Tölvan að fara í frí.

Það er nú eins gott að blogga örlítið á meðan tækifæri er á. Tölvan mín er að fara í frí til Amsterdam á morgun. Ekki að ég fái að fara með, ó nei. Binni minn er að fara á tölvufund með vinum sínum úr tölvuheiminum og hann þarf svona fína ferðatölvu eins og mína með sér, svo mamma aumkaði sig yfir drenginn og tölvan mín fer með.

Annars er lítið að frétta héðan, allir hressir og kátir. Ég að byrja aftur í líkamsræktinni eftir óhöpp sumarsins. Stóratáin sem brotnaði er enn að trufla mig en ég læt það ekki stoppa lengur. Ræktin hefur alltaf sama aðdráttarafl. Svo hlakka ég til helgarinnar því ég ætla helst ekki að gera neitt. Og á morgun og föstudag ætla ég bara að vinna hálfan daginn, nota tölvuleysið sem afsökun. Ef veðrið helst óbreytt verð ég í sólbaði.

Góða helgi öll sömul og láti heyra frá ykkur.

Fært undir . 2 ummæli »

Enn rignir.

Sunnudagsmorgun og enn rignir. Á föstudagskvöldið hófst rigningin með stórfenglegri ljósasýningu á himnum, eldingarnar voru stórkostlegar. Ég sat úti á terrasi ásamt vinkonu minni, við sötruðum hvítvín við kertaljós og nutum útsýnisins. Eftir að hafa fylgst drjúga stund með glæringunum og sjá þær færast nær færðum við okkur inn í hús og það mátti ekki seinna vera. Himnarnir bókstaflega opnuðust, rigningin var slík að ég vaknaði hvað eftir annað við hávaðann frá fallandi vatninu þessa nótt. Og allan daginn í gær helliringdi, minkaði þegar dróg að kvöldi og ég varð ekki vör við neitt í nótt. Hins vegar hefur rignt nú i morgun, en ekki mikið. Vonandi er þetta gengið yfir, ekki það að við þurftum svo sannarlega á þessu að halda, bæði gróðurinn og svo ekki sýst vatnsbólin. Þetta veður hefur verið að færa sig upp ströndina en í Andalucia rigndi hagléli á stærð við golfbolta og brotniðu rúður í bílum mjög víða. Við Gabriel vorum búin að plana að fara til Murcia undir hádegið og borða að spænskum sið með Sjöfn og Eyjólfi sem nú eru í glæsihúsi sínu þar. Ég er ekki spennt að keyra hraðbrautina í rigningu en mér er sagt að þar niður frá hafi allt verið gengið yfir í gærmorgun, svo það ætti að vera þurrt sunnan við Alicante. Þá er bara að skella sér.

Fært undir . Engin ummæli »

Rigning, fótakrem og sandalar.

Hvílík rigning. Ég vaknaði um miðja nótt við rigningu af slíkum toga að ég man ekki annað eins. Lengi hélt syndaflóðið mér vakandi. Svo eins og venjulega var rigningin hætt þegar venjulegt fólk þurfti að fara á fætur og í vinnu. Ég er í pilsi og stuttermabol enda hlýtt, en ég er líka á háhæluðum bandaskóm. Og ég get lofað ykkur því að það er ekki snjallt að bera fótakerm á sig á morgnanna, fara í bandaskó og lenda svo í bullandi rigningu. Því það var nákvæmlega það sem henti mig þegar ég fór í bankann í morgun, fékk hellirigningu og varð gegnblaut, sem skiptir ekki máli því rigningin er heit, en að renna til í skónum eins og ég gerði er ekki fyndið. Ég óð auðvitað elginn og yfir polla þannig að vatnið náði mér upp fyrir ökla. En, ég komst á skrifstofuna og þornaði fljótt. 

Sól á morgun.

Fært undir . Engin ummæli »

Sunnudagur.

