Jólamaturinn ofl.

Aðfangadagskvöld rann sitt skeið eins og önnur kvöld. Maturinn var mjög góður, eins og von var;)  Í forrétt vorum við með graskers-súpu kryddaða með karry og kanel…ég veit þetta hljómar sérkennilega, en þetta er uppskrift sem við hjónin þróðum saman í haust.  Hamborgarhryggur með tilheyrandi fyrir kjötæturnar og ég gerði mér pottrétt úr soja-kjöt bitum, kryddaði með villikryddum ýmis konar. Þetta eru fyrstu jólin í langan tíma sem ég geri ekki “kjöthleif” úr soja hakki, en átti opin poka af soja bitunum í ísskápnum og ákvað því að nota það. Í eftirrétt, vaniluísinn sem ég geri altaf, en uppskriftin er frá Guðmundi langafa strákanna í föðurætt, en hann var bakarameistari og mjög góur sem slíkur. Með bar ég fram sultað engifer og skógarber. Síðan var meiningin að hafa kampavín og möndlukökur ýmisskonar sem amma Gabriels bakaði og færði okkur, en engin kom meiru niður.

Gaui kom niður til okkar eftir að hafa borðað og tekið upp pakka í sínu húsi, við vorum enn að borða þegar hann kom, svo hann boraði ís með okkur og aðstoðaði við pakka opnunina. Fljótlega eftir það fóru svo bræðurnir hvor til síns heima og eftir sátum við hjónakornin, Rosalba og Roberto.

Eins og mörg ykkar hafið séð á msn mínu, þá langaði mig í hárauðan jólakjól. Ég fékk hann…og gott betur, því ég fékk flotta rauða peysu og þá flottustu rauðu kápu sem ég hef séð lengi. Kápa er nokkuð sem ég hef ekki átt í mjög mörg ár. Svo, Gabriel sá til þess að mín jól væru rauð:-). Annars fengum við mjög mikið að vanda. Ástarþakkir til ykkar allra sem senduð okkur pakka og jólakort.

Á jóladagsmorgun vorum við komin snemma á fætur og Gaui kom í morgunkaffi eins og aðra morgna. Það er ómissandi að fá hann á morgnanna. Binni hins vegar, kúrði fram eftir en kom í eftirmiðdaginn til að borða.

Jóhanna vinkona okkar bíður spennt eftir matarbloggi mínu þessa daga;-) Hvað haldið þið að ég hafi elda á Jóladag? Grænmetisætan fékk skyndilega mikla löngun í fisk!!! Og allir þessir afgangar frá kvöldinu áður. Alla vega, ég átti frosin ýsuflök (spænsk) og tók þau úr frysti. Setti þau svo hálffrosin í eldfast fat. Steikti saman selleri, gula og græna papriku. Bjó til sósu úr pela af rjóma, 1 tsk af grænu chillimauki og 3 tsk rautt chillimauk (í báðum tilfellum er maukið grófmaukað) ca. 1 tsk sterkt karry og Herbal salt. Helti síðan sósunni yfir grænmetið á pönnunni og lét sjóða smá stund. Helti svo öllu yfir fiskinn, stráði rifnum osti yfir og bakaði í ofni við 180C í 20-25 mín. Sauð hrísgrjón með og gerði mjög gott salat. Þetta var dáldið sterkt, eins og við viljum hafa það, en ég ráðlegg þeim sem ekki eru fyrir mikið sterkt að minnka rauða chilli-ið í 1-2 tsk.

Í gær, annan dg jóla, fórum við að vinna smávegis. M.a. þurfti að hleypa gestum inn sem voru að koma. Við ákváðum að fara á La Cava Argonesa, einn albesta tapas staðinn á Benidorm og borða þar í hádeginu. Borðuðum tapas og drukkum kampavín með. Restin af deginum fór síðan í afslöppun og síestu fyrir framan sjónvarpið. Engin eldamenska í gærkvöldi.

Í kvöld erum við hins vegar að fá ensk vinahjón okkar í mat. Þau eiga íbúð í Albir (hef svo oft minnst á þau) og eru hér um jólin. Við ætlum að hafa reyktan, íslenskan lax, restina af hamborgarhryggnum skorin í þunnar sneiðar og með honum steiktan lauk, heimagerða sinnepsósu og fleira, sveppapaté sem ég er að baka, salat sem ég hef hugsað mér að hafa kalt/heitt eins og oft áður, með ristuðum furuhnetum og mosarella osti sem skrauti. Í eftirrétt er ég búin að gera heilsuköku…ó já, kaka frá Sigrúnu vinkonu minni í Café Sigrún, en kakan tók miklum breytingum sem ég á eftir að ræða við Sigrúnu. Þannig að uppskriftin kemur síðar, þ.e. þegar við verðum búin að smakka hana.

Ég hef nú tekið ákvörðun um að allavega önnur bókin sem ég er að setja saman muni koma út fyrir næstu jól, í síðasta lagi. Ég fékk uppljómun um daginn og gjörbreytti áherlsum annarar í stíl við titil sem mér datt í hug. Svo er bara að vita hvort Daníel sonur minn vill gefa hana út:-)

Hér kemur svo sveppa patéið sem ég er að baka. Nota bene, ég get eignað mér uppskriftina 100%.

Sveppapate. 

200 gr sveppir,fínt skornir

50 gr smátt saxaður laukur.

