Sunnudagur.

Valtýr frændi minn, Sigríður kona hans, Andrea Rán Siggudóttir (bráðum 11 ára) og Dúa Kristín voru í hádegismat hjá mér, en það voru fleiri, Guðrún systir Siggu, Ólafur maðurinn hennar og litli gullmolinn þeirra Bjarki Þór. Synir mínir Gaui og Binni skreyttu samkvæmið og það gerði líka Árni Briem æskuvinur Gaua sem hefur búið hér og unnið hjá Gaua í 7 máuði. Hann er nú á heimleið og við munum öll sakna hans mikið. Árni var auðvitað með í “jólamatnum” sem og í öðrum matarsamkomum.

Ég ákvað að hafa dæmigerða spænska Tapas máltíð. Gerði spænskar kjötbollur, kartöflu ommelettu…tortilla, ýmsa smárétti salat og osta. Gabriel alveg orðlaus yfir því að bjóða fólki í hádegismat í þessum hita, en það gekk vel. Tjaldið yfir matarborðinu okkar skýlir vel fyrir sólu. Við vorum að borða frá 14.30 fram til 16.00 svo auðvitað var rosalega heitt. Eftir matinn fóru karlmennirnir og Andrea Rán að spila Risk þar til Gabriel þurfti að hlaupa því hann er á vakt þessa helgi, þ.e. hann hleypir fólki inn og út úr íbúðum. Þetta var dásamlegur dagur í góðum hópi. Það er alltaf svo gaman að fá frændfólk og vini í heimsókn. Talandi um það, nú er Lovísa ugla búin að kaupa farmiða hingað rétt fyrir jólin og ætlar að eyða sínum 3. jólum hér á Benidorm með okkur. En hún verður ekki ein því verndari uglanna Dr. Ingimar Jónsson maður Lovísu ætlar að vera rúman mánuð við skriftir hér hjá á Benidorm, en hún lætur sig ekki vanta um jól og áramót. Uglur hafa hist oftar á þessu ári en í mörg undanfarin ár og hefur verið gaman…Ó já.

Ef þið viljið skella í spænskar kjötbollur þá er hér uppskriftin. Gleymið ekki að ég nota tilfinningu en ekki mælieiningar við matreiðslu.

1 kg. gott nautahakk. Rifinn börkur af hálfri til einni sítrónu (farið varlega), brauðmylsna, 1-2 egg, salt, pipar og paprika. Nóg af papriku. Allt hnoðað/hrært saman, búnar til litlar bollur, velt upp úr hveiti og steiktar í olíu. Settar til hliðar. SÓSAN: Eins og áður, búið til góða tómatsósu, ég nota alltaf “tomate frito” sem ég hef oft minnst á. Sósan þarf að vera góð án þess að hafa utanaðkomandi bragð, þ.e. engin framandi krydd. Salt, pipar, paprika. Skerið gulrætur (fjöldi eftir smekk) í þunnar sneiðar og blandið í sósuna ásamt 2-3 lárviðarlaufum, bætið bollunum í og sjóðið við vægan hita ca. hálftíma, bætið þá grænum baunum út í og hitið áfram um hríð. ALLS ekki ORA baunir, eins góðar og þær eru þá ganga þær ekki þarna, kaupið litlar niðursoðnar baunir frá útlöndum. Þessar bollur er hægt að bera fram einar sér, með kartöflumús, pasta eða hrísgrjónum.

Njótið vel.

Fært undir Matur. Engin ummæli »