Helgin að enda komin.

Sunnudagskvöld og börnin búin að vera í mat. Kettirnir komu líka, Bragi Gauason hress og kátur að vanda, vill endalaust vera að leika sér og skoða. Xeno Binnason, hógvær eins og alltaf, gengur varlega um og skoðar, finnur sér svo öruggan stað til að leggjast niður á og hreifir sig ekki fyrr en þeir feðgar fara heim. En þeir tveir eru miklir vinir eins ólíkir og þeir eru, Bragi og Xeno.

Maturinn heppnaðist vel og allir voru glaðir. En, líka hálfþreyttir, trúlega þessi mikli hiti sem verið hefur í dag. Allir voru búnir að vera í sólbaði og sundi eða liggja hálfsofandi fyrir framan sjónvarpstækin allan daginn. En, nú þegar ég er búin að ganga frá eftir matin og uppþvottavélin malar í eldhúsinu, ætla ég að fara í pottinn og njóta næturinnar. Enn eru flöktandi kertaljós um allt terrasið mitt og ég vil njóta þess áður en ég fer að sofa.

Góða nótt.

Fært undir . 1 ummæli »

Sunnudagur og börnin í mat.

Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég vaknaði, kl. var 09.15. Mjög óvenjulegt að ég sofi svona lengi, en!!!það sem enn merilegra var að Gabriel svaf líka og sefur enn og kl. orðin 10.00. Hann ætlaði að fara að kafa í morgun, þá fer hann úr húsi kl 08.00, en sefur svona vært að ég læðist um til að vekja hann ekki. Augljóslega orðin langþreyttur.

Ég er búin að bjóða strákunum og kærustu Gaua í mat í eftirmiðdaginn. Ætla að herma eftir fíkjusalatinu góða sem ég fékk um daginn á veitingahúsi. Grafinn lax og eitthvað fleira smátt verður í forrétt. Síðan ætla ég að hafa ítalskan rétt úr bókinni góðu sem ég minntist á um daginn. Þetta er líka réttur sem ég hef gert síðan strákarnir voru litlir og halda mikið upp á.

Ég hnoða nautahakk með kryddi og smá hveiti, hnoða mjög vel, rúlla því svo út eins og rúllutertu, set skinku, ost og músaðar kartöflur (kartöflurnar hreinar, þ.e. áður en ég geri hefðbundna kartöflumús). Rúlla svo upp hakk kökunni og loka vel endunum. Blanda saman tómatfrito/tómatpúrru, ólífuolíu og smá vatn. og kryddum+nokkrum lárviðarlaufum. Hita þetta á góðri pönnu eða stórum potti og set rúlluna í. Með skeið set ég sósu á alla rúlluna og síðan læt ég hana malla ca. 45 mín. Með hef ég góða kartöflumús og stundum snöggsoið grænmeti, t.d. gulrætur og brokkolí. 

Ég skal setja inn uppskriftina seinna í dag eða á morgun. Í gær gerði ég hunangsolíu til að setja á salatið í dag. Rennandi hunang, jómfrúr oliu og smá Balsamik edik. Spennt að sjá hvernig þetta kemur út.

Gaui er komin í kaffi, Gabriel vaknaður og ég ætla að sinna þeim. 

Fært undir Matur. 1 ummæli »

3 færslur á einum degi.

Það er ekkert að þó ég bloggi þrisvar á sama sólarhringnum. Bara svona til að segja ykkur hvað plön fara iðurlega úrskeiðis. Sólbaðið og afslöppun í dag…hvert fór það? Jú, Binni minn kom í heimsókn um hádegisbilið, til að hjálpa mömmu smá með tölvuna. Hann var svangur og þóttist ekki eiga neitt að borða, þyrfti að hjóla í súpermarkaðinn til að kaupa í matinn. Mömmur eru gjarnar á að vorkenna afkvæmun sínum við ótrúlegustu aðstæður. Ég er engin undantekning. Svo ég fór í eldhúsið og saxaði lauk og grænmeti, setti í pott og steikti, skvetti góðum slatta af rauðvíni yfir og lét sjóða niður. Setti þá tómate fritó (steikta tómatmaukið) og lét sjóða um stund. Kryddaði með Piri piri kryddi, setti vel af því, við viljum matinn sterkan við Binni. Setti svo að lokum sýrðan rjóma saman við sósuna. Á meðan á þessu stóð sauð ég pasta skrúfur og setti þær að lokum í sósuna. Allt tók þetta 10-15 mín. og við borðuðum sæl saman. Gabriel kom svo stuttu seinna, öllum a óvörum því ég hélt að hann væri í ræktinni, og borðaði afganginn.