75 gr rifinn ostur1egg

30 gr brauðrasp

120 gr box grískt jógurt, má nota sýrðan rjóma.

1-2 marin hvítlauksrif.

Salt og pipar eftir smekk

Krydd kífsins frá Pottagöldrum, ca 1 tsk

Lófafylli af þurrkuðu timian.

Öllu hráefninu í pateið er blandað saman og sett í ofnfast fat og bakað við 200C í 40 mín. 

Borið fram með góðu salati og salatsósu að smekk. 

Hér myndi ég prufa mig áfram með krydd í pateið. T.d. finnst mér rósmarin eða timian ómissandi með sveppum.

Þetta er orðið svo langt að ég set inn súpu-uppskriftina næst.

Sæl að sinni og verið góð hvert við annað.

Fært undir Matur. 2 ummæli »

Jólin, og hvað?

Mér finnst ég skulda blogginu mínu, hef ekki skrifað í meir en viku. Og, það er ekki Facebook að kenna heldur mikilli vinnu. Við erum að berjast við að halda haus, þeir fasta vetrargestir sem ekki voru komnir eru að koma þessa dagana. Allt er þetta yndislegt fólk sem hefur verið lengi með okkur. OG, við gerum það sem við getum best til að taka vel á móti þeim. 

Í dag vorum við í afmæli hjá systurdóttir Gabriels, hún er hálf íslensk og varð 19 ára í gær, 13. des. alveg eins og Þórður bróðir minn, nema hvað hann varð ekki 19;-)

Flott matarveisla, ein og alltaf á Spáni. Fullt af skelfisk, ólívum, salat, svínakjöt, ofnbakaðar kartöflur í sneiðum ofl. Ég lagði til veislunnar grænmetisböku, svona heilsu böku. Ég hef verið að gera tilraunir með mínar annars frægu bökur hér í þessu samfélagi kjötæta. Í dag gerði ég bökuskel úr rúgmjöli og eftir að hafa bakað hana 15 mín. setti ég fyllinguna í, sem var sirka 1/2 smátt skorin kúrbítur, 1/4 hluta úr rauðri papriku, 4 sveppi skorna í sneiðar og nokkra brokkoli anga. Í gegnum árin hef ég alltaf notað 3 egg og 3 dl. rjóma, þeytt saman með kryddi og jafnvel rifnum osti. Nú er ég orðin svo yfir meðvituð um kolestrol og kaloriur að ég setti 1 dl rjóma, 125 ml, grískt jógurt og 1/2 dl léttmjólk. Stráði svo grillosti yfir. Heppnaðist mjög vel. Sérstaklega er Óskar/Oscar hálfbróðir Gabriels í föðurlegg hrifin af eldamennsku minni. Hann bjó jú hjá okkur í 4 sumur og varð að taka þessum grænmetismat, þó auðvitað bróðir hans eldaði oft kjöt. Hann fagnað sérstalega í dag…að fá grænmetisböku frá mér og fór að rifja upp ýmsa rétti sem hann fékk þegar hann bjó hjá okkur. Móðir hans hefur alltaf haft gaman af að koma í mat til okkar, en það voru ekki margir aðrir við borðið sem smökkuðu bökuna mína;-)

En afmælið var skemmtilegt, mikill matur, mikið og hátt talað og yfir allt gnæfði sjónvarpið, svo dæmigert spænskt, Stjónvarpið er alltaf á fullu. Það er það eina sem ég bara get ekki sætt mig við, ég þoli ekki sjónvarpið og sérstaklega ekki þegar gestir eru eða þegar fólk kemur saman. En ég breyti ekki þjóðinni, en ég hef slökkt á sjónvarpinu í mínu húsi þegar koma gestir:-)

Annars er ég að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn og bara hlaka til. Ég hef ekki haft pistla í Jólastjarnan.net þessa helgi þar sem þeir voru með tæknivandamál í gær og í dag hafði ég ekki tíma. En ég verð aftur með pistil eftir helgi hjá Sigga Gunn. Ég vinn bara með honum, það var mitt val. Mjög góður útvarpsmaður með mikla reynslu.

Svo, góðir vinir, heyrumst fljótt aftur.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

Ein komin í útvarpið:-)

Laugardagskvöld og ég búin að afreka heilmikið í gær og  dag. Jólatréð stendur fullkreytt með blikkandi ljósum og jólaskreyting í húsinu á lokastigi. Snemma??? Nei, ekki finnst okkur það. Ég vandist því þegar ég bjó í Svíðjóð að skreytt væri snemma, svo einhvernvegin hefur þetta orðið að vana.

Viðn fórum til Alicante í dag, áttum erindi á flugvöllinn og notuðum tækifærið og kíktum í stóra verslunarmiðstöð sem þar er. Ekki varð neitt úr verslun, fórum inn í eina og settumst síðan niður til að fá okkur léttan hádeisverð. Talandi um mat. Ég gerði mjög góðan grasker-eggjabúðing, eða flan eins og það heitir hér, í gær. Með því bar ég fram púrrulauk léttsteiktan í olíu, saltaði og pipraði og og hellti síder yfir, lét sjóða aðeins niður og bætti svo einu epli saman við, flysjuðu og skornu.  Lét það vera á hellunni smá stund. Þetta var aldeilis frábært…svo var ég líka með léttsoðin, ferskan asparagus og salat, bætti soðnu graskeri í salatið. Létt máltíð og mjög góð.

