Ein komin í útvarpið:-)
6. desember 2008 — spanjolaLaugardagskvöld og ég búin að afreka heilmikið í gær og dag. Jólatréð stendur fullkreytt með blikkandi ljósum og jólaskreyting í húsinu á lokastigi. Snemma??? Nei, ekki finnst okkur það. Ég vandist því þegar ég bjó í Svíðjóð að skreytt væri snemma, svo einhvernvegin hefur þetta orðið að vana.
Viðn fórum til Alicante í dag, áttum erindi á flugvöllinn og notuðum tækifærið og kíktum í stóra verslunarmiðstöð sem þar er. Ekki varð neitt úr verslun, fórum inn í eina og settumst síðan niður til að fá okkur léttan hádeisverð. Talandi um mat. Ég gerði mjög góðan grasker-eggjabúðing, eða flan eins og það heitir hér, í gær. Með því bar ég fram púrrulauk léttsteiktan í olíu, saltaði og pipraði og og hellti síder yfir, lét sjóða aðeins niður og bætti svo einu epli saman við, flysjuðu og skornu. Lét það vera á hellunni smá stund. Þetta var aldeilis frábært…svo var ég líka með léttsoðin, ferskan asparagus og salat, bætti soðnu graskeri í salatið. Létt máltíð og mjög góð.
Uppskriftin? Já, hún er nú einföld. 500 gr soðið grasker, 500 ml rjómi, 4 egg, salt og pipar. Graskerið maukað í matvinnsluvél eftir suðu, rjóminn og eggin ásamt kryddinu þeytt saman og graskersmaukinu bætt í. Sett í olíuborið form, eða mörg lítil og bakað í vatnsbaði við 200 C í ca, 45-50 mínútur. Munið að setja álpappír yfir mótin. Þið getið notað þennan grunn, þ.e. 500 ml rjóma og 4 egg í hverskonar flan sem þið viljið. Sett svo í hvort sem er grænmeti, fisk, skeldýr…bara það sem ykkur dettur í hug.
Ég veit að það er þó nokkuð af kolesteroli í þessu, en það er nú ekki eins og maður borði svona daglega.
Annars verð ég að segja ykkur frá veitingastað í Valencia. Ítalskur staður sem þykir mjög góður. Þeir tóku upp á því fyrir skömmu að gera tilraun. Gestirnir eru látnir ákveða sjálfir hvað þeir borga fyrir matinn:-) Þetta er almennilegt á krepputímum. Allir drykkir eru á venjulegu verði. Fólk er mjög ánægt með þetta og hefur staðurinn verið fullsetinn frá því þeir byrjuðu á þessu. Eigandinn sagði í sjónvarpsviðtali í gær, að fyrir sama rétt væri fólk að borga allt frá 2 evrum í 6-7, sem er nær því að vera venjulegt verð. Gestir, sem talað var við, voru mjög ánægðir með framtakið. Ein stúlka sagðist borða oft þarna og stundum bara ætti hún ekki nema 2-3 evrur til að eyða í mat, en þegar hún ætti meira léti hún staðin njóta þess.
Þessi helgi er það sem kallað er hér “brú”, en það er löng helgi. Í dag er stjórnarskrárdagurinn og á mánudaginn er Getnaðardagurinn;-) Helgin gengur undir nafninu Getnaðar-brúin. Verið er að minnast getnaðar Jesú Krists. Já, hann á að hafa verið getinn um þetta leiti. Hvernig það samræmist síðan afmælisdegi hans 24. eða 25. des. er annað mál.
Ég hef notið þess að hlusta á íslensk jólalög undanfarnar 2-3 vikur. Það er jólastjarnan.net sem heldur mér við efnið 24 tíma ef ég kýs. Stöðin er hreint frábær, netstöð. Ég er þarna með stutta pistla af og til, ekki daglega.Ég kem ekki fram í persónu, heldur er annar stjórnandi stöðvarinnar og ég í msn sambandi meðan hann er í útsendingu. Ég er með undirbúið efni sem hann fær og segir frá og síðan leiðir spjall okkar stundum til meira, en oftast er það bara spjall milli tveggja einstaklinga. Það er hann Siggi Gunn. sem fékk mig í þetta og þegar hann er í útsendingu þá getið þið átt von á að heyra pistla frá “Kristínu vinkonu okkar á Benidorm” eins og hann kallar mig. Eins og von er til, þá fjalla þeir um jól og jólahald. Ég fer hægt og segi bara frá einu efni í einu, þannig að t.d. áramótin og siðurinn með vínberin kemur ekki fyrr en nær dregur jólum. Þetta er mjög skemmtilegt og gefur jólabarninu mér, tækifæri til að gefa fólki innsýn í annars konar jólameiningu og jólahald.
Þetta er nú orðið ansi langt blogg hjá mér og komin tími til að fara í sængina, eða horfa á DVD . Ég ætla að gera eitthvað skemmtilegt á morgun. Hvað það verður veit ei neinn…en örugglega skemmtilegt.
Hafið það sem allra best.
9. desember 2008 kl. 21.42
já sæl……mín bara komin í net- útvarp, jólastjarnan.net.
Þarf að prufa að hlusta á það, en í vinnunni hlustum við í bókhaldsdeildinni á léttbylgjuna útí eitt. Þeir byrjuðu að spila jólalög 20. nóv. og þau hafa ómað síðan hjá okkur.
Alltaf gaman og rosa stuð sérstaklega þega vsk.tímabil eru nýbúin (en rétt áður eru rosa vinnutarnir og við allar dál.stressaðar) en því síðasta lauk 5. des. VSK tímabil svo ég skilgreini þau eru á 2ja mánaða fresti og allar okkar eru með mörg fyrirtæki sem þarf að gera upp fyrir þann tíma. Ásamt launum fyrir fyrirtæki og svo margt annað. En nú erum við að detta í u.þ.b. eins mánaðar rólegan tíma áður en ársmenn og skattframtöl einstaklinga detta inn.
Og svo eru það nú blessuð jólin sem nálgast hratt..
Langt komin með jólagjafir og búin að baka tvær smákökutegundir og sænska jólabrauðið sem við öldumst upp við að mamma bakaði alltaf. Ætla svo bara að gera brúnu lagkökuna frá þér og þá er jólabakstur heimilisins upptalinn. Lítið kökufólk í Hellulandinu, nema helst unglingarnir sem þiggja þessar tegundir gjarnan.
Svo er bara að njóta aðventunnar og það ætla ég að gera.
Búin að faraá yndilega jólatónleika hjá Hvítasunnukirkjunni Fíladelphíu með Möggu vinkonu, ætlum svo í saumó að hafa jólabröns og nokkrar fyrrum vinnnufélagar og vinkonur úr Selecta að hittast kvöldstund í spjalli á Cafe Paris. Og síðast en ekki síst stelpurnar í vinnunni að hafa smá jólapartý eftir vinnu þann 19. nóv. Eins gott að ekki er aðventa í hverjum mánuði þá væri stanslaus gleðskapur……
Kossar og knús úr Hellulandinu.