Grænmetislasagna með tveim sósum.

Lovísa, Ingimar og Guðjón Ó. voru í mat hjá okkur í gærkvöldi. Guðjón kom frá Ungverjalandi kvöldið áður. Ég hafði ákveðið að hafa grænmetismat á borðum og hafa ekki svo mikið fyrir. Reyndin varð aðeins önnur því mig langaði að gera grænmetislasagna með koníaks/tómatsósu og gráðostasósu. Ég gerði samskonar lasagna mjög oft í gamla daga og nú var komið að því að dusta rykið af uppskriftinni. Greiðlega gekk að finna uppskriftina en hún breyttist mjög í meðförum. Gestirnir voru svo yfir sig glaðir með matinn að allir vildu fá uppskriftina, Guðjón Ó. sagði að hann hefði aldrei á æfinni fengið jafn gott lasagna.

Í forrétt vorum við með dásamlegan ost, lungamjúkan, kringlóttan frá Galicia sem viðskiptavinir okkar gáfu okkur í vikunni og ýmsar tegundir af skinku, þ.e. ekki bara svínaskinku heldur fuglaskinku líka. Salatið sem ég hafði gert með matnum fór á borðið í upphafi og þótti passa mjög vel með forréttinum ekki síður en aðalréttinum. Auðvitað voru eðal sultur og marmelaði einnig með, keypt í Noregi og Svíþjóð. Salatið var gert úr Roculo og annari teguna af “grasi”, síðan hellti ég heilli krukku af feta osti með olíunni+hvítlaukum yfir, þá cherry tómata og agúrkur skornar í lengjur. Brauð líka, það þarf ekki að spyrja að því á Spáni…alltaf brauð með matnum.

Hér kemur uppskriftin af grænmetislasagna með koníaks/tómatsósu og gráðostasósu.

Tómatsósan,

1/2 stór laukur eða 1 lítill saxaður

1 rifin gulrót

2 hvítlauksrif

1 1/2 dl koníak

stór dós niðursoðnir tímatar+safinn (ég saxa alltaf tómatana)

lítil dós tómatpúrra

1 1/2 tsk púðursykur

1 1/2 tsk oregano

2-3 msk steinselja

1 tsk basil

1 tsk timian

salt og pipar efitir smekk

þetta er innihald uppskriftarinnar en ég notaði 1/2 dós af tómötum og 250 gr af tomate frito, en þar sem það fæst ekki á Íslandi skuluð þið halda ykkur við uppgefið hráefni.

Laukurinn og gulrótin látið krauma í olíu ca. 2 mínútur pressið þá hvítlaukinn út í pottinn. Hrærið í og hellið koníakinu yfir, hrærið stöðugt þar til koníakið hefur gufað upp. Bætið þá tómötunum, tómatpurre, púðursykri og öllu kryddinu saman við, hrærið vel saman og látið malla við mjög vægan hita í klukkustund.

Gráðostasósa.

75 gr smjör/smjörlíki

2 msk hveiti

1 smátt saxaður laukur

4 dl mjólk

1 lítill biti gráðostur

salt og ferskmalaður pipar

múkat á hnífsoddi

Hér kemur mín aðferð, ég mæli aldrei smjörlíki og hveiti, vil heldur hafa afgang af sósunni en of litla, ég set ekki salt í sósur með gráðosti því þær eru nógu saltar, múskatinu helli ég í lófann á mér og mæli þannig, geri það reyndar með allt krydd sem getur þýtt meir en stendur í uppskriftinni. Eftir allt er eldamennska tilfinning en ekki vigt og mælieiningar.

Steikið laukinn í smjöri/smjörlíki og bakið svo upp sósu. Allir kunna það svo ég sleppi aðferðarlýsingum.

Sósurnar getur maður hæglega gert daginn áður til að létta undir með sjálfum sér.

