Nýársdagur 2008.

Gleðilegt nýtt ár öll saman.

Þá er komið að lokum fyrsta dags ársins og ég að skríða í rúmmið með bók. Gabriel er í nýjasta hobbíinu sínu sem eru tölvuleikir. Sagði einhver að strákar væru ekki alltaf strákar?

Ömmustrákurinn minn hann Óskar Marinó varð 4 ára í gær. Ekki vildi hann nú tala við ömmu sína þegar ég hringdi til að óska honum til haingju með daginn, henn er lítið hrifin af síma spjalli. Frænka hans Tara Kristín er hins vegar ánægð með að fá að tala í símann þó ekki segi hún mörg orð þá bara endurtekur hún þau aftur og aftur.

Við áttum skemmtilegt kvöld í gær með Gaua, Guðjóni og ugluhjónunum Lovísu og Ingimar. Borðuðum japanskan mat sem borin var á borð til okkar í endalausu magni. Binni borðaði hins vegar í heimahúsi með vinum sínum. Síðan vorum við á þríhyrnda torginu í miðbæ Benidorm á miðnætti með vínberin okkar 12 og kampavín, öllum gekk vel með berin þannig að árið sem gengið er í garð ætti samkvæmt trúnni að verða okkur öllum gott ár. Eftir að hafa horft á flugeldasýninguna og spjallað við fólk sem við þekktum fórum við heim að sofa. Það er að segja fullorðna fólkið, strákarnir fóru með vinum sínum út í nóttina. Svo ég var sofnuð þegar áramótin gengu í garð á Íslandi, engin frammistaða þetta.

Í dag höfum við legið í leti, í morgun horfði ég á frétta annálana á RÚV og helminginn af þessu hræðilega áramótaskaupi, ótrúlegt að ekki skuli vera hægt að gera klukkutíma langan skemmtiþátt, hver ber ábyrgðina á svona skelfingu? Horfðum á mjög áhugaverða kvikmynd sem segir frá fyrstu átökum Bandaríkjamanna í Vietnam 1965, heitir We were soldiers og er með Mel Gibson í aðalhlutverki. Ég bjó reyndar til einn ís og undirbjó kvöldmat handa strákunum og GÓ. Hangikjöt, flatkökur, Ora baunir og meir að segja malt og appelsín. Boðflenna stakk sér í veisluna, kötturinn hann Bragi, en hann er Gaua köttur. Mikið þótti honum hangikjötið gott eða ísinn!!! hann var komin upp á matarborð með framlappirnar til að fá að sleikja ísdiskana þegar fólk var búið að borða. Binni fór síðan með hangikjöt handa sínum ketti honum Xino, en sá er ekki jafn félagslyndur enda siamsköttur og þeir eru vandir að vinum ;-)

Á morgun ætlum við Lovísa að fara í búðarráp fyrir hádegi þar sem þetta verður hennar síðasti dagur að þessu sinni. Síðan hefst hversdagsleikinn. Reyndar eru spænsku jólin 6. jan. og förum við þá til Alcoy að borða með stjúpu Gabriels og hálfbróður. Einhverjir fleiri úr fjölskyldunni verða þar einnig.

Svo þá er bara að bjóða góða nótt og vona að blogg andinn komi yfir mig fljótlega.

Fært undir . 4 ummæli »