mynd sem fór inn en mér tekst ekki að breyta, svo það er næsta skref í lærdómnum.

Birna Ben. vinkona mín er 50 ára í dag, hún heldur upp á afmælið í Orlando á Florida og sumar af vinkonunum og fjölskylda hennar eru þar til að samgleðjast henni. Ég er búin að heyra í henni (og Elísabetu) og það er mikið fjör.

En Minestrone súpan var ástæðan fyrir þessu bloggi. Mín súpa er komin úr ítalskri bók sem ég hef átt í fjölda mörg ár (áratugi,úps) og ég hef breytt og lagað að mínum dutlungum. Ég ber alltaf brauð (helst heimabakað) og mikið af mismunandi ostum með henni og svo er auðvitað gott rauðvín skilda. Súpan geymist mjög vel í ísskáp og verður betri við hverja upphitun. Ég ætla að reyna að halda mig við magn sem duga mundi 6 manns, en hver og einn finnur út fyrir sig. Súpupotturinn minn er 10 lítra.

Einn og hálfur laukur, eða tveir litlir. Stór púrrulaukur sneiddur, 4-5 stilkar af selleri sneiddir. Gulrætur í bitum, kartöflur í bitum, magnið fer eftir smekk, en 4-5 góðar kartöflur og 5-6 gulrætur er fínt. 1 kúrbítur skorin í sneiðar og þær síðan í tvent eða fernt (smekksatriði), franskar baunir (þessar löngu), kál í strimlum, ég nota salatkál. Stór dós niðursoðnir tómatar (má vera meira), tómatarnir skornir í bita og safinn notaður, dós tómatpurri, basil lauf (söxuð) oregano lauf eða þurrkað, svo nota ég alltaf fullan lófa af ítölsku pastakryddi frá Pottagöldrum, vatn, grænmetisteningar, kjúklingabaunir, ég nota niðursoðnar og skola þær vel, salt, pipar og hárfínt pasta eða hrísgrjón. Ég nota 250 gr. poka af pasta eða 1 bolla af hrísgrjónum. Olía til steikingar.

Ég byrja altaf á því að skera allt grænmetið, set laukinn, púrruna og selleri saman í skál og annað grænmeti í aðra. Hita olíuna og set lauk skálina út í, læt steikjast smástund þá blanda ég öllu grænmetinu út í nema kálinu, hræri það vel og læt allt blandast í nokkrar mínútur. Helli þá tómötunum og soðinu yfir svo og kálinu og 3-4 lítrum af soðnu vatni ásamt 2-3 grænmetisteningum og kryddinu. Læt sjóða hægt í 1 1/2 til 2 tíma. Smakka oft á tímanum og bæti vatni, kryddi og grænmetisteningum út í ef mér finnst þurfa. Síðast þegar ég gerði súpuna þá setti ég nokkra dropa af Tabasco og chiliduft í, ég var mjög lengi að fá rétta bragðið. Að þessum suðutíma loknum fara kjúklingabaunirnar og pastað út í og soðið ca. 10 mín. Súpan verður betri ef hún er látin standa með lokið á pottinum 15-20 mín. áður en hún er borin fram.  Sumum finnst nauðsynlegt að strá parmesan osti yfir, og endilega hafa stóra piparkvörn við hendina.

Buen provecho.

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Sunnudagur.

Valtýr frændi minn, Sigríður kona hans, Andrea Rán Siggudóttir (bráðum 11 ára) og Dúa Kristín voru í hádegismat hjá mér, en það voru fleiri, Guðrún systir Siggu, Ólafur maðurinn hennar og litli gullmolinn þeirra Bjarki Þór. Synir mínir Gaui og Binni skreyttu samkvæmið og það gerði líka Árni Briem æskuvinur Gaua sem hefur búið hér og unnið hjá Gaua í 7 máuði. Hann er nú á heimleið og við munum öll sakna hans mikið. Árni var auðvitað með í “jólamatnum” sem og í öðrum matarsamkomum.

