Gleðilegt ár 2009.

Við hér á Benidorm óskum öllum gleðilegs árs og vonum að árið fari mjúkum höndum um ykkur öll.

Ármótin voru skemmtileg hjá okkur. Við hátíðarborðið hér sátum við hjónin, Gaui og kærasta og vinir okkar frá Akureyri þau Magnús og Lilja ásamt Alex 7 ára syni sínum. Þau hafa verið hér í íbúð sinni í 3 mánuði og hverfa aftur til Íslands 7. janúar. Binni kom og heilsaði upp á okkur, uppábúin á leið í mat með vinum sínum, en þeir vinirnir og kærustur sem komnar eru í hópinn, hafa haft þann sið í nokkur ár að borða saman heima hjá einhverjum þeirra. Og allir leggja sitt til eldamennskunnar. Nú var borðað hér í byggingunni, þeir eru orðnir 3 vinirnir sem búa hér. 

Við vorum með gulrótar/kartöflusúpu í forrétt og bar ég fram brauð sem ég hafði skorið út, jólatré og bjöllur, og smurt hvora hlið með smjöri og velt upp úr sesamfræjum og bakað við lágan hita í ofninum í 45-50 mín. Síðan var það Roast beef með tilheyrandi og heimagerðir ísar og heilsukaka sem ég bjó til. Eftir matinn fórum við svo í bæinn til að telja inn nýja árið, borða vínberin okkar 12, 1 við hvert klukknaslag og sötra smávegis kampavín. Við gömlu hjónin vorum komin heim fyrir 01.00 eða fyrir miðnætti á Íslandi. 

Árið sem kvaddi var okkur að flestu leiti gott ár. Við höfðum mikið að gera sem var vel, en af sömu ástæðu gátum við ekki tekið okkur frí eins og við hefðum viljað. Ég, eins og áður vann við farastjórn ásamt því að vera á skrifstofu ESPIS. Í sumar vann ég þó nokkuð meira en árið á undan og þótti það skemmtilegt að vanda, en ekki vil ég þó gera þetta aftur að aðalstarfi mínu. Okkur tókst þó að skreppa í ógleymanlega ferð til Ítalíu á haustmánuðum, þar slöppuðum við af og borðuðum góðan mat.

Margir góðir gestir sóttu okkur heim á árinu, en heimsókn mömmu og Þórðar bróður míns sem kom með henni, ber hæst í minningunni. Þetta var í fyrsta sinn sem mamma kemur hingað til okkar á þeim 10 árum sem við höfum búið hér, svo að vonum var mikil gleði að vera með henni þessa viku sem þau stoppuðu.

Heilsufar okkar hér var almennt gott, ég og Binni vorum hraust, Gabriel greindist með þvagsýrugikt og hefur átt í erfiðleikum af þeim völdum. Hann er nú á lyfjum sem vonandi gera gott, en mataræði skiptir líka sköpum í meðferð sjúkdómsins. Guðjón eldri fékk aftur hjartaáfall í jánúar s.l. og það öllu alvarlegra en fyrr því nú þurfti hann að fara í “by pass” aðgerð þar sem skipt var um 4 æðar. Aðgerðin þótti mjög tvísýn, en ráðist var í hana og tókst hún vel, hann hefur notað árið til að byggja sig upp, bæði hér og á Íslandi. Guðjón yngri var búin að kljást lengi við einhverja pest, en þráaðist við að fara til læknis þar til svo var komið að hann stóð varla undir sjálfum sér og átti erfitt með allar hreifingar. Hann var umsvifalaust fluttur á spítala þar sem í ljós kom að hann var með slæma lungnabólgu og annað lungað fallið saman. Góð ummönnun, lyf og súrefni komu honum á fætur á ný og var vel fylgst með honum fyrstu vikurnar eftir að hann útskrifaðist, m.a. með því að hann var vikulega látin koma í skan ofl. Kisurnar á bæjum þeirra bræðra eru hressar (hressir) og hafa bara verið til gleði þetta árið.

Hvað svo nýja árið ber í skauti sér veit víst engin, en ég hef sett stefnuna á Íslandsferð í vor og mun þá stoppa í nokkrar vikur. Það er hallærisleg amma sem ekki heimsækir barnabörnin árlega finnst mér og hyggst ég bæta úr því í framtíðinni:-) Vonandi getur Gabriel komið líka, þó ekki verði nema í viku.

Við ætlum okkur að halda áfram að byggja upp fyrirtæki okkar og berjast gegn kreppu eins og restin af heimsbyggðinni, en við erum bjartsýn og höldum ótrauð áfram. 

Vonir okkar um batnandi ástand sendum við yfir höfin til allra sem við þekkjum, í hvaða heimsálfu sem þeir eru.

Fært undir .

Ein ummæli við “Gleðilegt ár 2009.”

  1. petrea ritaði:

    það er ekkert smá sem gengið hefur á hjá þér og þinni fjölskyldu á árinu sem var að kveðja. Ég vona að “þinn gamli” nái sér eftir þessa aðgerð, hinir tveir eru svo ungir að það bítur ekkert á þá. vegni ykkur vel mín kæra…. kv/ph