Hnoðskálin og ég.

Í kvöld hnoðaði ég deig í mexiksnskar tortillur. Ekki að það sé í frásögu færandi, ég er alltaf að hnoða. Ef ekki brauðdeig, þá bökudeig eða reyna eitthvað frá framandi löndum. En þar sem ég stóð þarna og hnoðaði af leikni með annari hendi fór ég að hugsa um hnoðskálina mína. Þessi sænska, stílhreina skál,  hvít með blárri rönd á brúninni og einhverjar málningarslettur sem minna á gróður á smá bletti. Ég keypti þessa skál í IKEA í Reykjavík rétt eftir 1980, keypti hana af því hún var svo flott, svona ekta sænsk og modern. Lítið gat mér dottið í hug hvað þessi skál ætti eftir að fylgja mér, né öll hlutverkin sem hún átti eftir að leika.

Upphaflega kom hún auðvitað frá Svíþjóð til að gleðja augu fólks og verða eign einhvers á Íslandi. Þessi einhver er ég. Á Íslandi var hún mest upp á punt, en þó tekin fram af og til. Nokkrum árum seinna flutti skálin með mér til Svíþjóðar, það var þegar ég fór að vinna hjá Flugleiðum í Stokhólmi. Af hverju tók ég skálina með? Ég get ekki svarað því, en í sínu upphaflega heimalandi var hún mikið notuð og ég fór að taka ástfóstri við skálina mína. Við fluttum svo saman aftur til Íslands skálin og ég. Þar meðhöndlaði ég hana mikið, því nú var hún komin með sitt upprunalega hlutverk, hún var hnoðskál. Þykk og falleg. Raunar öllum skálum fegurri, og ég er viss um að hún gerði sér grein fyrir því. Tíminn leið og við fluttum á milli húsa í Reykjavík skálin og ég (ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum). Svo kom að því að ég tók ákvörun um að fara til Englands og mennta mig ofurlítið og skálin fór með mér. Þar hélt hún afram að vinna öll verk sem henni voru falin, hvort heldur var sem hnoðskál eða salatskál.  6 árum og 4 heimilum seinna var henni pakkað í kassa ásamt fleiru og nú skyldi hún til Spánar, þar sem skálarnar eru svo fallegar og girnilegar að sú sænska var komin í samkeppni, harða samkeppni. Enn hefur hún yfirhöndina og situr stolt á hillu í eldhúsinu mínu. Hér á Spáni hefur hún einnig fengið mörg hlutverk og alltaf ber hún af, skálin sem ferðast hefur yfir höf og lönd með mörgum stoppum. Ekki fengið svo mikið sem eina rispu á þessu langa ferðalagi.

Svo áfram munum við töfra fram það sem okkur dettur í hug, skálinni og mér.

Fært undir . 1 ummæli »

Jólamaturinn ofl.

Aðfangadagskvöld rann sitt skeið eins og önnur kvöld. Maturinn var mjög góður, eins og von var;)  Í forrétt vorum við með graskers-súpu kryddaða með karry og kanel…ég veit þetta hljómar sérkennilega, en þetta er uppskrift sem við hjónin þróðum saman í haust.  Hamborgarhryggur með tilheyrandi fyrir kjötæturnar og ég gerði mér pottrétt úr soja-kjöt bitum, kryddaði með villikryddum ýmis konar. Þetta eru fyrstu jólin í langan tíma sem ég geri ekki “kjöthleif” úr soja hakki, en átti opin poka af soja bitunum í ísskápnum og ákvað því að nota það. Í eftirrétt, vaniluísinn sem ég geri altaf, en uppskriftin er frá Guðmundi langafa strákanna í föðurætt, en hann var bakarameistari og mjög góur sem slíkur. Með bar ég fram sultað engifer og skógarber. Síðan var meiningin að hafa kampavín og möndlukökur ýmisskonar sem amma Gabriels bakaði og færði okkur, en engin kom meiru niður.

