Heimkoman.

Við komum heim á mánudagskvöldið eftir ágæta ferð. Guðjón var eðlilega mjög þreyttur. Daniel eldaði þegar heim kom og borðuðu Gaui og Binni með okkur. Guðjón var ekki eins hress í gær eins og hann hafði verið, hann getur nánast ekkert talað vegna erfiðleika í hálsi. Við höldum að það stafi af því að hann hafi talað of mikið dagana 2 á undan, en nú í morgun er Daníel með honum á sjúkurahúsinu hér til að hitta hjartasérfræðinginn hans. Auvitað mun batinn taka langan tíma, það vitum við öll og þurfum að hjálpast að við að fá Guðjón til að fara hægt.

Mín beið mikil vinna þegar ég kom aftur á skrifstofuna. Ég hafði ætlað að vera í fríi í gær og sinna hlutum heima en það fór öðruvísi því skrifstofustúlkan okkar var veik og Gabriel á endalausum fundum allan daginn. Svo við Rosalba systir hans vorum hér og höfðum nóg að gera. Nú í dag er hún veik en Eva, skrifstofustúlkan komin til baka. Ég kalla hana skrifstofustúlku því hún er sú sem tekur á móti fólki fyrst þegar það kemur inn, svarar símanum og sér um almenn skrifstofustörf. Við hin höfum öll verkefni sem krefjast þess að við þurfum mikið að hreyfa okkur. Það er mikil eftirsjá í Sigurrós sem vann hjá okkur sl. ár. Hún var mjög kraftmikill starfsmaður. En nú hefur hún flutt aftur til Íslands og tekið upp fyrra starf sem er að kenna börnum í grunnskóla Grindavíkur.

Hvenær tek ég jólin niður??? Já, jólin eru enn í mínu húsi, tréð stendur fullskreytt og um allt hús eru jólaskreytingar. Ég er aðeins farin að safna saman dóti á borðstofuborðið en ekki er það nú mikið. Við borðum enn af jólamatardiskum hjónakornin. En ég ákvað að meðan þetta er svona þá að njóta þess og kveikjum við á trénu á kvöldin þegar við komum heim. Um helgina þurfum við að vera á fundum í Murcia sem er næsta hérað fyrir sunnan okkur. Það verður spennandi því fundahaldarar hafa sett alla á sitt eigið lúxus hótel og er allur matur líka í boði þeirra.

Svo jólin halda áfram í okkar húsi um óákveðin tíma.

Fært undir . 1 ummæli »