Rauð rigning og ljósashow.

Ofur þreyttur farastjóri/skrifstofustjóri situr heima með fæturnar uppi á stól og horfir á einhverja þá stórkostlegustu ljósasýningu sem sést hefur. Við fengu rauða rigningu í dag, hún er sú al versta sem við fáum því allt verður rautt, hvítu húsin okkar þurfa þvott að ég tali nú ekki um bílana, þeir líta út eins og þeir hafi aldrei komist í snertingu við vatn. Nú í kvöld erum við svo búin að hafa slíkar eldingar að þær bókstaflega dansa um himininn og leika sér eins og börn. Við stóðum úti á terrasi og horfðum á dásemdirnar og alsstaðar var fólk að horfa. Það er ekki hægt að lýsa þessu með orðum og áfram halda þær hér utan við gluggan minn. Á þessum 10 árum sem ég hef búið hér hef ég aldrei séð annað eins.

Rigningin kom frá Afríku en eldingarnar koma frá æðri máttarvöldum;-) Annars er þetta staðreyndin, rigningin sem kemur frá Afríku er alltaf rauð því sandurinn frá Sahara berst með henni. Ljósagangurinn er langt úti á Miðjarðarhafinu og þess vegna er hann svona stórkostlegur, því við heyrum ekki þrumurnar, þetta er að gerast svo langt í burtu.

Hei!!! Þetta var þá ekki lengra en svo að allt í einu opnuðust himnarnir og niður streymdu stór högl sem síðan urðu að heiftarlegri rigningu. Svo nú, nokkuð löngu eftir að ég byrjaði lýsinguna sit ég hér og rigningin streymir niður fyrir utan, ljósasýningin heldur áfram.  

Sigga og fjölskylda voru í mat í gærkvöldi og það var svo huggulegt og notalegt hjá okkur að þau fóru ekki fyrr en 01.30. Nóttin var dásamleg og við sátum við kertaljós úti. Strákarnir spiluðu og við stelpurnar lágum á sólbekkjum, töluðum og nutum næturinnar.

Svona er sumarið okkar. Og vel þess virði að vera þreyttur fyrir.

Annars var ég á flugvllinum í dag, bæði með brottför og komu og slíkir dagar eru alltaf erfiðir. En þetta er gaman af og til.

Góða nótt.

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.