Valtýr frændi minn, Sigríður kona hans, Andrea Rán Siggudóttir (bráðum 11 ára) og Dúa Kristín voru í hádegismat hjá mér, en það voru fleiri, Guðrún systir Siggu, Ólafur maðurinn hennar og litli gullmolinn þeirra Bjarki Þór. Synir mínir Gaui og Binni skreyttu samkvæmið og það gerði líka Árni Briem æskuvinur Gaua sem hefur búið hér og unnið hjá Gaua í 7 máuði. Hann er nú á heimleið og við munum öll sakna hans mikið. Árni var auðvitað með í “jólamatnum” sem og í öðrum matarsamkomum.

Ég ákvað að hafa dæmigerða spænska Tapas máltíð. Gerði spænskar kjötbollur, kartöflu ommelettu…tortilla, ýmsa smárétti salat og osta. Gabriel alveg orðlaus yfir því að bjóða fólki í hádegismat í þessum hita, en það gekk vel. Tjaldið yfir matarborðinu okkar skýlir vel fyrir sólu. Við vorum að borða frá 14.30 fram til 16.00 svo auðvitað var rosalega heitt. Eftir matinn fóru karlmennirnir og Andrea Rán að spila Risk þar til Gabriel þurfti að hlaupa því hann er á vakt þessa helgi, þ.e. hann hleypir fólki inn og út úr íbúðum. Þetta var dásamlegur dagur í góðum hópi. Það er alltaf svo gaman að fá frændfólk og vini í heimsókn. Talandi um það, nú er Lovísa ugla búin að kaupa farmiða hingað rétt fyrir jólin og ætlar að eyða sínum 3. jólum hér á Benidorm með okkur. En hún verður ekki ein því verndari uglanna Dr. Ingimar Jónsson maður Lovísu ætlar að vera rúman mánuð við skriftir hér hjá á Benidorm, en hún lætur sig ekki vanta um jól og áramót. Uglur hafa hist oftar á þessu ári en í mörg undanfarin ár og hefur verið gaman…Ó já.

Ef þið viljið skella í spænskar kjötbollur þá er hér uppskriftin. Gleymið ekki að ég nota tilfinningu en ekki mælieiningar við matreiðslu.

1 kg. gott nautahakk. Rifinn börkur af hálfri til einni sítrónu (farið varlega), brauðmylsna, 1-2 egg, salt, pipar og paprika. Nóg af papriku. Allt hnoðað/hrært saman, búnar til litlar bollur, velt upp úr hveiti og steiktar í olíu. Settar til hliðar. SÓSAN: Eins og áður, búið til góða tómatsósu, ég nota alltaf “tomate frito” sem ég hef oft minnst á. Sósan þarf að vera góð án þess að hafa utanaðkomandi bragð, þ.e. engin framandi krydd. Salt, pipar, paprika. Skerið gulrætur (fjöldi eftir smekk) í þunnar sneiðar og blandið í sósuna ásamt 2-3 lárviðarlaufum, bætið bollunum í og sjóðið við vægan hita ca. hálftíma, bætið þá grænum baunum út í og hitið áfram um hríð. ALLS ekki ORA baunir, eins góðar og þær eru þá ganga þær ekki þarna, kaupið litlar niðursoðnar baunir frá útlöndum. Þessar bollur er hægt að bera fram einar sér, með kartöflumús, pasta eða hrísgrjónum.

Njótið vel.

Fært undir Matur. Engin ummæli »

Hvernig kaffi er ég?

Árið 1992 var ég 8 vikur á Malaga á Spáni m.a. við spænskunám. Þar kynntist ég mörgu eftirmynnilegu fólki víðsvegar úr Evrópu. Lengi hafði ég samband við nokkra en því er nú lokið eins og gengur í lífinu. Fólk kemur og fer. Þar hitti ég og vingaðist við fyrstu manneskjuna sem ég hafði séð og var haldin alvarlegri anorexiu. Ung falleg stúlka frá Sviss, ég hef oft hugsað til hennar síðan, skyldi hún vera lifandi hugsa ég alltaf því ástand hennar var slíkt.

