Hnoðskálin og ég.

Í kvöld hnoðaði ég deig í mexiksnskar tortillur. Ekki að það sé í frásögu færandi, ég er alltaf að hnoða. Ef ekki brauðdeig, þá bökudeig eða reyna eitthvað frá framandi löndum. En þar sem ég stóð þarna og hnoðaði af leikni með annari hendi fór ég að hugsa um hnoðskálina mína. Þessi sænska, stílhreina skál,  hvít með blárri rönd á brúninni og einhverjar málningarslettur sem minna á gróður á smá bletti. Ég keypti þessa skál í IKEA í Reykjavík rétt eftir 1980, keypti hana af því hún var svo flott, svona ekta sænsk og modern. Lítið gat mér dottið í hug hvað þessi skál ætti eftir að fylgja mér, né öll hlutverkin sem hún átti eftir að leika.

Upphaflega kom hún auðvitað frá Svíþjóð til að gleðja augu fólks og verða eign einhvers á Íslandi. Þessi einhver er ég. Á Íslandi var hún mest upp á punt, en þó tekin fram af og til. Nokkrum árum seinna flutti skálin með mér til Svíþjóðar, það var þegar ég fór að vinna hjá Flugleiðum í Stokhólmi. Af hverju tók ég skálina með? Ég get ekki svarað því, en í sínu upphaflega heimalandi var hún mikið notuð og ég fór að taka ástfóstri við skálina mína. Við fluttum svo saman aftur til Íslands skálin og ég. Þar meðhöndlaði ég hana mikið, því nú var hún komin með sitt upprunalega hlutverk, hún var hnoðskál. Þykk og falleg. Raunar öllum skálum fegurri, og ég er viss um að hún gerði sér grein fyrir því. Tíminn leið og við fluttum á milli húsa í Reykjavík skálin og ég (ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum). Svo kom að því að ég tók ákvörun um að fara til Englands og mennta mig ofurlítið og skálin fór með mér. Þar hélt hún afram að vinna öll verk sem henni voru falin, hvort heldur var sem hnoðskál eða salatskál.  6 árum og 4 heimilum seinna var henni pakkað í kassa ásamt fleiru og nú skyldi hún til Spánar, þar sem skálarnar eru svo fallegar og girnilegar að sú sænska var komin í samkeppni, harða samkeppni. Enn hefur hún yfirhöndina og situr stolt á hillu í eldhúsinu mínu. Hér á Spáni hefur hún einnig fengið mörg hlutverk og alltaf ber hún af, skálin sem ferðast hefur yfir höf og lönd með mörgum stoppum. Ekki fengið svo mikið sem eina rispu á þessu langa ferðalagi.

Svo áfram munum við töfra fram það sem okkur dettur í hug, skálinni og mér.

Fært undir .

Ein ummæli við “Hnoðskálin og ég.”

 1. Sigga systir ritaði:

  Hæ snúlla. Já hnoðskálir eru þarfaþing. Það eru nokkuð mörg ár síðan ég fjárfesti í tupperware hnoðskál eftir eina af þeim fjölmörgu tupperware kynningum sem mér var boðið á.
  Ég var nú ekkert sérstaklega ginkeypt fyrir að vera að kaupa eitthvað á þessum kynningum sem ég vissi ekkert hvort ég síðan myndi nota. En ég get sagt þér að þessi skál hefur oft komið í góðum notum.
  Við áttum mjög notarlega jóladaga og helgina þar á eftir.
  Það var sofið, borðað og slakað mikið á. Á annan í jólum fórum við til Röggu vinkonu (á afmælisdegi hennar) og Bergs. Þau voru í bænum um jólin. Þau keyptu íbúð á Baldursgötunni fyrir nokkrum árum þegar krakkarnir fóru suður í háskólann. Þau reyna að koma sem oftast suður til að hitta börnin og barnabörnin tvö sem þau eiga. Þau voru svo hjá okkur í mat sl. sunnudagskvöld þar sem við áttum ljúfa kvöldstund saman. Síðan kom mánudagur og þá var vinna (ein var ekki að nenna því). Og aftur í dag. En ég var búin að taka að mér stórt verkefni sem varð að vinna fyrir áramót svo að engrar undankomu varð auðið. En í staðinn fæ ég frí föstudaginn 2. jan.
  Svo eru stóri dagur fjölskyldunnar okkar systa mín á morgun. Óskar Marinó verður með afmælisveislu frá klukkan eitt og frænka verður að gefa sér tíma til að kíkja þó að þau fjölskyldan muni ásamt fleiri fólki koma í kalkúnaveislu í Hellulandið annað kvöld. Minnumst líka elsku sytir kvöldsins sem pabbi kvaddi.
  Hafið góð áramót og við heyrumst ábyggilega annaðkvöld.
  Knús Sigga.