Skemmtilegt þetta líf:-)

Það er svo mikið að gera við að hafa gaman að það er bara að verða fullt starf. Í gærkvöldi bauð ég 5 konum í mat, Gabriel fór í næturköfun svo mér þótti upplagt að halda boð. Hafði lengi ætlað að bjóða einni og hinar í stuttri heimsókn hér, nema systir Gabriels sem fékk að fljóta með. Þannig að við borðið sátu 3 íslenskar konur, 2 enskar og 1 spænsk.

Ég var með mikið af dæmigerðum spænskum smáréttum í forrétt og í aðalrétt geysi góðan kjúklingarétt sem ég hef gert síðan ég var ung. Keypti einhverntíma matreiðslubók þegar ég var á Ítalíu og hún hefur verið mikið notuð í gegnum árin. Rétturinn auðvitað breyst frá því sem stendur í bókinni, en það bara tilheyrir. Gabriel ver svo elskulegur að koma heim á miðjum degi til að gera fylltar paprikur “a la Alcoy”, en það er sérréttur frá hans heimaborg. Stórar rauðar paprikur eru fylltar með hrísgrjonum, ferskum túnfisk, svoldið af niðursoðnum paprikum, tómatmauki og kryddi sem búið er að láta malla smá stund á pönnu. Pakkað inn í álpappír og soðið í hraðsuðupotti (þessum með þrýstinginn). Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum. Þetta var annar af aðalréttum kvöldsins. Í eftirrétt var svo tiramisu og súkkulaðikaka.

Nóttin var eins og best var á kosið, heit, mátulega rök og blankalogn.

Í kvöld koma svo Anna frænka mín og vinkona og Nína dóttir hennar. Það verður sko gaman. Við erum allar búnar að vera að telja niður fram að fagnaðarfundinum. Ég er að hugsa um að labba út og kaupa miða handa okkur á tónleika Julio Iglesias sem verða í nautabanahringnum á laugardagskvöldið. Hann er að halda upp á söng afmæli, en ferill hanns hófst hér þegar hann ungur að árum og vann söngvakeppni Benidorm sem haldin er árlega.

Svo fjörið heldur áfram:-)  

Fært undir . Engin ummæli »

Flugeldar, sjöböð ofl.

Mikið er nú það sem af er helginni búið að vera notalegt. Ég fór á föstudagskvöldið að borða með enskri vinkonu minni sem átti 60 ára afmæli um daginn. Við höfðum ákveðið að borða í Altea og gerðum það. Gabriel keyrði okkur og við héldum á veitingastaðinn sem orðið hafði fyrir valinu. Ég hafði aldrei borðað þar, en hún heldur mikið upp á staðinn. Og ekkert skrýtið. Hvílíkur matur. Eigendurnir sem eru hjón, koma flott saman, hann Frakki og hún Spánverji. Ég fékk í forrétt fíkjusalat með mosarella osti og heslihnetum á rokoli laufum, yfir var helt mátulega miklu af hunangs sósu. Hún fékk fiskikökur úr krabba með salati. Í aðalrétt fékk ég túnfisksteik með kartöflumús og snöggsoðnu grænmeti en vinkonan fékk skötusel og kartöflu gratin, fiskurinn og kartöflurnar í bitum í mjög góðri rjómasósu, gratinerað í ofni. Hún fékk sér síðan eftirrétt sem hún borðar alltaf þarna, banana, heitt súkkulaði, ís og þeyttan rjóma. Bananinn og súkkulaðisósan blandað saman á skemmtilegan hátt í háu glasi og síðan kom hitt gúmmulaðið. Ég hins vegar borða aldrei eftirrétti:-) Við sátum þarna lengi og nutum kvöldsins. Gengum síðan niður á strandgötuna og langleiðina til Albir áður en við héldum heim.