Grænmetið í gær var

500 gr frosið spínat

2 meðalstór zucchini skorin í sneiðar eftir lengdinni, saltaðar og látnar liggja á eldhúspappír í ca 1/2 tíma, þá skolað vel í köldu vatni og þerrað á eldhúspappír.

2 væn hvítlauksrif

fullt af smátt skornum sveppum. Ég veit ekki hvað þeir viktuðu en giska á að það hafi verið yfir 1/2 kg.

Ég sauð spínatið eftir leiðbeiningum pakkans sem var 10 mín. Helti því svo í sigti og pressaði allt vatn úr.

Steikti zucchinið og lagði til hliðar.

Steikti sveppina og pressaðan hvítlaukinn, blandaði svo spínatinu saman og hrærði mjög vel.

Smurði eldfast fat og hellti allri tómatsósunni á botninn, lasagnablöð ofan á, þá zucchini og rifinn ost, þá aftur lasagna blöð, sveppa-spínatið kom næst, lasagnablöð og gráðostasósan yfir að lokum. Stráði svo miklu magniu af rfnum osti yfir og bakaði í 200 gr heitum ofni í 45 mín. Lækkaði reyndar aðeins hitann undir lokin þar sem osturinn var orðin gullinbrúnn.

Með forréttinum drukkum við hvítt Protos verdejo frá árinu 2006. Vínið kemur frá D.O Rueda sem er á Valladolid svæðinu, sjá nánar hér http://www.espavino.com/spain_wine_region/wines_rueda.php mjög gott ávaxtamikið vín.

Með lasagnanu drukkum við svo Santa Rosa, Reserva frá 2003. Ég hef bloggað um þetta vín áður en það er kunningi okkar og hans fjölskylda sem framleiða þetta vín og eru staðsett í Alfaz del Pi, 10 mín frá Benidorm. Drotningin í þeirra framleiðslu er Santa Rosa.

Eftirrétturinn var svo enskur jólabúðingur, sem kom frá Englandi, Ég hellti vænum slurk af koníaki á pönnu, hitaði og kveikti svo í, fór síðan með logandi pönnuna í stofuna og hellti yfir búðinginn.

Mjög vel heppnuð máltíð með dásamlegu fólki.

Í dag fórum við svo með Lovísu og Ingimar á flóamarkað við Benidorm og fengum okkur smáræði að borða.

Nú er meiningin að skríða upp í sófa og horfa á bíómynd. Gamlársdagur á morgun!!!!!

Fært undir Matur. 2 ummæli »

2. Jóladagur og við í vinnunni.

Gleðileg jól.

Við áttum yndislegt Aðfangadagskvöld heima með strákunum og vinahjónum okkar Lovísu og Ingimar. Mikill og góður matur og allir fengu góðar gjafir. Ég fékk m.a. 3 íslenskar bækur svo það verður nóg að gera við lestur. Í gær lágum við fyrir framan sjónvarpið mest allan daginn. Gabriel átti vinnupartinn eins og ég hef bloggað um og þurfti hann að fara tvisvar út til að hleypa fólki inn í íbúðir. Og nú á annan dag jóla er skrifstofan opin. Reyndar ætlum við að loka á hádegi því lífið er hægfara hér í dag. Í kvöld borðum við svo öll hjá Lovísu og Ingimar, íslenskt hangikjöt, laufabrauð ofl. nammi.

Veðrið er fínt, í gær skein sólin allan daginn og við kveiktum aldrei á hitanum því það var svo hlýtt, í dag er sólarminna en mjög gott veður.

Vonandi hafið þið það öll jafn gott og við hérna megin.

Fært undir . Engin ummæli »

Þorláksmessa og allt á floti.

