Sorglegur sólskynsdagur.

Ég er búin að fara í bæinn til að skoða vegsummerki rigningarinnar. Fór auðvitað í bílskúrana þar sem er lagerinn okkar hjá ESPIS er. Þar eru geymd öll sængurföt, handklæði og allt annað sem fyrirtæki eins og okkar þarf að hafa við hendina, ferðaröskur og kassar sem við geymum fyrir viðskiptavini sem koma reglulega og vilja ekki þurfa að fara með dót fram og til baka og margt fleira. Vatn hafði flætt niður í bílastæðin og skúrana í gær en Gabriel ekki þorað að opna okkar skúra þar sem hlaðið hafði verið ónýtum handklæðum og öðru innan við hurðirnar um morguninn og hefði hann opnað hefði flætt inn. Vatnið í bílageymslunni náði honum upp á kálfa. Auðvitað dugði ekki það sem hlaðið hafði verið en það skipti þó miklu. Allt sem er í hillum slapp og það er auðvitað allt sem ég taldi upp áður, en aukarúm, dýnur kassar með pappír ofl. hefur skemmst. Það á þó ekki að hreyfa við neinu þar til hefur þornað í geymslunum. Nokkrir sentimetrar af brúnni drullu eru á gólfunum. Dælubílar voru í morgun að dæla upp úr skúrunum. Gröfur og stórir vörubílar voru um allar götur, gröfurnar til að moka upp möl og stórum steinum sem komið hafði niður hlíðarnar og vörubílarnir fóru svo með það burt. Ég hef aldrei séð eins mikið af hreinsunarbílum eins og í morgun, verið var að þvo með háþrýstibílum og búið að koma ströndinni í ótrúlega gott stand, þó mikil vinna sé framundan. En það kom ekki í veg fyrir að fjöldi manns voru farnir að baða sig í sólinni og sjónum. Þó urðu mestu hörmungarnar í Calpe, strandbæ sem margir Íslendingar þekkja og er í 20 mín. keyrslu frá Benidorm. Bærinn bókstaflega fór í kaf. Bílar flutu í straumnum og enduðu margir upp á öðrum bílum, veggir hrundu í húsum og straumurinn tók húsgögnin úr herbergjunum með sér. Áin sem rennur í gegnum Calpe flæddi yfir annars mjög háa steinsteypta bakka og við bættist svo vatnið sem belgdist niður fjalshíðarnar. Ein kona lést þegar á örfáum mínútum hús hennar fylltist af vatni og hún náði ekki að komast út og druknaði. Þyrlur voru að bjarga fólki af húsþökum og úr bílum. Þetta er  svo ótrúlegt að maður stendur sem lamaður. Að sjá alla þessa eyðileggingu á svona dásamlega hlýjum sólríkum degi eins og í dag. Vinur Binna býr með foreldrum sínum í glæsihúsi í Albir, hann hefur íbúð í kjallara hússins og á 15 mín. fylltist kjallarinn, eins og eitthvað hefði brostið. Allt hans dót fór undir vatn, húsgögn, föt…en hans mesta tjón er að hann vinnur við tölvur og auðvitað fóru tölvurnar hans með öllum gögnum undir elginn. Sama varð með bílinn sem stóð í bílskúrnum í sama kjallara.

Enn áfram heldur lífið og ég sendi 36 manna hóp sem ég hef verið að undirbúa árshátíðar ferð með ævintýrasniði fyrir, í safari óvissuferð í morgun. Hópurinn var mjög hress, er úr Grindavík. Síðan verður árshátíðin þeirra í kvöld. Ég hlakka til að sjá þau þegar þau koma úr ferðinni í eftirmiðdaginn.

Fært undir . 1 ummæli »