Gaui kom niður til okkar eftir að hafa borðað og tekið upp pakka í sínu húsi, við vorum enn að borða þegar hann kom, svo hann boraði ís með okkur og aðstoðaði við pakka opnunina. Fljótlega eftir það fóru svo bræðurnir hvor til síns heima og eftir sátum við hjónakornin, Rosalba og Roberto.

Eins og mörg ykkar hafið séð á msn mínu, þá langaði mig í hárauðan jólakjól. Ég fékk hann…og gott betur, því ég fékk flotta rauða peysu og þá flottustu rauðu kápu sem ég hef séð lengi. Kápa er nokkuð sem ég hef ekki átt í mjög mörg ár. Svo, Gabriel sá til þess að mín jól væru rauð:-). Annars fengum við mjög mikið að vanda. Ástarþakkir til ykkar allra sem senduð okkur pakka og jólakort.

Á jóladagsmorgun vorum við komin snemma á fætur og Gaui kom í morgunkaffi eins og aðra morgna. Það er ómissandi að fá hann á morgnanna. Binni hins vegar, kúrði fram eftir en kom í eftirmiðdaginn til að borða.

Jóhanna vinkona okkar bíður spennt eftir matarbloggi mínu þessa daga;-) Hvað haldið þið að ég hafi elda á Jóladag? Grænmetisætan fékk skyndilega mikla löngun í fisk!!! Og allir þessir afgangar frá kvöldinu áður. Alla vega, ég átti frosin ýsuflök (spænsk) og tók þau úr frysti. Setti þau svo hálffrosin í eldfast fat. Steikti saman selleri, gula og græna papriku. Bjó til sósu úr pela af rjóma, 1 tsk af grænu chillimauki og 3 tsk rautt chillimauk (í báðum tilfellum er maukið grófmaukað) ca. 1 tsk sterkt karry og Herbal salt. Helti síðan sósunni yfir grænmetið á pönnunni og lét sjóða smá stund. Helti svo öllu yfir fiskinn, stráði rifnum osti yfir og bakaði í ofni við 180C í 20-25 mín. Sauð hrísgrjón með og gerði mjög gott salat. Þetta var dáldið sterkt, eins og við viljum hafa það, en ég ráðlegg þeim sem ekki eru fyrir mikið sterkt að minnka rauða chilli-ið í 1-2 tsk.

Í gær, annan dg jóla, fórum við að vinna smávegis. M.a. þurfti að hleypa gestum inn sem voru að koma. Við ákváðum að fara á La Cava Argonesa, einn albesta tapas staðinn á Benidorm og borða þar í hádeginu. Borðuðum tapas og drukkum kampavín með. Restin af deginum fór síðan í afslöppun og síestu fyrir framan sjónvarpið. Engin eldamenska í gærkvöldi.

Í kvöld erum við hins vegar að fá ensk vinahjón okkar í mat. Þau eiga íbúð í Albir (hef svo oft minnst á þau) og eru hér um jólin. Við ætlum að hafa reyktan, íslenskan lax, restina af hamborgarhryggnum skorin í þunnar sneiðar og með honum steiktan lauk, heimagerða sinnepsósu og fleira, sveppapaté sem ég er að baka, salat sem ég hef hugsað mér að hafa kalt/heitt eins og oft áður, með ristuðum furuhnetum og mosarella osti sem skrauti. Í eftirrétt er ég búin að gera heilsuköku…ó já, kaka frá Sigrúnu vinkonu minni í Café Sigrún, en kakan tók miklum breytingum sem ég á eftir að ræða við Sigrúnu. Þannig að uppskriftin kemur síðar, þ.e. þegar við verðum búin að smakka hana.

Ég hef nú tekið ákvörðun um að allavega önnur bókin sem ég er að setja saman muni koma út fyrir næstu jól, í síðasta lagi. Ég fékk uppljómun um daginn og gjörbreytti áherlsum annarar í stíl við titil sem mér datt í hug. Svo er bara að vita hvort Daníel sonur minn vill gefa hana út:-)

Hér kemur svo sveppa patéið sem ég er að baka. Nota bene, ég get eignað mér uppskriftina 100%.

Sveppapate. 