Við þurfum ekki að velta fyrir okkur hér hvort jólin verði hvít eða rauð, en nú er spurningin hvort þau verði blaut eða þurr og er ég þá ekki að tala um víndrykkju. Það byrjaði að rigna eins og helt væri úr fötu í nótt en stytti upp undir morgun og sólin skein glaðlega fram undir hádegi að himnarnir opnuðust aftur. Og nú kl. 18.10 þegar ég er nýkomin heim úr vinnu voru allar götur á floti. Fossar renna af miklum krafti niður brekkur og stöðuvötn hafa myndast á jafnsléttu. Ströndin sem er stolt okkar er nánast horfin. Þetta er annað rigningarkastið sem við fáum á tveim mánuðum og þykir mikið meir en nóg. Í gær var fyrsti vetrardagur á Spáni en það er hlýtt þótt það sé svona skelfilega blautt. En sólin á að vera komin á morgun segja veðurfræðingar, en er að marka þá???

Ég byrjaði að undirbúa matin fyrir Aðfangadagskvöld í morgun og var búin að gera þó nokkuð áður en ég þurfti að fara til vinnu. Við hjónin erum á vakt yfir jól og áramót og töluvert af fólki er að koma í gistingar hjá okkur. Svo við gerðum samning, ég vann í dag og hann sér um Jóladag, en þá er fólk bæði að fara og koma. Hvað við gerum um áramótin er óráðið, þ.e. vinnulega séð því þó nokkrir fara á Nýársdag. Annars ætlum við, Binni, Gaui, Guðjón eldri (sem verður komin heim frá Ungverjalandi) og ugluhjónin Lovísa og Dr. Ingimar að borða á Gamlárskvöld á japanska uppáhalds staðnum mínum rétt við skrifstofun á. Við ætlum að hafa með okkur kampavín og plast staup að ógleymdum vínberjum til að borða og skála á miðnætti á götum bæjarins. Þið vitið kanske öll að hér er það siður að borða eitt vínber+sopa af kampavíni við hvert klukkuslag á miðnætti og missi maður af slagi þýðir það að sá mánuður sem slagið stóð fyrir verður slæmur mánuður á árinu fyrir viðkomandi. Til að gera okkur þetta auðveldara hef ég keypt litlar niðursuðudósir með 12 vínlegnum, skinnlausum  vínberjum. Svo eftir að hafa borðað förum við á torgið sem er í miðjum bænum og bíðum klukknahljómsins, borðum okkar vínber og skálum ótæpilega, síðan hefst þessi líka stórkostlega flugeldasýning. Að henni lokinni höfum við ”gömlu” hjónin venjulega farið heim en unga fólkið á næturklúbbana. Ég á ekki von á neinni breytingu þetta árið, sérstaklega þar sem við þurfum að vinna á Nýársdag. 

Jæja elsku fjölskylda og vinir. Nú ætlum við að skreyta matarborðið fyrir morgundaginn, svo þá er bara að kveðja.

Kristín, Gabríel, Gaui og Binni senda öllum bestu jóla og nýársóskir.

Jólakortaskrif voru því miður ekki næginlega tímanlega í ár vegna ferðalaga og mikillar vinnu, en við bætum það upp síðar. 

Guð og jólabarnið vaki yfir ykkur öllum.

Ps. ég fékk annan vinning hjá Glitni í morgun!!!

Fært undir . 2 ummæli »

2 dagar til jóla.