Uppskriftin? Já, hún er nú einföld. 500 gr soðið grasker, 500 ml rjómi, 4 egg, salt og pipar. Graskerið maukað í matvinnsluvél eftir suðu, rjóminn og eggin ásamt kryddinu þeytt saman og graskersmaukinu bætt í. Sett í olíuborið form, eða mörg lítil og bakað í vatnsbaði við 200 C í ca, 45-50 mínútur. Munið að setja álpappír yfir mótin. Þið getið notað þennan grunn, þ.e. 500 ml rjóma og 4 egg í hverskonar flan sem þið viljið. Sett svo í hvort sem er grænmeti, fisk, skeldýr…bara það sem ykkur dettur í hug.

Ég veit að það er þó nokkuð af kolesteroli í þessu, en það er nú ekki eins og maður borði svona daglega.

Annars verð ég að segja ykkur frá veitingastað í Valencia. Ítalskur staður sem þykir mjög góður. Þeir tóku upp á því fyrir skömmu að gera tilraun. Gestirnir eru látnir ákveða sjálfir hvað þeir borga fyrir matinn:-) Þetta er almennilegt á krepputímum. Allir drykkir eru á venjulegu verði. Fólk er mjög ánægt með þetta og hefur staðurinn verið fullsetinn frá því þeir byrjuðu á þessu. Eigandinn sagði í sjónvarpsviðtali í gær, að fyrir sama rétt væri fólk að borga allt frá 2 evrum í 6-7, sem er nær því að vera venjulegt verð. Gestir, sem talað var við, voru mjög ánægðir með framtakið. Ein stúlka sagðist borða oft þarna og stundum bara ætti hún ekki nema 2-3 evrur til að eyða í mat, en þegar hún ætti meira léti hún staðin njóta þess. 

Þessi helgi er það sem kallað er hér “brú”, en það er löng helgi. Í dag er stjórnarskrárdagurinn og á mánudaginn er Getnaðardagurinn;-) Helgin gengur undir nafninu Getnaðar-brúin. Verið er að minnast getnaðar Jesú Krists. Já, hann á að hafa verið getinn um þetta leiti. Hvernig það samræmist síðan afmælisdegi hans 24. eða 25. des. er annað mál.

Ég hef notið þess að hlusta á íslensk jólalög undanfarnar 2-3 vikur. Það er jólastjarnan.net sem heldur mér við efnið 24 tíma ef ég kýs. Stöðin er hreint frábær, netstöð. Ég er þarna með stutta pistla af og til, ekki daglega.Ég kem ekki fram í  persónu, heldur er annar stjórnandi stöðvarinnar og ég í msn sambandi meðan hann er í útsendingu. Ég er með undirbúið efni sem hann fær og segir frá og síðan leiðir spjall okkar stundum til meira, en oftast er það bara spjall milli tveggja einstaklinga. Það er hann Siggi Gunn. sem fékk mig í þetta og þegar hann er í útsendingu þá getið þið átt von á að heyra pistla frá “Kristínu vinkonu okkar á Benidorm” eins og hann kallar mig. Eins og von er til, þá fjalla þeir um jól og jólahald. Ég fer hægt og segi bara frá einu efni í einu, þannig að t.d. áramótin og siðurinn með vínberin kemur ekki fyrr en nær dregur jólum. Þetta er mjög skemmtilegt og gefur jólabarninu mér, tækifæri til að gefa fólki innsýn í annars konar jólameiningu og jólahald.

Þetta er nú orðið ansi langt blogg hjá mér og komin tími til að fara í sængina, eða horfa á DVD . Ég ætla að gera eitthvað skemmtilegt á morgun. Hvað það verður veit ei neinn…en örugglega skemmtilegt.

Hafið það sem allra best.

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Sunnudagur og börnin í mat.

Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég vaknaði, kl. var 09.15. Mjög óvenjulegt að ég sofi svona lengi, en!!!það sem enn merilegra var að Gabriel svaf líka og sefur enn og kl. orðin 10.00. Hann ætlaði að fara að kafa í morgun, þá fer hann úr húsi kl 08.00, en sefur svona vært að ég læðist um til að vekja hann ekki. Augljóslega orðin langþreyttur.

Ég er búin að bjóða strákunum og kærustu Gaua í mat í eftirmiðdaginn. Ætla að herma eftir fíkjusalatinu góða sem ég fékk um daginn á veitingahúsi. Grafinn lax og eitthvað fleira smátt verður í forrétt. Síðan ætla ég að hafa ítalskan rétt úr bókinni góðu sem ég minntist á um daginn. Þetta er líka réttur sem ég hef gert síðan strákarnir voru litlir og halda mikið upp á.

Ég hnoða nautahakk með kryddi og smá hveiti, hnoða mjög vel, rúlla því svo út eins og rúllutertu, set skinku, ost og músaðar kartöflur (kartöflurnar hreinar, þ.e. áður en ég geri hefðbundna kartöflumús). Rúlla svo upp hakk kökunni og loka vel endunum. Blanda saman tómatfrito/tómatpúrru, ólífuolíu og smá vatn. og kryddum+nokkrum lárviðarlaufum. Hita þetta á góðri pönnu eða stórum potti og set rúlluna í. Með skeið set ég sósu á alla rúlluna og síðan læt ég hana malla ca. 45 mín. Með hef ég góða kartöflumús og stundum snöggsoið grænmeti, t.d. gulrætur og brokkolí. 

