Biðröð á morgun.

Jæja, í fyrramálið ætlum við Binni, ég og Guðjon stóri að fara á fætur kl. 05.30 til að fara í biðröðina við lögreglustöðina…

Ég var komin á fætur kl. 06.00 í morgun og hefði allt eins getað farið þá en það var jú ekki ákveðið, svo nú er að fara að sofa fljótlega, eða þannig. Læt ykkur vita hvernig gengur.

Sigga Rúna tengdadóttir mín elskuleg kommentaði á bloggið mitt í morgun, hún er sem betur fer dugleg við það. En ég vil leiðrétta hitastigið, þegar ég sagði að það væri komið niður undir 20C þá er það auðvitað enn yfir það. Í dag höfum við haft sól og 24C, en kalt hefur verið í skugga.  

Ég er að hlusta á Bænir með Ellen Kristjánsdóttur, fæ aldrei nóg af þessum disk né fyrsta disk Eivör.

Fært undir . Engin ummæli »

Sorg og reiði.

Það ríkir mikil sorg og reiði hér á svæðinu núna. Bæjarstjórinn í litla fallega þorpinu Polop (þar sem við Gabriel eyddum brúðkaupsnóttinni) var myrtur. Skotið var á hann fyrir utan hús hans á föstudagskvöldið þegar hann var að koma heim. Hann særðist alvarlega og var í hættu í tvo daga en þá var tilkynnt að hann væri komin úr lífshættu en alvarlega særður. Sama dag dó hann svo. Ungur maðuir, ári yngri en ég.

Þetta er einsdæmi hér á þessum hluta Spánar þar sem morð almennt eru sem betur fer mjög fá og árásir á stjórnmálamenn óþekktar. Auðvitað erum við öll mjög meðvituð um ETA og þeir höfðu það að markmiði sínu einu sinni að myrða sem flesta stjórnmálamenn og lögreglumenn, en slíkar aðgerðir þeirra teygðu sig aldrei hingað niður í land. Hér hafa þeir lagt áherslu á að sprengja byggingar á sumarleyfisstöðunum við ströndina. Skemmst er að minnast þess er þeir sprengdu hótel hér á Benidorm fyrir 4 árum.

ETA er ekki grunaðir um þessa árás á bæjarstjórann, en engin hefur verið handtekinn enn, þó segir lögreglan að þeir séu með grunaða og vonandi að þeir nái þeim seka/seku.

Hér er farið að hausta. Hitinn kominn niður undir 20C og léttar rigningar verið sl. daga, en spáin fyrir restina af vikunni er sól og blíða.   

Fært undir . 1 ummæli »

Breyttur tími.

Ég var að fatta það rétt í þessu að klukkunni var breytt í nótt, svo nú er ég bara einum tíma á undan Íslandi. En aulinn ég, var komin á fætur kl. 07.00 á sunnudagsmorgni, hélt klukkan væri 08.00. Enda búin að gera heilmikið, græddi einn tíma…

Fært undir . 1 ummæli »

Galakvöld.

Ég steingleymdi að blogga um galað í gær. Ekki get ég skotið mér á bak við timburmenn því þeir voru ekki í heimsókn hjá mér, heldur einfaldlega gleymdi ég bloggi og tölvunni í gær. Ég fór snemma á fætur, eins og alltaf, las reyndar póstinn minn og mbl.is meðan ég drakk teið mitt. Vinur Gabriels sem býr á Gran Canari kom hingað í gærmorgun með rútu frá Madrid. Hannn er að heimsækja fjölskyldu sína hér og kemur alltaf við hjá Gabriel. Svo G. fór ekkert að sofa galanóttina.

