Jólin, og hvað?

Mér finnst ég skulda blogginu mínu, hef ekki skrifað í meir en viku. Og, það er ekki Facebook að kenna heldur mikilli vinnu. Við erum að berjast við að halda haus, þeir fasta vetrargestir sem ekki voru komnir eru að koma þessa dagana. Allt er þetta yndislegt fólk sem hefur verið lengi með okkur. OG, við gerum það sem við getum best til að taka vel á móti þeim. 

Í dag vorum við í afmæli hjá systurdóttir Gabriels, hún er hálf íslensk og varð 19 ára í gær, 13. des. alveg eins og Þórður bróðir minn, nema hvað hann varð ekki 19;-)

Flott matarveisla, ein og alltaf á Spáni. Fullt af skelfisk, ólívum, salat, svínakjöt, ofnbakaðar kartöflur í sneiðum ofl. Ég lagði til veislunnar grænmetisböku, svona heilsu böku. Ég hef verið að gera tilraunir með mínar annars frægu bökur hér í þessu samfélagi kjötæta. Í dag gerði ég bökuskel úr rúgmjöli og eftir að hafa bakað hana 15 mín. setti ég fyllinguna í, sem var sirka 1/2 smátt skorin kúrbítur, 1/4 hluta úr rauðri papriku, 4 sveppi skorna í sneiðar og nokkra brokkoli anga. Í gegnum árin hef ég alltaf notað 3 egg og 3 dl. rjóma, þeytt saman með kryddi og jafnvel rifnum osti. Nú er ég orðin svo yfir meðvituð um kolestrol og kaloriur að ég setti 1 dl rjóma, 125 ml, grískt jógurt og 1/2 dl léttmjólk. Stráði svo grillosti yfir. Heppnaðist mjög vel. Sérstaklega er Óskar/Oscar hálfbróðir Gabriels í föðurlegg hrifin af eldamennsku minni. Hann bjó jú hjá okkur í 4 sumur og varð að taka þessum grænmetismat, þó auðvitað bróðir hans eldaði oft kjöt. Hann fagnað sérstalega í dag…að fá grænmetisböku frá mér og fór að rifja upp ýmsa rétti sem hann fékk þegar hann bjó hjá okkur. Móðir hans hefur alltaf haft gaman af að koma í mat til okkar, en það voru ekki margir aðrir við borðið sem smökkuðu bökuna mína;-)

En afmælið var skemmtilegt, mikill matur, mikið og hátt talað og yfir allt gnæfði sjónvarpið, svo dæmigert spænskt, Stjónvarpið er alltaf á fullu. Það er það eina sem ég bara get ekki sætt mig við, ég þoli ekki sjónvarpið og sérstaklega ekki þegar gestir eru eða þegar fólk kemur saman. En ég breyti ekki þjóðinni, en ég hef slökkt á sjónvarpinu í mínu húsi þegar koma gestir:-)

Annars er ég að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn og bara hlaka til. Ég hef ekki haft pistla í Jólastjarnan.net þessa helgi þar sem þeir voru með tæknivandamál í gær og í dag hafði ég ekki tíma. En ég verð aftur með pistil eftir helgi hjá Sigga Gunn. Ég vinn bara með honum, það var mitt val. Mjög góður útvarpsmaður með mikla reynslu.

Svo, góðir vinir, heyrumst fljótt aftur.

Fært undir Matur.

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.