Ég skal setja inn uppskriftina seinna í dag eða á morgun. Í gær gerði ég hunangsolíu til að setja á salatið í dag. Rennandi hunang, jómfrúr oliu og smá Balsamik edik. Spennt að sjá hvernig þetta kemur út.

Gaui er komin í kaffi, Gabriel vaknaður og ég ætla að sinna þeim. 

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Flugeldar, sjöböð ofl.

Mikið er nú það sem af er helginni búið að vera notalegt. Ég fór á föstudagskvöldið að borða með enskri vinkonu minni sem átti 60 ára afmæli um daginn. Við höfðum ákveðið að borða í Altea og gerðum það. Gabriel keyrði okkur og við héldum á veitingastaðinn sem orðið hafði fyrir valinu. Ég hafði aldrei borðað þar, en hún heldur mikið upp á staðinn. Og ekkert skrýtið. Hvílíkur matur. Eigendurnir sem eru hjón, koma flott saman, hann Frakki og hún Spánverji. Ég fékk í forrétt fíkjusalat með mosarella osti og heslihnetum á rokoli laufum, yfir var helt mátulega miklu af hunangs sósu. Hún fékk fiskikökur úr krabba með salati. Í aðalrétt fékk ég túnfisksteik með kartöflumús og snöggsoðnu grænmeti en vinkonan fékk skötusel og kartöflu gratin, fiskurinn og kartöflurnar í bitum í mjög góðri rjómasósu, gratinerað í ofni. Hún fékk sér síðan eftirrétt sem hún borðar alltaf þarna, banana, heitt súkkulaði, ís og þeyttan rjóma. Bananinn og súkkulaðisósan blandað saman á skemmtilegan hátt í háu glasi og síðan kom hitt gúmmulaðið. Ég hins vegar borða aldrei eftirrétti:-) Við sátum þarna lengi og nutum kvöldsins. Gengum síðan niður á strandgötuna og langleiðina til Albir áður en við héldum heim.

Vinkonan var búin að segja mér, að eitt af því sem væri svo skemmtilegt við þennan stað væri að þar hitti hún alltaf Englendinga sem tækju upp spjall. Mér fannst þetta nokkuð skondið, því það er ekki eins og ég myndi leita uppi Íslendinga til að spjalla við ef ég væri að fara út a borða. Þetta brást ekki, og á næsta borði sátu ung hjón frá Liverpool sem hafa búið hér um tíma. Af og til ræddum við saman og m.a. um stjörnumerki. Ég sagði við unga manninn að ég væri nokkuð viss um að hann væri naut og fæddur 1974. Hann varð hissa á hversu nálagt ég komst, naut er hann en fæddur 1973 og þann 5. maí  eins og Gummi minn. Konan hans vildi að ég giskaði á sig og ég sagði að hún væri annað hvort tvíburi eða meyja. Tvíburi er hún og á afmæli sama dag og ég. Þetta fannst okkur hin mesta skemmtun, því það er ekki eins og ég sé sérfræðingur í að segja til um stjörnumerki fólks. Þó er nautið nokkuð sem ég er glögg á.

Þar sem Gabriel er á helgarvakt og hefur meir en nóg að gera, ákvað ég að í stað þess að vera með honum (og hjálpa til) þá myndi ég vera heima, strauja hrúgu sem safnast hafði upp og gera ýmislegt annað, eins og elda gott í hádeginu og liggja í sólbaði.

Þetta er pasta helgi í húsinu. Í gær gerði ég tómatsósu með fullt af grænmeti sem eftir steikingu fékk góðan slatta af hvítvíni sem ég lét sjóða niður og sauð síðan í tómate frito í 2 tíma. Þá maukaði ég allt í matvinnsluvélinni og helti aftur á pönnuna, hitaði upp og blandaði með rjóma. Pastað var úr Durum hveiti,  stórar snúnar pípur. Mjög gott.

Svo í gærkvöldi vorum við boðin kl 22.30 í bátsferð út fyrir ströndinni þar sem við giftum okkur. Þessa sömu helgi ár hvert er gífurlega mikil flugeldasýning þar sem hefst á miðnætti. Við höfum farið oft, fyrstu árin fórum við árlega, með mat, teppi og kyndla. Fórum í eftirmiðdaginn og mörkuðum okkur góðan stað svo við sæjum sem best. Oft voru íslenskir vinir með, ef þeir voru svo heppnir að vera hér á þessum tíma. Eitt árið vorum við boðin til enskra vina okkar sem eiga glæsivillu í hæðunum fyrir ofan, ekki fannst okkur það skemmtileg upplifun, við vorum í svo mikilli fjarlægð frá stemmingunni. Í gærkvöldi var okkur svo boðið að fara með kunningjum Gabriels úr köfunar-klúbbnum. Farið var á bát sem er sérbúin fyrir kafara og þeirra dót, þannig að hann er ekki beint nein snekkja. En góður og stór bátur. Þegar við vorum búin að kasta akkerum inn um allar tegundir af bátum, skútum og flottum snekkjum, borðuðum við létt og  drukkum létt. Síðan stukku þeir í sjóinn sem langai til þar til sýningin hófst.

Ég verð nú að segja að þetta var skemmtilegt, aldrei haft betra útsýni því skotið er upp frá ströndinni og frá prömmum sem staðsettir eru undan strönd. Það var eins og öllu væri tölvustjórnað, slík var nákvæmnin. Undir sýninguna er svo tónlist, ýmist sér samin eða sett saman.

