Bolognes sósa með soja”kjöti”.
29. febrúar 2008 — spanjolaÞar sem ég sit hér ein á föstudagskvöldi , hlaupárskvöldi þá datt mér í hug að setja inn uppskriftina sem ég nota þegar ég geri “kjötsósu” fyrir pasta. Gabriel er í karla partý, nánar tiltekið afmæli eins af körlunum sem hann “hangir” með eins og unglingarnir segja. Við köllum það kunningja sem hittast reglulega. Ég er búin að hlakka til allan daginn að komast heim og fara í rúmmið með bókina sem ég er að lesa. Íslensk bók sem mér barst í pósti um daginn, Hús úr húsi heitir hún og er eftir konu sem heitir Kristín María Baldursdóttir. Lofar virkilega góðu eftir 2 kafla.
En uppkriftin.
Þegar ég vinn úr soja kjöti geri ég ýmislegt og pastakjöt sósurnar eru sjaldnast eins, en sú sem ég gerði um daginn var mjög góð. Ég reif 1 stóra gulrót í pott og smáttsxaði 1 rauðlauk og setti í sama pott, helti Extra Virgin olíu yfir, dálitlum slatta, kveikti á hellunni og lét malla góða stund, hrærði mjög oft í. Næst kom sojahakkið. Ég hafði sett 1 bolla af fínu soja hakki í skál og 2 bolla af sjóðandi vatni yfir ca. 10-15 mín. áður og látið liggja. Hrærði því vel saman við laukinn og gulræturnar með helluna á fullum hita. Síðan tók ég pottin af hellunni, (það geri eg því annars slettist tómaturinn upp um alla veggi og borð) og helti lítilli dós af niðursoðnum söxuðum tómötum í og fernu af tómate frito, en það fæst trúlega ekki á Íslandi eins og ég hef svo oft sagt áður. Svo tómat purree kemur í staðinn, 2 litlar dósir eða ein stærri. Smá vatn (ekki meir en desilitri) og grænmetisteningur. Setti pottinn aftur á helluna, bætti miklu af oreganó og basil í og sauð þetta svo í ca. 45 mín, þá þurfti að fara að bragða til. Best á allt og ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum fór í pottinn ásamt muldum marglita piparkornum, líka frá Pottagöldrum. Pínulítið salt því ég var búin með Herbal saltið mitt. Svo bara hélt ég áfram að bæta oreganó og hvítlauksblöndunni í þar til ég var ánægð. Bætti þá meiri muldum pipar í.
Mig langaði í kartöflumús en Gabriel pasta, svo ég sauð pastaskrúfur handa honum en gerði pakka mús handa mér. Bæði alsæl. Skamturinn var stór eins og yfirleitt þegar ég elda svo Gabriel fékk sér skammt í morgunmat daginn eftir (sunnudag) og við höfðum svo restina í kvöldmat sama dag.
Ef einhver hefur ekki kveikt á því hver er besta gjöfin til að gefa mér þá vek ég athyggli á Pottagaldra kryddi. Annað er varla notað á þessu heimili. Kryddskápurinn okkar er svo stór og svo troðinn að það væri skemmtiefni fyrir marga að komast þar í, enda er húsið mitt vinsælt ef fjölskyldumeðlimi í byggingunni vantar krydd í matinn.
Ég skora á ykkur öll að prófa að nota soja í staðin fyrir kjöt, hakkið er einna auðveldast fyrir kjötætur að byrja á.
Verði ykkur að góðu.