Fallin frændi, gamall vinur.

Rúnar Júlíusson tónlistarmaður kvaddi þenna heim í byrjun mánaðarins. Allt of snemma. Hann var eins og  Mick Jagger, ódrepandi rokkari.

Ég var aðeins 16 ára þegar ég kynntist Rúnari og strákunum í Hljómum. Við vorum fljót að rekja ættir okkar saman, Rúnar og ég, enda Bergmannsættin sú hin sama á Suðrnesjum og sú fyrir vestan. Smá klofningur, eins og við sögðum alltf.  Þetta var á mínum Keflavíkur árum eins og ég kalla þau. Ár sem mörkuðu mikil spor í líf mitt þó ekki væru þau mörg. Margar eru þær myndirnar sem ég á af okkur við hin ýmsu tækifæri. Merkilegt nokk, flestar þó teknar við keppnina Ungfrú unga kynslóðin, sem haldin var í Austurbæjarbíói ár hvert, um nokkura ára skeið. Þá var líka haldin keppni um bestu hljómsveitina, og á þessum tímun voru þær bara þrjár, Hljómar, Óðmenn og Tónar. Síðan hélt ég aðra leið. Það var önnur Keflavíkur hljómsveit sem ég fylgdi og fór á böll með. En margar voru þær veislurnar, partýin, eins og það hét og heitir enn, sem við sátum saman. Með þessum strákum lærði ég að eiturlyf væru ekki fyrir mig. Ekki að þeir væru á kafi í slíku, heldur var umræðan mikil. Þeir voru flestir nokkrum árum eldri, synir hippatímans. Þarna ákvað ég að drekka ekki, og stóð við það fram á eldri ár, þegar ég tók bjór og léttvín í sátt.

Ég gleymi aldrei sunnudagskvöldinu þegar Maja hans Rúnars var kosin ungfrú Ísland. María Baldursdóttir, þau höfðu verið saman svo lengi sem elstu vinir mundu. Ég var á dansleik í Silfurtunglinu við Snorrabraut þegar úrslitin voru kynnt.

Ég horfði á útsendingu frá jarðarför hans og það sem kom mér hvað mest á óvart var, að Maja og Rúni giftust ekki fyrr en í fyrra. Þá voru þau allavega búin að vera saman 45 ár, kanske giftust þau í tilefni af því. Ég, auðvitað hef ekki hugmynd um það. 

Mikið vildi ég geta skrifað meira um þessi ár, en það verður að bíða endurminninga minna;-)

Far í friði kæri frændi og gamli vinur.

Fært undir . Engin ummæli »