2 dagar til jóla stóð á jóladagatali mínu hjá Glitni þegar ég opnaði það áðan, en engan fékk ég vinninginn. Þó þarf ég ekki að kvarta því ég fékk vinning í sl. viku. Þó verð ég að kvara yfir því að engin hefur heimsótt bloggið mitt í dag og klukkan orðin 16.34 á Spáni… Ég vil líka kvarta yfir mbl.is, þeir eru með fyrirsögn þar sem segir “sá feiti, el gordo dregin út á Spáni”. Það er alveg rétt jólahappdrættið var dregið út í dag og eins og segir í fréttinni er þetta stærsta happdrætti í heimi. 2,2 miljarðar evra eru dregin út, eða 200 miljarðir króna. Þetta er einn stærsti viðburðurinn á árinu hér, ég segi alltaf; þetta er rétt eins og jólakveðjurnar í RÚV, maður má ekki missa af drættinum. En nú kemur kvörtunarefni mitt; mbl.is þarf að læra vinnuna sína betur, þeir segja að vinningsnúmerin séu sungin upp af drengjakór!!! hvílíkt bull. Jólahappdrættið sem er orðið vel yfir aldar gamalt var upphaflega sett á stofn til styrktar munaðarlausum börnum. Fljótlega varð arður happdrættisins slíkur að hægt var að stofna skóla fyrir börnin, enn þann dag í dag er 30% af innkomu jólahappdrættisins notuð til að mennta munaðarlaus börn svo og börn sem eiga við sérstaka fjölskylduerfiðleika að stríða. Allt nám barnanna er greitt, frá fyrsta ári út í gegnum háskólanám, hin 70% fara í vinninga. Börnin sem syngja vinningstölurnar og vinningsupphæðirnar eru úr þessum grunnskóla happdrættisins og eru af báðum kynjum (ekki drengjakór) og þau eru búin að æfa fyrir þennan dag í 3 mánuði.

En tengt jólahappdrættinu er annars konar “happdrætti”, barir/veitngastaðir eru með stórar matar, vín og sælgætiskörfur stylltar upp hjá sér frá 1. des. og fram að 22. sem er dráttardagur “El Gordo”, þeir eru með tölur frá 00 til 99 og viðskiptavinir geta keypt númer. Við auðvita kaupum alltaf nokkur númer, fyrir 3 árum unnum við Gabriel risa stóra körfu. Til að vinna körfuna þarftu að hafa keypt 2 síðustu númerin í El Gordo, þ.e. 2 síðustu tölustafina í stærsta vinningsnúmerinu. Hver vann í dag á hverfisbarnum okkar??? Nema Gaui, þessa líka flottu körfu fulla af mat, víni, kampavíni, sterku áfengi og sælgæti, hann vann á númerið 81 sem hann keypti fyrir nokkrum dögum þegar bara voru 4 númer eftir! Ég myndaði hann í bak og fyrir við afhendingu körfunnar og hann að virða fyrir sér herlegheitin. Nú stendur þessi vígalega karfa sem er á tveim hæðum hér hjá mér því hann er að vinna og við tókum þetta heim fyrir hann. En, ég á eftir að kaupa 3 jólagjafir og verð að hlaupa í það núna því hvorki nenni ég á morgun né get farið á mánudaginn því þá er ég að undirbúa jólamatinn. OG, okkur tókst að fá hamborgarhrygg þegar við vorum búin að gefa upp alla von og ætluðum að hafa kalkún. Gaui, Binni, Lovísa ugla og Ingimar verða hjá okkur í mat og pakka opnun, Guðjón eldri er í Ungverjalandi en kemur heim fyrir áramót.

Svo elskurnar mínar allar, ef ég blogga ekki aftur fyrir jól, þá segi ég:

GLEÐILEG JÓL OG GOTT NÝTT ÁR 2008, VONANDI KOMIÐ ÞIÐ ÖLL Í HEIMSÓKN Á ÁRINU!!!!!!!!! ;-)

Fært undir . 2 ummæli »

Fljótt skiptast veður í lofti.

Eftir óvenju heitt haust eða fyrri hluta vetrar skall kuldinn á okkur. Hér á Benidorm skýn sólin (reyndar ringdi sl. nótt) en á stórum hluta landsins hefur snjóað og snjóað. Í Alcoy, heimaborg Gabriels er ekkert óvenjulegt að snjói og það allt upp að og yfir 1 metri, enda stendur hún mjög hátt, en snjóað hefur nánast niður að ströndum sl. sólarhring. Börnin eru yfir sig kát en ökumenn síður. Okkur bregður hér í bæ við fallandi hitastig, komin með hanska og húfur…

71. konan á árinu var myrt í gær af fyrrum sambýlismanni sínum, hann er lögreglumaður aðeins 34 ára gamall. Hún átti 3 börn. Þessu virðist aldrei ætla að linna.

