Magnaður kvöldverður.

Alveg fór kvöldið öðru vísi en ég átti von á. Gabriel hringdi áður en hann kom heim og sagði að vinurinn sem von var á í kvöldmat kæmi með vinkonu með sér. Gott og vel, ég þurfti því að úndirbúa “para” kvöld í stað þess að hafa tvo karla á terrasinu borðandi saman og ég kíkjandi af og til á þá. Maturinn var reyktur lax, grafinn lax+sósan, hangikjöt, íslenskur kavíar, harðfiskur, flatkökur og brauð sem ég bakaði í morgun. Ég setti líka paté og bláberjasultu og multe sultu sem ég keypti í Noregi í fyrra. Gestirnir mættu með vínin því það átti líka að smakka ýmis rauðvín, og eftirréttinn, dýrindis ávaxtaköku. Eins og venjulega var mikil hrifning yfir matnum, sérstaklega þó í þetta skipti þar sem vinurinn er mikill aðdáand lax og hélt að ekki væri til betri reyktur lax en sá norski. Hann var fljótur að skipta um skoðun í kvöld. En það sem var skemmtilegast var þegar komið var að eftirréttinum. Ég átti íslenskan rjóma og skyr sem mér var fært um daginn, rjóminn var auðvitað sjálfsagður með kökunni og okkur datt í hug að bjóða líka upp á skyrið. Þetta var slíkt hitt;-) sérstaklega rjóminn. Ég áttaði mig fyrst á því í kvöld að Spánverjar þekkja ekki ferskan rjóma, hér er bara G-rjómi sem kanske skýrir það að ég hef ekki borðað rjóma frá því ég fluttu frá London. Hvað finnst ykkur um skyr og rjóma og rauðvin drukkið með??? En gestirnir okkar gátu ekki hætt að borða rjómann og fóru að blanda sultunum saman við og þótti það algert sælgæti.

Það sem mér þykir magnaðast í kvöld er að ég þurfti að búa 14 ár í burtu frá Íslandi og fatta þá loks hina hreinu mjólkurvöru sem þar þykir sjálfsögð.

Þetta er álíka og ávextirnir sem við tínum af trjánum og smakkast svo mikið betur en þeir sem fást t.d. á Íslandi því okkar ávextir hafa aldrei komist í snertingu við eitur og rotvarnarefni.

Svo nú fer ég í háttinn með rjómabragð í munninum, ég hafði alveg gleymt hvernig hann smakkast:-)

Fært undir Matur. 3 ummæli »

Föstudagsmorgun.

Ég er heima í dag:-) var reyndar heima eftir hádegi í gær líka og hvílík sæla. Í gærmorgun sótti ég í pósthúsið pakka sem beið mín, það voru 5 Gestgjafablöð. Ég er áskrifandi Gestgjafans og hafði bara fengið fyrsta tölublað ársins svo ég hringdi á skrifstofu þeirra og yndsleg ung kona fann út að eitthvað hafði heimilisfang mitt skolast til hjá þeim, svo hún bauðst til að senda mér þau blöð sem mig vantaði. Æði. Þar sem ég þurfti að fara 2 ferðir á heilsugæsluna í gærmorgun hafði ég blöð með mér og eftir að heim kom gleymdi ég mér í þessum himnesku blöðum.

Nú í morgun (kl. er 10,00) er ég búin að horfa á fréttir, lesa mbl.is og nokkur blogg, strauja, setja í þóttavél og hnoða í 3ja korna brauð sem er í hefun. Ekki að ég sé neitt að monta mig;-)heldur bara leyfa ykkur að njóta með mér. Það er hreint ótrúlegt hvað það er dásamlegt að mega vera heima og gera það sem mann langar til. Þetta væri ekki svona skemmtilegt ef ég þyrfti a þrýfa…hér kemur kona einu sinni í viku og sér um þá deild og hún er hreint frábær. Allt gler í gluggum pússað, terrasið þrifið eins og um stofu væri að ræða ofl. Þetta er rússneks Babuska sem hefur unnið hjá okku í nokkur ár við þrif íbúða. Birgitta vinkona mín ætlar að koma í hádegismat til mín og Gabriel er búin að bjóða vini sínum í kvöld, í íslenskan reyktan og grafinn lax, hangikjöt og flatkökur, og Brennivín. Ætli ég læði ekki einhverju fleiru á borðið. Þeir fara trúlega síðan út að hitta fleiri karla og hafa gaman…

Ég var aldrei farin að segja ykkur frá gróðurhúsaferð okkar hjóna. Það eru komnar einar 3 vikur síðan við skelltum okkur á laugardegi og keyptum blóm og plöntur. Jarðaberja plöntur standa nú í röð í löngum potti og erum við farin að fá nokkuð af berjum, 2 stykki flott kirsuberjatómata tré/plöntur og er heilmikið af tómötum orðnir rauðir. Á eftir ætla ég að tína þá fyrstu í salatið okkar Birgittu. Ýmis konar krydd plöntur keyptum við líka, svo nú er lífið eins og áður, við förum út á terras eftir kryddum og fleiru í salötin og matargerð. Nú og blóm, blómstrandi fallegum litum.

Það eina sem ég get nöldrað yfir í dag er veðrið, það er ekki alveg að gera sig. Hann getur ekki ákveðið hvort hann ætlar að rigna eða hleypa sólinni að. Í morgun skein sól, núna er grátt og komin smá vindur. En nú þarf ég að  halda áfram með brauðgerðina.

Eigið góðan dag:-)

Fært undir . 2 ummæli »