1. september.

Ég bjóst nú ekkert við því að hafa tíma til að blogga þessa viku eins og svo oft áður í vinnuviku. Tölvan kemur nefnilega ekki heim með mér á kvöldin, nema ég hafi ákveði að vera heima næsta dag eða komið sé að helgi.

1. september! Þetta er dagur sem skiptir miklu í lífi Spánverja og annarra Suður Evrópubúa. Dagurinn þegar lífið fer aftur í sinn vana gang. Sumarleyfum líkur og skólar fara að byrja. Fyrirtæki sem hafa lokað allan ágúst mánuð vegna sumarleyfa opna aftur… Hitinn fer að minnka hægt og bítandi, en ekki fyrr en lengra líður á mánuðinn. Í morgun kl 09.00 þegar við vorum á leið í vinnu var hitinn 26C. Sigga Rúna tengdadóttir mín! ertu búin að gleyma hvað getur verið heitt á kvöldin langt fram á haust? Ég er að vitna til komments frá henni á síðasta blogg mitt. 

Við horfum/hlustum alltaf á fréttir í sjónvarpinu á morgnanna á meðan við erum að taka okkur til, borða morgunmatinn og slíkt. Í morgun var ein frétt sem var mjög sorgleg, 53 ára kona í Madrid  (í flottu húsi) var drepin af manninum sínum. Hún er 42. konan sem lætur lífið fyrir hendi fyrrum eða verandi manna sinna það sem af er árinu. Ég hrökk við í morgun, ekki vegna þess að talan var orðin svona há, heldur vegna þess að ég stóð mig að því að taka fréttinni nánast eins og daglegu brauði. Það þótti mér vont. Að ég sem hef svo sterkar skoðanir á öllu ofbeldi skuli vera orðin hálf dofin fyrir þessum ósköpum. Sum þessara morða eru svo hræðileg og lýsingarnar enn verri, sem er nokkuð sem ég get aldrei skilið við fréttaflutning, þurfum við endilega að sjá allt blóðið og grátandi börnin? Ekki ég! Ég hef nógu frjótt ímyndunarafl til að gera mér grein fyrir hryllingnum sem fylgir svona, eins og öðrum ofbeldisverkum. Spánverjar í kringum mig segja gjarnan “næstum allir eru útlendingar”, það er rétt, en breytir ekki verknaðinum né því að þetta fólk er búsett hér. 

Jæja, aðeins að skipta um gír. Þetta hefur verið mjög annasamur dagur, eins og mánudagar eru oftast. En góður dagur því bókanir hafa streymt inn. Ég ætla að fara að ganga frá og vonandi kemur Gabriel fljótlega til að sækja mig. Hvað við borðum í kvöld er ráðgáta því ég sendi Binna með afganga gærkvöldsins heim með sér, nema salatið. Salatið kom mjög vel út hjá mér og ég tók afganginn af því með mér i vinnuna og borðaði í dag.

Þetta er mjög einfalt salat. Ferskar fíkjur sem ég skar í 4 hluta (eins og epli), Mosarella ostur skorinn í litla bita eða rúllað upp í kúlur. Þetta er sett yfir rukola eða annað álíka gras og síðan stráði ég léttbrúnuðum furuhnetum yfir og að lokum hunangs sósunni sem ég bjó til daginn áður. Var víst búin að segja frá henni, en það var fljótandi hunang+extra virgin ólífiolía+balsamik edik. Allt hrært og hrist vel saman. Hver og einn verður að prufa sig áfram með magnið, en ég setti ca. 50/50 af hunangi og olíu og eins og 1-2 msk af ediki. En ekki setja of mikið yfir salatið, heldur hafa sósuna í skál með til að fólk geti bætt á ef vill. Hún er nokkuð sæt og það eru líka fíkjurnar, en þetta harmonerar mjög vel saman. í staðin fyrir furuhnetur má nota hvaða hnetur eða fræ sem vill.

Eigið gott kvöld.  

Fært undir .

2 ummæli við “1. september.”

  1. Sigga Rúna ritaði:

    Í sambandi við hitann, þá hugsaði ég bara um ískaldann pottinn! En áttaði mig svo á því að hann er vel heitur eftir sólardaginn :-)

  2. spanjola ritaði:

    Enn er potturinn vel heitur á daginn, og ekkert eins dásamlegt eins og að stinga fótunum í svalt vatnið seint að kvöldi og láta þreytuna líða úr.