ESPIS var með jólamat fyrirtækisins í gærkvöldi. Við borðuðum í Altea, á veitingastað sem við höldum mikið upp á. Það var mikið fjör. Við höfum haft það að venju að nokkru fyrir jólamatinn set ég miða með nöfnum allra starfsmanna í skál og síðan dregur hver og einn nafn til að gefa litla jólagjöf á “litlu jólunum”. Ég fékk tvo rosa sæta, feita jólasveina. Þeir eru kerti en ég mun örugglega ekki brenna þá næstu árin.

Við auðvitað skildum bílinn eftir heima og fórum með leigubíl. Spánn er kominn í nútímann!!! Farið er að taka mjög hart á áfengi í blóði ökumanna, meir að segja má lögreglan núna stoppa bíla inn í bæjum, það mátti ekki áður, til að láta blása í þessi fínu tæki þeirra. Jólamánuðurinn er hér eins og víða annars staðar sá mánuður sem fólk drekkur meir en oftast. Í sl. viku hefur lögreglan m.a. verið að stoppa strætisvagna og rútur sem keyra börn til og frá skóla, og viti menn, mikið af bílstjórunum hafa verið töluvert yfir áfengis takmörkum. Svo nú er stóra spurningin í fréttum, Eru litlu skólabörnin í hættu? En vonandi er þetta herta eftirlit ástæða þess að 17 færri dóu í umferðarslysum um þessa helgi en um sömu helgi í fyrra. Það sem ég dáist að er að loks þegar farið var að taka á áfengi versus akstur þá er það gert með slíkum krafti að allir verða hræddir. Hafi menn brotið umferðarlögin áður geta þeir átt all að 6 ára fangelsi yfir höfði sér, og hér eru þetta ekki orðin tóm.

Að öðru leiti er allt við það sama, vegna anna helgi eftir helgi erum við ekki búin að skreyta allt húsið svo við ákváðum að á morgun vinn ég bara til hádegis, fer heim að baka og Gabriel hættir kl. 18.00 og gerir það sem tilheyrir hans deild. Eftir að búið verður að ganga frá getum við legið í leti fram í janúar. Annars finnst mér ótrúlegt að jólin séu eftir viku.

Nú fer ég í rúmmið. Góða nótt.

Fært undir . Engin ummæli »

Afmæli litla bróður.

Þórður litli bróðir minn á afmæli í dag. Til hamingju brósi. En það sem er skemmtilegt við daginn er að ég yngdi drenginn um heil 10 ár. Viðskiptavinur kom á skrifstofuna í morgun og sagði okkur m.a. að hann ætti afmæli, við auðvitað óskuðum honum til hamingju. Ég, full af stolt sagði; bróðir minn á afmæli líka, hann er 45 ára í dag. Ég er eldri sagði maðurinn. Guðjón Óskars. var á skrifstofunni og sagði; Kristín!!! ég leit á hann og sá að hann var eitthvað spaugilegur á svip. HVAÐ! Er bróðir þinn 45 ára í dg? spurði hann. Já…æi nei, hvað er ég gömul, þá kom það. Litli bróðir er 55 ára í dag. Ég er samt eldri sagði viðskiptavinurinn. Hvernig stendur á því að þegar maður eldist gleymir maður tölum? Mér þótti svo eðlilegt að hann væri 45 ára, eftir allt er ég 25.

Ragna “mágkona” hringdi í mig í dag. Hún er að kafna í vinnu og jólastressi. Ég horfði út um gluggann á Ráðhúsið, jólatréð, hringekjuna og skautasvellið og hugsaði, mikið erum við heppin hér að jólastress er óþekktur hlutur. Helst er að stress finnist fyrir 6. janúar þegar alvöru jólin eru haldin hér, þá skiptist fólk á gjöfum og haldin er mikil veisla um allan bæ. Vitringarnir fara á úlföldum um bæinn og dreyfa sælgæti til hægri og vinstri. Jólagjafir barnanna eru ekki frá mömmu og pabba, afa og ömmu eða Gunnu frænku, allar eru þær frá “kóngunum”, þ.e. vitringunum 3.

