Íslenskt veður.

Engin búin að lesa bloggið mitt frá í gærkvöldi:-( nema að þið hafið lesið það fyrir miðnætti.

Hér er dæmigert íslenskt veður að því leiti að annað slagið er brjálað rok og rigning, þess á milli rjómaveður og sól. Og á að vera svona um helgina. Fyrst í morgun þurrkaði ég þvottinn sem ég þvoði, í sól og blíðu, ekki löngu seinna varð ég að hlaupa út á terras í vitlausu veðri og bjarga plöttum á veggjum ofl. Kertastjaki og stór flaska, mjög þung flugu og brotnuð í einhverri vondri kviðu. Og ofan á allt er Gabriel svo hræðilega kvefaður að hann á erfitt með að borða, getur ekki andað með nefinu;-) Ég ætla að dekra við hann um helgina.

Óskar Marinó er búin í aðgerðinni og komin heim. Allt gekk vel og henn driftar inn og út ú draumaheimi eins og eðlilegt er eftir svæfingu. En hann lætur vel af sér segja foreldrar hans. Auðvitað veit maður að svona aðgerð er örugglega minni háttar hjá læknum, en takk fyrir, EKKI hjá ömmum sem búa í útlöndum. Þetta er skelfileg reynsla, maður er bara svo lítill, getur ekkert gert og svo þegar maður heyrir í fólkinu sínu þá bara fer maður að skjæla. Er þetta normalt?

En áfram heldur lífið og ég sem ætlaði að vera búin að afreka slíkt mikið í dag hef ekki framkvæmt nein stórvirki. Gerði böku og indverskan sterkan pottrétt sem ég bar hrísgrjón með fyrir hédegið. Guðjónarnir komu að borða en Binni var í bænum og borðaði þar með vini sinum. Svo nú er farið að myrkva, kanske bara af því þar er svo skýjað, ég ætla að setja jólatónlist á og dunda mér eitthvað.

Tökum svo kvöldinu rólega hjónin með góða bíómynd.

Fært undir . Engin ummæli »

Loksins komin heim.

Þetta er yfirskriftin á bloggi sem ég skrifaði þegar ég kom heim í kvöld. Svo bara neitaði netið að hlýða mér og ég gat ekki vistað skrifin og sat eftir með auðan skjá. Ekki skemmtilegt.

Ég var sem sagt að kvarta yfir því að hafa upplifað eitt mitt alversta mígrenkast í langan tíma sl. nótt, sem auðvitða hefur skemmt fyrir mér daginn, því það er ekkert grín að takast á við daginn eftir, eftir slík köst. Þá á maður að vera heima og safna kröftum.  En ég fór í vinnu, sama þrjóskan alltaf.

Gabriel eldað handa okkur mexikanskt fajita sem var mjög gott og nú sit ég hér og er á leið í rúmmið. Þarf að ná upp svefnlausri sl. nótt.

Ömmustrákurinn minn hann Óskar Marinó fer í skurðaðgerð í fyrramálið. Það á að laga nára kviðslit. Ef allt gengur að óskum, sem við gerum auðvitað ráð fyrir, fer hann heim í eftirmiðdaginn. Amma kveikir á kerti fyrir prinsinn sinn og bíður eftir símtali frá foreldrunum þegar allt verður yfirstaðið.

En ég verð ekki ein því nú er ég komin í langa helgi, samkvæmt nýjum starfssamningi;-) Gaui kemur í morgunkaffi eins og alltaf þegar ég er heima. Við munum sitja í rólegheitun og ræða heimsmálin. Mjög skemmtilegir morgnar með honum.

Í gærkvöldi borðuðum við öll saman, öll er auðvitað eins og ég held allir viti, Guðjón eldri, Gaui og Binni svo og við hjónin. Borðuðum á Sýrlenskum veitingastað eins og ég nefndi í gær. Allir mjög ánægðir með matinn sinn nema ég, sjálfri mér að kenna því ég pantaði vitlaust. Geri betur næst.

Um helgina er ég búin að lofa að baka vöflur. Held að ég muni gera tilraunir í eldhúsinu og bjóða strákunum 3 í mat og vöflurnar geta þá orðið eftirréttur.

En nú er frúin í þessu húsi farin í rúmmið. Sofið vel og vonandi verða draumar ykkar ljúfir:)

Fært undir . Engin ummæli »

Samningi náð.

