Hvernig kaffi er ég?

Árið 1992 var ég 8 vikur á Malaga á Spáni m.a. við spænskunám. Þar kynntist ég mörgu eftirmynnilegu fólki víðsvegar úr Evrópu. Lengi hafði ég samband við nokkra en því er nú lokið eins og gengur í lífinu. Fólk kemur og fer. Þar hitti ég og vingaðist við fyrstu manneskjuna sem ég hafði séð og var haldin alvarlegri anorexiu. Ung falleg stúlka frá Sviss, ég hef oft hugsað til hennar síðan, skyldi hún vera lifandi hugsa ég alltaf því ástand hennar var slíkt.

Dag einn rak á fjörur mínar þekktur Íslendingur sem líka vildi læra spænsku. Með okkur tókst mikil vinátta, hann varð svona mín besta vinkona, mikill snillingur. Eftir að við komum aftur heim héldum við vináttu okkar, bjuggum mjög nálægt hvort öðru í Þingholtunum. Hann varð heimilisvinur. Svo þurfti hann að flytja út á land vegna vinnu sinnar, ekki löngu seinna flutti ég úr landi. Ég gat fylgst með honum í dagblöðum frá Íslandi en hann hafði litlar fréttir af mér. Eftir að bloggið kom varð heimurinn aftur minni, að ég tali nú ekki um e-mailið. Þessi “gamli” góði vinur minn bloggar frábærlega og ekki fyrir löngu var hægt að taka próf á blogginu hans (er enn hægt) Hvernig kaffi er ég? Ég auðvitað tók prófið og hér kemur niðurstaðan. 

Frappuccino!

Þú ert jákvæður og nýjungagjarn einstaklingur sem hikar ekki við að gera óvenjulega hluti og klæðast litskrúðugum fötum. Þú ert týpan sem hleypur á eftir strætó langar leiðir með hrópum og köllum ætli hann að fara án þín.

Þú ert ískalt kaffi með mjólk, sykri og ísmolum, borið fram í háu glasi með röri.

Þá höfum við það. Þessi gamli vinur minn er eins kaffi og kom mér ekki á óvart, við erum fædd í sömu vikunni en hann ári yngri, sem sagt bæði tvíburar sem aldrei hafa farið troðnar slóðir.

Annars er Valtýr frændi minn hér eins og ég hef áður sagt, býr við hliðina á mér. Dóttir hans Dúa Kristín 8 mánaða er hrifin af frænku sinni, en helst heillar hana gullið sem frænka ber og rauðu neglurnar. Hún ætlar að verða fín dama eins og ég þegar hún stækkar.;-) 

Fært undir . 2 ummæli »