200 gr sveppir,fínt skornir

50 gr smátt saxaður laukur.

75 gr rifinn ostur1egg

30 gr brauðrasp

120 gr box grískt jógurt, má nota sýrðan rjóma.

1-2 marin hvítlauksrif.

Salt og pipar eftir smekk

Krydd kífsins frá Pottagöldrum, ca 1 tsk

Lófafylli af þurrkuðu timian.

Öllu hráefninu í pateið er blandað saman og sett í ofnfast fat og bakað við 200C í 40 mín. 

Borið fram með góðu salati og salatsósu að smekk. 

Hér myndi ég prufa mig áfram með krydd í pateið. T.d. finnst mér rósmarin eða timian ómissandi með sveppum.

Þetta er orðið svo langt að ég set inn súpu-uppskriftina næst.

Sæl að sinni og verið góð hvert við annað.

Fært undir Matur. 2 ummæli »

Aðfangadagur jóla.

Þá er Aðfangadagur runninn upp. Ég hef verið í matargerð í morgun og mun vera í slíku mest allan daginn. Að öðru leyti erum við bara næstum tilbúin. Tölvan þarf að fara af matarborðinu svo hægt sé að leggja á borðið og skreyta það. Þetta verður óvenju fámennt Aðfangadagskvöld hér í húsinu, því Gaui og hans kærasta ætla að borða heima hjá sér, svo við verðum bara 5+Zeno kötturinn hans Binna. Flest höfum við verið 12 við matrborðið okkar á þessu kvöldi. En, mikið hlakka allir til. Ég var hjá Gaua og frú í gærkvöldi, fyrsta sinn sem Gaui minn er með heimili sitt svona fallega skreytt eins og nú, þetta eru líka fyrstu jólin þeirra saman, því hún hefur alltaf farið til fjölskyldu sinnar um jólin. Hann ætlar að elda hamborgarhrygg, eins og við, og dekra við hanna í mat og drykk. Mamma reyndar bjó jólaísinn fyrir hann;-) Síðan sjáum við þau seinna í kvöld.

Desember mánuður hefur verið mjög ljúfur við undirbúning jólanna og toppurinn hefur verið að geta haft Jólastjörnuna til að hlusta á. Ég hef átt mjög skemmtilegt samstarf með Sigga Gunn. á Jólastjörnunni og vonandi hafa hlustendur stöðvarinnar haft gaman af pistlum mínum. Við Siggi alla vega skemmtum okkur vel og á milli okkar þróaðist vinátta sem mun halda áfram.

En, nú þarf Ég að halda áfram. Er reyndar mjög glöð að hafa haft tíma til að blogga örlítið.

Gabriel engill, strákarnir og hún ég, sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um Gleðilega jólahátið. Borðið vel og njótið samveru hvers annars.

Guð veri með ykkur öllum þessi jól, og um framtíð alla.

Fært undir . 1 ummæli »

Bráðum koma blessuð jólin.

Það er heldur betur farið að styttast í jólin, bara 5 dagar. Við höldum jólin heima eins og alltaf fyrir utan 2 ár sem við vorum á Íslandi. Það hefði verið gaman að geta verið þar um þessi jól, hitt fjölskyldu og vini og sérstaklega barnabörnin. Vonandi verður af því í vor, ég stefni í að koma þá. Það verður auðvitað heilmikið um fjölkyldu og vina mót hér líka. Á Aðfangadagskvöld verða strákarnir hjá okkur, svo og systir Gabariels með son sinn. En fyrsta boðið verður á sunnudaginn, þá ætla ég að hafa glöggboð. Húsið er skreytt og ýmislegt hef ég dundað, bæði við matarundirbúning ofl.

Hér halda jólin enskir vinir okkar sem eiga íbúð í Albir, og íslensk hjón með 7 ára son sinn, en þau hafa verið í nokkra mánuði í íbúð sinni hér. Með þessu skemmtilega fólki verðum við líka yfir hátíðarnar. Sérstaklega hlakka ég til að vera með Alex, en það er ungi drengurinn, á gamlárskvöld.

