Ummæli.

Hei, mér datt í hug þegar ég var að skoa bloggið hennar Þóreyjar áðan og kommentaði á það, hvað fáir hafa eitthvað að segja við bloggið mitt. Er ég svona leiðinleg eða eru bara allir svona glaðir og finnst engin ástæða til að leggja neitt til málanna? Endilega sendið mér línu ef þið nennið.

Fært undir . 1 ummæli »

Bolognes sósa með soja”kjöti”.

Þar sem ég sit hér ein á föstudagskvöldi , hlaupárskvöldi þá datt mér í hug að setja inn uppskriftina sem ég nota þegar ég geri “kjötsósu” fyrir pasta. Gabriel er í karla partý, nánar tiltekið afmæli eins af körlunum sem hann “hangir” með eins og unglingarnir segja. Við köllum það kunningja sem hittast reglulega. Ég er búin að hlakka til allan daginn að komast heim og fara í rúmmið með bókina sem ég er að lesa. Íslensk bók sem mér barst í pósti um daginn, Hús úr húsi heitir hún og er eftir konu sem heitir Kristín María Baldursdóttir. Lofar virkilega góðu eftir 2 kafla.

En uppkriftin.

Þegar ég vinn úr soja kjöti geri ég ýmislegt og pastakjöt sósurnar eru sjaldnast eins, en sú sem ég gerði um daginn var mjög góð. Ég reif 1 stóra gulrót í pott og smáttsxaði 1 rauðlauk og setti í sama pott, helti Extra Virgin olíu yfir, dálitlum slatta, kveikti á hellunni og lét malla góða stund, hrærði mjög oft í. Næst kom sojahakkið. Ég hafði sett 1 bolla af fínu soja hakki í skál og 2 bolla af sjóðandi vatni yfir ca. 10-15 mín. áður og látið liggja. Hrærði því vel saman við laukinn og gulræturnar með helluna á fullum hita. Síðan tók ég pottin af hellunni, (það geri eg því annars slettist tómaturinn upp um alla veggi og borð) og helti lítilli dós af niðursoðnum söxuðum tómötum í og fernu af tómate frito, en það fæst trúlega ekki á Íslandi eins og ég hef svo oft sagt áður.  Svo tómat purree kemur í staðinn, 2 litlar dósir eða ein stærri. Smá vatn (ekki meir en desilitri) og grænmetisteningur. Setti pottinn aftur á helluna, bætti miklu af oreganó og basil í og sauð þetta svo í ca. 45 mín, þá þurfti að fara að bragða til. Best á allt og ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum fór í pottinn ásamt muldum marglita piparkornum, líka frá Pottagöldrum. Pínulítið salt því ég var búin með Herbal saltið mitt. Svo bara hélt ég áfram að bæta oreganó og hvítlauksblöndunni í þar til ég var ánægð. Bætti þá meiri muldum pipar í.

Mig langaði í kartöflumús en Gabriel pasta, svo ég sauð pastaskrúfur handa honum en gerði pakka mús handa mér. Bæði alsæl. Skamturinn var stór eins og yfirleitt þegar ég elda svo Gabriel fékk sér skammt í morgunmat daginn eftir (sunnudag) og við höfðum svo restina í kvöldmat sama dag. 

Ef einhver hefur ekki kveikt á því hver er besta gjöfin til að gefa mér þá vek ég athyggli á Pottagaldra kryddi. Annað er varla notað á þessu heimili. Kryddskápurinn okkar er svo stór og svo troðinn að það væri skemmtiefni fyrir marga að komast þar í, enda er húsið mitt vinsælt ef fjölskyldumeðlimi í byggingunni vantar krydd í matinn.

Ég skora á ykkur öll að prófa að nota soja í staðin fyrir kjöt, hakkið er einna auðveldast fyrir kjötætur að byrja á.

Verði ykkur að góðu.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

Hlaupársdagur.