Hann stóð sig mjög vel í hlutverki sínu þar og var á þeytingi allt kvöldið. Flottur á því við sitt fólk eins og alltaf, en við vorum 10 gestirnir frá Espis. Fallega innpakkaðar rósir á stól hvers og eins þegar við komum og kampavín beið á borðinu. Ekki gátum við séð að aðrir hefðu hugsað svona vel um gesti sína því hvergi voru blóm að sjá. Hinsvegar voru poppkorns kassar á öllum borðum, fullir af poppi, kassarnir með myndum frá Benidorm, en þetta er þáttur í herferðinni sem APTUR (samtök skrifstofa í íbúðarleigum til ferðamanna) eru að byrja hér á Spáni. Gerð hefur verið auglýsing um Benidorm sem sýnd verður í 280 kvikmyndahúsum um allan Spán þar sem Benidorm er auglýst. Popp-kassarnir verða líka þáttur í herferðinni. Auglýsingin var frumsýnd á galakvöldinu og er mjög flott, einnig var sýnt “making of” auglýsingunni og var það mjög skemmtilegt, þar lék Gabriel augljóslega mjög stórt hlutverk. Ég bara hafði ekki gert mér grein fyrir allri þessari vinnu fyrr en ég sá þetta á tjaldinu.

Kvöldið heppnaðist í alla staði mjög vel, maturinn mikill og góður og skemmtiatriðin flott. Ég fór heim þegar þessu lauk en Gabriel og fleiri ákváðu að fara á píanóbar og slappa af eftir mikla vinnu undanfarið. Honum þótti heldur ekki taka því að fara að sofa þar sem vinurinn var að koma kl. 05.00. Einhver seinkun var á rútunni en G. sótti vininn og fór með hann í íbúðina sem hann mun búa í meðan hann stoppar hér, þar sátu þeir að spjalli þar til báðir duttu útaf. Ég hitti þá svo á veitingastað við ströndina í hádeginu í gær. Þar borðuðum við Paellu og fleira, nammi gott. Að því loknu fór ég heim en þeir ætluðu að njóta samveru hvors annars því stoppið verður stutt. Heima beið mín að pakka inn jólagjöfum og gera þær tilbúnar til Íslandsferðar.

Svo horfði ég á Bridget Jones, ekki bara aðra myndina heldur báðar.

Fært undir . Engin ummæli »

Kerfið hér.

Framhald af bloggi um væntanlega lögreglustöðvar ferð. Við vorum mætt kl 08.00 í morgun og töldum okkur nokkuð góð þar sem rigndi. Biðraðir voru fyrir utan lögreglustöðina og auðvitað nokkrir lögreglumenn eins og alltaf, það fær jú ekki hver sem er að fara þar inn. Meðan við biðum voru ungir “afbrotamenn” leiddir út í lögreglubíl í handjárnum og ég sem hef aðeins komið nálægt svona málum sem farastjóri vissi að verið var að fara með þá í dómshúsið til að hlusta á ákærurnar. Rétt fyrir kl 09.00 kom út kona með númer og henni fylgdi lögreglumaður til að tryggja að engin veittist að henni og reyndi að ná númeri. Við vorum of sein til að fá númer. Góðvinur minn sem vinnur þarna innan dyra, reyndar við það sem við vorum komin að sækja, kom út og við spjölluðum saman. Hann sagði mér að aðalástæðan fyrir því að hlutirnir gengju svona hægt fyrir sig væri sú að þau væru þrjú sem ynnu að því sem ég var eftir og hefðu aðeins eina tölvu!!!!!!!!!! Ég sagði eins og svo oft áður, “þetta er eins og fyrir 100 árum síðan, Nei sagði hann eins og fyrir 200 árum”. Hins vagar gat hann glatt mig með því að þau ættu von á annari tölvu í næsta mánuði og sagði mér bara að taka lífinu með ró og koma aftur þá, því þá yrði biðin styttri. Takk fyrir…ég þarf mitt græna blað núna ekki eftir mánuð. Hugsa sér að persónuskilríki okkar urðu bara ógild 1. apríl s.l. og eingöngu Arabar, Asíu menn/konur og austur Evrópu búar sem ekki hafa fengið fulla aðild að Evrópusambandinu fá nafnskýrteini eins og við höfðum. Restin af Evrópu, við og hinir “góðu” þurfum að vera mætt klukkan 06.00 til að standa í biðröð eftir númerum sem er úthlutað kl. 09.00, þá er sjens á að við fáum númer og verðum komin inn á skrifstofuna kl. 12.00. Á meðan bíðum við úti í biðröð…Velcome to Spain.

