Fyrsta vikan í Valencia.

Þá erum við Guðjón búin að vera eina viku hér í Valencia borg, hann á mjög góðu sjúkurahúsi, ég í íbúð sem við Gabriel tókum á leigu. Gabriel keyrði mig hingað sl. sunnudag, en Guðjón hafði verið fluttur á laugardeginum. Aðgerð var ákveðin á þriðjudagsmorgni. Gabriel fór heim til Benidorm á sunnudagskvöldinu en kom til baka á mánudagskvöldið með Binna og Gauja . Við vorum svo öll saman aðgerðardaginn, fengum að koma og hitta Guðjón kl. 08.00 um morguninn rétt áður en hann var keyrður inn á skurðstofu. Vorum svo mætt aftur á spítalann kl. 14.00 til að vera til taks fyrir skurðlækninn sem stjórnaði aðgerðinni þegar henni lyki. Hann kom loks út af skurðstofunni 14.30 eftir 6 tíma aðgerð og talaði við okkur. Aðgerðin hafði gengið vel, skipt var um 4 æðar. Margt var rætt og við fórum af spítalanum þokkalega bjartýn. Komum svo aftur um kvöldið og fengum að fara inn til hans. Síðan þá hefur hann verið í góðum bata og er nú komin á stofu. Í gær fór hann fyrst út úr rúmminu og í dag situr hann í stól helst allan daginn og tekur göngutúra fram á ganginn. Ótrúleg framför. Búist er við að hann geti farið heim á þriðjudag/miðvikudag. Daníel kom hingað á miðvikudaginn og fer liklega 30. til baka. Gabriel kom í gær og Binni og Gaui komu í dag með systir Gabriels til að heilsa upp á “þann gamla”. Þau fara svo til baka í fyrramálið en við Daníel ætlum að fylgja Guðjóni heim.

Ég hef verið tölvu-tengingarlaus þessa viku en Gabriel keypti handa mér sérstakt tæki þannig að ég get náð sambandi hvar sem ég er og nýtti mér það í dag. Mikill póstur hafði safnast upp og sérstaklega hafði ég haft áhyggjur af vinnu pósti. En nú er allt afgreitt.

Ekki höfum við Daníel látið okkur leiðast á milli þess sem við höfum verið á spítalanum. Við höfum eytt góðum tíma í bókabúðum og svo fundum við þessa líka stórkostlegu heilsuverslun sem líka hefur veitingastað þannig að við höfum ekki þurft að velta því fyrir okkur hvar við ættum að borða þegar við elduðum ekki heima.

Ég fékk þá snjöllu hugmynd!!! að byrja með spænskt matreiðslunámskeið á blogginu, Þ.e. mig langar að segja frá héruðum Spánar og matargerðarlist hvers fyrir sig og gefa svo eina uppskrift frá hverjum stað. Matar og vín saga þessa lands er hreint ótrúleg svo þið megið búast við þessu prógrami fljóltlega. Vonandi mun það gleðja ykkur öll og hvetja til Miðjarðarhafs matreiðslu á íslenskum heimilium, en eins og þið vitið er hún ein sú hollasta í heimi. Önnur af þeim hollustu er japönsk matargerðalist og nú hef ég orðið mér út um bækur svo ég geti farið að matreiða heima. Ég fékk þennan áhuga eftir að hafa misst 4 kg. fyrir jólin þegar ég fór að borða daglega á japönskum stað í hádeginu. Japanskur matur er líka mjög hollur, sem skýrir langlífi Japana. Lengst af hafa Íslendingar og Japanir verið langlífastir í heiminum og er mataræði talið vera helsta ástæðan.

Nú þegar nánast öll fjölskyldan er saman komin njótum við þess að borða saman. Frábær grænmetisstaður var heimsóttur í hádeginu og eftir kvöld heimsóknina á spítalann er ráðgert að borða mexikanskt.

Við söknum öll Gumma en hann var í vinnuferð í Kína þegar pabbi hans veiktist og var skorinn, en stutt verður þar til við verðum öll saman ásamt tengdadrætrum og börnum.

Við sendum öll góðar kveðjur til allra á Íslandi. Hér hefur verið mjög heitt undanfarið, í fyrradag var 28C og allir stóðu á öndinni, þetta var eins og í júní, en áður og síðan hefur hitinn verið um 20C.

Takk til ykkar allra fyrir góðar kveðjur og bænir, þær hafa svo sannanlega gefið öllum kraft og Guðjóni bata.

Fært undir . Engin ummæli »