Jólamaturinn ofl.
27. desember 2008 — spanjolaAðfangadagskvöld rann sitt skeið eins og önnur kvöld. Maturinn var mjög góður, eins og von var;) Í forrétt vorum við með graskers-súpu kryddaða með karry og kanel…ég veit þetta hljómar sérkennilega, en þetta er uppskrift sem við hjónin þróðum saman í haust. Hamborgarhryggur með tilheyrandi fyrir kjötæturnar og ég gerði mér pottrétt úr soja-kjöt bitum, kryddaði með villikryddum ýmis konar. Þetta eru fyrstu jólin í langan tíma sem ég geri ekki “kjöthleif” úr soja hakki, en átti opin poka af soja bitunum í ísskápnum og ákvað því að nota það. Í eftirrétt, vaniluísinn sem ég geri altaf, en uppskriftin er frá Guðmundi langafa strákanna í föðurætt, en hann var bakarameistari og mjög góur sem slíkur. Með bar ég fram sultað engifer og skógarber. Síðan var meiningin að hafa kampavín og möndlukökur ýmisskonar sem amma Gabriels bakaði og færði okkur, en engin kom meiru niður.
Gaui kom niður til okkar eftir að hafa borðað og tekið upp pakka í sínu húsi, við vorum enn að borða þegar hann kom, svo hann boraði ís með okkur og aðstoðaði við pakka opnunina. Fljótlega eftir það fóru svo bræðurnir hvor til síns heima og eftir sátum við hjónakornin, Rosalba og Roberto.
Eins og mörg ykkar hafið séð á msn mínu, þá langaði mig í hárauðan jólakjól. Ég fékk hann…og gott betur, því ég fékk flotta rauða peysu og þá flottustu rauðu kápu sem ég hef séð lengi. Kápa er nokkuð sem ég hef ekki átt í mjög mörg ár. Svo, Gabriel sá til þess að mín jól væru rauð:-). Annars fengum við mjög mikið að vanda. Ástarþakkir til ykkar allra sem senduð okkur pakka og jólakort.
Á jóladagsmorgun vorum við komin snemma á fætur og Gaui kom í morgunkaffi eins og aðra morgna. Það er ómissandi að fá hann á morgnanna. Binni hins vegar, kúrði fram eftir en kom í eftirmiðdaginn til að borða.
Jóhanna vinkona okkar bíður spennt eftir matarbloggi mínu þessa daga;-) Hvað haldið þið að ég hafi elda á Jóladag? Grænmetisætan fékk skyndilega mikla löngun í fisk!!! Og allir þessir afgangar frá kvöldinu áður. Alla vega, ég átti frosin ýsuflök (spænsk) og tók þau úr frysti. Setti þau svo hálffrosin í eldfast fat. Steikti saman selleri, gula og græna papriku. Bjó til sósu úr pela af rjóma, 1 tsk af grænu chillimauki og 3 tsk rautt chillimauk (í báðum tilfellum er maukið grófmaukað) ca. 1 tsk sterkt karry og Herbal salt. Helti síðan sósunni yfir grænmetið á pönnunni og lét sjóða smá stund. Helti svo öllu yfir fiskinn, stráði rifnum osti yfir og bakaði í ofni við 180C í 20-25 mín. Sauð hrísgrjón með og gerði mjög gott salat. Þetta var dáldið sterkt, eins og við viljum hafa það, en ég ráðlegg þeim sem ekki eru fyrir mikið sterkt að minnka rauða chilli-ið í 1-2 tsk.
Í gær, annan dg jóla, fórum við að vinna smávegis. M.a. þurfti að hleypa gestum inn sem voru að koma. Við ákváðum að fara á La Cava Argonesa, einn albesta tapas staðinn á Benidorm og borða þar í hádeginu. Borðuðum tapas og drukkum kampavín með. Restin af deginum fór síðan í afslöppun og síestu fyrir framan sjónvarpið. Engin eldamenska í gærkvöldi.
Í kvöld erum við hins vegar að fá ensk vinahjón okkar í mat. Þau eiga íbúð í Albir (hef svo oft minnst á þau) og eru hér um jólin. Við ætlum að hafa reyktan, íslenskan lax, restina af hamborgarhryggnum skorin í þunnar sneiðar og með honum steiktan lauk, heimagerða sinnepsósu og fleira, sveppapaté sem ég er að baka, salat sem ég hef hugsað mér að hafa kalt/heitt eins og oft áður, með ristuðum furuhnetum og mosarella osti sem skrauti. Í eftirrétt er ég búin að gera heilsuköku…ó já, kaka frá Sigrúnu vinkonu minni í Café Sigrún, en kakan tók miklum breytingum sem ég á eftir að ræða við Sigrúnu. Þannig að uppskriftin kemur síðar, þ.e. þegar við verðum búin að smakka hana.
