Anna og Nína komnar.

Jæja, þá komu mæðgurnar í gærkvöldi. Við Gabriel biðum við gististaðinn þeirra og fylgdum þeim upp á íbúð. Þær þekkja sig orðið á Gemelos, gista þar þegar þær koma. Eftir að hafa tekið á móti gjöfum frá þeim fórum við út að borða. Fórum á ítalskan stað sem við höldum mikið upp á. Mjög notalegt kvöld.

Í dag er amma Gabriel 90 ára. Og, hún lítur út eins og 80. Var að koma frá Belgíu þar sem hún fór að heimsækja barnabarn og langömmubarn. Sonur hennar og fjölskylda komu í gær frá Baskalandi þar sem þau búa og í hádeginu í dag fer öll fjölskyldan að borða með ömmunni. Sór hópur. Þar sem hún hefur gaman af ferðalögum ætlum við Gabriel að gefa henni ferð til Asturias, sem er hérað fyrir norðan. En hún er þaðan og ein af systrum hennar býr þar ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum. Henni mun örugglega þykja vænt um slíka gjöf.

Annars er maður bara að fara að vinna. Það er frídagur í dag og þetta er stærsta helgin hjá okkur á árinu, miður ágúst er alltaf stærstur í íbúðarskiptingum. Þannig að fyrir kl. 10.00 fer ég til að aðstoða við að hleypa út úr íbúðum og svo í eftirmiðdaginn fer fólk að koma. Morgundagurinn og sunnudagur verða eins. En þetta er nú ekki erfitt hjá okkur, ég finn alltaf til með stúlkunum sem vinna við þrif hjá okkur þegar svona dagar skella á. Þær eru á fullu alla dagana og geta ekki tekið eina pásu. Svo er ekki eins og allar íbúðirnar í Gemelos t.d. séu í sama turninum, nei, þær þurfa að fara á milli turna með hreinsidótið, sængurföt og handklæði í innkaupakerrum. En allt hefst þetta og þær klára sitt með bros á vör.

Enn er mjög heitt:-)

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.