Vinkonan var búin að segja mér, að eitt af því sem væri svo skemmtilegt við þennan stað væri að þar hitti hún alltaf Englendinga sem tækju upp spjall. Mér fannst þetta nokkuð skondið, því það er ekki eins og ég myndi leita uppi Íslendinga til að spjalla við ef ég væri að fara út a borða. Þetta brást ekki, og á næsta borði sátu ung hjón frá Liverpool sem hafa búið hér um tíma. Af og til ræddum við saman og m.a. um stjörnumerki. Ég sagði við unga manninn að ég væri nokkuð viss um að hann væri naut og fæddur 1974. Hann varð hissa á hversu nálagt ég komst, naut er hann en fæddur 1973 og þann 5. maí  eins og Gummi minn. Konan hans vildi að ég giskaði á sig og ég sagði að hún væri annað hvort tvíburi eða meyja. Tvíburi er hún og á afmæli sama dag og ég. Þetta fannst okkur hin mesta skemmtun, því það er ekki eins og ég sé sérfræðingur í að segja til um stjörnumerki fólks. Þó er nautið nokkuð sem ég er glögg á.

Þar sem Gabriel er á helgarvakt og hefur meir en nóg að gera, ákvað ég að í stað þess að vera með honum (og hjálpa til) þá myndi ég vera heima, strauja hrúgu sem safnast hafði upp og gera ýmislegt annað, eins og elda gott í hádeginu og liggja í sólbaði.

Þetta er pasta helgi í húsinu. Í gær gerði ég tómatsósu með fullt af grænmeti sem eftir steikingu fékk góðan slatta af hvítvíni sem ég lét sjóða niður og sauð síðan í tómate frito í 2 tíma. Þá maukaði ég allt í matvinnsluvélinni og helti aftur á pönnuna, hitaði upp og blandaði með rjóma. Pastað var úr Durum hveiti,  stórar snúnar pípur. Mjög gott.

Svo í gærkvöldi vorum við boðin kl 22.30 í bátsferð út fyrir ströndinni þar sem við giftum okkur. Þessa sömu helgi ár hvert er gífurlega mikil flugeldasýning þar sem hefst á miðnætti. Við höfum farið oft, fyrstu árin fórum við árlega, með mat, teppi og kyndla. Fórum í eftirmiðdaginn og mörkuðum okkur góðan stað svo við sæjum sem best. Oft voru íslenskir vinir með, ef þeir voru svo heppnir að vera hér á þessum tíma. Eitt árið vorum við boðin til enskra vina okkar sem eiga glæsivillu í hæðunum fyrir ofan, ekki fannst okkur það skemmtileg upplifun, við vorum í svo mikilli fjarlægð frá stemmingunni. Í gærkvöldi var okkur svo boðið að fara með kunningjum Gabriels úr köfunar-klúbbnum. Farið var á bát sem er sérbúin fyrir kafara og þeirra dót, þannig að hann er ekki beint nein snekkja. En góður og stór bátur. Þegar við vorum búin að kasta akkerum inn um allar tegundir af bátum, skútum og flottum snekkjum, borðuðum við létt og  drukkum létt. Síðan stukku þeir í sjóinn sem langai til þar til sýningin hófst.

Ég verð nú að segja að þetta var skemmtilegt, aldrei haft betra útsýni því skotið er upp frá ströndinni og frá prömmum sem staðsettir eru undan strönd. Það var eins og öllu væri tölvustjórnað, slík var nákvæmnin. Undir sýninguna er svo tónlist, ýmist sér samin eða sett saman.

Þegar við svo komum heim var verið að sýna Rosmary´s baby í sjónvarpinu. Þetta er mynd með Miu Farrow sem var sýnd í Háskólabíó 1971, þegar ég gekk með Daníel. Hálfgerð hryllingsmynd sem ófrískum konum var ekkert endilega ráðlagt að sjá. Nú 37 árum seinna var gaman að sjá myndina. Hún er mjög góð og auðvitað ekki eins ógurleg eins og manni þótti 1971.

Jæja, núna er ég búin að gera pastasósuna fyrir hádegismatinn. Klukkan er 15.00 og Gabriel kemur heim fljótlega. Ég gerði sinnepssósu eftir kúnstarinnar reglum. En þegar ég varð ánægð með árangurinn var komið í hana steiktur laukur og graslaukur, vatn+1/2 grænmetisteningur, 2 tegundir af sinnepi, rjómaostur og rjómi. Kryddaði svo með timian. Ætla að sjóða spinat tortellini og setja í sósuna.

Við erum svo boðin í grill hjá vini Gabriels í kvöld, verðum nokkuð mörg. Þannig að fram að því, þ.e. eftir matinn ætla ég að baða mig í pottinum og liggja í sólbaði. Við erum enn með hitabylgjuna.  