Þegar við svo komum heim var verið að sýna Rosmary´s baby í sjónvarpinu. Þetta er mynd með Miu Farrow sem var sýnd í Háskólabíó 1971, þegar ég gekk með Daníel. Hálfgerð hryllingsmynd sem ófrískum konum var ekkert endilega ráðlagt að sjá. Nú 37 árum seinna var gaman að sjá myndina. Hún er mjög góð og auðvitað ekki eins ógurleg eins og manni þótti 1971.

Jæja, núna er ég búin að gera pastasósuna fyrir hádegismatinn. Klukkan er 15.00 og Gabriel kemur heim fljótlega. Ég gerði sinnepssósu eftir kúnstarinnar reglum. En þegar ég varð ánægð með árangurinn var komið í hana steiktur laukur og graslaukur, vatn+1/2 grænmetisteningur, 2 tegundir af sinnepi, rjómaostur og rjómi. Kryddaði svo með timian. Ætla að sjóða spinat tortellini og setja í sósuna.

Við erum svo boðin í grill hjá vini Gabriels í kvöld, verðum nokkuð mörg. Þannig að fram að því, þ.e. eftir matinn ætla ég að baða mig í pottinum og liggja í sólbaði. Við erum enn með hitabylgjuna.  

Fært undir Matur. 2 ummæli »

Magnaður kvöldverður.

Alveg fór kvöldið öðru vísi en ég átti von á. Gabriel hringdi áður en hann kom heim og sagði að vinurinn sem von var á í kvöldmat kæmi með vinkonu með sér. Gott og vel, ég þurfti því að úndirbúa “para” kvöld í stað þess að hafa tvo karla á terrasinu borðandi saman og ég kíkjandi af og til á þá. Maturinn var reyktur lax, grafinn lax+sósan, hangikjöt, íslenskur kavíar, harðfiskur, flatkökur og brauð sem ég bakaði í morgun. Ég setti líka paté og bláberjasultu og multe sultu sem ég keypti í Noregi í fyrra. Gestirnir mættu með vínin því það átti líka að smakka ýmis rauðvín, og eftirréttinn, dýrindis ávaxtaköku. Eins og venjulega var mikil hrifning yfir matnum, sérstaklega þó í þetta skipti þar sem vinurinn er mikill aðdáand lax og hélt að ekki væri til betri reyktur lax en sá norski. Hann var fljótur að skipta um skoðun í kvöld. En það sem var skemmtilegast var þegar komið var að eftirréttinum. Ég átti íslenskan rjóma og skyr sem mér var fært um daginn, rjóminn var auðvitað sjálfsagður með kökunni og okkur datt í hug að bjóða líka upp á skyrið. Þetta var slíkt hitt;-) sérstaklega rjóminn. Ég áttaði mig fyrst á því í kvöld að Spánverjar þekkja ekki ferskan rjóma, hér er bara G-rjómi sem kanske skýrir það að ég hef ekki borðað rjóma frá því ég fluttu frá London. Hvað finnst ykkur um skyr og rjóma og rauðvin drukkið með??? En gestirnir okkar gátu ekki hætt að borða rjómann og fóru að blanda sultunum saman við og þótti það algert sælgæti.

Það sem mér þykir magnaðast í kvöld er að ég þurfti að búa 14 ár í burtu frá Íslandi og fatta þá loks hina hreinu mjólkurvöru sem þar þykir sjálfsögð.

Þetta er álíka og ávextirnir sem við tínum af trjánum og smakkast svo mikið betur en þeir sem fást t.d. á Íslandi því okkar ávextir hafa aldrei komist í snertingu við eitur og rotvarnarefni.

Svo nú fer ég í háttinn með rjómabragð í munninum, ég hafði alveg gleymt hvernig hann smakkast:-)

Fært undir Matur. 3 ummæli »

Kökuskrímslið hf. í Stykkishólmi. Uppskriftir.

Í eldhúsi einu í Stykkishólmi er mikið bakað. Húsmóðirin og dóttir hennar baka og baka, pabbinn eldar mat. Bökunardeildin í húsinu er kölluð Kökuskrímslið hf. Það er auðvitað bara grín, en öllu gríni fylgir einhver alvara. Svo kanske verður til bakarí eða kaffihús með þessu nafni í Stykkishólmi. Nú, í nýlegu bloggi hjá mér biður húsmóðirin um uppskriftina af Nan brauði. svo hér kemur hún.

NAN brauð: 225 gr. hveiti með lyftidufti (self raising flour), 1 stk, 6 gr. poki ger, 1/2 msk. salt, 2 msk. hreint jogurt, 1. msk. olía, 4 ms. volg mjólk eða vatn. Blanda öllu saman og láta hefast undir klút í ca. hálftíma. Þegar hefun er lokið þá er að hnoða vel þannig að deigið verði mjúkt. Búnar til litlar kúlur og flattar út, bakað undir grilli ca. 2 mín. á hvorri hlið. Pensla með olíu eða smjöri þegar kökurnar koma undan grillinu. Ég bý gjarnan til “samloku” úr tveim deigkökum, set ost á milli og loka vel börmunum. Mjög gott er að blanda hvítlauk, koriander eða öðru í ólíuna áður en penslað er. Ég leik mér gjarnan með Nan, bæði nota ég lifandi ger og í pokum og engan poka á ég sem er 6 gr. Svo í raun er bara að leika sér þar til þið eruð orðin ánægð. Ég veit að í Kökuskrímslinu er mikið notað spelt hveiti og er það örugglega gott í nan líka.