Ég las það í morgun að árið 1288 hafi verið lögleitt á Skotlandi að konur mættu biðja sér manns 29. febrúar, þ.e. á 4 ára fresti. Það var kona sem innleiddi þessi lög, hún var drottning þeirra Skota og hét Margrét. Sagan segir líka að ef maðurinn hafnaði bónorðinu yrði hann að bæta konunni það með kossi, silki kjól eða hönskum. Nokkuð merkilegt þetta. En af hverju ætli blessduð drottningin hafi ekki gefið konum leyfi til að biðja sér manns nema á 4 ára fresti? Hugsið ykkur, ef maður hefði nú orðið ástfanginn stuttu eftir 29. febrúar. Hvernig hefði það farið með mann að bíða í angist í nær 4 ár og vona að maðurinn tæki ekki upp á þvi að biðja sér annarar konu í millitíðinni, því karlmenn máttu nefnilega biðja sér konu á hverjum degi, bara svona þegar hentaði þeim. Svo þið ógiftu, notið daginn til að biðja þess sem þið eruð skotnar í.

Annars er ekkert gaman að vera kona hér á Spáni þessa dagana. Öllu heldur, það er sorglegt. 4 konur voru myrtar af mökum eða fyrverandi mökum á einum sólarhring. Það var í fyrradag og nótt. Mikil mótmæli á torgi sólarinnar í Madrid í gær. Ótrúlegur fjöldi manns sem þar var saman komin. 16 konur hafa verið myrtar af mökum/fyrverandi…það sem af er árinu, og bara rúmar 8 vikur liðnar. Þetta er skelfilegt. Svo er eitt nokkuð hjákátlegt í þessu öllu saman, það er alltaf eins og pínulítill léttir þegar parið er ekki spánskt. Ekki að verknaðurinn sé skárri heldur gefur þetta okkur von um að Spánverjar séu ekki svona mikil illmenni. Það er mjög áberandi að margt af þessu ógæfufólki eru sígaunar og innflytjendur. En þessu verður að ná niður og mikil barátta hefur verið háð sl. ár og fer vonandi að skila góðum árangri. Sterkar sjónvarpsauglýsingar ofl. er partur af herferðinni gegn ofbeldi.

Ég hlakka svo til sunnudagsins:-) Við förum og sjáum FAME, söngleikinn skemmtilega. Hann verður fluttur í Altea um helgina, hefur verið á fjölum leikhúss í Madrid lengi og er nú á farands ferð. Ég hef ekki séð söngleik á sviði síðan fyrir 3 árum að við sáum Mama Mia í Madrid. Það var æði.

Fært undir . Engin ummæli »

Cara a Cara!

Í gærkvöldi var þáttur í sjónvarpinu sem þjóðin hafði beðið eftir með öndina í hálsinum. Forsetisráðherrann og keppinautur hans í kostningunun sem fram fara 9. mars hittust í kappræðum í sjónvarpinu. Þetta hefur ekki gerst í 15 ár og þótti því mikill viðburður. Búið var að auglýsa þáttinn alla vikuna á undan og aðdragandinn í gær tók klukkutíma. Spennan var í hámarki þegar þeir loks gengu í salinn með stjórnandanum. Þátturinn var mjög vel skipulagður og fengu keppendurnir 3 mínútur til að kynna sig og málefni sín og síðan 2-3 mín til að svara hvor öðrum. Þetta voru alvöru kappræður og öfugt við aðra Spánverja þá gripu þeir ekki fram í fyrir hvor öðrum. Ég horfði á þáttinn með augu og eyru glennt og hafði mikið gaman af. Gabriel tókst að sofna yfir þessu;-) Síðan munu þessir sömu herrar hittast aftur á mánudaginn kemur svo það er til mikils að hlakka.

Blöðin í morgun birtu skoðanakannir þar sem fram kom hvernig þeir hefðu staðið sig og hvor var betri. Minn maður var með töluverðan meirihluta. Kom mér ekki á óvart, en mér þótti keppinauturinn standa sig vel einnig.

Svo þetta eru samræður manna/kvenna á kaffihúsunum í dag.

