Þungir þankar á sunnudagsmorgni.

Fyrir 7 árum var viðtal í sjónvarpinu hér við fallega konu á miðjum aldri. Ástæðan var sú að hún var búin að vera að berjast við kerfið í sínu heimahéraði til að fá nálgunarbann sett á son sinn. Það gat hú ekki fengið af því hann var barnið hennar. Þó var hún búin að kæra hann 5 sinnum vegna ofbeldis. Í viðtalinu segist hún óttast um líf sitt, og eins og góð móðir (sem hún öruglega var) segir hún í viðtalinu að sonur sinn sé ekki vondur maður, heldur sé það neysla hans sem geri hann vondan. Það kom ekki fram hver sú neysla var. Nú 7 árum síðar vitum við að sonurinn er haldin geðklofa á mjög háu stigi og aldrei fengið meðhöndlun við því. Af hverju, vitum við ekki. En hvernig vitum við af þessum sjúkdómi hans??? Jú, hann sat á bekk í bænum sínum um daginn og talaði við bréfpoka. Vegfarandi sem átti leið hjá og þekkti manninn spurði hvað hann væri með i pokanum, af hverju hann væri svona reiður við pokagreyið. Hann hefur örugglega aldrei látið sér detta í hug neitt í líkingu við svarið sem hann fékk. “Ég er með höfuðið á henni mömmu, og er að skamma hana” var svarið. Og það reyndist rétt vera, í pokanum var höfuð konunnar sem nú er aftur á sjónvarpsskjánum í endursýndu viðtali frá því fyrir 7 árum.

Ungi maðurinn er eðlilega á geðdeild og væntanlega að fá rétta meðferð, meðferð sem hann hefði þurft fyrir langa, langa löngu. En þetta atvik hefur komið mikilli umræðu um aðstæður geðfatlaðra og fjölskyldna þeirra af stað. Umræðu sem vonandi skilar góðu. Eins og t.d að ríkisstjórnin setji reglur sem gilda í öllum bæjarfélögum, en í dag eru þær jafn misjafnar og bæjarfélögin eru mörg.

Í vikunni komu fyrir rétt hér á Benidorm ensku hjónin sem keyrðu á unga vespu drenginn um daginn. (eg bloggaði um það) Það varð uppi fótur og fit í réttarsalnum þegar verjandi þeirra sagði að þau hefðu ekki framið “mannvonsku” glæp. Það er ekki mannvonska að keyra á manneskju, draga hana með sér langan veg og keyra út á sveitaveg til þess að reyna að losa líkamann undan bílnum. Nú virðist vera sannað að þau þurftu að lyfta bílnum til að ná honum undan, sem gerir glæpinn enn verri. Upphaflega sögðust þau hafa haldið að þau hafi keyrt yfir hund, en hver gerir svona lagað þó það væri hundur, köttur eða annað dýr? Búist er við að það líði ár þar til hægt verði að rétta í málinu vegna umfangs þess.

Þó ég hafi nú upphaflega ætlað að vera skemmtileg á blogginu þá eru bara sum mál sem maður verður að tjá sig um.

En ég ætla að eiga skemmtilegan sunnudag, fara að kíkja í ísskápinn og aðra skápa til að ath. hvort ég geti ekki látið mér detta eitthvað í hug til að malla handa okkur hjónum. Svo stefnum við á bíó í kvöld, engin sérstök mynd ákveðin, eigum eftir að kíkja á hvað er verið að sýna.

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.