Það er nú orðið ansi langt síðan ég bloggaði síðast. Allt gengur sinn vana gang. Ég er að ljúka við að kaupa jólagjafirnar, ó já, það styttist til jóla og gjafirnar frá mér fara til Íslands 31. oktober. Að öðru leiti er ég ekki farin að undirbúa jólin, er farin að láta mig langa til að draga fram jólalögin og geri það eflaust fljótlega. Hvað við verðum mörg hér um jólin er ekki komið á hreint, en líklegt er að engin fari héðan til Íslands og litlu fjölskyldurnar á klakanum koma ekki hingað.

Ég þurfti að hætta við að fara í fríið mitt sem ég hafði ætlað í til Torremolinos. Mér þykir það miður því ég hefði svo þurft á því að halda, en það verður bara seinna. Ekki verður Lundúnarferðin frí en gaman verður samt að fara. London er jú alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Við förum 11. nóvember.

Brugðum okkur í bíó á sunnudaginn var, fórum að sjá Die Hard þá nýjustu. Ég hef alltaf haft gaman af þessum myndum en ekki í þetta skipti, hún var ekki fyrir mig. Hins vegar hef ég verið að horfa á gamlar, góðar myndir á DVD undanfarið og á laugardaginn sá ég Steiktir grænir tómatar, ekki séð hana frá því hún var nýgerð. Það sem hún er góð, og það sem maður getur grátið yfir myndum, það er nú ekki brandari en ágætt að skæla af og til.

Jæja, læt þetta duga í bili. Hafið góðan dag.

Fært undir . 2 ummæli »