Fyllt, ofnbakað grasker og salat.

Sunnudagsmorgun og sólin er að reyna að brjótast fram eftir rigningu næturinnar og hluta morguns. Annars er himininn frekar grár. Spurning hvort maður fer nokkuð út í dag, kúrir bara og les eða fer að taka til í einhverjum skotum sem bíða tiltektar og ákvarðanatöku um hverju á að henda og hverju ekki:-(  Í gær fór fallegi sólardgurinn í íbúðarþrif hjá okkur hjónum, í sitt hvorri íbúðinni. Hans verkefni var öllu óskemmtilegra heldur en mitt. Íbúð sem við höfðum leigt manni var líklega áframleigð til Bulgara, hversu margir þeir voru vitum við ekki en allavega 3. Þar sem samningurinn rann út á föstudaginn og ekki náðist í neinn fór Gabriel í íbúðina og fann hana yfirgefna og útlítandi eins og verstu svínastíu. Þeir virtust m.a. hafa borðað kattarmat því hann er jú ódýrari en mannamatur. Hvort þeir voru bara ekki heima eða farnir var ekki hægt að sjá þannig að Gabriel skipti um skrá og fór svo í gær til að hreinsa út þannig að þrifnaðar stúlkurnar okkar gætu svo farið inn eftir helgi. Hann fór út með 13 svarta stóra ruslapoka. Þarna fann hann ýmislegt sem benti til þess að þessir náungar hefðu lifað á ránum, haug af sundurteknum símun og myndavélum ásamt fleiru. M.a nafnspjald frá íslenskum skemmtistað sem bendir til þess að Íslendingur hafi orðið fyrir barðinu á þeim. Þetta er því miður ekki fyrsta skipti sem við lendum í því að leigja fólki sem svo hverfur með miklar skuldir við okkur. Því, þó fólk þurfi að leggja fram mánaðar tryggingu þá nægir það engan veginn, svo nú erum við að breyta samningum og því miður þurftum við að taka þá ákvörðun að karlmenn frá Austur Evrópu fá ekki leigt hjá okkur, fjölskyldur já, en ekki einstaklingar sem vilja leigja saman. Þetta hljómar eins og versti rasismi en hvað gerir maður eftir að hafa lent illa í fólki oftar en einu sinn og oftar en tvisvar? Verst er að þessir einstaklingar gera það að verkum að heilar þjóðir eru stimplaðar.

En, þetta átti að vera matarblogg. Loksins að setja inn graskerið góða og salatið. Hér byrjar það!

Fyllt grasker bakað í ofni.

Ég átti eitt meðalstórt grasker, skar það í tvennt eftir lengdinni og hreinsaði kjarnan úr. Skar svo kjötið í rákir, svona eins og teninga. Setti Extra Virgin olíu í bolla og kramdi 2 hvítlauksrif út í ásamt slatta af oregano og basil. Hrærði þetta saman og lét liggja smástund áður en ég penslaði graskerið með olíunni, ég penslaði mjög vel. Setti svo helmingana í eldfast fat og bakaði í 200C ofni í 30 mín. Í öðru móti bakaði ég 1 lítið eggaldin, gula og rauða papriku og rauðlauk, allt skorið í sneiðar. Helti afgangnum af kryddolíunni yfir og bakaði jafn lengi. Hrærði oft í á meðan. Undir lokin setti ég kirsuberjatómata út í grænmetið og bakað þá með. Meðan þetta var að bakast hrærði ég saman brauðrasp, parmesan osti, steinselju og svörtum steinlausum ólífum sem ég skar í sneiðar. Þegar graskerin voru bökuð tók ég þau og grænmetið úr ofninum. Fyllti þau með grænmetinu, skar niður fetaost (ekki kryddaðan úr krukku) setti yfir og loks raspblönduna. Bakaði svo aftur í 10-15 mín. Eins og alltaf þegar ég elda nota ég ekki mælieiningar heldur tilfinninguna. Grænmetið varð of mikið en það skipti engu máli, við borðuðum afganginn í morgunmat daginn eftir með ristuðu brauði og osti. Þetta varð veislumatur. Hálft grasker dugði vel fyrir einn, við höfðum salat með. Ekki þó það sem uppskriftin fyrir neðan er af.