Ég hef nú tekið ákvörðun um að allavega önnur bókin sem ég er að setja saman muni koma út fyrir næstu jól, í síðasta lagi. Ég fékk uppljómun um daginn og gjörbreytti áherlsum annarar í stíl við titil sem mér datt í hug. Svo er bara að vita hvort Daníel sonur minn vill gefa hana út:-)
Hér kemur svo sveppa patéið sem ég er að baka. Nota bene, ég get eignað mér uppskriftina 100%.
Sveppapate.
200 gr sveppir,fínt skornir
50 gr smátt saxaður laukur.
75 gr rifinn ostur1egg
30 gr brauðrasp
120 gr box grískt jógurt, má nota sýrðan rjóma.
1-2 marin hvítlauksrif.
Salt og pipar eftir smekk
Krydd kífsins frá Pottagöldrum, ca 1 tsk
Lófafylli af þurrkuðu timian.
Öllu hráefninu í pateið er blandað saman og sett í ofnfast fat og bakað við 200C í 40 mín.
Borið fram með góðu salati og salatsósu að smekk.
Hér myndi ég prufa mig áfram með krydd í pateið. T.d. finnst mér rósmarin eða timian ómissandi með sveppum.
Þetta er orðið svo langt að ég set inn súpu-uppskriftina næst.
Sæl að sinni og verið góð hvert við annað.
28. desember 2008 kl. 2.27
mmmmmmmmm. þetta hljómar allt vel. Ég er nebblega að leita að einhverju girnilegu í saumaklubb næst síðasta dag ársins. Saumaklúbburinn verður hjá mér með mat og drykk:) Finnst þetta sveppapaté frekar spennandi og nýstárlegt. hummm …gæti slegið í gegn
Veit ekki hvort ég fæ svona chillí mauk rauð og græn hér heima því fiskur kemur vel til greina eftir mikið kjötát hjá flestum.
Annars gleðilega jólarest og takk fyrir uppskritfina.
kveðja frá næturvaktardísinni
28. desember 2008 kl. 9.13
Sælar, bara alltaf á næturvöktum;-)
Patéið er eitthvað það auðveldasta sem til er. Ég skelli sveppunum og lauknum í matvinnsluvélina þar til ég er orðin ánægð með grófleikann, þá set ég restina út í, tek hníifinn af vélinni og set hrærann í staðinn. Smyr svo lítið eldfast mót með góðri ólífuolíu og baka. Í gær var það ca 50-60 mín. í ofninum og var ekkert verra fyrir vikið.
Það sem við vorum með fleira á borðinu. m.a. trönuberja sultu með heilum berjum, prufaði ég að setja hana á mína sneið og nammi,nammi,namm. Salatið sem ég gerði var eins og ég hef oft bloggað um áður, kalt og heitt. Í gær var það blandað salat úr poka, annars nota ég venjulega Rukola, svo steikti ég 1gulrót í þunnum sneiðum, 1/4 rauða og 1/4 græna papriku og 1/2 kúrbít. Oft steiki ég líka púrrulauk, og bara það sem til er í ísskápnum, blómkál og brokkoli koma líka flott út. Kæli þetta svo smávegir áður en ég blanda því saman við kálið, eða læt það sitja ofan á, allt eftir sköpunargáfunni og litasamsetningu grænmetisins. Síðan strái ég feta osti, tómötum og gúrku yfir. Klippi oft líka graslauk eða basil úti í jurtahorninu á terrasinu til að punta með. Feta átti ég ekki í gærkvöldi og ekki heldur gúrku. Svo ég skar mosarella í teninga og notaði í staðinn+tómata.
Þetta paté er gott bæði heitt og kalt.
Magnið í þessari uppskrift nægir okkur 2 sem létt máltíð með salati, en ef þú ert með marga þá tvöfaldaðu hana.
Chili mauk færðu örugglega í Hagkaup í þeim rekka þar sem þeir eru með austurlenskt eða indverskt. Nú eða í þessum sérverslunum með austurlenskar vörur. Mitt er frá Blue dragon, sem hlýtur að vera til á Íslandi.