Valentínusardagur og ég á leið í helgarfrí.

Mjög fallegur, sólríkur morgun. Spáð er yfir 20C eins og verið hefur sl. daga. Við hjónin erum að leggja af stað til Elche, sem er útborg Alicante. Elche er frægust fyrir það að þar eru stærstu pálmagarðar Evrópu með yfir 200.000 tegundir. Frægastur þeirra er Prestagarðurinn, þar sem m.a. er að finna risapálma, Keisarapálmann, sem getið hefur af sér 9 afkvæmi sem ekki öll lifðu, eftir eru 7. Merkilegast við þetta er að þau vaxa öll upp frá rótinni sem er mjög sjalgæft. Einnig að pálminn er karlkyns. Þungi þessa listaverks er slíkur að því er haldið uppréttu með járnstöngum sem mynda eins og stjörnu á jörðunni og liggja upp að eftir föðurpálmanum. Annars myndi hann falla undan eigin þunga. UNESCO hefur gert pálmagarðana að alþjóðlegu verndarsvæði. Heimsgarða, eins og það heitir.

Annar pálmi, mjög fallegur er þarna einnig og heitir Sisi, eftir keisaradrottningu Ungverjalands, en hún þótti fegursta kona veraldar meðan hún lifði. Ekki var þó líf hennar auðvelt og hefur Díönu prinsessu af Wales og Sisi oft verið líkt saman. Sisi, Elisabeth var skírnarnafn hennar, heimsótti Prestagarðinn 1894 og var presturinn, eigandi garðsins þá enn á lífi og gaf henni einn pálmann í garðinum, sem ber nafn hennar. Segi ykkur kanske sögu hennar seinna:-)

Ég bjó til og fór margar skoðunarferðir með íslendinga til Elche, þar er fleira að sjá en pálmana. Daman frá Elche, höggmynd sem ungir dregnir fundu grafna í jörð um miðja síðustu öld og er reyndar geymd í Þjóðmynjasafninu í Madrid, en eftilíking er í Elche. Dómkirkjan, stórkostlegt listaverk. Ekki auðvelt verk að fikra sig upp örmjóan stigann upp í turninn og út á þak hennar, en þaðan sér maður yfir alla Alicante, út á haf og langt inn til fjalla.

Nú erum við sem sagt að halda af stað til þessarar fallegu borgar sem er sú þriðja stærsta í Valencia héraði. Við munum byrja á að koma okkur fyrir á hótelinu þar sem við eigum bókað næstu nótt, síðan njóta dagsins á þessum fallega stað. Í kvöld eigum við svo bókað á uppáhalds veitingahúsi okkar þar, Valentínusarmálatíð. Þangað mætum við kl. 21.00 og munum væntanlega sitja að snæðingi langt fram eftir, því matseðilinn er stór.

Hótelið er með sérstaka Valentínusarhelgi, eins og reyndar flest eða öll önnur á landinu, svo þar mun væntanlega bíða okkar góðgæti þegar við komum inn í herbergið okkar.

Eigið dásamlegan Valentínusardag öll sömul, ég ætla svo sannalega að njóta hans.

Skrifa eftir heimkomuna :-)

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.