Sem sagt í Grasker réttinn þarf; grasker,ólívuolíu, hvítlauk, oregano, basil, eggaldin, gula og rauða papriku, rauðlauk, kirsuberjatómata, fetaost, brauðrasp, parmesanost, steinselju og svartar eða grænar ólífur.

Þá er það salatið sem ég gerði sem kvöldmat fyrir okkur eitt kvöld fyrir stuttu. Við erum að vinna gegn of háu kolesteróli svo maturinn er mjög vel valinn þessa dagana.

Mig langaði í öðruvísi salat svo ég skar gulrót í þunnar sneiðar og saxaði rauða papriku, steikti þetta í ólívu olíu þar til ca. hálfsteikt, bætti þá púrrulauk í mjög þunnum sneiðum á pönnuna og steikti með 3-4 mín. Á tvo diska setti ég salatblöð, raðaði 4-5 blöðum hringinn á diskana (notaði reyndar ferkantaða diska), saxaði einn stóran tómat og skipti milli diskanna, setti svo steikta gtrænmetið í miðjuna, kryddaðan fetaost ú krukku (bara nokkra teninga á hvorn disk) og stráði svo sólblóma fræjum yfir. Salatið varð einstaklega gott svona bæði kalt og heitt. Okkur kom saman um að þetta gæti hæglega verið forréttur í boði, en þá myndum við hafa nýbakað brauð með.

Í gærkvöldii gerði ég svo mína tegund af Bolognes sósu, en hún er með soja kjöti. Þið fáið þá uppskrift næst. Þetta er orðið svo langt. 

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Uppskriftir!!!

Sl. tvo morgna hefur tölvan minnt mig á að ég hef lofað ykkur að setja inn uppskriftina af fyllta graskerinu (sem er æði) og salatinu sem ég gerði um daginn. Salatið var nú bara eitthvað sem ég gerði án mikillar íhugunar, svona sjálfkrafa, graskerið hins vegar á uppskrift og hún er ekki á skrifstofunni. Svo ég lofa að setja þetta inn um helgina, ég fer alltaf með lapptoppinn minn heim um helgar.

Annars er helgin óskrifað blað. Veturinn hefur ekki enn látið á sér kræla hér, dásamleg sól og blíða. Það liggur við að maður skilji ferðamennina sem ganga um á stuttbuxum og hlírabol. Eitthvað munum við örugglega gera skemmtilegt, ganga um ströndina?borða á ströndinni?eða keyra upp í fjöllin og borða þar? Hver veit.

En nú erum við að fara í mat. Guðjón er í bænum, hann labbar hingað daglega sem er frábær æfing fyrir hann, og þar sem er föstudgur ætlum við öll að fara og fá okkur eitthvað gott í gogginn.

Fært undir . Engin ummæli »

Kosovó, Kúba og Castro.

Það er margt að gerast í heimsmálunum þessa dagana. Afsögn Castro kom nú ekki á óvart, blessaður er búin að vera lasin svo lengi. Mesta furða hvað hann tórir. En ég er mjög glöð með að hafa fengið tækifæri til að heimsækja Kúbu á meðan hann var enn í fullu fjöri. Spennandi verður að fylgjast með næstu vikum og mánuðum því að mér læðist sá grunur að hann eigi ekki langt eftir, og ef hann deyr þá er hægt að búast við einhverjum hreifingum á Kúbu. Ekki fyrr.

Varðandi Kosovó, þá erum við hér í vandræðum auðvitað. Spánn getur ekki samþykkt sjálfstæði ríkisins/þjóðarinnar því það væri sama og dauðadómur yfir sjálf síns pólitík. Hvað með Baskaland? Þetta er bara hérumbil sama mál. Svo nú vakna margar spurningar hér í mínu nánasta umhverfi.

