Dagur 3.

Þá kom að því að amman fór ein að skoða sig um í bænum. Ég gekk og gekk, hverja skemmtilegu götuna á fætur annari. Uppgötvaði litlar skemmtilegar búðir og fann veitingastaði sem ég einsetti mér að prófa þegar Gabriel kæmi. Nema einn þeirra sem býður upp á þetta líka stórfenglega jólahlaðborð, Dansk julefrukost :-) stökk þar inn til að tala við þjón og fá að skoða staðinn. Hann er svona líka fallegur, svo ég pantaði borð fyrir alla fjölskylduna í hádeginu á laugardaginn. Það sem ég hlakka til…Oh boy.

Einnig fann ég himneska ítalska verslun og keypti þar 2 poka af mismunandi Risotto til að elda handa okkur. Það skyldi gert næsta kvöld og hafa gott rauðvín með.

Ég endaði svo bæjarferðina inn á fallegum bar. Fljótlega varð ég ein með afgreiðslukonunni og tókum við tal saman. Í ljós kom að hún var frá Suður Afríku og hafði búið í Danmörk í 11 ár. Talaði þessa líka fínu dönsku. Ég pantaði hvítvínsglas þegar ég kom inn og fékk eitthvað það fallegasta glas sem ég hef fengið á bar. Sjálft glasið mjög lítið en á háum grænum fæti. Nafni staðarins var grafið í glasið. Ég var heilluð af glasinu og spurði konuna hvað ég þyrfti að borga ef ég bryti glasið. Ekkert…sagði hún, þú mátt eiga glasið til minja um þennan dag. Þar sem hún vinnur bara 2 daga í viku ákváðum við að ég kæmi í heimsókn á fimmtudeginum 3. des. og þá með Gabriel með mér en hann kemur 2. Ég stefni í að eignast annað glas þá :-)

Frábær dagur og gott kvöld í afslöppun með mínu fólki.

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.