En ég ætla ekki að láta þetta pirra mig, nóg er álagið að reyna að skýra hlutina fyrir Íslendingum sem eru að kaupa hér. ÚPS. Ég gæti líka skrifað heila ritgerð um meðhöndlun mála sem Íslendingar hafa lent í hér, eða á Kanarí…

Nóg um það. Á morgun er galað og ég verið í fíniseringu sl. tvo daga. Í gær að láta vaxa fæturna, í dag handsnyrting, neglurnar málaðar rauðar og skreyttar með gylltu skrauti, augabrúnir snyrtar og litaðar. Á morgun er það hárgreiðslan. En það fyndnasta er að ég hef ekki ákveðið í hverju ég ætla að vera. Datt í hug að fara í brúðarkjólnum, er svo skrambi flott í honum. Keypti hárauða slönguskinn skó og litla tösku í stíl um dagin og held það verði flott með kjólnum. Skartgripi á ég í miklu magni og get dundað við að velja hvað passar með. Ætla nefnilega ekki að gera neitt á morgun nema hárgreiðslustofuna og punta mig svo heima. Verð svo mætt klukkutíma áður en galað hefst á hóteli á móti þar sem ég safna saman starfsfólkinu og bíð upp á drykk. Eiginmannin fæ ég svo að sjá í gegnum dagskrána á sviðinu. Hann mun ekki einu sinni sitja við sama borð og við hin…þó erum við með frátekið sæti handa honum þar sem hann getur komið og heilsað upp á okkur af og til.

Ég er ein eins og önnur kvöld og ætla að horfa á James Bond, fara svo snemma að sofa. 

Fært undir . 2 ummæli »

Rigning enn a ný.

Byrjað að rigna á ný. Auðvitað ekkert í líkingu við það sem var um daginn, bara svona dæmigerð íslensk rigning. Ég er að horfa á James Bond, Golden Eye (smá pása). Þórey vinkona okkar var í Budapest um sl. helgi og keyrði m.a. skriðdreka eins og þann sem notaður er í Golden Eye. Ég fór að horfa á myndina í gærkvöldi en sofnaði yfir henni svo nú skal horft á seinni hlutann.

Á föstudagskvöldið fer maður á Gala, flott gala. Það er á vegum samtaka skrifstofa sem eru í útleigu á íbúðum til ferðamanna. Gabriel er varaformaður samtakanna og er þetta í annað sinn sem svona Gala er haldið. Það er mikið búið að vera gera við undirbúning. M.a. létu þeir búa til kvikmyndar auglýsingu þar sem Benidorm er augýst sem besti sumar/vetrar leyfis staðurinn og verður þessi auglýsing í kvikmyndahúsum um allan Spán næstu mánuði. Bæjarstjórn Benidorm styrkti gerðina svo og ýmsir aðilar sem njóta góðs af. Svo Gabriel sést ekki þessa dagana, er á kafi í fjörinu. Ég er að velta fyrir mér í hverju ég get verið:-o) kemur það einhverjum á óvart? Við bjóðum öllum starfsmönnum á fagnaðinn og mun ég hitta þau á bar áður og síðan förum við saman.

Annars hef ég aðrar áhyggjur núna, það er að í fyrramálið förum við Guðjón Ó, Binni og ég á lögreglustöðina til að fá pappíra sem gera okkur gilda þegna á Spáni, aftur…málið er að áður fyrr voru gefin út n.k. nafnskýrteini en nú hefur því verið hætt til “betri” Evrópubúa og þurfum við að fá það sem kallað er græna blaðið. Eftir að Evrópusambandið opnai fyrir austur blokkinni hefur skapast skelfilegt ástand í þessum málum. Meðan hér áður fyrr gengum við inn á lögreglustöðina, sóttum um og fengum skýrteinin okkar á ca. 3 vikum, þurfum við nú að mæta ekki seinna en kl. 07.00 fyrir utan lögreglustöðna til að eiga séns á að fá númer til að komast inn eftir að þeir opna kl 09.00. Marfir byrja að bíða á miðri nóttu. Síðan er það heppni ef maður er komin inn og búin að ljúka erindi sínun kl 12.00. Svo morguninn í fyrramálið fer í það að hanga í biðröð fyrir utan lögreglustöðina, vonandi verður rigning þá er séns á að færri nenni að fara.  

