Aftur í farastjóraleik.

Góðan daginn allir. Hér er heitur og fallegur dagur að renna upp. Klukkan rétt 08.00 og ég búin að gera Tai Chi æfingar á terrasinu og fá mér te. Mig langar reyndar að fara og gera fleiri æfingar, þetta er svo dásamlegt fyrst á morgnanna.

Gabriel farinn til vinnu og ég þarf að fara að undirbúa brottför og komu Íslendinga sem ferðast á morgun á vegum Heimsferða. Nú er ég í fullri vinnu hjá þeim í rúmar tvær vikur. Þegar ég vinn sem farastjóri er vinnan mín hjá Espis öðru vísi, ég þarf ekki að fara snemma morguns á skrifstofuna, heldur er mér sent sem mest verkefni í tölvuna svo ég geti unnið að heiman. Þetta er vissulega mikil vinna en það er allt annað að vinna í ró heima heldur en í erli á skrifstofunni. Þar er endalaust verið að trufla og áríðandi verk að koma upp þannig að maður þarf að hlaupa frá því sem verið var að gera. Svo þó vinnudagurinn minn sé óneitanlega mjög langur þá er hann skipulagðari. Ég gat unnið það mikið fram fyrir mig sem farastjóri í gær að ég ætti að vera búin vel fyrir hádegi í dag og þá er bara að vona að neyðarsíminn verði til friðs.

Mig langar að bjóða Siggu systir og fjölskyldu í mat í kvöld. Það hefur ekki verið tími til að bjóða þeim heim enn og þau eru búin að vera í viku á morgun. En svona er lífið. Við höfum þó hist á hverjum degi og borðað saman á kvöldin nema í gærkvöldi, þá tóku allir það rólega.

Við Gabriel höfum verið tvö í vinnu sl. viku og yfir helgina. Þó skrifstofustúlkan sé þar, þá hættir hún kl. 16.00 og gefur ekki kost á sér til að vinna lengur hvað sem á gengur. Við erum búin að komast að því að við getum hæglega verið án hennar, svo í haust stefnum við í að láta hana fara. Systir Gabriels sem vinnur hjá okkur hefur verið í viku fríi til að vinna á árlegri hátíð úti á landi þar sem hún bjó áður. Hún kemur til vinnu aftur í dag svo þá léttir mikið á Gabriel. Hún vinnur á við tvo.

Svo nú er bara að leggja síðustu hönd á morgundaginn og fara að hugsa um hvað ég ætla að hafa í matinn í kvöld, áður en ég fer á skrifstofuna.  

Ég vona að þið eigið öll góðan dag og gaman væri að heyra frá ykkur, þó veit ég að mikið af lesendum mínum eru í sumarfríi. En það má láta sig dreyma;-)

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.