Vinnustaða boð hafa verið undanfarna daga, og eru þau haldin á viðkomandi skrifstofum. Mikill og góður matur og vín, eins of Spánverjar gera best. Og ekki sleppa þeir möndlukökunum og sælgætinu sem kampavín er drukkið með. Í svona boðum er meira borðað, minna drukkið, öfugt við glöggveislurnar sem haldnar voru á Íslandi hér áður fyrr;-) Enda eru þessi boð yfirleitt haldin í hádeginu.

Veðrið er dásamlegt, komið desember veður aftur. Við fengum kuldakafla sem er mjög óvenjulegt, fengum hefðbundið janúarveður, kallt, blautt og vindur. En nú er hitinn orðin eðlilegur og sólin skýn alla daga.

Ég nýt þess að geta verið heima þessa dagana og undirbúið jólin, skroppið í hádeginu með Gabriel í jólaboð og bara verið til.

Nú var Gaui að senda mér msn og er að koma í morgunkaffi. Það er ómissandi partur af því þegar ég er heima, þá koma þeir feðgar og nafnar, í morgunkaffi.

Svo, ég kveð að sinni.

Fært undir . 3 ummæli »

Fallin frændi, gamall vinur.

Rúnar Júlíusson tónlistarmaður kvaddi þenna heim í byrjun mánaðarins. Allt of snemma. Hann var eins og  Mick Jagger, ódrepandi rokkari.

Ég var aðeins 16 ára þegar ég kynntist Rúnari og strákunum í Hljómum. Við vorum fljót að rekja ættir okkar saman, Rúnar og ég, enda Bergmannsættin sú hin sama á Suðrnesjum og sú fyrir vestan. Smá klofningur, eins og við sögðum alltf.  Þetta var á mínum Keflavíkur árum eins og ég kalla þau. Ár sem mörkuðu mikil spor í líf mitt þó ekki væru þau mörg. Margar eru þær myndirnar sem ég á af okkur við hin ýmsu tækifæri. Merkilegt nokk, flestar þó teknar við keppnina Ungfrú unga kynslóðin, sem haldin var í Austurbæjarbíói ár hvert, um nokkura ára skeið. Þá var líka haldin keppni um bestu hljómsveitina, og á þessum tímun voru þær bara þrjár, Hljómar, Óðmenn og Tónar. Síðan hélt ég aðra leið. Það var önnur Keflavíkur hljómsveit sem ég fylgdi og fór á böll með. En margar voru þær veislurnar, partýin, eins og það hét og heitir enn, sem við sátum saman. Með þessum strákum lærði ég að eiturlyf væru ekki fyrir mig. Ekki að þeir væru á kafi í slíku, heldur var umræðan mikil. Þeir voru flestir nokkrum árum eldri, synir hippatímans. Þarna ákvað ég að drekka ekki, og stóð við það fram á eldri ár, þegar ég tók bjór og léttvín í sátt.

Ég gleymi aldrei sunnudagskvöldinu þegar Maja hans Rúnars var kosin ungfrú Ísland. María Baldursdóttir, þau höfðu verið saman svo lengi sem elstu vinir mundu. Ég var á dansleik í Silfurtunglinu við Snorrabraut þegar úrslitin voru kynnt.

Ég horfði á útsendingu frá jarðarför hans og það sem kom mér hvað mest á óvart var, að Maja og Rúni giftust ekki fyrr en í fyrra. Þá voru þau allavega búin að vera saman 45 ár, kanske giftust þau í tilefni af því. Ég, auðvitað hef ekki hugmynd um það. 

Mikið vildi ég geta skrifað meira um þessi ár, en það verður að bíða endurminninga minna;-)

Far í friði kæri frændi og gamli vinur.

Fært undir . Engin ummæli »

Jólin, og hvað?

Mér finnst ég skulda blogginu mínu, hef ekki skrifað í meir en viku. Og, það er ekki Facebook að kenna heldur mikilli vinnu. Við erum að berjast við að halda haus, þeir fasta vetrargestir sem ekki voru komnir eru að koma þessa dagana. Allt er þetta yndislegt fólk sem hefur verið lengi með okkur. OG, við gerum það sem við getum best til að taka vel á móti þeim. 