Svo að lokum skellti ég mér í sturtu og gerði mig klára fyrir vinnu.

Við vorum svo að borða úti með ungum vinum frá Úkraníu í kvöld. Verulega gaman.

Helgin er óplönuð og best að hafa hana þannig, þá er maður svo dásamlega frjáls.  

Fært undir . Engin ummæli »

Nýir skór!

Gleymdi að segja ykkur að ég keypti mér aðra Swarovski skó. Ekki að ég sé komin með merkja dellu heldur bara eru þeir slíkur klassi. Þetta var nú bara svona tilviljun. Þekki konu sem á fínar kjólabúðir í nágreni skrifstofunnar og ég kíki stundum inn. Til hvers veit ég ekki því ég hef efni á því að kaupa flík þar nema á nokkurra ára fresti. Alla vega, trítlaði inn og við hófum tal saman. Ég dáðist að skónum sem eru silfur bandaskór með marglitum kristöllum, gala skór. Hún bauð mér þá á fínu verði því þeir höfðu verið notaðir á týskusýningu, svo út fór ég með spariskó næstu ára.

Annars er ég heima. Svaf ekki nema 3 tíma og þar sem tölvan kom heim með mér í gær ákvað ég að vinna að heiman og geta dundað við  fleira. Átti jú von á matargestum í kvöld, en frúin fótbrotnaði í gær þannig að ekkert verður úr. Svo við þáðum matarboð sem lá á borðinu hjá okkur. Erum boðin á veitingastað í Altea. Nei, ég ætla ekki í nýju skónum, en gæti farið í þeim sem ég keypti um daginn.

Svo nú er ég orðin syfjuð aftur og ætla út í sólbað og sofna kanske smá. Þarf að fara á fund kl. 18.00.

Fært undir . 1 ummæli »

Fimmtudags-faratjóri.

Þá er farastjóraleikurinn hafinn á ný. Nema núna er ég vinnandi á fimmtudögum og svo ef á mér þarf að halda þess á milli. Klukkan er núna 05.00 á föstudagsmorgni og ég nýkomin heim úr “transfer” til og frá flugvellinum. Þetta var óvenju langt transfer því ég fór með gesti á Benidorm, Albir og alla leið til Calpe. Þegar ég svo kom heim kl 04.30 fór ég að strauja:-) Það er svo gaman, eða þannig. Nei, ég hafði þvegið áður en ég fór og þar á meðal var kjóll sem var svona akkurat mátulegur til a strauja að ég týmdi ekki að láta hann þorna meir. Svo er ég búin að kíkja í mbl.is og nú er ég að hugsa um að fara að sofa, það er jú vinnudagur á morgun. Svo er Gabriel búin að bjóða fólki í mat annað kvöld.

Hitinn lækkar lítið, í dag voru 33C og nóttin er yndislega hlý. Ekki kvarta ég undan hita því hann hentar mér mjög vel, en verð þó að viðurkenna að maður er þreyttari í hitanum heldur en þagar kalt er. Sumir eru að spá okkur köldum vetri en ég ef ekki skoðun á því. Vona þó að svo verði ekki. Bara þoli ekki kulda.

Hins vegar spái ég því að kreppan fari að lagast á næsta ári. Mörgum finnst ég full bjartsýn, en ég stend við það. Ekki að allt verði gott á augnabliki, allt tekur sinn tíma. En hægt og rólega fara hlutirnir að færast í góðæri aftur.

Við finnum fyrir þessu hér í ferðamanna iðnaðinum. Veitingastaðir kvarta, svo og hótelin. Við sem erum með íbúðargistingar erum þó sátt. Fólk leigir sér heldur íbúð þar sem það getur eldað og útbúið nesti til að fara með á ströndina. Spánverjar koma með bílinn fullan af mat, sama gera Portugalir. En þetta fólk lætur þó eftir sér að fara í strandarfrí, en eyðir bara minna í veitingahús. Svo við erum sátt með sumarið enn sem komið er, en þurfum meiri nýtingu í september, erum fullbókuð til 12. sept. en eftir það eru of mörg göt. Svo endilega ef þið eruð að hugsa um að skreppa í sólina, komið þá til okkar:-)

Farin að sofa.