Annars er ekkert eins skemmtilegt og að tala við Gaua son minn um heimsmálin, hann er eins og alfræði orðabók. Ég vissi alltaf að hann er klár í landafræði og umhverfisfræðum en hversu klár hann er í pólitík kom mér í opna skjöldu. Húrra fyrir honum. Ég mun leggja mig fram um að fá hann í pásur með mér á næstu dögum.

Annars er allt í rólegheitum hér. Sé varla karlinn því á milli þess sem hann er á námskeiðinu í Alicante sem er alla eftirmiðdaga er hann upptekinn í mat með póitíkusum. Helst að sjá hann í sjónvarpinu eða blöðum. Hann var svona líka flottur í hringborðsumræðum í sl. viku með varaforseta Spánar:-) Ég er farin að halda að hann sé að snúast á vinstri vænginn því í gær sleppti hann námskeiðinu til að sitja hádegisverð með utanríkisráðherranum sem var í heimsókn á Benidorm. Svo ábyrgð mín á skrifstofunni eykst með degi hverjum, og það er nú ekki leiðinlegt.

Í elshúsinu hef ég verið ódugleg frá því ég eldaði fyrir þann fyrverandi um  sl. helgi. Við hjónin höfum verið í salati eða samlokum. Annars gerði ég mega gott salat um daginn, man ekki hvort ég bloggaði um það. Þarf að skoða bloggið og hafi ég ekki sett það inn geri ég það á morgun. Fer ég á hárgreiðslustofuna á morgun og það tekur alltaf 2-3 tíma. Nú ætla ég að breyta um klyppingu, er orðin þreytt á Victoriu Beckham klyppingunni, svo ég greiði bara öruvísi. 

Svo eins og við segjum hér, Hasta luego!

Fært undir . 1 ummæli »

Laugardagsnótt.

Hér er ég sest við tölvuna og klukkan er að verða 02.00. Venjuega er ég búin að vera sofandi 2-3 tíma á þessum tíma. En hvað gerir maður ekki þegar maður er einn? Ég vann fyrir Gabriel í dag því hann á helgina, hleypti fólki inn í íbúðir og athugaði leka í hitunrtæki í einni íbúð. Var búin um kl 14:30 og eftir að hafa komið við í búð stökk ég upp í leigubíl og bað hann að taka mig heim. Ég labbaði í morgun og ætlaði sko ekki að labba til baka upp fjallið með skjalatösku og fullt af peningum. Maður tekur enga sénsa núna. Gabreil fór sem sagt á bílnum í skíðaferðalagið svo ég er á tveim jafnfljótum, sem er hið besta mál svo lengi sem ég er ekki með peninga og pappíra á mér. Þegar heim kom og ég var búin að taka inn þvottinn frá í morgun og setja í aðra vél byrjaði ég á “vorhreingerningunum” sem ég hafði hlakka til að gera. Í hverju fólst það? Jú, allir skápar í stofunni hjá mér hafa glerhurðir svo mig hefur langað til að taka þá virkilega vel í gegn, sérstaklega eftir jólin. Setja jóla leirkrúsinar sem ég keypti í 200 kalla búð á Íslandi og hef notið að drekka mitt heita kakó úr í desembermánuði, aftur fyrir annað í skápnum þar sem þær eru geymdar. Þær eru að koma í staðin fyrir fallega postulíns súkkulaðisettið (jóla auðvitað) sem mamma bar frá Canada fyrir mörgum árum og brotnaði að mestu í fluttningunum frá Íslandi til London. Merkilegt hvað ég hef flutt milli landa og alltaf þarf ég að hafa allt dótið mitt með mér. Sumir sona minna kalla mig draslsafnara…en hvað gefa þeir mér í jólagjafir? Kerti og servíettur eins og bið alltaf um, nei þeir þurfa að að gleðja mig með einhverju sem þeir svo seinna kalla drasl. Þetta unga fólk.