Í dag vorum við í afmæli hjá systurdóttir Gabriels, hún er hálf íslensk og varð 19 ára í gær, 13. des. alveg eins og Þórður bróðir minn, nema hvað hann varð ekki 19;-)

Flott matarveisla, ein og alltaf á Spáni. Fullt af skelfisk, ólívum, salat, svínakjöt, ofnbakaðar kartöflur í sneiðum ofl. Ég lagði til veislunnar grænmetisböku, svona heilsu böku. Ég hef verið að gera tilraunir með mínar annars frægu bökur hér í þessu samfélagi kjötæta. Í dag gerði ég bökuskel úr rúgmjöli og eftir að hafa bakað hana 15 mín. setti ég fyllinguna í, sem var sirka 1/2 smátt skorin kúrbítur, 1/4 hluta úr rauðri papriku, 4 sveppi skorna í sneiðar og nokkra brokkoli anga. Í gegnum árin hef ég alltaf notað 3 egg og 3 dl. rjóma, þeytt saman með kryddi og jafnvel rifnum osti. Nú er ég orðin svo yfir meðvituð um kolestrol og kaloriur að ég setti 1 dl rjóma, 125 ml, grískt jógurt og 1/2 dl léttmjólk. Stráði svo grillosti yfir. Heppnaðist mjög vel. Sérstaklega er Óskar/Oscar hálfbróðir Gabriels í föðurlegg hrifin af eldamennsku minni. Hann bjó jú hjá okkur í 4 sumur og varð að taka þessum grænmetismat, þó auðvitað bróðir hans eldaði oft kjöt. Hann fagnað sérstalega í dag…að fá grænmetisböku frá mér og fór að rifja upp ýmsa rétti sem hann fékk þegar hann bjó hjá okkur. Móðir hans hefur alltaf haft gaman af að koma í mat til okkar, en það voru ekki margir aðrir við borðið sem smökkuðu bökuna mína;-)

En afmælið var skemmtilegt, mikill matur, mikið og hátt talað og yfir allt gnæfði sjónvarpið, svo dæmigert spænskt, Stjónvarpið er alltaf á fullu. Það er það eina sem ég bara get ekki sætt mig við, ég þoli ekki sjónvarpið og sérstaklega ekki þegar gestir eru eða þegar fólk kemur saman. En ég breyti ekki þjóðinni, en ég hef slökkt á sjónvarpinu í mínu húsi þegar koma gestir:-)

Annars er ég að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn og bara hlaka til. Ég hef ekki haft pistla í Jólastjarnan.net þessa helgi þar sem þeir voru með tæknivandamál í gær og í dag hafði ég ekki tíma. En ég verð aftur með pistil eftir helgi hjá Sigga Gunn. Ég vinn bara með honum, það var mitt val. Mjög góður útvarpsmaður með mikla reynslu.

Svo, góðir vinir, heyrumst fljótt aftur.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

Ein komin í útvarpið:-)

Laugardagskvöld og ég búin að afreka heilmikið í gær og  dag. Jólatréð stendur fullkreytt með blikkandi ljósum og jólaskreyting í húsinu á lokastigi. Snemma??? Nei, ekki finnst okkur það. Ég vandist því þegar ég bjó í Svíðjóð að skreytt væri snemma, svo einhvernvegin hefur þetta orðið að vana.

Viðn fórum til Alicante í dag, áttum erindi á flugvöllinn og notuðum tækifærið og kíktum í stóra verslunarmiðstöð sem þar er. Ekki varð neitt úr verslun, fórum inn í eina og settumst síðan niður til að fá okkur léttan hádeisverð. Talandi um mat. Ég gerði mjög góðan grasker-eggjabúðing, eða flan eins og það heitir hér, í gær. Með því bar ég fram púrrulauk léttsteiktan í olíu, saltaði og pipraði og og hellti síder yfir, lét sjóða aðeins niður og bætti svo einu epli saman við, flysjuðu og skornu.  Lét það vera á hellunni smá stund. Þetta var aldeilis frábært…svo var ég líka með léttsoðin, ferskan asparagus og salat, bætti soðnu graskeri í salatið. Létt máltíð og mjög góð.