Er á leiðinni heim að klára jólakreytinguna. Mikið sem þetta tekur langan tíma, en það er trúlega af því hér er ekki stress:-)

Fært undir . 2 ummæli »

Er ég rasisti?

Guðjón Björn, eða GB eins og vinkona hans ein kallar hann borðaði með mér og föður sínum í hádeginu í dag. Á japanska staðnum fyrir ofan skrifstofuna eins og svo oft áður. Talið barst að hinum ýmsu sem byggja þessa jörð og GB sagði mér að ég væri rasisti!!! Hann hafði verið að lesa blogg frá mér frá 25. oktober og þar talaði ég um araba og austur Evrópubúa versus okkur góðu Evrópubúum, þ.e. ég og hinir sem tilheyrt höfum svokölluðu frjálsu Evrópu. Mér var brugðið en gat ekki þrætt, byrjaði hins vegar á að skoða bloggið mitt þegar ég kom á skrifstofuna og mér létti þegar ég sá að ég hafði sett gæsalappir utan um “góðu”, það þýðir að ég er að gera góðlátlegt grín að hlutunum. En eftir stendur spurningin, er ég rasisti??? Ég sem er svo mikil jafnaðarmanneskja, vil að allir sitji við sama borð.

Ég hef bara eitt svar; er einhver sem getur af 100% heiðarleik sagt að ekki blundi einhver tegund af rasisma djúpt í fylgsnum viðkomandi? Þetta er spurning vikunnar!

Jólabylgjan og ótrúlegur hiti.

Ég er búin að ætla að blogga svooo lengi en ekkert orðið af. Bæði er að það hefur verið mikið að gera og svo er maður að njóta góða veðursins. Hér hefur verið yfir 20C og glampandi sól síðan við komum frá Stokholm. Fjallað var um Benidorm og hitann í fréttum um helgina, það var löng helgi, þ.e. frí á fimmtudaginn og margir nota slíkar helgar (brú) til að fara í frí. Og þar sem veðurblíðan var slík á Benidorm flykktust Spánverjar norðan frá hingað. Strendurnar voru fullar af fólki eins og um sumar og mjög margir böðuðu sig í sjónum.

Við Gabriel áttum mjög annasama helgi en gáfum okkur tíma til að labba yfir að ráðhúsinu (beint á móti skrifstofunni) á laugardaginn. Þar á ráðhústorginu er mjög stórt jólatré, sölubásar og skautasvell. Þetta er annað árið sem bæjaryfirvöld búa til skautasvell yfir veturinn, þar getur maður leigt skauta og leikið sér undir jólatónlist. Þarna er líka kaffihús og eins og veðrið hefur verið sitja allir úti og njóta þess að vera til. Ég verð að viðurkenna að þetta er ekki mjög jólalegt, en dásamlegt er það. Annars er auðvitað bærinn allur skreyttur svo og heimili fólks. Ég skreytti jólatréð í gærkvöldi en á eftir að klára aðrar skreytingar í húsinu. Vegna anna hefur Gabriel ekki komið jólaljósunum á terrasið, en það verður örugglega í vikunni.

Svo ætla ég að taka mér frídag til að baka…ó já, ég hef ekki bakað annað en brauð fyrir jólin í mörg ár en nú ætla ég að breyta til og koma Binna á óvart og baka uppáhaldið hans, Sörur. Ísana ætlaði ég að gera um helgina en það varð ekki úr vegna anna. Þessar miklu annir okkar um helgina stöfuðu af því að fjölskyldumeðlimir Gabriels frá Alcoy og næsta bæ komu hingað svo við vorum úti að borða bæði í hádegi og kvöldin frá föstudegi. Þó tókst okkur að kaupa ósamsettar kommóður í fataskápana, eitthvað sem staðið hefur til í 3 ár og meðan ég skreytti jólatráð setti Gabriel saman eina kommóðu. Það er heilmikið verk, þarf að líma og skrúfa. Svo gaman verður að taka skápana í gegn um næstu helgi og endur skipuleggja allt. 