Einn lítill glerskápur í stofunni hefur að geyma servíettur og kerti, ég tók mér góðan tíma til að fara í gegnum hann og endurskipuleggja, ég meir að segja innrammaði handsaumað kort frá fullorðinni vinkonu minni á Íslandi í eina rúðuna á skápnum og mikið kemur það fallega út.

En ég gerði meir en þetta. Ég er með tvo setjarakassa í stiga uppganginum og það var löngu orðið augljóst að konan sem þrífur hjá mér hefur ekki snert þá, enda hvernig átti blessuð konan að safna nægum kjarki til að taka alla þessa smámuni sem þar eru, þvo þá, þurka úr kössunum og koma öllu á sinn stað. Ég er henni þakklát fyrir að hafa sleppt því. Annar kassinn geymir bara uglur svo ég taldi að gamni mínu uglurnar sem ég á á neðri hæðinni og upp stigann, þær eru 70 og á ég þá eftir að telja allar á efri hæðinni, á terrasinu, bókamerki og skartgripi sem eru uglur. Svo eru nokkrar á skrifstofunni. Af hverju allar þessa uglur? Jú, ég er ein af 5 uglum sem höfum verið vinkonur í 20 ár og söfnum og gefum hver annari uglur. Félagsskapurinn heitir UGLUR. En það eru ekki bara við sem kaupum heldur eru fjölskyldumeðlimir og vinir duglegir að gefa okkur uglur. Tara Kristín ömmustelpan mín gaf mér babúsku-uglu sem inniheldur margar eins og sannar babúskur. Sú er í stofunni hjá mér svo ef ég hefði talið öll börnin í maganum á mömmunni væri talan á neðri hæðinni hærri. Það er alveg ótrúleg skemmtilegt hvað fólk man eftir uglusöfnun minni, ég á orðið uglur víðsvegar úr heiminum og margar hverjar mikil listaverk. T.d. keypti ég mér eina frá Swarovski þegar við vorum í Stockholm í vetur og hún er mikið listaverk. En nóg um það.

Hvað gerir svo kona sem er ein heima og langar að elda góðan mat? Ég er svo heppin að hafa fyrrum eiginmanninn og 2 af sonunum hér í byggingunni svo ég bauð GÓ, þeim fyrverandi í mat. Eldaði grænmetismáltíð. Skar niður ýmis konar rótargrænmeti og lauka og bakaði í ofni. Steikti 2 tegundir af sveppum sem örugglega hafa aldrei sést á Íslandi (með fullri virðingu)+púrrulauk var svo með 2 tegundir af buffum, gulrótarbuff og blandað grænmetisbuff. Gaui kom svo í heimsókn þannig að ég hafði félagsskap mun lengur en annars hefði orðið. Annars er Guðjón ótrúlega sterkur þó úthaldið sé ekki mikið, en við sjáum vikulega mun.

Þegar þeir feðgar fóru horfði ég á DVD mynd og settist svo við tölvuna. EN, nú er klukkan 02:30 og ég er farin að sofa.

Fært undir . 1 ummæli »

Valentínusardagur.

Þið þekkið auðvitað öll söguna um  heilagan Valentínus svo ég er ekkert að setja hana hér. Heimsbyggðin;-) hélt upp á nafnadag hans í gær. Við hjónin höfðum ákveðið að í ár yrðu engar gjafir gefnar, okkur vantar bara ekki neitt, nema að ég hefði þegið andlitslyftingu, brjósta aðgerð og svuntu takk, þar eru svo margar vinkonur mínar að láta framkvæma allt þetta eða eitthvað af því svo ég fer að líta út 30 árum eldri en ég er þegar ég er i návist þeirra:-( 

Ég er einmitt að þjást með einni enskri sem á hús hér í Albir og kom hingað til að láta framkvæma andlit og maga. Ég hef reyndar bloggað um stórkostlega 60 ára afmælisveislu hennar í haust, en veislan stóð í tvo daga/kvöld. Þetta er mjög falleg kona sem nú er rosa spennandi því hún er öll í umbúðum nema augun og sjást því saumarnir þar í kring. Hún á erfitt með að hlæja því magavöðvarnir eru ekki sammála slíku enn sem komið er. Ég lít til hennar þegar ég hef tíma og hlakka mikið til að sjá árangurinn. En mikið er hún búin að eiga bátt, úps, þetta er ekki verkjalaust. En þess virði og mikið meir en það segir hún svo og önnur vinkona mín sem var í samskonar aðgerð fyrir jólin og er að endurlifa unglingsárin, eða þannig.