Uppskriftin? Já, hún er nú einföld. 500 gr soðið grasker, 500 ml rjómi, 4 egg, salt og pipar. Graskerið maukað í matvinnsluvél eftir suðu, rjóminn og eggin ásamt kryddinu þeytt saman og graskersmaukinu bætt í. Sett í olíuborið form, eða mörg lítil og bakað í vatnsbaði við 200 C í ca, 45-50 mínútur. Munið að setja álpappír yfir mótin. Þið getið notað þennan grunn, þ.e. 500 ml rjóma og 4 egg í hverskonar flan sem þið viljið. Sett svo í hvort sem er grænmeti, fisk, skeldýr…bara það sem ykkur dettur í hug.

Ég veit að það er þó nokkuð af kolesteroli í þessu, en það er nú ekki eins og maður borði svona daglega.

Annars verð ég að segja ykkur frá veitingastað í Valencia. Ítalskur staður sem þykir mjög góður. Þeir tóku upp á því fyrir skömmu að gera tilraun. Gestirnir eru látnir ákveða sjálfir hvað þeir borga fyrir matinn:-) Þetta er almennilegt á krepputímum. Allir drykkir eru á venjulegu verði. Fólk er mjög ánægt með þetta og hefur staðurinn verið fullsetinn frá því þeir byrjuðu á þessu. Eigandinn sagði í sjónvarpsviðtali í gær, að fyrir sama rétt væri fólk að borga allt frá 2 evrum í 6-7, sem er nær því að vera venjulegt verð. Gestir, sem talað var við, voru mjög ánægðir með framtakið. Ein stúlka sagðist borða oft þarna og stundum bara ætti hún ekki nema 2-3 evrur til að eyða í mat, en þegar hún ætti meira léti hún staðin njóta þess. 

Þessi helgi er það sem kallað er hér “brú”, en það er löng helgi. Í dag er stjórnarskrárdagurinn og á mánudaginn er Getnaðardagurinn;-) Helgin gengur undir nafninu Getnaðar-brúin. Verið er að minnast getnaðar Jesú Krists. Já, hann á að hafa verið getinn um þetta leiti. Hvernig það samræmist síðan afmælisdegi hans 24. eða 25. des. er annað mál.

Ég hef notið þess að hlusta á íslensk jólalög undanfarnar 2-3 vikur. Það er jólastjarnan.net sem heldur mér við efnið 24 tíma ef ég kýs. Stöðin er hreint frábær, netstöð. Ég er þarna með stutta pistla af og til, ekki daglega.Ég kem ekki fram í  persónu, heldur er annar stjórnandi stöðvarinnar og ég í msn sambandi meðan hann er í útsendingu. Ég er með undirbúið efni sem hann fær og segir frá og síðan leiðir spjall okkar stundum til meira, en oftast er það bara spjall milli tveggja einstaklinga. Það er hann Siggi Gunn. sem fékk mig í þetta og þegar hann er í útsendingu þá getið þið átt von á að heyra pistla frá “Kristínu vinkonu okkar á Benidorm” eins og hann kallar mig. Eins og von er til, þá fjalla þeir um jól og jólahald. Ég fer hægt og segi bara frá einu efni í einu, þannig að t.d. áramótin og siðurinn með vínberin kemur ekki fyrr en nær dregur jólum. Þetta er mjög skemmtilegt og gefur jólabarninu mér, tækifæri til að gefa fólki innsýn í annars konar jólameiningu og jólahald.

Þetta er nú orðið ansi langt blogg hjá mér og komin tími til að fara í sængina, eða horfa á DVD . Ég ætla að gera eitthvað skemmtilegt á morgun. Hvað það verður veit ei neinn…en örugglega skemmtilegt.

Hafið það sem allra best.

Fært undir Matur. 1 ummæli »