Svo nú er að klára Bond og fara að sofa.

Fært undir . 1 ummæli »

Það er nú orðið ansi langt síðan ég bloggaði síðast. Allt gengur sinn vana gang. Ég er að ljúka við að kaupa jólagjafirnar, ó já, það styttist til jóla og gjafirnar frá mér fara til Íslands 31. oktober. Að öðru leiti er ég ekki farin að undirbúa jólin, er farin að láta mig langa til að draga fram jólalögin og geri það eflaust fljótlega. Hvað við verðum mörg hér um jólin er ekki komið á hreint, en líklegt er að engin fari héðan til Íslands og litlu fjölskyldurnar á klakanum koma ekki hingað.

Ég þurfti að hætta við að fara í fríið mitt sem ég hafði ætlað í til Torremolinos. Mér þykir það miður því ég hefði svo þurft á því að halda, en það verður bara seinna. Ekki verður Lundúnarferðin frí en gaman verður samt að fara. London er jú alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Við förum 11. nóvember.

Brugðum okkur í bíó á sunnudaginn var, fórum að sjá Die Hard þá nýjustu. Ég hef alltaf haft gaman af þessum myndum en ekki í þetta skipti, hún var ekki fyrir mig. Hins vegar hef ég verið að horfa á gamlar, góðar myndir á DVD undanfarið og á laugardaginn sá ég Steiktir grænir tómatar, ekki séð hana frá því hún var nýgerð. Það sem hún er góð, og það sem maður getur grátið yfir myndum, það er nú ekki brandari en ágætt að skæla af og til.

Jæja, læt þetta duga í bili. Hafið góðan dag.

Fært undir . 2 ummæli »

Aftur rignir.

Eftir að hafa lært um og séð skemmdir sem fólk sem ég þekki varð fyrir í rigningunum/flóðunum á þjóðhátíðardaginn okkar, fékk ég vægt áfall þegar í dag byrjaði að rigna og í kjölfarið þrumur og eldingar, eða öllu heldur eldingar og þrumur því þannig virkar þetta. En sem betur fer var rigningin hvorki mikil né stóð lengi yfir. Nú er að koma kvöld og fallegt að líta yfir sjóinn og sólina sem gægjist undan skýjunum. Annars er lítið búið að gerast síðan um helgina, verið að hreinsa og það sama gildir um okkur, 2-3 cm. leir sem sat eftir í bílskúrunum þar sem við höfum lager, tekur tíma að hreinsa svo vel sé. 

En ég hef verið óvenju dugleg í skó og töskukaupum, ég sem helst kaupi aldrei neitt:-o) Ég er búin að kaupa tvær tökur, belti í stíl við aðra, 10 evru gullfallega, gullslegna bandaskó og svört leðurstígvél, mjög flott fyrir 39 evrur. Með svona verð fæ ég ekki samviskubit. Ég er að fara í sumarfrí/haustfrí alein…fer til Torremolinos í 6 daga. Bókuð inn á fínt hótel og ætla að keyra þessa 7-8 tíma sem það tekur að komast þangað, með fult af bókum og njóta lífsins. Heimsækja gamla vini, fólk og þorp. Mest hlakka ég til að fara í mörg af mínum uppáhalds þorpum þarna fyrir sunnan. Ef vel liggur á mér keyri ég kanske með vegabréfið í annari hönd til Gibraltar og endurlifi þá tilfinningu sem greip mig þegar ég kom þar 1992, litla Bretland! Ég tek tölvuna með mér og skrifa kanske bara litla ferðasögu, hver veit.