Ég er búin að semja við bóndann um að ég verði heima á föstudögum fram yfir jól:-) Ég geri svo mikið meira heima en t.d. í dag. Veturinn þóttist vera komin þegar við vöknuðum í morgun, meir að segja ég fór í jakka, en í ermalausu undir. Hitamælirinn sem við trúum á hverjum morgni á leið í vinnuna sagði 15C, það er bara mikil lækkun frá í gær því þá var 21C. Enda kaffihúsin búin að loka framhliðinni, þ.e. framhlið þeirra er opin á sumrin og borð úti á gangstétt, borðin eru enn úti en búið að loka gler veggjunum sem mynda framhliðina og flestir sitja inni.

Þetta hefur veri einhver letidagur, ég hef ekki afkastað nema litlu miðað við aðra daga og langar mest heim að sofa. Gabriel er enn verri því hann svaf næstum ekkert í nótt og það er að koma niður á honum núna. Svo við förum örugglega snemma héðan, ekki að við förm heim, ó nei. Við ætlum að borða með Guðjóni eldri, Gaua og vonandi Binna á Sírlenskum veitingastað sem Gaui er búin að finna og líst mjög vel á. Helmingur matseðilsins grænmetisréttir. Þannig að það verður borðað snemma og farið snemma að sofa???

Við komum heim í gærkvöldi kl. 21.00 og sofnuðum ca. hálf tíma seinna yfir fréttunum, og náðum ekki að vakna nema rétt til að skríða í rúmmið eftir miðnætti. Þá tók við svefnlaus nótt hjá Gabriel.

Ég er að hugsa um að gera fiskisúpu á föstudaginn og vanda mig mjög. Hafa kanske bara lax í henni og snöggsteikja hann og láta svo eldast í gegn í heitri súpunni, ekki sjóða með, bara láta hann liggja í. Kartöflur og ýmislegt grænmeti og jafnvel safran, held þetta gæti orðið góð samsetning. Læt ykkur vita.

Nú þarf ég að vinna smá í viðbót til að réttlæta daginn;-)

Hei, gleymdi alveg að segja ykkur frá nýustu aðgerðum Spánverja í kreppunni. Vextir húsnæðislána voru lækkaðir, þið vitið það nú kanske. En það nýjasta er að nú er boðið upp á að breyta húsnæðislánum þannig að þau eru lengd og fólk borgar bara helming þess sem það er að borga núna. Engin smá hjálp fyrir flesta. En þetta er auðvitað fyrir þá sem ekki geta staðið í skilum og er hið besta mál, því þannig missir fólk ekki eignir sínar.

Húrra fyrir jafnaðarstefnunni!!!

Fært undir . Engin ummæli »

Hvað vil ég?

Þetta er nú nokkuð góð spurning. Það var svo gaman hjá mér þessa löngu helgi heima. Dundaði við ýmislegt sem mig hafði langað til lengi (er auðvitað ekki nær búin enn) eldaði 2 máltíðir á dag og hlustaði á jólalög við kertaljós. Á svona dögum langar mig að vera heimavinnandi:-) Ég gæti sko alveg dundað mér við þá vinnu um tíma. En það er alveg ljóst að ég þarf að eiga fleiri svona langar helgar á næstunni, allt sem ég þarf að gera…og alveg að koma jól:-)

Það verður auðvelt fyrirt mig að fá frí því Gabriel var slíkt glaður yfir veislumat tvisvar á dag, gestir voru farnir að bjóða sér í heimsókn til að fá eitthvað líka. Það voru auðvitað strákarnir og Guðjón. Svo þið sjáið að stuðning hef ég, þá er bara að notfæra sér það og stytta vinnuvikuna.

Síðustu farþegar ferðaskrifstofa á Íslandi fóru heim í gær, ekki allir mjög glaðir með að vera að fara, en það var held ég aðallega vegna veðurs.

En nú ætla ég að skreppa út í pásu, hef ekki fengið te síðan eldsnemma í morgun. Enn er heitt, heitt. Nú er reyndar spáð kólnandi en það eru þeir búnir að vera að gera í nokkra daga, spá kólnandi og ekkert gerist.

Fært undir . Engin ummæli »

Krabbakökur/buff.

Ég gerði krabbakökurnar í gærkvöldi eins og ég hafði lofað sjálfri mér. Þær voru mjög góðar svo hér kemur uppskriftin sem ég tók úr Gestgjafanum, þeim síðasta sem ég fékk í póstkassann og er tölublað 13.