Með indverskum mat er nan ómissandi og líka finnst mér nánast must að hafa Tomat Chutney, uppskrift sem ég fékk frá Kristínu mágkonu minni. Hér kemur hún.

250 gr. döðlur smátt skornar, 1 dós tómatar, 1 smátt skorinn laukur, 3,5 cm. hakkað engifer, 1 tsk chili duft (þetta má minnka mikið, allt eftir smekk) 1.tsk salt (ég minnka þaö) c msk. vínedik. Allt soðið saman 45 mín. Við erum mikið fyrir vel sterkt en þeir sem eru það ekki endilega minnkið chili duftið, ef þiið notði ferskt chili þá farið varlega. En þetta er ofsalega gott og svo auðvelt.

Í dag var slagur í eldhúsinu mínu, djók!! Þegar kom að því að elda vildum við bæði eiga heiðurinn að matnum. Svo niðurstaðan varð sú að ég gerði forréttinn en Gabriel aðalréttinn. Ég tók 1 kúrbít, skar hann í þrent og hvern hluta síðan í tvennt eftir endilöngu, skóf kjarnan úr hvorum helming og fyllti með Camebert osti, lagði helmingana saman og velti vel upp úr 2 þeyttum eggjum, þaðan fóru þeir svo í brauðmylsnu og síðan djúpsteiktir. Þetta var gott af því við höfðum með blönduð skógarber sem ég lagði í líkjör fyrir jólin. Heldur bragðlítið eitt og sér. Ég hef prófað að skera ca. 1 cm. þykkar sneiðar af eggaldin og smyrja gráosti á milli og matreiða eins. Það er mjög gott ef fólki þykir gráðostur góður, en þetta með Camebertinn er OK.

Gabriel bjó til Fidueá sem er réttur gerður eins og Paella nema hvað í stað hrísgrjóna er notað fínt pasta sem heitir Fidueá. Þetta er framleitt á Spáni og á ekkert skilt við Ítalíu. Reyndar eru miklir hrísgrjóna akrar hér í Valencia héraði og hefur það komið mörgum á óvart því einhvern veginn er hrísgrjóna rækt ekki tengd Evrópu í huga fólks. En Fidueá Gabriels í dag var með rauðri papriku, stórum baunum sem eru í uppskeru þessa dagana og ferskum túnfisk. Ég hef verið með honum þegar hann gerir Paellur og Fidueá öll þessi ár en get ekki nákvæmlega sagt hvað hann gerir. Ég notast sjaldan við uppskriftir en hann aldrei. Henn hefur eitthvað í blóðinu sem gerir hann að meistara í eldhúsinu. Og undanfarið hefur hann verið að koma mér á óvart með grænmetisréttum. Um daginn fyllti hann kúrbít með blöndu sem hann gerði í mixaranum sem hann gaf mér í jólagjöf:-( Honum urðu á þau misstök að gefa mér maskínu í jólagjöf, sem ég hef aldrei notað en hann notar nánast við allt. Svo hver var að gefa hverjum?  Hann skar kúrbítinn í tvennt eftir endilöngu, skóf kjötið innan úr en skildi eftir góðan vegg, maukaði saman kúrbítskjötið, feta ost, papriku, gulrót, sömu baunir og við vorum með í dag, egg og einhver krydd. Fyllti svo kúrbítinn og bakaði í ofni. Nammi, namm. Næst þegar þetta verður gert mun ég heimta afrikönsk krydd í, þetta kallaði á slíkt.

Jæja, er ekki komið nóg í bili? Ég á reyndar eftir að gefa ykkur uppskriftina af kjúklingasalatinu frá Siggu systir, ég á eftir að prófa það og blogga um réttinn þegar hann hefur verið etinn.

Fært undir Matur. 3 ummæli »

Bolognes sósa með soja”kjöti”.

Þar sem ég sit hér ein á föstudagskvöldi , hlaupárskvöldi þá datt mér í hug að setja inn uppskriftina sem ég nota þegar ég geri “kjötsósu” fyrir pasta. Gabriel er í karla partý, nánar tiltekið afmæli eins af körlunum sem hann “hangir” með eins og unglingarnir segja. Við köllum það kunningja sem hittast reglulega. Ég er búin að hlakka til allan daginn að komast heim og fara í rúmmið með bókina sem ég er að lesa. Íslensk bók sem mér barst í pósti um daginn, Hús úr húsi heitir hún og er eftir konu sem heitir Kristín María Baldursdóttir. Lofar virkilega góðu eftir 2 kafla.

En uppkriftin.