Sem sagt, ég fékk ekki ávísun á lýtalækni í Valentínusargjöf, heldur konfekt og 12 rauðar rósir, eina fyrir hvert ár sem ég hef þolað manninn minn eins og stóð á kortinu. Síðan fórum við út að borða í gærkvöldi á mjög fallegu hóteli í Altea.

Sigga Rúna tengdadóttir mín kommenteraði á bolludaginn hjá mér og bað um uppskriftina af vatnsdeigsbollunum. Hér kemur hún.

3 dl. vatn, 1 msk. sykur, 100 gr. hveiti, 100 gr. smjörliki, 3 egg. Vatn, sykur og smjörlíki soðið saman, hveitið sett í og hrært stöðugt þar til hveitibollan losnar frá pottinum. Þá er hún sett í hrærivél og eggin þeytt saman við, eitt í einu. Sett á smurða plötu eða bökunarpappír með lítilli matsekið. Bakað við 200C fyrstu 15 mínúturnar þá er hitinn lækkaður aðeins og bakað áfram í 45-60 mín. ÁRÍÐANDI! Ekki má opna ofninn fyrstu 20 mínúturnar. (eru ekki allir ofnar með gleri núna?) Ég smyr þær svo með súkkulaði þegar þær eru orðnar kaldar, sker þær í sundur og set góða sultu og þeyttan rjóma milli helminginna. Svona einfalt er nú það.

Annars er ég að fara að horfa á video, er að njóta þess að bóndinn er farinn á skíði og ég hef húsið fyrir mig eina.

Góða helgi öll aman.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

Bolla bolla.

Ég stóð við loforðið og bakaði bollur og hélt bollukaffi á sunnudaginn. Allir karlarnir+unnusta Gaua mjög ánægð. Ég lét mig nú hafa það að smakka eina, ég er sko löngu hætt að borða kökur og sætindi, reyndar mörg, mörg ár síðan. Bollurnar voru eins og í gamla daga en rjóminn hér er svo allt annar en á Íslandi og í London. Hér fæst eingöngu G-rjómi þar sem mjólkurframleiðsla Spánar er eingöngu í nystu héruðum landsins. Úrval rjóma er mikið bæði til matargerðar og þeytingar en ég mun ekki baka íslenska rjómatertu meðan ég er búsett hér.

Annars er mjög mikið að gera og gaman að vera til. Við reynum að eiga róleg kvöld heima þessa dagana. Ég var á vakt sl. helgi. Við skiptumst á hér á skrifstofunni um að sinna gestum um helgar, þ.e. taka á móti gestum og hleypa út þeim sem eru að fara. Svo ég sem sagt átti sl. helgi. Var mjög róleg svo við gátum notið sunnudagins með Guðjóni og góðri enskri vinkonu okkar, fórum á markað sem okkur þykir skemmtilegur og borðuðum hádegismat þar. Bollukaffið var svo um kvöldið. Gabriel á að vinna næstu helgi en ég tek hana fyrir hann þar sem hann ætlar að skella sér á skíði. Ég er með heilmikil plön um hvað ég ætla að gera í húsinu meðan  hann er í burtu sem verður nú bara ein nótt, en samt…ég ætla í vorhreingerningar. Er þó ekki búin að gleyma loforðinu um spænska menningu og matargerð.

Það rigndi um tíma í dag annars hefur veðrið verið eins alla daga þetta ár, sól og hlýtt. Vona að það fari að skána á Íslandi.

Fært undir . 1 ummæli »