500 gr. krabbakjöt (5 dósir) ég notaði frosið.

1 bolli létt-majónes

2-3 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir. (ég notaði 2)

4 vorlaukar, hvíti hlutinn smátt saxaður. (ég notaði púrrulauk, eina góða púrru, hvíta hlutann)

salt og pipar. (ég nota bara Herbamar salt)

1 egg

1-1 1/2 tsk. cayenne-pipar (á hann ekki til og notaði sterka papriku)

brauðrasp, til að þykkja.

Öllu blandað saman og mótaðar litlar kökur/buff. Steikt á pönnu á báðum hliðum þar til þær vera fallega gullnar:),þá settar í 180C heitan ofn í 15-20 mínútur.

Ég hefði viljað gera salat með ferskum fíkjum og mosarella osti, en átti ekki fíkjur svo ég notaði restina af salatinu frá hádeginu og sauð kartöflur sem ég síðan skar í fernt og velti upp úr smá ólífuolíu og hvítlauks smurosti sem ég hafði brætt í olíunni á pönnu.

Í blaðinu er mælt með salati með fetaostsósu. Örugglega mjög gott.  

Salatið: 1-2 pokar blandað salat, 10-12 döðlur, 10-15 græn vínber,1 lárpera, skræld, steinhreinsuð og skorin í 2-3 cm bita. Öllu blandað saman.

Sósan: 1 msk. ólífuolía, 1 krukka fetaostur í kryddólíu (olíunni hellt frá), 1 msk. sítrónusafi. Hita olíuna á pönnu, bæta ostinum í og hræra vel saman, bæta síðan sítrónusafanum í. Blandað saman við salatið.

Lárpera (avocado) og krabbi fara mjög vel saman. Ég geri oft salat sem er bara krabbi og avocado í sneiðum smá sítrónusafi og vel af ólífuolíu.

Fært undir . 1 ummæli »

Sæludagur heima.

Ég er heima í dag. Eftir langa vinnuviku því ég var líka í farastjórn 2 daga, ákvað ég að vera heima í dag og vinna héðan. Þá fæ ég líka tækifæri til að gera svo margt annað. Eftir að hafa svarað pósti sem beið í morgun, kíkt á facebook og prívat póst, hófust húsmæðraverkin. Merkilegt hvað þau eru skemmtileg þegar maður hefur svona fáar stundir til að sinna þeim. Ég ákvað að gera grænmetisböku í hádegismat og bauð Guðjóni eldri að koma og borða með okkur. Bakan heppnaðist mjög vel og við borðuðum salat með. Af einhverri ástæðu fékk ég ákafa löngun til að husta á jólalög í morgun, svo ég klifraði upp í skáp og dró niður kassan með jóla CD. Ég er enn að hlusta, núna á sænska stórgóða söngkonu. Eini gallin á því að hafa sett hana á er að nú langar mig til Stokholm aftur á aðventunni, en það verður nú ekki af því þetta árið.

Gaui og Binni komu í morgun svo ég hef notið þess að fá að spjalla við alla karlana í fjölskyldunni í dag. Í kvöld ætla ég að matreiða krabba kökur, uppskrift sem ég fann í Gestgjafanum og ætla að halda mig við að mestu leiti. Set hana á bloggið þegar ég er búin að prófa hana og tilfæra að mínum dutlungum. Gallinn við að vinna eins og við gerum er sá að það er engin tími til að elda þegar heim kemur. Ekki förum við að standa í grillun eða matreiðslu sem tekur einhvern tíma þegar við komum heim eftir kl. 9 á kvöldin, og oft ekki fyrr en mun seinna. Þannig að þegar ég fæ svona heimadag kann ég mér ekki læti og vil helst elda allan daginn og gera fullt af mismunandi réttum.

Svo langar mig alltaf svo mikið að sökkva mér ofan í tímarit sem ég hef ekki haft tíma til að lesa og sitja í snyrtilegum bunka uppi á lofti. Að ég tali ekki um hvað gaman væri að fara í gegnum skápana+++

Og að byrja að undirbúa jólin;-) Kannast einhver við þetta allt saman eða hluta þess?

Veðrið leikur enn við okkur þó hitinn hafi lækkað um nokkrar gráður og verið rigning af og til s.l. daga, en alltaf kemur sólin inn á milli og þá verður svo notalega hlýtt.