Svo kem ég heim 1. nóvember og 11. nóv. förum við Gabriel til London á World Travel Market, stoppum stutt,, heim aftur 14. síðan rúmri viku seinna förum við til Stokholm í 10 daga, verðum fyrstu aðventuhelgina í STO. Vinkonur mínar þar frá Flugleiðaárunum eru að plana eitthvað skemmtilegt og Gabriel er bún að bóka sig í köfun. Hann mun í fyrsta sinn kafa í þurrbúning, en það er sá búningur sem menn kafa í, í svona köldu vatni. Fyrst þarf hann að vera eitt kvöld á námskeiði og svo kafar hann heilan dag. Svo það er heilmikið framundan. Ég skráði mig í vinnu um jólin (af góðmensku) því allir starfsmenn vilja jú vera í fríi, en gestirnir þurfa þjónustu. Svo er fólk að koma inn líka, nokkrir sem koma á jóladag. Svo ég verð á þeytingi, en það er jú líka gaman. Í dag langaði mig að taka fram jólalögin og byrja að spila, það gerir veðrið skiljið þið!!! Kertaljós, heitt kakó með brandy og jólatónlist. Hvað gerist betra?

Fært undir . 1 ummæli »

Sorglegur sólskynsdagur.

Ég er búin að fara í bæinn til að skoða vegsummerki rigningarinnar. Fór auðvitað í bílskúrana þar sem er lagerinn okkar hjá ESPIS er. Þar eru geymd öll sængurföt, handklæði og allt annað sem fyrirtæki eins og okkar þarf að hafa við hendina, ferðaröskur og kassar sem við geymum fyrir viðskiptavini sem koma reglulega og vilja ekki þurfa að fara með dót fram og til baka og margt fleira. Vatn hafði flætt niður í bílastæðin og skúrana í gær en Gabriel ekki þorað að opna okkar skúra þar sem hlaðið hafði verið ónýtum handklæðum og öðru innan við hurðirnar um morguninn og hefði hann opnað hefði flætt inn. Vatnið í bílageymslunni náði honum upp á kálfa. Auðvitað dugði ekki það sem hlaðið hafði verið en það skipti þó miklu. Allt sem er í hillum slapp og það er auðvitað allt sem ég taldi upp áður, en aukarúm, dýnur kassar með pappír ofl. hefur skemmst. Það á þó ekki að hreyfa við neinu þar til hefur þornað í geymslunum. Nokkrir sentimetrar af brúnni drullu eru á gólfunum. Dælubílar voru í morgun að dæla upp úr skúrunum. Gröfur og stórir vörubílar voru um allar götur, gröfurnar til að moka upp möl og stórum steinum sem komið hafði niður hlíðarnar og vörubílarnir fóru svo með það burt. Ég hef aldrei séð eins mikið af hreinsunarbílum eins og í morgun, verið var að þvo með háþrýstibílum og búið að koma ströndinni í ótrúlega gott stand, þó mikil vinna sé framundan. En það kom ekki í veg fyrir að fjöldi manns voru farnir að baða sig í sólinni og sjónum. Þó urðu mestu hörmungarnar í Calpe, strandbæ sem margir Íslendingar þekkja og er í 20 mín. keyrslu frá Benidorm. Bærinn bókstaflega fór í kaf. Bílar flutu í straumnum og enduðu margir upp á öðrum bílum, veggir hrundu í húsum og straumurinn tók húsgögnin úr herbergjunum með sér. Áin sem rennur í gegnum Calpe flæddi yfir annars mjög háa steinsteypta bakka og við bættist svo vatnið sem belgdist niður fjalshíðarnar. Ein kona lést þegar á örfáum mínútum hús hennar fylltist af vatni og hún náði ekki að komast út og druknaði. Þyrlur voru að bjarga fólki af húsþökum og úr bílum. Þetta er  svo ótrúlegt að maður stendur sem lamaður. Að sjá alla þessa eyðileggingu á svona dásamlega hlýjum sólríkum degi eins og í dag. Vinur Binna býr með foreldrum sínum í glæsihúsi í Albir, hann hefur íbúð í kjallara hússins og á 15 mín. fylltist kjallarinn, eins og eitthvað hefði brostið. Allt hans dót fór undir vatn, húsgögn, föt…en hans mesta tjón er að hann vinnur við tölvur og auðvitað fóru tölvurnar hans með öllum gögnum undir elginn. Sama varð með bílinn sem stóð í bílskúrnum í sama kjallara.

