Hnoðskálin og ég.

Í kvöld hnoðaði ég deig í mexiksnskar tortillur. Ekki að það sé í frásögu færandi, ég er alltaf að hnoða. Ef ekki brauðdeig, þá bökudeig eða reyna eitthvað frá framandi löndum. En þar sem ég stóð þarna og hnoðaði af leikni með annari hendi fór ég að hugsa um hnoðskálina mína. Þessi sænska, stílhreina skál,  hvít með blárri rönd á brúninni og einhverjar málningarslettur sem minna á gróður á smá bletti. Ég keypti þessa skál í IKEA í Reykjavík rétt eftir 1980, keypti hana af því hún var svo flott, svona ekta sænsk og modern. Lítið gat mér dottið í hug hvað þessi skál ætti eftir að fylgja mér, né öll hlutverkin sem hún átti eftir að leika.

Upphaflega kom hún auðvitað frá Svíþjóð til að gleðja augu fólks og verða eign einhvers á Íslandi. Þessi einhver er ég. Á Íslandi var hún mest upp á punt, en þó tekin fram af og til. Nokkrum árum seinna flutti skálin með mér til Svíþjóðar, það var þegar ég fór að vinna hjá Flugleiðum í Stokhólmi. Af hverju tók ég skálina með? Ég get ekki svarað því, en í sínu upphaflega heimalandi var hún mikið notuð og ég fór að taka ástfóstri við skálina mína. Við fluttum svo saman aftur til Íslands skálin og ég. Þar meðhöndlaði ég hana mikið, því nú var hún komin með sitt upprunalega hlutverk, hún var hnoðskál. Þykk og falleg. Raunar öllum skálum fegurri, og ég er viss um að hún gerði sér grein fyrir því. Tíminn leið og við fluttum á milli húsa í Reykjavík skálin og ég (ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum). Svo kom að því að ég tók ákvörun um að fara til Englands og mennta mig ofurlítið og skálin fór með mér. Þar hélt hún afram að vinna öll verk sem henni voru falin, hvort heldur var sem hnoðskál eða salatskál.  6 árum og 4 heimilum seinna var henni pakkað í kassa ásamt fleiru og nú skyldi hún til Spánar, þar sem skálarnar eru svo fallegar og girnilegar að sú sænska var komin í samkeppni, harða samkeppni. Enn hefur hún yfirhöndina og situr stolt á hillu í eldhúsinu mínu. Hér á Spáni hefur hún einnig fengið mörg hlutverk og alltaf ber hún af, skálin sem ferðast hefur yfir höf og lönd með mörgum stoppum. Ekki fengið svo mikið sem eina rispu á þessu langa ferðalagi.

Svo áfram munum við töfra fram það sem okkur dettur í hug, skálinni og mér.

Fært undir . 1 ummæli »