Nú ætla ég að svindla aðeins og taka mér stutta siestu áður en ég fer í að undirbúa kvöldmatinn. Við vinnum um helgina, en það eru öðruvísi vinnudagar. Þurfum þó að fara snemma á fætur og byrja að hleypa fólki út úr íbúðum. Þetta hljómar bara eins og við séum með fólkið læst inni:-) Þetta verður ekki eins annasöm helgi og undanfarnar helgar hafa verið, svo ég fæ tíma fyrir jólalög og eldamennsku.

Fært undir . 1 ummæli »

Dans á þriðjudögum.

Það fer örugglega ekki fram hjá neinum að það er þriðjudagur. Við teljum jú öll dagana í vikunni…fram að föstudegi. Ekki ég núna reyndar, því ég verð á helgarvakt næstu helgi:-( En, ég er að fara að dansa í kvöld. Og það er gaman. Ég dansa með konum undir stjórn þýskrar dansmeyjar og danshöfundar. Ég byrjaði að dansa fyrir nokkrum árum og gerði svo hlé, en er komin á fullt aftur. Við dönsum afrikanska, hugleiðslu og indjánadansa, við dönsum líka Tango. Í hverjum tíma dönsum við tangó, en ein og ein, frábært. Við erum berfættar og dönsum í kringum eitthvað sem kennarinn hefur ákveðið hverju sinni, síðast var það haustið. Við fögnuðum haustinu með því að hafa laufblöð og haustávexti á dúk á gólfinu. Hvað það verður í kvöld veit ég ekki, en það verður örugglega gaman. Ég er að sofna hér fram á borðið þannig að nú ætla ég út að ganga smá spöl svo ég verði klár fyrir dansinn.

Eigið gott kvöld.

Fært undir . 1 ummæli »

Fríhelgi á enda.

Sunnudagskvöld og fríhelgin á enda. Við áttum mjög góða helgi, auðvitað var dálítilli vinnu skotið inn í, en það var bara fínt.

Borðum á laugardagskvöldið með Susan og Lawrence, enskum vinum okkar sem eiga hér hús. Calpe varð fyrir valinu. Svo við keyrðum þangað og fórum á geysi góðan svissneskan stað sem við Gabriel þekkjum. Maturinn var eins og alltaf, meiri háttar.

Gaui kom í morgunkaffi og við sátum í sólinni og hitanum á terrasinu og spjölluðum lengi, lengi. Margt skemmtilegt sem kom upp í umræðunni og skilur eftir vangaveltur.

Íslensk vinkona okkar sem alltaf er farastjóri fyrir eldriborgra ÚÚ var í mat hjá okkur í hádeginu. Gabriel var eðal kokkurinn, gerði það sem heitir Fideua, sem er nánast eins og Paella nema það er notð sérstakt pasta í stað hrísgrjóna. Ég gerði eitt af mínum öðruvísi salötum. Við áttum skemmtilega stund saman, öll yfir matnum og við tvær þegar matnum lauk, og Gabreil lagðist fyrir framan stjónvarpið.  Þar sem við höfðum ætlað í bíó hjónin, keyrðum við vinkonuna heim undir kvöld og skelltum okkur að sjá Wanted, með Angelicu Joly og Morgan Freeman. Dáldið rugluð mynd með endalausum byssuskotum, en ekki svo slæm afþreying.

Binni kom síðan í kvöldkaffi og spjallaði við okkur. Eftir það fóru óvæntir atburðir að gerast og við búin að hafa nóg að gera í kvöld. En allt fór vel og nú er komið að mér að fara að sofa. Allir hinir löngu sofnaðir.

Fært undir . Engin ummæli »

Loksins helgarfrí, vei…

Það er vel tekið á móti helgarfríi í mínu húsi. Við höfum unnið hvern einasta dag síðan við komum frá Ítalíu og erum orðin vel þreytt. Gabriel er reyndar á skrifstofunni en ætlar ekki að vera lengi. Ég hef notið þess að drekka mikið te og lesa facebook og fleira í tölvunni. Reyndar búin að þvo eina þvottavél, en það er nú ekki eins og slíkt sé mikið erfiði. Daginn ætla ég að nota í að gera það sem mig langar til, í augnablikinu er það svo mikið að ég veit ekki hvar skal byrja, svo ég þarf að vera skipulögð og taka eitt í einu. Svo, þegar ég er búin að blogga þá ætla ég að strauja. Já, það er eitt af því sem mig langar til. Af hverju? Jú, það er nauðsynlegt, og mér þykir svo gaman þegar ég er búin að strauja og ganga frá í skápana.