Fært undir . Engin ummæli »

Áttum við í alvöru von á sigri?

Þá er boltinn búinn. Hvað er hægt að segja? Strákarnir auðvitað búnir að standa sig með ólíkindum, en ég þorði aldrei að vona að þeir færu heim með gullið:-(

En silfur fyrir ísland sem aldrei hefur áður tekið þátt í handbolat á OL (samkvæmt spænska sjónvarpinu) er frábær árangur. Nú veit ég hins vegar betur, en árangurinn er jafn góður.

Svo, til hamingju með silfrið og takið nú vel á móti drengjunum:-)

Fært undir . Engin ummæli »

Til hamingju landar!!!

Ég á nú bara ekki orð til að lýsa því hversu ég var ekki tilbúin að trúa að Ísland ynni leikinn vð Spán. Það hefur alltaf verið þannig að strákarnir okkar klúðra hlutum á síðustu augnablikum. EN, í dag, nei. Þetta var á heildina hinn besti leikur, best var auðvitað að þeir skyldu vinna svona örugglega. Ég sat ein á bar og horfði á leikinn:-( Spánverjar voru of uppteknir af körfubolta leiknum, en Spánn var líka í semi-final þar, og vann. Báðir leikir á sama tíma. Síðasta sem ég sá af körfunni var að líklega mætir Spánn USA. En að sitja ein og grenja að leikslokum var ekki alveg ég, en ég gerði það nú samt. Það er stutt í þjóðarstoltið og hjartað sem hefur sterkar tilfinningar. Eigendur barsins þekkja mig vel og gátu alveg skilið tilfinningar mínar, eru Spánverjar:-) og fögnuðu með mér. Buðu mér upp á hvítvinsglas og skáluðu.

Anars var ég að hugsa um að láta bloggið heita Öskubuska.

Þannig var, að ég keypti mér um daginn Á ÚTSÖLU, skó/háhæla sandala með Swarovsky kristölum. Ekkert smá flottir. Fóðraðir undir ylina með tígris-flaueli. Ég hafði hugsað mér að nota þá spari, og fór í fyrsta sinn í þeim í matarboð, en þeir eru svona líka þægilegir og flottir, að ég dróg þá á fætur mér í morgun í tilefni dagsins. Ég ætla líka að vera í þeim þegar Íslsnd mætir Frakklandi i úrslitum, kanske skórnir hafi töframátt??? Til hvers að geyma fallega muni/föt til betri tíma? Verð ég endilega með heilsu eða lifandi þegar “spari” tækifærið gefst? Hér eru alltaf tækifæri til að punta sig, hver dagur er puntudagur.

Anna og Nína fóru í gærmorgun, eftir dásamleg viku sakna ég þeirra hræðilega. En ég byrjaði líka í farastjóraleik í gær. Ungu farastjórarnir sem voru hjá ÚÚ+Sumarferðum í sumar eru farnir, þannig að ég er komin inn aftur, ekki í fulla vinnu, heldur flugvallarferðir og annað sem til fellur. Það hentar mér mjög vel.

Nú eru bara 4 vikur þar til við Gabriel förum til Ítalíu…og hlakka ég til??? Ó já.

Fært undir . 2 ummæli »

Spænskt/Íslenskt sveitalíf.

Jæja, nú er ég dálítið hvumsa. Ekki það, ég þykist þekkja sveitamenningu hinna ýmsu þjóða. EN, móðurbróðir Gabriels og hans fjölskylda voru í mat hjá okkur í kvöld. Þau mættu með lambið, úr sinni sveit og við sáum um restina. Þau búa sem sagt í Baskalandi, ekki að það sé svona sveitó, því ég hef verið þar og fengið best mat “ever”. En þau koma úr litlu samfélagi sem er nákvæmlega eins og íslenskt var/er. Með lambið og öll innyflin+dindilinn af lambinu. Átti að setja dýrðina í ofn en Gabriel sem er svo nýtískulegur notar grillið. Það runnu tvær grímur á familíuna en aðvitað samþykktu þau að húsbóndinn fengi að elda að sínum sið. Hvílíkur fnykur meðan verið var að grilla ýmsa parta af lambi+innyfli. En við vorum búin að gera salat og baka kartöflur…haldið ykkur nú! Þau höfðu aldrei séð bakaðar kartöflur fyrr, og undruðu sig mjög á því hvað þær héldust lengi heitar í álpappírnum.

