Fyllt, ofnbakað grasker og salat.

Sunnudagsmorgun og sólin er að reyna að brjótast fram eftir rigningu næturinnar og hluta morguns. Annars er himininn frekar grár. Spurning hvort maður fer nokkuð út í dag, kúrir bara og les eða fer að taka til í einhverjum skotum sem bíða tiltektar og ákvarðanatöku um hverju á að henda og hverju ekki:-(  Í gær fór fallegi sólardgurinn í íbúðarþrif hjá okkur hjónum, í sitt hvorri íbúðinni. Hans verkefni var öllu óskemmtilegra heldur en mitt. Íbúð sem við höfðum leigt manni var líklega áframleigð til Bulgara, hversu margir þeir voru vitum við ekki en allavega 3. Þar sem samningurinn rann út á föstudaginn og ekki náðist í neinn fór Gabriel í íbúðina og fann hana yfirgefna og útlítandi eins og verstu svínastíu. Þeir virtust m.a. hafa borðað kattarmat því hann er jú ódýrari en mannamatur. Hvort þeir voru bara ekki heima eða farnir var ekki hægt að sjá þannig að Gabriel skipti um skrá og fór svo í gær til að hreinsa út þannig að þrifnaðar stúlkurnar okkar gætu svo farið inn eftir helgi. Hann fór út með 13 svarta stóra ruslapoka. Þarna fann hann ýmislegt sem benti til þess að þessir náungar hefðu lifað á ránum, haug af sundurteknum símun og myndavélum ásamt fleiru. M.a nafnspjald frá íslenskum skemmtistað sem bendir til þess að Íslendingur hafi orðið fyrir barðinu á þeim. Þetta er því miður ekki fyrsta skipti sem við lendum í því að leigja fólki sem svo hverfur með miklar skuldir við okkur. Því, þó fólk þurfi að leggja fram mánaðar tryggingu þá nægir það engan veginn, svo nú erum við að breyta samningum og því miður þurftum við að taka þá ákvörðun að karlmenn frá Austur Evrópu fá ekki leigt hjá okkur, fjölskyldur já, en ekki einstaklingar sem vilja leigja saman. Þetta hljómar eins og versti rasismi en hvað gerir maður eftir að hafa lent illa í fólki oftar en einu sinn og oftar en tvisvar? Verst er að þessir einstaklingar gera það að verkum að heilar þjóðir eru stimplaðar.

En, þetta átti að vera matarblogg. Loksins að setja inn graskerið góða og salatið. Hér byrjar það!

Fyllt grasker bakað í ofni.

Ég átti eitt meðalstórt grasker, skar það í tvennt eftir lengdinni og hreinsaði kjarnan úr. Skar svo kjötið í rákir, svona eins og teninga. Setti Extra Virgin olíu í bolla og kramdi 2 hvítlauksrif út í ásamt slatta af oregano og basil. Hrærði þetta saman og lét liggja smástund áður en ég penslaði graskerið með olíunni, ég penslaði mjög vel. Setti svo helmingana í eldfast fat og bakaði í 200C ofni í 30 mín. Í öðru móti bakaði ég 1 lítið eggaldin, gula og rauða papriku og rauðlauk, allt skorið í sneiðar. Helti afgangnum af kryddolíunni yfir og bakaði jafn lengi. Hrærði oft í á meðan. Undir lokin setti ég kirsuberjatómata út í grænmetið og bakað þá með. Meðan þetta var að bakast hrærði ég saman brauðrasp, parmesan osti, steinselju og svörtum steinlausum ólífum sem ég skar í sneiðar. Þegar graskerin voru bökuð tók ég þau og grænmetið úr ofninum. Fyllti þau með grænmetinu, skar niður fetaost (ekki kryddaðan úr krukku) setti yfir og loks raspblönduna. Bakaði svo aftur í 10-15 mín. Eins og alltaf þegar ég elda nota ég ekki mælieiningar heldur tilfinninguna. Grænmetið varð of mikið en það skipti engu máli, við borðuðum afganginn í morgunmat daginn eftir með ristuðu brauði og osti. Þetta varð veislumatur. Hálft grasker dugði vel fyrir einn, við höfðum salat með. Ekki þó það sem uppskriftin fyrir neðan er af.

Sem sagt í Grasker réttinn þarf; grasker,ólívuolíu, hvítlauk, oregano, basil, eggaldin, gula og rauða papriku, rauðlauk, kirsuberjatómata, fetaost, brauðrasp, parmesanost, steinselju og svartar eða grænar ólífur.

Þá er það salatið sem ég gerði sem kvöldmat fyrir okkur eitt kvöld fyrir stuttu. Við erum að vinna gegn of háu kolesteróli svo maturinn er mjög vel valinn þessa dagana.

Mig langaði í öðruvísi salat svo ég skar gulrót í þunnar sneiðar og saxaði rauða papriku, steikti þetta í ólívu olíu þar til ca. hálfsteikt, bætti þá púrrulauk í mjög þunnum sneiðum á pönnuna og steikti með 3-4 mín. Á tvo diska setti ég salatblöð, raðaði 4-5 blöðum hringinn á diskana (notaði reyndar ferkantaða diska), saxaði einn stóran tómat og skipti milli diskanna, setti svo steikta gtrænmetið í miðjuna, kryddaðan fetaost ú krukku (bara nokkra teninga á hvorn disk) og stráði svo sólblóma fræjum yfir. Salatið varð einstaklega gott svona bæði kalt og heitt. Okkur kom saman um að þetta gæti hæglega verið forréttur í boði, en þá myndum við hafa nýbakað brauð með.

Í gærkvöldii gerði ég svo mína tegund af Bolognes sósu, en hún er með soja kjöti. Þið fáið þá uppskrift næst. Þetta er orðið svo langt. 

Fært undir Matur.

Ein ummæli við “Fyllt, ofnbakað grasker og salat.”

  1. Sigga Rúna ritaði:

    Vá, alltaf fæ ég vatn í munninn af þessum uppskriftum þínum, og jú gott að berjast á móti kólesterólinu. Ég þarf að taka þig til fyrirmyndar og fara að elda meira, ég er aðallega í bakstri þessa dagana… ekki gott fyrir línurnar :-)
    Leiðinlegt að heyra með A-íbúana, slæmt þegar fáir eyððileggja fyrir hinum mörgu.
    Jæja, hádegismatur núna, hrærð egg og ristað brauð, ég ræð nú við það, hihihiiiii… endilega fleiri uppskriftir, takk.