Boltinn, party, vinna.

Við unnum:-) þ.e. Spánn vann Rússa. Við vorum í þessum líka skemmtilega félagsskap að horfa á leikinn. Ég, eina konan inn í stofu með körlunum, hinar og börnin voru í garðinum. Ég er ósammála systur minni sem kommentaði á síðustu færslu, að leikurinn hafi ekki verið góður. Fyrri hálfleikur var frekar dapur (það komu engin mörk) en sá seinni var mjög fjörugur og góður bolti spilaður. Hvað svo gerist á morgun er spurning sem hangir í loftinu. Eftir leikinn á fimmtudaginn fórum við að vinna, en hátíðarhöldin á Benidorm voru eins og annars staðar á landinu. Bílflautur þandar, fólk syngjandi og dansandi á götum þar til kom morgun. Ég hafði verið mjög pen í víninu um kvöldið því ég var á bíl og vinnandi, en eftir að síðustu gestirnir komu, fólk sem við þekkjum vel, settumst við niður með þeim og héldum upp á sigurinn.

Ástæða þess að ég bloggaði ekki í gær var þó ekki sú að ég væri svona timbruð eða enn að halda upp á sigurinn,  heldur hafði ég mikið að gera og svo vorum við boðin í veislu hjá borgarstjórn í gærkvöldi. Góð-kunningi okkar sem er/var yfirmaður ferðamála á Benidorm svo lengi sem unga fólkið man, var að fara á eftirlaun. Hann var búin að vinna hjá borgarstjórn í 40 ár. Haldin var mikil veisla í Terra Mitica, skemmtigarðinum stóra ofan við Benidorm. Byrjaði kl 21.30, þá er búið að loka garðinum. Uppádekkuð 10 manna kringlótt borð á svæði Egipta í garðinum, en það stendur hæst og er við fallegt vatn þar sem vatns og leyser sýningar fara fram. Við sátum næst háborðinu þar sem Gabriel var einn af ræðumönnum;-) Mikill og góður matur og frábær vín. Skemmtilegt fólk við borðið okkar og svo er bara spurning hvort mynd af okkur verður í blöðunum á mánudaginn, ha,ha,ha. Klukkan 01.00 var þessi líka flotta vatns/leysirgeysla og flugelda sýning, allt tvinnað samana á frábæran hátt. Og svo fór fólk að tínast heim.

Ég er á vakt þessa helgi þannig að ég vil nota daginn á skrifstofunni. Borðaði áðan með Gabriel og hann fór svo heim í siestu, kemur svo að sækja mig þegar ég hóa. Í kvöld verður frænka hans sem býr í Baskalandi og hennar ektamaki og ungur sonur í mat hjá okkur. Á morgun ætti ég að vera búin að vinna kl. 15.00 og þá ætla ég í sólbað og slappa af fyrir leikinn. Til stendur að horfa á hann með ungum hjónum frá Ukraníu og Gaua, held að Binni verði með sínum vinum (eins og alltaf þegar er fótbolti). ÚPS, maður hlakkar nú ekki endilega til, helv. þjóðverjrnir með sinn fantabragða leikstíl. Alla vega, hafið það gott um helgina og ekki gleyma leiknum.

Til hamingju með íslensku stelpurnar, þær eru aldeilis að standa sig vel. Enda konur;-) 

Fært undir . 2 ummæli »