Í kvöld erum við að fara út að borða með enskum vinum okkar sem hér eru, svo eitthvað mun ég dunda við sjálfa mig. Langar mest í oliubað, en það er enn svo heitt að bað er nánast ómögulegt. Hitinn er enn frá 25C og upp úr. Fólk baðar sig í sjónum og strendurnar eru fullar af sóldýrkendum.  Enn eitt sumarið liðið og ég fór aldrei á ströndina. Þetta finnst mér slæm niurstaða, ég hef lofað sjálfri mér að fara eins og einn sunnudag undanfarin ár en ekki staðið við loforðið. Það gerir eflaust potturinn á terrasinu, því ég nota hann mjög mikið, svo, að ég hef heldur ekki farið í sundlaugina hér í byggingunni. Ekki einu sinni dyfið tánum þar í.

Mig langar líka til að baka, eða gera góða böku. Ég keypti svo miki af spriklandi fersku grænmeti í gær að mig klæjar í fingurna að nota það. Fyllti reyndar græna papriku í gærkvöldi og gerði n.k. lasagna og setti í ofninn. Gabriel var að fá sér einn bjór með vini sínum svo ég lagði mig í sófann, vitandi að hann myndi vekja mig með kossi (eins og sannur prins) þegar hann kæmi heim. :-( ég vaknaði 2-3 tímum seinna, komið myrkur, maturinn brunarústir í ofninum og engin karl. Svo ég tók bara rústirnar úr ofninum og fór upp í rúm að sofa. Bauð honum svo að smakka í morgun ;-) Hann auðvitað hnýpinn því hann gleymdi að hringja í mig og láta mig vita að bjórarnir væru orðnir fleiri en einn og hann myndi ekki koma heim í mat. En hvað? Ekki eins og ég hefði áhyggjur, er löngu búin að læra að hann er sjálfbjarga.

Nú er þá bara að byrja að njóta dagsins, tedrykkjan orðin allt of mikil.

Fært undir . Engin ummæli »

Í minningu góðrar vinkonu.

Í dag eru 5 ár liðin frá því ein besta vinkona mín, Þorgerður Sigurðardóttir myndlistarkona lést. Hún hafði verið hjá okkur hér á Benidorm ásamt sambýlismanni sínum, Ólafi Torfasyni aðeins mánuði áður en hún dó. Saman ferðuðumst við norður til Baskalands þar sem við vorum viðstödd stórfenglegt brúðkaup Guðrúnar Jóhönnu, óperusöngkonu, sem er dóttir Ólafs. Guðrún giftist spænskum tónlistamanni sem á ættir sína að rekja til Baskalands. Þegar þau kvöddu okkur og héldu til Íslands var Þorgerður orðin mjög veik og lagðist beint inn á sjúkurahús þegar þangað kom. Banalegan var stutt og hröð. Hún fékk upphaflega krabbamein í brjóst. Og í hennar minningu og allra annara sem fengið hafa brjóstakrabbamein ber ég bleiku slaufuna.

Þorgerður fór í gegnum lífið eins og við hin, með gleði og sorg. En mikla sorg þurfti hún að yfirvinna fáum árum áður en hún dó. Meðan á því stóð bjó ég á Óðinsgötunni og hún var daglegur gestur í morgunkaffi hjá mér. Ein af leiðunum sem hún notaði til að yfirvinna sorgina var að skrifa ljóð sem hún las fyrir mig á morgnanna meðan við drukkum te. Í framhaldi gaf hún út ljóðabók, Fjörutíu dagar. Mér þykir mjög vænt um þessa bók því ég þekki persónurnar og tilfinningarnar bak við hvert ljóð. 

Ég læt eitt ljóða hennar fylgja hér með, í þeirri trú að það veki fleiri en mig til umhugsunar nú á þessum erfiðu tímum í lífi okkar allra.

 Ef ég ætti ekki trú
væri ég ekki hér.
Ef ég ætti ekki von
sæi ég ekki sólina.
Ef ég ætti ekki sannleika
tryði ég ekki á Guð.

Ég vil ekki byggja mér hreiður
úr ótta og efa.

Fært undir . 1 ummæli »