Frost og snjór allt niður í 400 metra.

Það er kalt á Spáni núna, frost allt að -8C og snjór víða um land. Reyndar þykir okkur þetta hálf spaugilegt hér í húsinu. Ekki það, að við finnum líka fyrir kulda við ströndina, en fréttamyndir af snjónum frá hinum ýmsu stöðum mundu heita snjóföl á Íslandi. Þó er ekki óalgengt að snjói allt að hálfum metri í þeim bæjum og borgum sem hæst standa.

Nú eru jólin yfirstaðin. Þrettándinn, eða Reyes (vitru kóngarnir) leið með hátíðarhöldum. Við vorum með fjölskyldu Gabriels í mat og það var mikill matur, vorum í 2 tíma að borða. Skipst var á jólagjöfum og allir mjög glaðir. Kvöldið áður riðu Kóngarnir 3 í bæinn á úlföldum. Það var geisi mikil skrúðganga og ráku þeir lestina á sínum virðulegu reiðskjótum. Segja má að mannkynsagan hafi verið rakin í skrúðgöngunni. Allar götur voru fullar af fólki, margir með börn, aðrir ekki. Sælgæti rigndi yfir áhorfendur frá þáttakendum skrúðgöngunnar. Ég var í bænum með ungan vin minn sem skemmti sér mjög vel. Það gerðu foreldrar hans líka. Íslendingar sem aldrei höfðu upplifað neitt þessu líkt og nutu hverrar mínútu. Þau héldu síðan heim til fósturjarðarinnar í gær eftir 3ja mánaða ævintýra búsetu hér.

Og, þá er ég loks búin að taka ákvörðun um komudag til Íslands. 13. mars skal það verða. Ég er búin að bóka farið en ekki búin að ákveða hvenær ég fer heim aftur. Geri það þó á næstu dögum. Svo nú er bara að leyfa sér að byrja að hlakka til.

Sjáumst bráðum!!! 

Fært undir . 4 ummæli »