Dagur 8.

Dagurinn í dag hófst eins og allir dagar með kossi frá ömmustráknum. Hann átti skemmtilegan dag í skólanum og hafði frá ýmsu að segja við heimkomuna. Foreldrarnir þurftu að fara á fund í skólanum hans svo við vorum tvö heima. Okkur líður afskaplega vel saman.

Frænka Tony og fjölkylda sem búa í bæ hér ekki langt frá komu í heimsókn og borðuðu kvöldmat með okkur. Börnin þeirra tvö og Óskar Marinó skemmtu sér mjög vel. Ég nartaði aðeins í salat því ég ætla að borða mexikósku súpuna góðu með Gumma og Gabriel sem bráðum fara að renna í hlað. Klukkan er að verða 22.00 og þeir koma á hverrri mínútu.

Þeir eru mættir :-)

Góða nótt!!!

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 7.

Mánudagur og litlu hendurnar tóku um hálsinn á mér í rúmminu, klæddur í úlpuna og var að fara í skólann. Komin að sækja sinn koss.

Ég dundaði mér heima við ýmislegt þar til tími var komin til að sækja litla manninn í skólann, þá fórum við Gummi og vorum mætt tímalega. Hann kom alsæll út því í gær var fyrsti dagur í jólum eins og hann sagði. Kennarinn var með jólasveinahúfu og Óskar Marinó hafði fengið verlaun því hann var sá sem fann falinn pakka í skólastofunni. Þeim var gefið sælgæti og hollusta. Hér er mikið lagt upp úr hollustu og t.d. var mandarína, ávaxtastangir og fleira góðgæti sem ekki þykir óhollt í pokanum frá jólasveininum sem við hittum um daginn.

Mér var skutlað í bæinn og feðgarnir fóru í vinnuna. Bókasafnið sem Toný les á er í miðbænum. Svo söfnuðumst við öll saman á torgi bæjarins og fórum í innkaupaleiðangur. Gaman, gaman.

Á morgun kemur Gabriel :-)  

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 6.

Fyrsti sunnudagur í Aðventu.

Þegar við mættum klár í Real Madrid fótboltabúning á æfinguna, haldið ekki að það hafi verið badmintonmót og börnin þurft að víkja með sína æfingu.

Svo í staðinn fórum við að skoða nærliggjandi bæi svo mamman gæti lært, því í eftirmiðdaginn ætlaði hún að vera í fríi. Þetta var mjög skemmtileg ferð.

Svo var farið heim til mömmu. Kvöldið áður hafði hún skreytt mjög fallega fyrir aðventuna, lítill kringlóttur rauður dúkur þar sem hún raðaði litlum jólabjöllum sem amma hennar málaði og fleira fallegu ásamt aðventukerti, aðventuljósið komið í stofugluggann. Þegar við komum, útbjó hún heitt súkkulaði og setti ýmisskonar góðgæti á borðið. Kveikt var á aðventukertinu og jólastemming í hámarki.

Eftir að hafa notið veitinganna, fórum við að skoða stórmarkaðinn. Þar var jólasveinn sem talaði  við börnin og gaf þeim poka með ýmsu góðgæti. Mér hafði tekist að finna kaffihús í þessari “Kringlu” sem bauð upp á ekta smörrebröd, og brá mér þangað til að láta eftir mér sneið á meðan fjölskyldan sinnti versluninni. Hreinn unaður :-)

Ámorgun er 1. des. og þá má opna jóladagatalið.

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 5.

Laugardagur 29. nóvember.

Ég kláraði að lesa Óreiða á striga í gærkvöldi. Stórkostleg bók, ekki síðri en sú fyrri.

Dagurinn leið við skoðunarferð og leiki. Um kvöldið eldaði ég einn af uppáhaldsréttum Gumma frá því hann var í foreldrahúsum. Það var mikill fögnuður og vel borðað.

Á morgun ætlar amman með litla manninum á fótboltaæfingu.

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 4.

Í dag er föstudagur og Óskar Marinó fékk frí í skólanum til að vera með ömmu sinni. Það hefur verið alveg himneskt að fá þennan litla fallega mann að rúmminu á hverjum morgni til að kyssa ömmu bless áður en hann fer í skólann.

