Frídagur Verkalýðsins.

Það er nú orðið nokkuð síðan ég bloggaði. Það var um sólbaðsdaginn sem ég átti á terrasinu mínu, laugardaginn var.

Við fórum í gróðrarstöðina, keyptum jarðaberjaplöntur, tómataplöntur, ýmsar kryddplöntur og blóm. Ég átti svo skemmtilegan sunnudag í moldarleik, umpottaði og gróðursetti. Trén hins vegar mega ekki vera flutt milli potta fyrr en í febrúar á næsta ári. Þá er bara að hugsa mjög vel um þau þar til, með áburði og ást.

Strákarnir, GÓ, GB og Binni komu svo í mat á sunnudeginum og þeir spiluðu eins og vaninn var einu sinni. Sú var tíðin að við grilluðum alla sunnudaga og þeir spiluðu. Síðan hefur margt gerst í fjölskyldunni sem setti pásu á spilamennsku og matarveislur. Og svo er enhvernveginn svo erfitt að byrja aftur, rétt eins og líkamsræktin:-)

En Guðjón Ó. og Binni fóru til Íslands í gær svo þeir ákváðu að þetta gengi ekki lengur, það yrði að spila einu sinni áður en þeir færu. Skemmtilegur dagur. Þeir spiluðu, ég lék mér við plönturnar.

Núna er Gabriel að kveikja á grillinu. Ég lagði íslenskan lax í marineringu í dag og er búin að steikja hvítan, sætan, spænskan lauk, kúrbít, sveppi og kartöflur, kryddaði með kryddi lífsins. Svo nú er bara að bíða eftir að  fiskurinn verði tilbúinn og rauðvínið opnað!!!

Smá viðbót. Maturinn og vínið heppnaðist extra vel. Sátum á terrasinu til kl 20.30, ég á hlýrabol og nutum lífsins. Nú er byrjuð bíómynd í sjónvarpinu og við farin í gláp-gírinn;-)

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.