Dag einn rak á fjörur mínar þekktur Íslendingur sem líka vildi læra spænsku. Með okkur tókst mikil vinátta, hann varð svona mín besta vinkona, mikill snillingur. Eftir að við komum aftur heim héldum við vináttu okkar, bjuggum mjög nálægt hvort öðru í Þingholtunum. Hann varð heimilisvinur. Svo þurfti hann að flytja út á land vegna vinnu sinnar, ekki löngu seinna flutti ég úr landi. Ég gat fylgst með honum í dagblöðum frá Íslandi en hann hafði litlar fréttir af mér. Eftir að bloggið kom varð heimurinn aftur minni, að ég tali nú ekki um e-mailið. Þessi “gamli” góði vinur minn bloggar frábærlega og ekki fyrir löngu var hægt að taka próf á blogginu hans (er enn hægt) Hvernig kaffi er ég? Ég auðvitað tók prófið og hér kemur niðurstaðan. 

Frappuccino!

Þú ert jákvæður og nýjungagjarn einstaklingur sem hikar ekki við að gera óvenjulega hluti og klæðast litskrúðugum fötum. Þú ert týpan sem hleypur á eftir strætó langar leiðir með hrópum og köllum ætli hann að fara án þín.

Þú ert ískalt kaffi með mjólk, sykri og ísmolum, borið fram í háu glasi með röri.

Þá höfum við það. Þessi gamli vinur minn er eins kaffi og kom mér ekki á óvart, við erum fædd í sömu vikunni en hann ári yngri, sem sagt bæði tvíburar sem aldrei hafa farið troðnar slóðir.

Annars er Valtýr frændi minn hér eins og ég hef áður sagt, býr við hliðina á mér. Dóttir hans Dúa Kristín 8 mánaða er hrifin af frænku sinni, en helst heillar hana gullið sem frænka ber og rauðu neglurnar. Hún ætlar að verða fín dama eins og ég þegar hún stækkar.;-) 

Fært undir . 2 ummæli »

Veisluhöld.

Sunnudagsmorgun og ég er þreytt eftir mikil veisluhöld. Búin að lesa mbl.is og er að hlusta á bænir Ellen Kristjánsdóttur með tebolanaum. Vinkona okkar sem býr á Englandi en á hér stórt og mikið hús hélt upp á 60 ára afmæli sitt um helgina. Byrjaði á  fösudagskvöld með mat á heimili þeirra, maturinn, kokkar og þjónar komu frá einum besta veitingastað Albir. Allt var mjög glæsilegt eins og vinkonu okkar er einni lagið. Lifandi tónlist og dansað á sundlaugabakkanum (engin datt í laugina). Gestirnir sem flogið höfðu til Spánar frá ýmsum löndum, voru auðvitað allir í sínu fínasta pússi. Við hjónin völdum hvítt og blátt, ég var í hvítum kjól með hvítt sjal með bláum blómum og hvítum skóm, Gabriel hvítum buxum og bláum silki pólóbol. Frábært kvöld. En það var ekki búið því í gærkvöldi var svo seinni veislan, þá buðu gestgjafarnir í mat á frægan veitingastað sem er aðeins utan við bæinn. Við sátum úti á garði og var búið að skreyta mjög fallega í tilefni dagsins. Borðaskipan var mjög fagleg, nafnakort við hvern disk og raðað eins og í konunglegum veislum, konur höfðu borðherra. Matseðlinn hreint frábær, dóttir þeirra hjóna hafði hannað hann og voru forsíða og baksíða með myndum af afmælisbarninu á ýmsum aldri. Þar var meir að segja úrklippa úr dagblaði frá 1947 þar sem tilkynnt var fæðing barnsins, en það er gjarnan gert á Englandi. Maturinn var mjög góður svo og félagsskapurinn. Enn höfðu konur (og karlar) vandað sig við klæðnað og snyrtingu. Ég var í brúðarkjólnum!!! Þið sem voruð við brúðkaup okkar vitið að hann var ekki blúndukjóll, heldur fölgulur úr léttum hör og mjög fallegur. Upphaflega var hann ekki keyptur sem brúðarkjóll, heldur var hann afmælisgjöf frá sonum mínum og þar sem ég hafði aldrei notað hann þegar bónorðið var borið upp, ákvað ég að geyma hann og nota sem brúðarkjól. Veðrið var eins og best gat verið bæði kvöldin, mátulega heitt og tunglbjart.