Fært undir Matur. 2 ummæli »

Aftur komin sunnudagur!

Ótrúlegt hvað vikurnar líða hratt. Ég sé að ég bloggaði síðast á sunnudaginn var, margt hefur nú gerst síðan þá. Ég hætti í farastjóraleiknum á fimmtudaginn var og mikill léttir að vera ekki lengur á 24 tíma símavakt. Ég skráði mig inn á facebook og fann þar m.a. vinkonu sem ég hef ekki heyrt frá í fjölda ára, og fann út að hún býr og starfar í Jórdaníu. Þetta er mjög skemmtilegt, en ekki ætla ég að hætta að skrifa e-mail og blogga.

Gabriel átti afmæli í gær og hédum við upp á það í 2 daga:-) Á föstudagskvöldið var matarveisla fyrir karlahóp sem hann tilheyrir, svona nokkurn konar saumaklúbbur!!!nema hvað þeir fara út að borða saman og yfirleitt stendur það fram undir morgun. En kvöldið var mjög gott, veðrið auðvitað stórkostlegt, svo að ég gat verið með logandi kerti um allt terrasið. Meðan þeir borðuðu dundaði ég inni á milli þess sem ég bar á og af borðinu. Hann fékk flott rauðvínsglös, mikið af góðum rauð- og kammpavínum+snyrtivörur. Ég kom honum heldur betur á óvart og gaf honum ferð til Ítalíu í september, nánar tiltekið á Amalfi ströndina, í sjálfan Amalfi bæinn. Þar höfum við átt heimboð lengi hjá kunningjum sem eiga lítið hótel hátt í fjallinu. En allir litlu bæirnir á Amalfi strandlengjunni eru byggðir í fjallshlíðum upp frá sjónum. Búið er að plana skounarferðir með okkur til Capri (þau eiga bát), enda stutt yfir til Capri, við ætlum að heimsækja Pompei og svo bara að slappa af í 5 daga eftir erfiðan vetur og annasamt sumar. Þegar við svo snúum heim aftur bíður okkar að hefja endurskipulagninguna í fyrirtækinu sem við höfum ákveðið að gera.

Í gær, á sjálfan afmælisdaginn borðuðum við í hádeginu í snekkjuklúbbnum í Altea og löbbuðum svo um bryggjurnar og létum okkur dreyma um að eignast einhverntíma svona bát, eða þennan bát… Í gærkvöldi buðum við svo Binna, Gaua og Saray konu hans í mat. Með Binna kom Xeno, kisan hans sem sjaldan fer í heimsóknir og var því mjög gaman að fá hann. En það komu líka boðsflennur, þegar við vorum að enda við að borða kom þessi líka stóri kakkalakki trílandi til okkar, hann var ekki velkomin og því vísað frá, reyndar hjálpað inn í eilífðina. Svo þegar við vorum að ganga frá í eldhúsinu eftir matinn kom ekki frændi hans og ekki minni. Við vorum að segja Gabriel og ég ,að þetta er í fyrsta skipti sem við sjáum kakkalakka hér, þeir voru hins vegar tíðir gestir hjá okkur þegar við bjuggum í miðbænum. En auðvitað eru þeir allsstaðar, og þó ótrúlegt sé þá fljúga þeir, þó ekki séu þeir hæfir til langfluga, þá nægja vængir þeirra til að bera þennan þunga skrokk svona á milli húsa.

En nú sit ég hér og svitinn rennur niður bakið á mér, hlusta á CD sem ung vinkona okkar var að syngja inn á og gaf okkur um daginn. Hún er ekki nema 13 ára og tók hann upp í litlu stúdíó hér. Ekki er hann nú til sölu, heldur gefur hún vinum pabba og mömmu ofl. diskinn. Hún er skosk og talar ekta skosku en fer bara vel með enskuna í söngnum. Röddin er mikil en þarfnast eðlilega þjálfunar, en hún gæti átt góða framtíð á þessari braut.

Þar sem Gabriel er að kafa og ég búin með morgunverkin;-) ætla ég nú í sólbað.

Vonandi heldur góða veðrið áfram hjá ykkur á Íslandi.  

Fært undir . 1 ummæli »