Ég ákvað að hafa dæmigerða spænska Tapas máltíð. Gerði spænskar kjötbollur, kartöflu ommelettu…tortilla, ýmsa smárétti salat og osta. Gabriel alveg orðlaus yfir því að bjóða fólki í hádegismat í þessum hita, en það gekk vel. Tjaldið yfir matarborðinu okkar skýlir vel fyrir sólu. Við vorum að borða frá 14.30 fram til 16.00 svo auðvitað var rosalega heitt. Eftir matinn fóru karlmennirnir og Andrea Rán að spila Risk þar til Gabriel þurfti að hlaupa því hann er á vakt þessa helgi, þ.e. hann hleypir fólki inn og út úr íbúðum. Þetta var dásamlegur dagur í góðum hópi. Það er alltaf svo gaman að fá frændfólk og vini í heimsókn. Talandi um það, nú er Lovísa ugla búin að kaupa farmiða hingað rétt fyrir jólin og ætlar að eyða sínum 3. jólum hér á Benidorm með okkur. En hún verður ekki ein því verndari uglanna Dr. Ingimar Jónsson maður Lovísu ætlar að vera rúman mánuð við skriftir hér hjá á Benidorm, en hún lætur sig ekki vanta um jól og áramót. Uglur hafa hist oftar á þessu ári en í mörg undanfarin ár og hefur verið gaman…Ó já.

Ef þið viljið skella í spænskar kjötbollur þá er hér uppskriftin. Gleymið ekki að ég nota tilfinningu en ekki mælieiningar við matreiðslu.

1 kg. gott nautahakk. Rifinn börkur af hálfri til einni sítrónu (farið varlega), brauðmylsna, 1-2 egg, salt, pipar og paprika. Nóg af papriku. Allt hnoðað/hrært saman, búnar til litlar bollur, velt upp úr hveiti og steiktar í olíu. Settar til hliðar. SÓSAN: Eins og áður, búið til góða tómatsósu, ég nota alltaf “tomate frito” sem ég hef oft minnst á. Sósan þarf að vera góð án þess að hafa utanaðkomandi bragð, þ.e. engin framandi krydd. Salt, pipar, paprika. Skerið gulrætur (fjöldi eftir smekk) í þunnar sneiðar og blandið í sósuna ásamt 2-3 lárviðarlaufum, bætið bollunum í og sjóðið við vægan hita ca. hálftíma, bætið þá grænum baunum út í og hitið áfram um hríð. ALLS ekki ORA baunir, eins góðar og þær eru þá ganga þær ekki þarna, kaupið litlar niðursoðnar baunir frá útlöndum. Þessar bollur er hægt að bera fram einar sér, með kartöflumús, pasta eða hrísgrjónum.

Njótið vel.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

Veisluhöld.

Sunnudagsmorgun og ég er þreytt eftir mikil veisluhöld. Búin að lesa mbl.is og er að hlusta á bænir Ellen Kristjánsdóttur með tebolanaum. Vinkona okkar sem býr á Englandi en á hér stórt og mikið hús hélt upp á 60 ára afmæli sitt um helgina. Byrjaði á  fösudagskvöld með mat á heimili þeirra, maturinn, kokkar og þjónar komu frá einum besta veitingastað Albir. Allt var mjög glæsilegt eins og vinkonu okkar er einni lagið. Lifandi tónlist og dansað á sundlaugabakkanum (engin datt í laugina). Gestirnir sem flogið höfðu til Spánar frá ýmsum löndum, voru auðvitað allir í sínu fínasta pússi. Við hjónin völdum hvítt og blátt, ég var í hvítum kjól með hvítt sjal með bláum blómum og hvítum skóm, Gabriel hvítum buxum og bláum silki pólóbol. Frábært kvöld. En það var ekki búið því í gærkvöldi var svo seinni veislan, þá buðu gestgjafarnir í mat á frægan veitingastað sem er aðeins utan við bæinn. Við sátum úti á garði og var búið að skreyta mjög fallega í tilefni dagsins. Borðaskipan var mjög fagleg, nafnakort við hvern disk og raðað eins og í konunglegum veislum, konur höfðu borðherra. Matseðlinn hreint frábær, dóttir þeirra hjóna hafði hannað hann og voru forsíða og baksíða með myndum af afmælisbarninu á ýmsum aldri. Þar var meir að segja úrklippa úr dagblaði frá 1947 þar sem tilkynnt var fæðing barnsins, en það er gjarnan gert á Englandi. Maturinn var mjög góður svo og félagsskapurinn. Enn höfðu konur (og karlar) vandað sig við klæðnað og snyrtingu. Ég var í brúðarkjólnum!!! Þið sem voruð við brúðkaup okkar vitið að hann var ekki blúndukjóll, heldur fölgulur úr léttum hör og mjög fallegur. Upphaflega var hann ekki keyptur sem brúðarkjóll, heldur var hann afmælisgjöf frá sonum mínum og þar sem ég hafði aldrei notað hann þegar bónorðið var borið upp, ákvað ég að geyma hann og nota sem brúðarkjól. Veðrið var eins og best gat verið bæði kvöldin, mátulega heitt og tunglbjart.

