Kampavín með mat.

Ekki var ég búin að vera lengi heima þegar ég mætti með Gabriel í vínsmökkun. Nú var verið að kynna og smakka kampavín. Vínhúsið, eða fyrirtækið (hvort sem þið viljið) sem kynnt var, er franska húsið Veuve Clicquot. Víngerðarmaðurinn sem kynnti, (og nú verður maður að vita að víngerðarmaður er titill rétt eins og efnafræðingur ofl.) er spænskur og hefur unnið við frönsk hús lengi. Kynningin var óvenjulöng og við lærðum ótrúlega mikið. Ég, leikmanneskjan var heilluð af frásögn hans og Gabriel sem komin er með diploma fyrir nokkrum árum sem útlærður vínsmakkari, bætti heilmiklu í sinn viskubrunn. Smökkuð voru 2 hvít og 1 rósa kampavín. Geysi góð vín, en annað hvíta mun betra en hitt, enda eitt af “drottningum” hússinis. Það rósa var einnig mjög gott, en ekki fengum við þó að smakka “greifynjuna” í hópi rósa kampavíns hússins enda kostar hver flaska tæpar 400 evrur. Svo við hjónin geymum það til betri tíma, en ég er viss um að við eigum eftir að kaupa eina slíka til að njóta með morgunmatnum einhverntíma.

Aðal þema þessa bráðskemmtilega víngerðarmanns var að fá þáttakendur til að skilja að kampavín er eitthvað það al besta vín sem hægt er að hafa með mat, og það næstum öllum mat. Hann sagði þó, að klassa rauðvín yrði aldrei toppað ef verið væri að borða osta. En þar fyrir utan væri ekki til sá matur sem kampavín gengi ekki með. Gott og vel! Ég get næstum samþykkt þetta. Í mínu húsi er Cava, sem er spænska heitið yfir kampavín framleitt í landinu, mikið notað. Fyrir mat, með mat, með eftirréttum og sem hressingardrykkur. Þó vorum við að ræða það í morgun að einhvernveginn gætum við ekki hugsað okkur kampavín með síld, hangikjöti né öðru sem kemur úr svipuðum fæðuflokkum (meðhöndlun).

Ef ég bregð mér af bæ, þ.e. til útlanda, kemur Gabriel ætíð með Cava og 2 kampavínsglös á flugvöllinn þegar hann tekur á móti mér. Við skálum síðan í bílnum áður en við höldum af stað heim. Athugið!!! hann drekkur bara 1 glas, svo venjulega geymi ég flöskuna þar til við komum heim að við getum noti hennar saman.

Mjög algengt er að Gabriel geri sérstaka spænska eggjahræru í morgunmat á sunnudögum og við drekkum Cava með. Þetta vita allir sem hafa verið gestir okkar, hvort heldur í London eða hér á Spáni, og notið vel :-)  

En, tilgangur þessarar bloggfærslu er tvíþættur. Annarsvegar, að hvetja ykkur öll til að prófa ykkur áfram í freyði- og kampavínum með mat, og hinns vegar að vekja athyggli á að ég er auðvitað búin að taka upp spænska siði og farin að sötra vín alla daga :-)

Fært undir . 1 ummæli »