Valentínusardagur.

Þið þekkið auðvitað öll söguna um  heilagan Valentínus svo ég er ekkert að setja hana hér. Heimsbyggðin;-) hélt upp á nafnadag hans í gær. Við hjónin höfðum ákveðið að í ár yrðu engar gjafir gefnar, okkur vantar bara ekki neitt, nema að ég hefði þegið andlitslyftingu, brjósta aðgerð og svuntu takk, þar eru svo margar vinkonur mínar að láta framkvæma allt þetta eða eitthvað af því svo ég fer að líta út 30 árum eldri en ég er þegar ég er i návist þeirra:-( 

Ég er einmitt að þjást með einni enskri sem á hús hér í Albir og kom hingað til að láta framkvæma andlit og maga. Ég hef reyndar bloggað um stórkostlega 60 ára afmælisveislu hennar í haust, en veislan stóð í tvo daga/kvöld. Þetta er mjög falleg kona sem nú er rosa spennandi því hún er öll í umbúðum nema augun og sjást því saumarnir þar í kring. Hún á erfitt með að hlæja því magavöðvarnir eru ekki sammála slíku enn sem komið er. Ég lít til hennar þegar ég hef tíma og hlakka mikið til að sjá árangurinn. En mikið er hún búin að eiga bátt, úps, þetta er ekki verkjalaust. En þess virði og mikið meir en það segir hún svo og önnur vinkona mín sem var í samskonar aðgerð fyrir jólin og er að endurlifa unglingsárin, eða þannig.

Sem sagt, ég fékk ekki ávísun á lýtalækni í Valentínusargjöf, heldur konfekt og 12 rauðar rósir, eina fyrir hvert ár sem ég hef þolað manninn minn eins og stóð á kortinu. Síðan fórum við út að borða í gærkvöldi á mjög fallegu hóteli í Altea.

Sigga Rúna tengdadóttir mín kommenteraði á bolludaginn hjá mér og bað um uppskriftina af vatnsdeigsbollunum. Hér kemur hún.

3 dl. vatn, 1 msk. sykur, 100 gr. hveiti, 100 gr. smjörliki, 3 egg. Vatn, sykur og smjörlíki soðið saman, hveitið sett í og hrært stöðugt þar til hveitibollan losnar frá pottinum. Þá er hún sett í hrærivél og eggin þeytt saman við, eitt í einu. Sett á smurða plötu eða bökunarpappír með lítilli matsekið. Bakað við 200C fyrstu 15 mínúturnar þá er hitinn lækkaður aðeins og bakað áfram í 45-60 mín. ÁRÍÐANDI! Ekki má opna ofninn fyrstu 20 mínúturnar. (eru ekki allir ofnar með gleri núna?) Ég smyr þær svo með súkkulaði þegar þær eru orðnar kaldar, sker þær í sundur og set góða sultu og þeyttan rjóma milli helminginna. Svona einfalt er nú það.

Annars er ég að fara að horfa á video, er að njóta þess að bóndinn er farinn á skíði og ég hef húsið fyrir mig eina.

Góða helgi öll aman.

Fært undir Matur.

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.