Flugeldar, sjöböð ofl.

Mikið er nú það sem af er helginni búið að vera notalegt. Ég fór á föstudagskvöldið að borða með enskri vinkonu minni sem átti 60 ára afmæli um daginn. Við höfðum ákveðið að borða í Altea og gerðum það. Gabriel keyrði okkur og við héldum á veitingastaðinn sem orðið hafði fyrir valinu. Ég hafði aldrei borðað þar, en hún heldur mikið upp á staðinn. Og ekkert skrýtið. Hvílíkur matur. Eigendurnir sem eru hjón, koma flott saman, hann Frakki og hún Spánverji. Ég fékk í forrétt fíkjusalat með mosarella osti og heslihnetum á rokoli laufum, yfir var helt mátulega miklu af hunangs sósu. Hún fékk fiskikökur úr krabba með salati. Í aðalrétt fékk ég túnfisksteik með kartöflumús og snöggsoðnu grænmeti en vinkonan fékk skötusel og kartöflu gratin, fiskurinn og kartöflurnar í bitum í mjög góðri rjómasósu, gratinerað í ofni. Hún fékk sér síðan eftirrétt sem hún borðar alltaf þarna, banana, heitt súkkulaði, ís og þeyttan rjóma. Bananinn og súkkulaðisósan blandað saman á skemmtilegan hátt í háu glasi og síðan kom hitt gúmmulaðið. Ég hins vegar borða aldrei eftirrétti:-) Við sátum þarna lengi og nutum kvöldsins. Gengum síðan niður á strandgötuna og langleiðina til Albir áður en við héldum heim.

Vinkonan var búin að segja mér, að eitt af því sem væri svo skemmtilegt við þennan stað væri að þar hitti hún alltaf Englendinga sem tækju upp spjall. Mér fannst þetta nokkuð skondið, því það er ekki eins og ég myndi leita uppi Íslendinga til að spjalla við ef ég væri að fara út a borða. Þetta brást ekki, og á næsta borði sátu ung hjón frá Liverpool sem hafa búið hér um tíma. Af og til ræddum við saman og m.a. um stjörnumerki. Ég sagði við unga manninn að ég væri nokkuð viss um að hann væri naut og fæddur 1974. Hann varð hissa á hversu nálagt ég komst, naut er hann en fæddur 1973 og þann 5. maí  eins og Gummi minn. Konan hans vildi að ég giskaði á sig og ég sagði að hún væri annað hvort tvíburi eða meyja. Tvíburi er hún og á afmæli sama dag og ég. Þetta fannst okkur hin mesta skemmtun, því það er ekki eins og ég sé sérfræðingur í að segja til um stjörnumerki fólks. Þó er nautið nokkuð sem ég er glögg á.

Þar sem Gabriel er á helgarvakt og hefur meir en nóg að gera, ákvað ég að í stað þess að vera með honum (og hjálpa til) þá myndi ég vera heima, strauja hrúgu sem safnast hafði upp og gera ýmislegt annað, eins og elda gott í hádeginu og liggja í sólbaði.

Þetta er pasta helgi í húsinu. Í gær gerði ég tómatsósu með fullt af grænmeti sem eftir steikingu fékk góðan slatta af hvítvíni sem ég lét sjóða niður og sauð síðan í tómate frito í 2 tíma. Þá maukaði ég allt í matvinnsluvélinni og helti aftur á pönnuna, hitaði upp og blandaði með rjóma. Pastað var úr Durum hveiti,  stórar snúnar pípur. Mjög gott.

Svo í gærkvöldi vorum við boðin kl 22.30 í bátsferð út fyrir ströndinni þar sem við giftum okkur. Þessa sömu helgi ár hvert er gífurlega mikil flugeldasýning þar sem hefst á miðnætti. Við höfum farið oft, fyrstu árin fórum við árlega, með mat, teppi og kyndla. Fórum í eftirmiðdaginn og mörkuðum okkur góðan stað svo við sæjum sem best. Oft voru íslenskir vinir með, ef þeir voru svo heppnir að vera hér á þessum tíma. Eitt árið vorum við boðin til enskra vina okkar sem eiga glæsivillu í hæðunum fyrir ofan, ekki fannst okkur það skemmtileg upplifun, við vorum í svo mikilli fjarlægð frá stemmingunni. Í gærkvöldi var okkur svo boðið að fara með kunningjum Gabriels úr köfunar-klúbbnum. Farið var á bát sem er sérbúin fyrir kafara og þeirra dót, þannig að hann er ekki beint nein snekkja. En góður og stór bátur. Þegar við vorum búin að kasta akkerum inn um allar tegundir af bátum, skútum og flottum snekkjum, borðuðum við létt og  drukkum létt. Síðan stukku þeir í sjóinn sem langai til þar til sýningin hófst.

Ég verð nú að segja að þetta var skemmtilegt, aldrei haft betra útsýni því skotið er upp frá ströndinni og frá prömmum sem staðsettir eru undan strönd. Það var eins og öllu væri tölvustjórnað, slík var nákvæmnin. Undir sýninguna er svo tónlist, ýmist sér samin eða sett saman.

Þegar við svo komum heim var verið að sýna Rosmary´s baby í sjónvarpinu. Þetta er mynd með Miu Farrow sem var sýnd í Háskólabíó 1971, þegar ég gekk með Daníel. Hálfgerð hryllingsmynd sem ófrískum konum var ekkert endilega ráðlagt að sjá. Nú 37 árum seinna var gaman að sjá myndina. Hún er mjög góð og auðvitað ekki eins ógurleg eins og manni þótti 1971.

Jæja, núna er ég búin að gera pastasósuna fyrir hádegismatinn. Klukkan er 15.00 og Gabriel kemur heim fljótlega. Ég gerði sinnepssósu eftir kúnstarinnar reglum. En þegar ég varð ánægð með árangurinn var komið í hana steiktur laukur og graslaukur, vatn+1/2 grænmetisteningur, 2 tegundir af sinnepi, rjómaostur og rjómi. Kryddaði svo með timian. Ætla að sjóða spinat tortellini og setja í sósuna.

Við erum svo boðin í grill hjá vini Gabriels í kvöld, verðum nokkuð mörg. Þannig að fram að því, þ.e. eftir matinn ætla ég að baða mig í pottinum og liggja í sólbaði. Við erum enn með hitabylgjuna.  

Fært undir Matur.

2 ummæli við “Flugeldar, sjöböð ofl.”

  1. Jóhanna ritaði:

    Hello my dear.
    Maður fær bara vatn í munninn. Mér finnst gómsætir pastaréttir alltaf spennandi -reyni að borða þá í hófi (svo fjandi fitandi) Restin af familíunni vill bara kjöt og aftur kjöt til að bíta í!
    Annars sendu mér smá e-mail línur þá get ég replayað á þig. Fæ nefnilega alltaf endursent e-mailin til þín. Líklega einhver villa í netffanginu.
    kveðja Jóhanna G

  2. Þórey ritaði:

    Alltaf jafngaman að lesa bloggið þitt, svona þegar ég kem mér í gírinn að lesa blogg. Bæði búin að vera löt að blogga sjálf í sumar og lesa hjá öðrum. Mér sýnist á öllu að ég þurfi að prófa þennan veitingastað þegar ég kem næst í heimsókn til ykkar. Sit hérna í vinnunni - alveg að koma hádegismatur og það gaula í mér garnirnar. Alls ekki gott að vera að lesa um svona veitingastaði þegar þannig stendur á ;)