Enn áfram heldur lífið og ég sendi 36 manna hóp sem ég hef verið að undirbúa árshátíðar ferð með ævintýrasniði fyrir, í safari óvissuferð í morgun. Hópurinn var mjög hress, er úr Grindavík. Síðan verður árshátíðin þeirra í kvöld. Ég hlakka til að sjá þau þegar þau koma úr ferðinni í eftirmiðdaginn.

Fært undir . 1 ummæli »

Neyðarástand?

Er ekki búið að senda út neyðarástsnds viðvörum í Valensíuhéraði. Í gærkvöldi byrjaði að rigna hér á Benidorm og víðar í héraðinu og nóttin var eins og stórstyrjöld væri skollin á slíkar þrumur sem héldu bæjarbúum vakandi. Ég hef nokkrum sinnum í morgun haldið að rúðurnar í húsinu hlytu að brotna því þrumurnar eru svo nærri og svo sterkar að það titrar allt. Og rigningin er engu lík, ég veit ekki hvað rignt hefur mörgum lítrum á klst. en það er gífurlegt og ekkert lát á. Ég sit hér við borðstofuborðið með kertaljós allt um kring og vinn á tölvuna. Í dag er þjóðhátíðardagur Spánar og mikil hátíðarhöld í Madrid, hersýningar ofl. Þar er glaðasólskyn og konungshjónin og fjölskylda prúðbúin við dagskrána. Á meðan erum við að rigna í kaf. Ég fór út á terrras í morgun til að huga að plöntunum og hleypa úr pottinum því þó hann sé með loki kemst rigningarvatnið inn undir og ekki vildi ég að hann flæddi yfir. Ég setti sturtuhettu yfir hárið áður en ég fór og hefði betur farið nakin því flíkin sem ég var í varð svo gegnblaut að ég þurfti að fara úr henni í hurðinni til að bleyta ekki öll gólf. En þetta er skemmtileg tilbreyting. Gabriel er á helgarvakt svo hann er úti að hleypa gestum inn og út úr íbúðum. Verður líklega þokkalega blautur.

Við fengum skemmtilega heimsókn í gær. Inga og Rico heita hjón sem búa í Hollandi en hófu búskap á Íslandi, í litlu íbúðinni ókkar Guðjóns í Snælandinu. Það giftu þau sig og eigniðust sitt fyrsta barn sem ég passaði eftir að hún fór aftur að vinna. Svo fluttu þau í eigin húsnæði, eignuðust fleiri börn og fluttu síðan til Hollands, en hann er hálfur Hollendingur. Þar hafa þau svo búið lengi. Við Inga tókum upp samband aftur fyrir stuttu og svo skemmtilega vildi til að þau voru á leið til Alicante til að spila golf svo ákveðið var að hittast. Þau komu síðan til Benidorm í gær og voru hér í nótt. Við borðuðum saman í gærkvöldi, Guðjón, Gabriel, ég, systir Gabriels og gestirnir. Síðan komu þau hingað heim í morgunmat í morgun áður en þau héldu á flugvöllinn. En það sem er skemmtilegast við þetta allt saman er að við höfðum ekki sést í 27 ár!!! Og auðvitað hafði ekkert okkar breyst, aðeins elst, en ósköp lítið. Ég er með hugann hjá þeim núna þar sem þau keyra til Valencia á flugvöllinn þar í þessu veðri og eins víst að ekki sé hægt að fljúga. En mikið áttum við saman skemmtilegan tíma þó stutt væri. Gerum betur næst.

Ég blogga svo um ástandið að rigningarlokum. 

Fært undir . Engin ummæli »