Söngleikja kvöld.
31. mars 2008 — spanjolaLoks rann upp kvöldið sem ég var búin að bíða lengi eftir. Sum ykkar hafa örugglega getað hlegið með/að okkur hjónum eftir bloggið mitt 4. mars þar sem ég sagði frá ferð okkar í tónleikahöllina í Altea þar sem við áttum miða á Fama, eða Fame á ensku. Öll þekkjum við þessa frábæru framhaldsþætti sem voru í sjónvarpinu fyrir löngu, þættir um ungt fólk sem stundaði nám í leiklistar/söng/dansskóla og öll stefndu á frægð. Gerður var söngleikur upp úr þáttunum og hefur hann farið sigurför um heiminn. Hér hefur hann verið á fjölunum í Madrid lengi en svo kom að því að farið var í farandsferð. Hér hafa þau verið í 3 daga og haft 2 sýningar á dag. Við vorum sem sagt löngu bún að kaupa miða á sýninguna í kvöld en mættum 3. mars, vorum ekki alveg að fylgjast með því sem við vorum að gera, ákafinn var slíkur að sjá sýninguna. Fórum sem sagt í kvöld og hvílík sýning. Ég er enn með tár í augunum og upp terndruð þetta var svo flott. Alveg frábær sýning.
Gabriel eldaði einn af uppáhalds réttum mínum í dag, réttur frá Alcoy hans heimabæ og borðuðum við áður en við fórum í leikhúsið. Rétturinn er fylltar rauðar stórar paprikur með hrísgrjónum, ferskum túnfisk, kryddi og tómate frito. Hrísgrjónin steikir hann með hvítlauk, fiskinum og kryddi, fyllir svo paprikurnar, pakkar þeim i álpappír og sýður í hraðsuðupotti. Af einhverri ástæðu var rétturinn betri í dag en nokkurn tíma áður. Þannig upplifði ég hann allavega. Stórkostlegt, og gott rauðvín með. Síðan tókum við stutta síestu áður en við fórum í leikhúsið. Gef ykkur uppskriftina fljótlega, það er líka hægt að nota kjúkling eða svínakjöt í staðinn fyrir túnfisk og þessi réttur þekkist aðeins í Alcoy.
Ég fór í gærkvöldi á flugvöllinn að sækja Ásthildi æskuvinkonu mína úr barnaskóla. Hún kemur og hingað reglulega til að eyða tíma í hitanum því hún er sjúklingur og líður vel hér.
Varð að gera hlé á færslunni því ég fékk símtal og þurfti að fara með Ásthildi á spítala, hún var farin að bólgna mjög og roðna á öðru fætinum svo hún var lögð inn og á morgun sjáum við hvað kemur út úr ransóknum. Klukkan er orðin rúmlega 03.00 og ég ætla að fara að sofa.