Það sem heldur mér í jólaskapi er Jóla Bylgjan, dásamlgt að fá íslenska útvarpið í gegnum tölvuna. EN!!! Mikið er ég fegin að þurfa ekki að taka þátt í verslunarferðum og öðru sem virðist fylgja íslenskum jólum. Svo, allt hefur sinn sjarma, hér er ekki jólastress, nægur tími til að njóta lífsins, en Ísland hefur jólasnjóinn og hefðirnar sem eru svo skemmtilegar.

Nú ætla ég heim að skreyta meira.    

Fært undir . 3 ummæli »

Aftur heima.

Þá erum við komin heim. Komum í dag eftir stórkostlega ferð. Hér beið okkar sól og 22C, ekki laust við að við söknuðum vetursins í Stokholmi, þó vorum við mjög heppin með veður, tveir fyrstu dagarnir voru kaldir og síðan 3-4C, milt og ferskt. Dagurinn í gær, fyrsti sunnudagur í aðventu var hreint frábær. Við fórum ekki út fyrr en um hádegi og héldum sem leið lá í Gamla Stan þar sem aðventudagskrá átti að vera. Torgið var fullt af fólki og allir sölukofarnir (falleg jólahús úr tré sem standa í röðum) önnum kafnir. Byrjuðum á því að fá okkur glögg og piparkökur í einum þeirra og labba um. Gengum að höllinni þar sem lífvarðaskipting var að hefjast, slepptum því að horfa á þá marsera en fórum þess í stað í kirkjuna sem er mjög falleg og var búið að setja upp Betlehem. Vorum svo mætt aftur á Stóra torgið kl. 14.00 en þá var að hefjast söngvakeppni barna, hún er haldin árlega til styrktar “save the children”. Börnin stigu á stokk hvert af öðru og sungu jólalög, að lokum stóðu tvær ungar stúlkur uppi sem sigurvegarar og munu taka þátt í lokakeppni þann 22. des. en svona keppni er haldin alla sunnudaga í aðventu og líkur svo með því að sigurvegarar hvers sunnudags keppa í úrslitakeppninni. Gengið er með söfnunarbauka um torgið á meðan á söngnum stendur og setur maður glaður pening þar í. Gabriel hótaði góðlega að stinga mig af á meðan börnin sungu því hann hélt því fram að ég væri að fara að gráta, hvað er annað hægt en verða klökkur, ég bara spyr.

Við enduðum svo Stokholms dvölina með því að borða á rússneskum veitingastað sem við höfðum fundið nokkrum dögum áður en ekki haft tækifari til að heimsækja. Mér var mjög í mun að fara með hann þangað því meðan ég bjó í Stokholm fór ég nokkuð margar ferðir til Helsinki og borðaði þá alltaf á rússneskum stað og það hefur verið sterkt í minningunni síðan. Það var frábært. Í forrétt fengum við Blini og fylltar pönnukökur með paté og berjum, skiptum réttunum í tvennt svo bæði fengju að nóta. Síðan borðaði Gabriel bjarnarkjöt sem hann var mikið hrifin af og ég fékk mjög góðan fisk með sósu gerðri úr soði af reyktum fisk, skemmtileg og góð samsetning. Að lokum bar þjónninn Gabriel ískalt Vodka. Topp kvöld.

Gabriel var í alsherjar matarveislu alla ferðina, fékk tvisvar hreindýrakjöt, hjartarkjöt og björninn auk annars sem ekki var jafn framandi.

Köfunin á laugardaginn var víst mikið ævintýri og hann er ákveðin í því að við förum aftur í mars því þá langar hann að fara í köfun undir ís!!! Ætlar að fara að þjálfa sig hér í Miðjarðarhafinu til að vera vel undirbúin þegar hann mætir. Ekki það að Miðjarðarhafið frjósi, heldur er allt annars konar búningur notaður í köldu vatni og hann þarf að vera orðin algerlega vanur og vel fær í þeim búining áður en honum verður hleypt undir ís.