Þetta er ekki skrifað sem grín né niðurlæging á fólk sem kemur úr sveitahéruðum, heldur sem minnisvarði um það sem einu sinni var á Íslandi, þ.e. þegar ég var barn. Gabriel sem elskar lambakjöt var ekki mjög hrifinn, því kjötð var náttúrulegt, ekki verið meðhöndlað af kjötiðnaðarmönnum. Öll fitan og +++ flaut með,en verst þótti honum að horfa á dindilinn. Og ég held honum hafi blöskrað innyflin.

En kvöldið var mjög skemmtilegt, eftir enn skemmtilegri 90 ára afmælisveislu ömmu í gær. Sú kann að njóta lífsins og eftir 2 vínglös er hún orðin hrókur alls fagnaðar. Veislan stóð frá hádegi fram á kvöl.

Anna, Nína og ég fórum í spa og heilsunudd í dag, það var nú meiri dásemdin. Við þurftum svo sannanlega á þessu dekri að halda.

Þar sem ég vinn á morgun (Gabriel fer að kafa) þá verður dagurinn óskráð bók. En á mánudaginn tek ég bíl á leigu og við stelpurnar ætlum ti Alicante í stórt “mall” sem er þar”. 

Svo nú er bara að bjóða góða nótt:-)

Fært undir . Engin ummæli »

Julio Iglersias hvað!!!

Ætlaði að bjóða stelpunum á tónleika ástarfuglins, en hvað? Mér dettur ekki í  hug að borga milli 200 og 340 evrur fyrir hvern miða. Sá hann í Stockholm þegar ég bjó þar og hef engan sérstakan áhuga fyrir að sjá hann aftur. En það  var þess virði að reyna:-)

Við hins vegar förum í spa og ýmis konar meðferðir á morgun. Örugglea betra en Iglesias.

Fært undir . Engin ummæli »

Anna og Nína komnar.

Jæja, þá komu mæðgurnar í gærkvöldi. Við Gabriel biðum við gististaðinn þeirra og fylgdum þeim upp á íbúð. Þær þekkja sig orðið á Gemelos, gista þar þegar þær koma. Eftir að hafa tekið á móti gjöfum frá þeim fórum við út að borða. Fórum á ítalskan stað sem við höldum mikið upp á. Mjög notalegt kvöld.

Í dag er amma Gabriel 90 ára. Og, hún lítur út eins og 80. Var að koma frá Belgíu þar sem hún fór að heimsækja barnabarn og langömmubarn. Sonur hennar og fjölskylda komu í gær frá Baskalandi þar sem þau búa og í hádeginu í dag fer öll fjölskyldan að borða með ömmunni. Sór hópur. Þar sem hún hefur gaman af ferðalögum ætlum við Gabriel að gefa henni ferð til Asturias, sem er hérað fyrir norðan. En hún er þaðan og ein af systrum hennar býr þar ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum. Henni mun örugglega þykja vænt um slíka gjöf.

Annars er maður bara að fara að vinna. Það er frídagur í dag og þetta er stærsta helgin hjá okkur á árinu, miður ágúst er alltaf stærstur í íbúðarskiptingum. Þannig að fyrir kl. 10.00 fer ég til að aðstoða við að hleypa út úr íbúðum og svo í eftirmiðdaginn fer fólk að koma. Morgundagurinn og sunnudagur verða eins. En þetta er nú ekki erfitt hjá okkur, ég finn alltaf til með stúlkunum sem vinna við þrif hjá okkur þegar svona dagar skella á. Þær eru á fullu alla dagana og geta ekki tekið eina pásu. Svo er ekki eins og allar íbúðirnar í Gemelos t.d. séu í sama turninum, nei, þær þurfa að fara á milli turna með hreinsidótið, sængurföt og handklæði í innkaupakerrum. En allt hefst þetta og þær klára sitt með bros á vör.

Enn er mjög heitt:-)

Fært undir . Engin ummæli »