Eina sem skyggði á hjá mér var að missa af leiknum milli Íslands og Spánar, en Gummi minn hringdi í hálfleik til að segja mér stöðuna, hann var á leiknum. Verst að hafa ekki unnið, en ég las í mbl.is að íslenska liðið hafi staðið sig mjög vel.

Ég ætla að nota daginn í dag til að slappa af, Gabriel sem notar hvert tækifæri sem gefst til köfunar fór snemma í morgun að leita hafmeyja. Hann hefur farið tvisvar undanfarið í næturköfun sem hann segir vera mjög stórkostlega. Fiskarnir sofa eins og önnur dýr, allt lífið neðansjávar mjög ólíkt því sem er á daginn. Hann m.a. strauk kolkrabba sem hreyfði sig ekki við þessa árás.

Valtýr bróðursonur minn kom hingað í gærkvöldi með fjölskyldu sína og verður gaman að hitta þau. Litla daman Dúa Kristín örugglega breyst heilmikið síðan ég sá hana í mars s.l. eins og börn gera á fyrsta ári.

Jæja, ég er farin í rúmmið með bók.

Gleymdi einu!

Ég var búin að lofa Antoníu tengdadótttur minni að setja uppskrift á bloggið. Það eru Kúbönsk hrísgrjón sem hún vildi sjá. Ákaflega auðvelt og gott. Sjóða hrísgrjón, búa til tómatsósu, ég geri hana úr “tomate frito” sem eru steiktir tómatar áður en þeir eru maukaðir og settir á dósir eða í fernur. Í raun er sama hvernig tómatsósu þið búið til, en kryddið hana skemmtilega. Stundum set ég Mexikanskt krydd, stundum ítölsk og stundum eitthvað annað. Þegar hrísgrjónin eru soðin og sósan tilbúin eru hrísgrjón set í litla skál eða bolla og pressuð létt, hvolft síðan á disk og sósa sett yfir, á toppin kemur svo spælt egg.

Fært undir Matur. 1 ummæli »

Rigning og rafmagnsleysi.

Það ringdi svo rosalega hér í fyrrinótt að annað eins hefur ekki sést lengi. Allt fór á flot. Svo í gærmorgun þegar fólk mætti til vinnu í miðbænum var ekkert rafmagn. Það kom þó fljótlega en ekkert símasamband allan daginn. Ráðhúsið hálfóstarfhæft vegna þess að engin tölvutenging var virk, sama með bankana. Við bara hoppuðum aftur fyrir tölvuöldina. Espis hélt áfram sínu daglega puði nema auðvitað tölvulaus. Eva skrifstofustúlkan okkar uplifði sig eins og Palli var einn í heiminum, kvartaði og kveinaði allan daginn þó svo það væru miljón hlutir sem hún gat gert án tölvu. Gaui, Binni og Co. þurftu hins vegar að loka og fara heim. Tölvufyrurtæki getur jú ekki mikið gert ef ekkert er sambandið.

Ég fór með Birgittu vinkonu minni út að borða í gærkvöldi og svo fórum við á Benidorm Palace að sjá þessa líka stórkostlegu danssýningu sem þar er. Frábært kvöld.

Í dag ætla ég aðallega að vera löt, en hef nokkur verkefni sem þarf að vinna. 

Fært undir . Engin ummæli »