Grænmetislasagna með tveim sósum.
30. desember 2007 — spanjolaLovísa, Ingimar og Guðjón Ó. voru í mat hjá okkur í gærkvöldi. Guðjón kom frá Ungverjalandi kvöldið áður. Ég hafði ákveðið að hafa grænmetismat á borðum og hafa ekki svo mikið fyrir. Reyndin varð aðeins önnur því mig langaði að gera grænmetislasagna með koníaks/tómatsósu og gráðostasósu. Ég gerði samskonar lasagna mjög oft í gamla daga og nú var komið að því að dusta rykið af uppskriftinni. Greiðlega gekk að finna uppskriftina en hún breyttist mjög í meðförum. Gestirnir voru svo yfir sig glaðir með matinn að allir vildu fá uppskriftina, Guðjón Ó. sagði að hann hefði aldrei á æfinni fengið jafn gott lasagna.
Í forrétt vorum við með dásamlegan ost, lungamjúkan, kringlóttan frá Galicia sem viðskiptavinir okkar gáfu okkur í vikunni og ýmsar tegundir af skinku, þ.e. ekki bara svínaskinku heldur fuglaskinku líka. Salatið sem ég hafði gert með matnum fór á borðið í upphafi og þótti passa mjög vel með forréttinum ekki síður en aðalréttinum. Auðvitað voru eðal sultur og marmelaði einnig með, keypt í Noregi og Svíþjóð. Salatið var gert úr Roculo og annari teguna af “grasi”, síðan hellti ég heilli krukku af feta osti með olíunni+hvítlaukum yfir, þá cherry tómata og agúrkur skornar í lengjur. Brauð líka, það þarf ekki að spyrja að því á Spáni…alltaf brauð með matnum.
Hér kemur uppskriftin af grænmetislasagna með koníaks/tómatsósu og gráðostasósu.
Tómatsósan,
1/2 stór laukur eða 1 lítill saxaður
1 rifin gulrót
2 hvítlauksrif
1 1/2 dl koníak
stór dós niðursoðnir tímatar+safinn (ég saxa alltaf tómatana)
lítil dós tómatpúrra
1 1/2 tsk púðursykur
1 1/2 tsk oregano
2-3 msk steinselja
1 tsk basil
1 tsk timian
salt og pipar efitir smekk
þetta er innihald uppskriftarinnar en ég notaði 1/2 dós af tómötum og 250 gr af tomate frito, en þar sem það fæst ekki á Íslandi skuluð þið halda ykkur við uppgefið hráefni.
Laukurinn og gulrótin látið krauma í olíu ca. 2 mínútur pressið þá hvítlaukinn út í pottinn. Hrærið í og hellið koníakinu yfir, hrærið stöðugt þar til koníakið hefur gufað upp. Bætið þá tómötunum, tómatpurre, púðursykri og öllu kryddinu saman við, hrærið vel saman og látið malla við mjög vægan hita í klukkustund.
Gráðostasósa.
75 gr smjör/smjörlíki
2 msk hveiti
1 smátt saxaður laukur
4 dl mjólk
1 lítill biti gráðostur
salt og ferskmalaður pipar
múkat á hnífsoddi
Hér kemur mín aðferð, ég mæli aldrei smjörlíki og hveiti, vil heldur hafa afgang af sósunni en of litla, ég set ekki salt í sósur með gráðosti því þær eru nógu saltar, múskatinu helli ég í lófann á mér og mæli þannig, geri það reyndar með allt krydd sem getur þýtt meir en stendur í uppskriftinni. Eftir allt er eldamennska tilfinning en ekki vigt og mælieiningar.
Steikið laukinn í smjöri/smjörlíki og bakið svo upp sósu. Allir kunna það svo ég sleppi aðferðarlýsingum.
Sósurnar getur maður hæglega gert daginn áður til að létta undir með sjálfum sér.
Grænmetið í gær var
500 gr frosið spínat
2 meðalstór zucchini skorin í sneiðar eftir lengdinni, saltaðar og látnar liggja á eldhúspappír í ca 1/2 tíma, þá skolað vel í köldu vatni og þerrað á eldhúspappír.
2 væn hvítlauksrif
fullt af smátt skornum sveppum. Ég veit ekki hvað þeir viktuðu en giska á að það hafi verið yfir 1/2 kg.
Ég sauð spínatið eftir leiðbeiningum pakkans sem var 10 mín. Helti því svo í sigti og pressaði allt vatn úr.
Steikti zucchinið og lagði til hliðar.
Steikti sveppina og pressaðan hvítlaukinn, blandaði svo spínatinu saman og hrærði mjög vel.
Smurði eldfast fat og hellti allri tómatsósunni á botninn, lasagnablöð ofan á, þá zucchini og rifinn ost, þá aftur lasagna blöð, sveppa-spínatið kom næst, lasagnablöð og gráðostasósan yfir að lokum. Stráði svo miklu magniu af rfnum osti yfir og bakaði í 200 gr heitum ofni í 45 mín. Lækkaði reyndar aðeins hitann undir lokin þar sem osturinn var orðin gullinbrúnn.
Með forréttinum drukkum við hvítt Protos verdejo frá árinu 2006. Vínið kemur frá D.O Rueda sem er á Valladolid svæðinu, sjá nánar hér http://www.espavino.com/spain_wine_region/wines_rueda.php mjög gott ávaxtamikið vín.
Með lasagnanu drukkum við svo Santa Rosa, Reserva frá 2003. Ég hef bloggað um þetta vín áður en það er kunningi okkar og hans fjölskylda sem framleiða þetta vín og eru staðsett í Alfaz del Pi, 10 mín frá Benidorm. Drotningin í þeirra framleiðslu er Santa Rosa.
Eftirrétturinn var svo enskur jólabúðingur, sem kom frá Englandi, Ég hellti vænum slurk af koníaki á pönnu, hitaði og kveikti svo í, fór síðan með logandi pönnuna í stofuna og hellti yfir búðinginn.
Mjög vel heppnuð máltíð með dásamlegu fólki.
Í dag fórum við svo með Lovísu og Ingimar á flóamarkað við Benidorm og fengum okkur smáræði að borða.
Nú er meiningin að skríða upp í sófa og horfa á bíómynd. Gamlársdagur á morgun!!!!!