Lífið og tilveran.

Lífið og tilveran er heitið á bloggsíðunni minni. Ætlunin var og er að fjalla um lífið og tilveruna og ég held raunar að ég hafi verið að því allan tímann. En lífið og tilveran þessa daga eru ansi erilsöm. Það er með ólíkindum að enginn dagur skuli geta farið eftir plönum. En svona eru lífið og tilveran.

Guðjón er á batavegi eins og maður segir. Hann getur lítið talað því hann á enn í erfiðleikum í hálsi eftir slöngur. Við vorum farin að halda að eitthvað hefði skemmst því þó hann hafi getað talað í tvo daga þá var það allt. En læknir sagði honum í gær að þetta væri eðlilegt, engin skemmd sjáanleg í hálsi og hann fékk lyf til að flýta fyrir bata.

Fólkið í kringum okkur er hreint ótrúlegt. Hér í miðbænum er lítið samfélag fólks sem vinnur nálægt hverju öðru, sumir búa hér og enn aðrir reka veitingastaði og bari/kaffihús sem við heimsækjum. Alls staðar er spurt um líðan hans og blóðheitu Spánverjarnir taka veikindi og þrautir náunagans mjög nærri sér. Á japanska veitingastaðnum þar sem við borðum oft og eyddum gamlárskvöldi eldaði eigandinn súpu handa honum í gær sem ég var send heim með. Þetta var sérstök súpa til að flýta fyrir bata hans. Honum þótti hún mjög góð eins og allar súpur sem hann borðar þarna.  

É er búin að byrgja mig upp af grænmeti og ætla að elda eitthvað sem kemur á óvart á morgun handa allri fjölskyldunni. Við Gabriel förum ekki til Murcia fyrr en á sunnudaginn og veislur+fundarhöld hefjast á sunnudagskvöld og lýkur á mánudagskvöld. Svo við komum heim upp úr hádegi á þriðjudaginn. Gabriel fer svo til Madrid á miðvikudaginn, á árlega ferðakaupstefnu sem ég fer yfirleitt með honum á, en sem betur fer hafði ég ákveðið að fara ekki þetta árið. Ég þarf að hægja örlítið á…er ekki 25 lengur þó ég hafi tilhneigingu til að halda svo.

SVO! Þar sem við förum ekki fyrr en á sunnudag þá ætlum við að taka niður jólin á morgun, og ég er að hugsa um að gera það við undirleik jólalaga eins og þegar ég setti þau upp;-)

Góða helgi.  

Fært undir . Engin ummæli »