Eina sem skyggði á hjá mér var að missa af leiknum milli Íslands og Spánar, en Gummi minn hringdi í hálfleik til að segja mér stöðuna, hann var á leiknum. Verst að hafa ekki unnið, en ég las í mbl.is að íslenska liðið hafi staðið sig mjög vel.

Ég ætla að nota daginn í dag til að slappa af, Gabriel sem notar hvert tækifæri sem gefst til köfunar fór snemma í morgun að leita hafmeyja. Hann hefur farið tvisvar undanfarið í næturköfun sem hann segir vera mjög stórkostlega. Fiskarnir sofa eins og önnur dýr, allt lífið neðansjávar mjög ólíkt því sem er á daginn. Hann m.a. strauk kolkrabba sem hreyfði sig ekki við þessa árás.

Valtýr bróðursonur minn kom hingað í gærkvöldi með fjölskyldu sína og verður gaman að hitta þau. Litla daman Dúa Kristín örugglega breyst heilmikið síðan ég sá hana í mars s.l. eins og börn gera á fyrsta ári.

Jæja, ég er farin í rúmmið með bók.

Gleymdi einu!

Ég var búin að lofa Antoníu tengdadótttur minni að setja uppskrift á bloggið. Það eru Kúbönsk hrísgrjón sem hún vildi sjá. Ákaflega auðvelt og gott. Sjóða hrísgrjón, búa til tómatsósu, ég geri hana úr “tomate frito” sem eru steiktir tómatar áður en þeir eru maukaðir og settir á dósir eða í fernur. Í raun er sama hvernig tómatsósu þið búið til, en kryddið hana skemmtilega. Stundum set ég Mexikanskt krydd, stundum ítölsk og stundum eitthvað annað. Þegar hrísgrjónin eru soðin og sósan tilbúin eru hrísgrjón set í litla skál eða bolla og pressuð létt, hvolft síðan á disk og sósa sett yfir, á toppin kemur svo spælt egg.

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Stutt en góð jól.

Jæja, þá er jólamatnum lokið, drengirnir komnir til síns heima, eða farnir út á lífið og ég búin að ganga frá í eldhúsinu. Þetta var eins og við mátti búast hin stórfenglegasta máltíð. Meir að segja ég borðaði yfir mig af brúnuðum kartöflum, rauðkáli, soðnum ferskum gulrótum og ORA baunum með sósu. Strákarnir ná aldrei upp í það hvernig mamma getur gert svona líka góðar sósur og notar aldrei kjötsoð, heldur eru þær eingöngu gerðar fyrir alla, þ.e. kjöt og grænmetisætur.

Við ákváðum að halda áfram eins og við höfum gert í gegnum árin að borða saman um helgar, en breyta til. Venjulega hefur alltaf verið borðað á sunnudagseftirmiðdögum (þegar fer að kólna) og þá venjulega grillað. Nú hins vegar fá þeir að panta mat fyrir næstu helgi. Þetta höfum við gert í tvær helgar og tekist mjög vel, s.l. helgi var sú enskasta sem finnst, kjötpai til að mynna Binna á árin í London. Næstu helgi hafa þeir pantað ítalskan rétt sem þeir ólust upp við og ég skal setja á bloggið fyrir ykkur. En við umræðurnar í kvöld kom upp margt skemmtilegt og óvænt. Hvað börnin muna af því sem mamma bullaði í eldhúsinu þegar þeir voru að alast upp. Svo næstu vikur þarf ég að dusta rykið af heilasellunum og reyna að töfra fram bernskumynningar sona minna. Skemmtilegt og ögrandi verkefni.

Góða nótt. 

Fært undir Matur. 2 ummæli »

Jólin komin?

Komin laugardagur og helgin hafin. Veðrið heldur áfram að vera skrítið. Skýjað en mjög heitt, rakinn mjög mikill. Af og til sýnir sólin sig. Þó er auðvitað mikið af fólki á ströndinni, þetta er jú besta veðrið til að njóta strandlífsins.

Ég hef svo sem ekki sett mér neina dagskrá í dag, hef verið að lesa hin ýmsu blogg á mbl.is og fræðast þar um skoðanir manna á málefnum sem hæst bera á Íslandi. Skemmtileg lesning.

Þó er auðvitað stór dagur í dag, Gaui fékk mig til að samþykkja að elda hamborgarhrygg fyrir þá bræður og vin þeirra íslenskan. Svo í morgun er ég búin að sjóða rauðkálið, því það verður jú að vera heimasoðið og síðan mun ég nota eftirmiðdaginn til að dunda við eldamensku. Ætla að hafa grænmeti matreitt á spænska vísu í forrétt. Húsið lyktar eins og á Jóladag. Namm, hvað ég hlakka til…en hrygginn geta þeir borðað.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

HELGARLOK.