Allir fjöslkyldumeðlimir verða í fríi frá hádegi. Í dag á að opna jólaland í bænum. Mörg lítil söluhús, tívolí, jólasveinar og jólaálfar. Við héldum öll spennt af stað. Þegar við höfðum verið svolitla stund að skoða okkur um í þessu fallega jólalandi fór að hellirigna, svo við stungum okkur inn á fallegan veitingastað og biðum af okkur rigninguna þar. Þegar komið var fram undir kvöld héldum við heim og amma eldaði Risottoið. Annað var með sveppum, hitt tómat og chili. Sterkt þetta með chilli, en okkur Guðmundi þótti það betra en það með sveppunum.

Kvöldið leið eins og hin á undan, við spjall, sjónvarp, tölvur og lestur. Þetta er sannkölluð hvíldar og gleði dvöl hjá yndislegri fjölskyldu.

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 3.

Þá kom að því að amman fór ein að skoða sig um í bænum. Ég gekk og gekk, hverja skemmtilegu götuna á fætur annari. Uppgötvaði litlar skemmtilegar búðir og fann veitingastaði sem ég einsetti mér að prófa þegar Gabriel kæmi. Nema einn þeirra sem býður upp á þetta líka stórfenglega jólahlaðborð, Dansk julefrukost :-) stökk þar inn til að tala við þjón og fá að skoða staðinn. Hann er svona líka fallegur, svo ég pantaði borð fyrir alla fjölskylduna í hádeginu á laugardaginn. Það sem ég hlakka til…Oh boy.

Einnig fann ég himneska ítalska verslun og keypti þar 2 poka af mismunandi Risotto til að elda handa okkur. Það skyldi gert næsta kvöld og hafa gott rauðvín með.

Ég endaði svo bæjarferðina inn á fallegum bar. Fljótlega varð ég ein með afgreiðslukonunni og tókum við tal saman. Í ljós kom að hún var frá Suður Afríku og hafði búið í Danmörk í 11 ár. Talaði þessa líka fínu dönsku. Ég pantaði hvítvínsglas þegar ég kom inn og fékk eitthvað það fallegasta glas sem ég hef fengið á bar. Sjálft glasið mjög lítið en á háum grænum fæti. Nafni staðarins var grafið í glasið. Ég var heilluð af glasinu og spurði konuna hvað ég þyrfti að borga ef ég bryti glasið. Ekkert…sagði hún, þú mátt eiga glasið til minja um þennan dag. Þar sem hún vinnur bara 2 daga í viku ákváðum við að ég kæmi í heimsókn á fimmtudeginum 3. des. og þá með Gabriel með mér en hann kemur 2. Ég stefni í að eignast annað glas þá :-)

Frábær dagur og gott kvöld í afslöppun með mínu fólki.

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 2.

Að hefðbundnum morgunverkefnum loknum tók við lestur á bókinni frábæru um hana Karitas, Órói á striga. ég hafði tekið hana með mér að heiman þó stór sé, því mér var ómögulegt að skilja hana eftir hálf lesna. Toný var á bókasafninu. Gummi sótti mig svo og fór með mig í bílferð um nágrenið. Fórum víða og margt skoðað. Barnið sótt í skólann og farið í stórmarkaðinn aftur þar sem feðgarnir spiluðu fótboltaspil í einni af mörgum tölvum sem þar eru. Svo sóttum við mömmu á bókasafnið og héldum heim á leið. 

Fært undir . Engin ummæli »

Álaborg. Dagur 1.

Fyrsta morguninn vakti ömmustrákurinn mig til að fá koss áður en hann færi í skólann. Amma var fljót að sofna aftur. Loks þegar ég var komin á fætur og búin að setja á mig andlitið ofl. var farið að huga að því hvernig deginum skyldi eytt. Antonía tendgadóttir mín er í masternámi og að ljúka lokaverkefninu þannig að hún hefur mikið að gera. Hún vann  hér heima þennan dag og við sóttum Óskar Marinó snemma í skólann. Fórum í bæinn þar sem drengurinn leiddi ömmu sína um þröng stræti gamla bæarins og hafði frá mörgu að segja. Við lékum okkur í dásamlegum litlum listigarði, hoppuðum á milli steina ofl. Fórum á mjög skemmtilegt kaffihús og fengum okkur nammi gott að snarla. Síðan var pabbinn sóttur í vinnuna og farið í rosalega stóran súðermarkað. Þetta var allt mjög gaman.

Heim komum við svo þreytt og glöð borðuðum afganginn af yndislegu súpunni sem Toný hafði gert fyrir komu mína.

Fært undir . Engin ummæli »