Þegar ég vinn úr soja kjöti geri ég ýmislegt og pastakjöt sósurnar eru sjaldnast eins, en sú sem ég gerði um daginn var mjög góð. Ég reif 1 stóra gulrót í pott og smáttsxaði 1 rauðlauk og setti í sama pott, helti Extra Virgin olíu yfir, dálitlum slatta, kveikti á hellunni og lét malla góða stund, hrærði mjög oft í. Næst kom sojahakkið. Ég hafði sett 1 bolla af fínu soja hakki í skál og 2 bolla af sjóðandi vatni yfir ca. 10-15 mín. áður og látið liggja. Hrærði því vel saman við laukinn og gulræturnar með helluna á fullum hita. Síðan tók ég pottin af hellunni, (það geri eg því annars slettist tómaturinn upp um alla veggi og borð) og helti lítilli dós af niðursoðnum söxuðum tómötum í og fernu af tómate frito, en það fæst trúlega ekki á Íslandi eins og ég hef svo oft sagt áður.  Svo tómat purree kemur í staðinn, 2 litlar dósir eða ein stærri. Smá vatn (ekki meir en desilitri) og grænmetisteningur. Setti pottinn aftur á helluna, bætti miklu af oreganó og basil í og sauð þetta svo í ca. 45 mín, þá þurfti að fara að bragða til. Best á allt og ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum fór í pottinn ásamt muldum marglita piparkornum, líka frá Pottagöldrum. Pínulítið salt því ég var búin með Herbal saltið mitt. Svo bara hélt ég áfram að bæta oreganó og hvítlauksblöndunni í þar til ég var ánægð. Bætti þá meiri muldum pipar í.

Mig langaði í kartöflumús en Gabriel pasta, svo ég sauð pastaskrúfur handa honum en gerði pakka mús handa mér. Bæði alsæl. Skamturinn var stór eins og yfirleitt þegar ég elda svo Gabriel fékk sér skammt í morgunmat daginn eftir (sunnudag) og við höfðum svo restina í kvöldmat sama dag. 

Ef einhver hefur ekki kveikt á því hver er besta gjöfin til að gefa mér þá vek ég athyggli á Pottagaldra kryddi. Annað er varla notað á þessu heimili. Kryddskápurinn okkar er svo stór og svo troðinn að það væri skemmtiefni fyrir marga að komast þar í, enda er húsið mitt vinsælt ef fjölskyldumeðlimi í byggingunni vantar krydd í matinn.

Ég skora á ykkur öll að prófa að nota soja í staðin fyrir kjöt, hakkið er einna auðveldast fyrir kjötætur að byrja á.

Verði ykkur að góðu.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

Fyllt, ofnbakað grasker og salat.

Sunnudagsmorgun og sólin er að reyna að brjótast fram eftir rigningu næturinnar og hluta morguns. Annars er himininn frekar grár. Spurning hvort maður fer nokkuð út í dag, kúrir bara og les eða fer að taka til í einhverjum skotum sem bíða tiltektar og ákvarðanatöku um hverju á að henda og hverju ekki:-(  Í gær fór fallegi sólardgurinn í íbúðarþrif hjá okkur hjónum, í sitt hvorri íbúðinni. Hans verkefni var öllu óskemmtilegra heldur en mitt. Íbúð sem við höfðum leigt manni var líklega áframleigð til Bulgara, hversu margir þeir voru vitum við ekki en allavega 3. Þar sem samningurinn rann út á föstudaginn og ekki náðist í neinn fór Gabriel í íbúðina og fann hana yfirgefna og útlítandi eins og verstu svínastíu. Þeir virtust m.a. hafa borðað kattarmat því hann er jú ódýrari en mannamatur. Hvort þeir voru bara ekki heima eða farnir var ekki hægt að sjá þannig að Gabriel skipti um skrá og fór svo í gær til að hreinsa út þannig að þrifnaðar stúlkurnar okkar gætu svo farið inn eftir helgi. Hann fór út með 13 svarta stóra ruslapoka. Þarna fann hann ýmislegt sem benti til þess að þessir náungar hefðu lifað á ránum, haug af sundurteknum símun og myndavélum ásamt fleiru. M.a nafnspjald frá íslenskum skemmtistað sem bendir til þess að Íslendingur hafi orðið fyrir barðinu á þeim. Þetta er því miður ekki fyrsta skipti sem við lendum í því að leigja fólki sem svo hverfur með miklar skuldir við okkur. Því, þó fólk þurfi að leggja fram mánaðar tryggingu þá nægir það engan veginn, svo nú erum við að breyta samningum og því miður þurftum við að taka þá ákvörðun að karlmenn frá Austur Evrópu fá ekki leigt hjá okkur, fjölskyldur já, en ekki einstaklingar sem vilja leigja saman. Þetta hljómar eins og versti rasismi en hvað gerir maður eftir að hafa lent illa í fólki oftar en einu sinn og oftar en tvisvar? Verst er að þessir einstaklingar gera það að verkum að heilar þjóðir eru stimplaðar.

En, þetta átti að vera matarblogg. Loksins að setja inn graskerið góða og salatið. Hér byrjar það!

Fyllt grasker bakað í ofni.

Ég átti eitt meðalstórt grasker, skar það í tvennt eftir lengdinni og hreinsaði kjarnan úr. Skar svo kjötið í rákir, svona eins og teninga. Setti Extra Virgin olíu í bolla og kramdi 2 hvítlauksrif út í ásamt slatta af oregano og basil. Hrærði þetta saman og lét liggja smástund áður en ég penslaði graskerið með olíunni, ég penslaði mjög vel. Setti svo helmingana í eldfast fat og bakaði í 200C ofni í 30 mín. Í öðru móti bakaði ég 1 lítið eggaldin, gula og rauða papriku og rauðlauk, allt skorið í sneiðar. Helti afgangnum af kryddolíunni yfir og bakaði jafn lengi. Hrærði oft í á meðan. Undir lokin setti ég kirsuberjatómata út í grænmetið og bakað þá með. Meðan þetta var að bakast hrærði ég saman brauðrasp, parmesan osti, steinselju og svörtum steinlausum ólífum sem ég skar í sneiðar. Þegar graskerin voru bökuð tók ég þau og grænmetið úr ofninum. Fyllti þau með grænmetinu, skar niður fetaost (ekki kryddaðan úr krukku) setti yfir og loks raspblönduna. Bakaði svo aftur í 10-15 mín. Eins og alltaf þegar ég elda nota ég ekki mælieiningar heldur tilfinninguna. Grænmetið varð of mikið en það skipti engu máli, við borðuðum afganginn í morgunmat daginn eftir með ristuðu brauði og osti. Þetta varð veislumatur. Hálft grasker dugði vel fyrir einn, við höfðum salat með. Ekki þó það sem uppskriftin fyrir neðan er af.