Sunnudagkvöld og helgin verið ævintýraleg. Ég borðaði á mjög góðum fiskistað á ströndinni í Altea á föstudagskvöldið var með góðum vinkonum, enskum. Við áttum hið skemmtilgasta kvöld. Í gærkvöldi vorum við Gabriel hjá ensku vinum okkar í Altea Hills eins og ég hef bloggað um áður. Kvöldið var dásamlegt, húsið þeirra er eins og þið sjáið í glamor bíómyndum. Við borðuðum úti á terrasi frá efstu hæðinni, þ.e. hæðinni þar sem gengið er inn í húsið. Eftir að hafa farið í gegnum tilkomumikla forstofu og borðstofu gengum við út á terras þar sem er setustofa, úti-borðstofan er síðan á samliggjandi terrasi. Þaðan horfum við yfir hæðina, Altea, Albir og allan flóann. Ef maður hins vegar lítur beint niður af terrasinu sér maður upplýsta sundlaugina með höfrungi í botninum. Húsið er á 3 hæðum og er sólarverönd á þakinu, merkilegt þar sem verandir eru á hverri hæð og mikið pláss umhverfis sundlaugina, en…svona vilja sumir búa. Brian vinur okkar hafði undirbúið vínsmökkun á rauðvínum, vitandi um bakgrunn Gabriels í þeim efnum. Hann hafði tekið fram 6 mismunandi vín og nú átti að smakka. Fyrst byrjuðum við á víni frá Suður Afriku áttappað 2001. Ég skráði allt samviskulega niður en gleymdi miðanum þar efra svo þið fáið nöfn og vínhús seinna. Þetta vín drukkum við fyrir matinn, stórkostlegt vín, mjúkt og fullt af bragði, rjómakennt vín. Síðan settumst við til borðs og með forréttinum drukkum við Campo Viejo Reserva 2002 og það svíkur jú aldrei. Með aðlréttinum kom svo toppurinn eða þannig. Venjan er að þegar verið er að smakka vín er alltaf byrjað á því yngsta og endað á því elsta. Vínið sem við drukkum með aðalréttinum er spænskt en ég mað ekki hvaðan, það var 32 ára gamalt. Gestgjafinn sem viðurkennir að hafa ekki mikið vit á vínum gerði þau mistök að opna ekki flöskuna áður en við komum svo vínið gæti andað vel. Svo við heltum því yfir á kareflu í dropavís svo það tæki sem mest súrefni á leiðinni og létum það bíða um stund. Niðurstaðan var mjög gott vín, en það er alltaf hætta með svona gömul vín, annað hvort eru þau góð eða ónýt. Ástæðurnar eru svo margar og misjafnar. Þar með lauk vínsmökkuninni þó vinur okkar hafi verið búinað stylla upp 6 mismunandi vínum. Matseðilinn var hins vegar mjög merkilegur. Ostar, ólífur og möndlur með fyrsta víninu, indverskur karryréttur með því næsta og grillaðar nautasteikur í aðalrétt. Ég fékk grænmetispai. Allt mjög gott en samsetningin sérkennileg. Flugeldasýningin var síðan um miðnætti og kom skemmtilega á óvart, því eins og ég sagði í fyrra bloggi þá er hún aldrei eins tilkomumikil séð ofanfrá eins og af ströndinni. En, fullkomið kvöld.

Í dag hef ég legið í sólbaði, um klukkan 18.00 fór að draga fyrir sólu og við sem þekkjum skýin sáum að rigning var að hellast yfir og hún yrði mikil. Í stuttu máli, það ringdi haglélum í golfboltastærð svo ég hljóp á milli herbergja til að byrgja gluggana, síðan út á terras til að ganga úr skugga um að öll niðurföll væru laus við gróður. Þetta stóð ekki nema 15-20 mínútur en hvílíkt flóð og þrumurnar sem fylgdu. Í íbúðinni við hliðina á mér eru 5 ungar íslenskar stúlkur og þær upplifðu stórkostlegustu stund lífs síns. Allar á bikini hrópandi og dansandi yfir að fá að upplifa svona andartak sem þær hafa bara séð í fréttum. Þær komu til mín eftir að þessu lauk til að biðjast afsökunar yfir því hvað þær höfðu hátt!!! Skiljanlegt að gleðjast yfir náttúru undrunum meðan þau valda ekki skaða. 

Góða nótt.

Fært undir Matur. 1 ummæli »