Ég átti hins vegar mjög góðan laugardag með sjálfri mér og við borðuðum á hótelinu um kvöldið.

Ég er búin að hengja upp ekta sænskan jólaóróa og ganga frá öllu úr töskunum, hvílík sæla.

Komin svefntími, góða nótt.

Fært undir . Engin ummæli »

1.desember.

Ég sit við skrifborðið á hótelherberginu okkar og vinn á tölvuna. Til hliðar við mig er stór gluggi sem opnar mér útsyni yfir til Gamla Stan, eyjunnar þar sem Stokholmur var upphaflega reyst. Þar stendur konungshöllin hæst og út frá torginu sem liggur við hana eru þröngar steinilagðar götur með dásamlaga fallegum húsum. Jólamarkaðurinn var byrjaður á torginu þegar við komum fyrir viku og erum við búin að heimsækja hann nokkru sinnum og kaupa smotterí. Það er örstutt fyrir okkur í Gamla Stan svo og miðbæinn, brúin yfir vatnið er hér fyrir utan og ég horfi á fólk og bíla ferðast yfir hana þar sem ég sit hér.

Við höfum átt dásamlegan tíma þessa daga. Hvílt okkur vel, gengið mjög mikið, aðeins kíkt í búðir,, en bara aðeins, setið á kaffihúsum og verið með vinum. Gummi sonur minn millilenti hér á þriðjudaginn var, á leið sinni til Lettlands og kom inn í borg til að hitta okkur, það var mjög gaman. Ásdís vinkona mín og maðurinn hennar hann Demir hafa verið mjög dugleg að gefa okkur af tíma sínum, en þau hafa mikið að gera þessa dagana. Demir er hjartaskurðlæknir sem snéri sér að hárígræðslu og eiga þau og reka Clinik hér. Þau eru að flytja clinikina þessa dagana svo það eykur á annríki þeirra. En það kom ekki í veg fyrir að við erum búin að vera heima hjá þeim, við Ásdís áttum stelpukvöld í bænum á þriðjudagskvöldið meðan Gabriel var á námskeiði og við erum öll búin að borða saman úti ásamt sonum þeirra tveim en einkadóttirin var á skólaballi. Við heimsóttum vinnustaðinn og sáum m.a. hvernig ígræðsla fer fram, vorum þó ekki viðstödd, heldur sáum það á myndum og hittum sjúkling sem var í græðslu, en það er heill dagur sem sjúklingurinn er á clinikinni. Svo eru þau farin að vinna með Bótox, þannig að konur streyma til þerra í fegrunaraðgerðir, þannig að næst þegar ég kem ætlar Demir að hafa Bótox sprautuna tilbúna fyrir mig. Komin tími til að láta fylla í hrukkur!!!

Ástu og Gullí sem unnu með mér á Flugleiðum hittum við en Ágústa sem einnig var góð vinkona á þessum árum er stödd erlendis svo ég hitti hana bara næst.

Dagurinn í dag er dekurdagur hjá mér. Gabriel fór kl. 07.00 í morgun í köfun og kemur ekki fyrr en um kvöldmat. Ég er búin að láta renna í bað og ætla að fara að skríða ofan í og njóta mín. Leggjast svo í rúmmið með bókina mína. Kanske fer ég út að ganga seinna í dag eða kanske bara sef ég. Búin að kaupa dagatala kerti og sænskan jólasveinakertastjaka til að setja kertið í og ætla að kveikja á því í kvöld, brenna 1. des. Á morgun er svo meiningin að vera á jólatorginu í gamla bænum og taka þátt í aðvetnukomunni. Það eru víða tónleikar ofl. á fyrsta sunnudegi í aðventu.

Góða helgi.

Fært undir . 1 ummæli »