Sem sagt í Grasker réttinn þarf; grasker,ólívuolíu, hvítlauk, oregano, basil, eggaldin, gula og rauða papriku, rauðlauk, kirsuberjatómata, fetaost, brauðrasp, parmesanost, steinselju og svartar eða grænar ólífur.

Þá er það salatið sem ég gerði sem kvöldmat fyrir okkur eitt kvöld fyrir stuttu. Við erum að vinna gegn of háu kolesteróli svo maturinn er mjög vel valinn þessa dagana.

Mig langaði í öðruvísi salat svo ég skar gulrót í þunnar sneiðar og saxaði rauða papriku, steikti þetta í ólívu olíu þar til ca. hálfsteikt, bætti þá púrrulauk í mjög þunnum sneiðum á pönnuna og steikti með 3-4 mín. Á tvo diska setti ég salatblöð, raðaði 4-5 blöðum hringinn á diskana (notaði reyndar ferkantaða diska), saxaði einn stóran tómat og skipti milli diskanna, setti svo steikta gtrænmetið í miðjuna, kryddaðan fetaost ú krukku (bara nokkra teninga á hvorn disk) og stráði svo sólblóma fræjum yfir. Salatið varð einstaklega gott svona bæði kalt og heitt. Okkur kom saman um að þetta gæti hæglega verið forréttur í boði, en þá myndum við hafa nýbakað brauð með.

Í gærkvöldii gerði ég svo mína tegund af Bolognes sósu, en hún er með soja kjöti. Þið fáið þá uppskrift næst. Þetta er orðið svo langt. 

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Valentínusardagur.

Þið þekkið auðvitað öll söguna um  heilagan Valentínus svo ég er ekkert að setja hana hér. Heimsbyggðin;-) hélt upp á nafnadag hans í gær. Við hjónin höfðum ákveðið að í ár yrðu engar gjafir gefnar, okkur vantar bara ekki neitt, nema að ég hefði þegið andlitslyftingu, brjósta aðgerð og svuntu takk, þar eru svo margar vinkonur mínar að láta framkvæma allt þetta eða eitthvað af því svo ég fer að líta út 30 árum eldri en ég er þegar ég er i návist þeirra:-( 

Ég er einmitt að þjást með einni enskri sem á hús hér í Albir og kom hingað til að láta framkvæma andlit og maga. Ég hef reyndar bloggað um stórkostlega 60 ára afmælisveislu hennar í haust, en veislan stóð í tvo daga/kvöld. Þetta er mjög falleg kona sem nú er rosa spennandi því hún er öll í umbúðum nema augun og sjást því saumarnir þar í kring. Hún á erfitt með að hlæja því magavöðvarnir eru ekki sammála slíku enn sem komið er. Ég lít til hennar þegar ég hef tíma og hlakka mikið til að sjá árangurinn. En mikið er hún búin að eiga bátt, úps, þetta er ekki verkjalaust. En þess virði og mikið meir en það segir hún svo og önnur vinkona mín sem var í samskonar aðgerð fyrir jólin og er að endurlifa unglingsárin, eða þannig.

Sem sagt, ég fékk ekki ávísun á lýtalækni í Valentínusargjöf, heldur konfekt og 12 rauðar rósir, eina fyrir hvert ár sem ég hef þolað manninn minn eins og stóð á kortinu. Síðan fórum við út að borða í gærkvöldi á mjög fallegu hóteli í Altea.

Sigga Rúna tengdadóttir mín kommenteraði á bolludaginn hjá mér og bað um uppskriftina af vatnsdeigsbollunum. Hér kemur hún.

3 dl. vatn, 1 msk. sykur, 100 gr. hveiti, 100 gr. smjörliki, 3 egg. Vatn, sykur og smjörlíki soðið saman, hveitið sett í og hrært stöðugt þar til hveitibollan losnar frá pottinum. Þá er hún sett í hrærivél og eggin þeytt saman við, eitt í einu. Sett á smurða plötu eða bökunarpappír með lítilli matsekið. Bakað við 200C fyrstu 15 mínúturnar þá er hitinn lækkaður aðeins og bakað áfram í 45-60 mín. ÁRÍÐANDI! Ekki má opna ofninn fyrstu 20 mínúturnar. (eru ekki allir ofnar með gleri núna?) Ég smyr þær svo með súkkulaði þegar þær eru orðnar kaldar, sker þær í sundur og set góða sultu og þeyttan rjóma milli helminginna. Svona einfalt er nú það.

Annars er ég að fara að horfa á video, er að njóta þess að bóndinn er farinn á skíði og ég hef húsið fyrir mig eina.

Góða helgi öll aman.

Fært undir Matur. Engin ummæli »